Föstudagur 30.3.2012 - 22:38 - FB ummæli ()

Þau og við hin

Það er stöðugt vaxandi umræða um að gjaldeyrishöftin fari ekki saman með inngöngu í Evrópusambandið. Þess vegna verði að afnema þau fyrir inngöngu. Nefnd manna situr núna og reynir að finna lausn á málinu. Önnur nefnd á einnig að huga að framtíðar gjalmiðilsmálum Íslendinga.

Þau sögðust vera á móti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en unnu svo með honum af slíkri alúð að þau eru í miklu uppáhaldi í höfuðstöðvum nýfrjálshyggjunnar.

Þar sem Ísland getur ekki tekið upp evru nema að ganga í ESB og getur ekki gengið í ESB nema að afnema gjaldeyrishötin er niðurstaðan augljóslega sú að gjaldeyrishöftin verða afnumin.

Þau sögðust ætla að reisa skjaldborg um heimili landsmanna en hafa matreitt skuldug heimili ofaní bankana.

Reynsla margra annarra þjóða af því að afnema gjaldeyrishöft er slæm. Innilokað fjármagn fer út jafnvel með miklum afföllum. Afleiðingin gæti orðið sú að allur gjaldeyrisvarasjóður Íslands yrði notaður og breyttist þannig í varanlega skuld íslenskra skattgreiðenda.

Þau lofuðu okkur nýrri stjórnarskrá en klúðruðu því að hætti nýliða í pólitík, áratuga reynsla í þingstörfum hefði átt að duga ef viljinn hefði verið til staðar.

Samfara útstreymi fjármagns myndi íslenska krónan hrynja. Í kjölfarið kæmu miklar hækkanir á öllum vörum og aukin verðbólga myndi hækka lánin okkar. Enn fleiri heimili yrðu gjaldþrota. Enn fleiri næðu ekki endum saman.

Þau lofuðu okkur algjörri uppstokkun í stjórn fiskiveiða þjóðinni til hagsbótar en hafa samið frumvarp sem geirneglir mannréttindarbrotin og afhendir auðlind þjóðarinnar fáum útvöldum til langs tíma.

Tillögur hagfræðinga eins og Lilju Mósesdóttur um sköttun á útstreymi fjármagns samfara losun gjaldeyrishafta eru ekki teknar til greina. Þær ráðstafanir gætu hægt verulega á útstreyminu og samfara skapað tekjur og þannig snúið við hinum illu áhrifum.

Þau leyfðu sölu á HS Orku. Þau reyndu ekki að koma í veg fyrir að Líbíumenn yrðu sprengdir í tætlur.

Að aflétta gjaldeyrishöftunum myndi gagnast vinum þeirra, þ.e. fjármagnseigendum sem þau hafa þjónað af samviskusemi síðan þau komu til valda. Þá væru Íslendingar endanlega komnir á hnén og gætu ekki annað en gengið í ESB. Þar með yrðum við yfirskuldsett þjóð eins og Grikkir og lytum ákvörðunum Brussel í fjármálum okkar. Þar með yrðum við að selja auðlindir okkar eins og Grikkir eru að gera núna.

 

Hvers vegna ættu þau ekki að lyfta gjaldeyrishöftunum með fyrrgreindum afleiðingum fyrir almenning ef mið er tekið af framgöngu þeirra hingað til. Þau hafa verið þjónar nýfrjálshyggjunnar hingað til og fara tæplega að breyta því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 29.3.2012 - 21:11 - FB ummæli ()

Skjaldborgin

Að einstaklingar geti nauðgað ungri konu og kveikt síðan í henni er venjulegu fólki óskiljanlegt. Þar hlýtur að að vera á ferðinni algjör afneitun á tilvistarrétti viðkomandi einstaklings.

Þegar fellibylurinn Helena gekk yfir New Orleanse og lagði allt í rúst voru einstaklingar á pari við Friedman að leggja drög að því að einkavæða alla skóla eftir hamfarirnar. Meðan fólk var að ausa vatni úr híbýlum sínum og bjarga sér og sínum þá var gamla skólakerfið þeirra einkavætt.

Íslenskt bankakerfi skuldsetti sig upp í rjáfur og fór á hausinn haustið 2008. Meðan landsmenn voru að ná áttum knúði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn íslensk stjórnvöld til að endurreisa íslenskt bankakerfi, einkabankakerfi með skatttekjum almennings. Kostnaðurinn varð um 1000 milljarðar.

Meðan Jóhanna Sigurðardóttir gat ekki afnumið verðtrygginguna reyndi hún það en núna þegar hún getur það ver hún verðtrygginguna.

Í skjóli þess að ný stjórnarskrá komist aldrei út úr þinginu hefur verið ákveðið að setja hana í þjóðaratkvæði. Hægt verður að kenna einhverjum um að hún komst aldrei til atkvæða en fjórflokkurinn mun sæll sitja og þakka sínu sæla fyrir að hafa komið í veg fyrir að þjóðin fengi að segja sitt.

Jóhanna og Steingrímur hafa sammælst um að ræna sjávarauðlindinni frá þjóðinni og afhenda hana fáum útvöldum. Þetta gera þau í skjóli svikinna kosningaloforða.

Í misbeitingu valds felst algjör afneitun á rétti eða tilvist þeirra sem eru minni máttar. Andmælaréttur er virtur að vettugi. Oft er bág aðstaða einhvers notuð til að ná sínu fram. Að beita valdi sínu gegn viðkomandi gegn vilja hans er nauðgun. Það sem gerir nauðgaranum kleift að framkvæma nauðgunina er algjör afneitun hans á tilvist fórnarlambsins sem einstaklings sem á rétt á einhverjum lágmarks mannréttindum. Nauðgarinn hefur því heilaþvegið sjálfan sig eða verið heilaþveginn af öðrum.

Núverandi stjórnvöldum hefur tekist að sannfæra sig um réttmæti þess að þúsundir einstaklinga hafi misst fyrirtæki sín og orðið gjaldþrota, misst bílana sína, heimilið, ævistarfið og jafnvel heilsuna og lífið. Þeim hefur tekist að sannfæra sig um að verðtryggingin sé óumflýgjanleg þrátt fyrir að hún gagnist mest lánadrottnum. Stjórnvöld hafa verið eins og hundur í bandi þegar kemur að hagsmunum bankanna og núna eru það bankahagsmunir sem fá stjórnvöld til þess að gefa sjávarauðlindana til kvótagreifanna. Ástæðan er sú að þeir verða að geta endurgreitt öll lánin til baka til bankanna.

Um er að ræða sífellda misbeitingu á valdi gagnvart þjóðinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.3.2012 - 21:14 - FB ummæli ()

Teningnum er kastað

Við getum lesið skýrslur hagfræðinga frá ýmsum löndum um það að þeir ríku verða alltaf ríkari og þeir fátæku fátækari. Mjög algengt er að auðsöfnunin gerist á löglegan hátt eftir að lögum viðkomandi ríkja hefur verið breytt til hagsbótar fyrir hina ríku. Margir þekkja til skattalækkana Bush forseta handa auðstéttinni í Ameríku. Auk þess þekkjum við til að þegar kreppan kom yfir Rússland á sínum tíma þá eignuðust vissir einstaklingar miklar auðlindir eins og olíu og urðu feikna ríkir.

Við á Íslandi búum svo vel að eiga einstakling sem skákar bæði Bush og Jeltsín svo um munar. Núverandi Sjávarúvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefur ákveðið að toppa þá karlana. Hann semur núna frumvarp þar sem hann afhendir kvótagreifunum sjávarauðlind þjóðarinnar næstu 20 árin. Hann er svo ólýðræðislegur að hann bindur hendur næstu 5 ríkisstjórna þannig að það er ekki fyrr en sjötta ríkisstjórn héðan í frá talið sem getur breytt stjórn fiskiveiða á Íslandi.

Með þessum verknaði bindur hann hendur þjóðarinnar til að ráðstafa sinni eigin auðlind. Hann færir auðlindina til þeirra ríkustu eins og Bush og Jeltsín gerðu. Hann svíkur kosningaloforð sín án þess að blikna. Það er því augljóst að Steingrímur hangir í samskonar spotta og þeir gerðu.

Íslensk pólitík inniheldur ekkert sem heitir vinstri eða hægri, bara hagsmunagæsla.

Þar að auki er megin hvatinn sá að toppa Dabba, mér tókst það sem hann aldrei þorði.

Davíð hafði þó vit á því að grafa stíðsöxina.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 21.3.2012 - 19:15 - FB ummæli ()

Hyggjuvit evrunnar

Þeir sem hönnuðu evruna komu því þannig fyrir að Seðlabanki Evrópu(SBE) má ekki lána þjóðríkjum peninga innan ESB (Article 123 of the Lisbon Treaty). Aftur á móti getur SBE lánað einkabönkum peninga. Bankarnir fá þessi lán á mjög lágum vöxtum, u.þ.b 1%.

Þjóðríki ESB verða því að fá lánað hjá einkabönkum. Þess vegna eru þjóðríkin háð ákvörðunum einkabankanna hvort þau fá lán eða ekki og á hvaða kjörum. Það hefur sýnt sig að vextir hafa hækkað verulega á lánum einkabanka til þjóðríkjanna. Grikkland(12%), Írland, Spánn, Portúgal og núna síðast Ítalía(7%) hafa lent í þessu. Bankarnir græða á mismuninum.

Þessi mikla vaxtahækkun á lánum til þjóðríkja veldur því að þau geta ekki fjármagnað sig. Þar með eru þau komin upp við vegg með gjalddaga. Í stað þess að fá lágvaxtalán hjá Seðlabanka Evrópu eins og einkabankarnir þá verða viðkomandi ríkisstjórnir að fá lán hjá einkabönkunum á mun hærri vöxtum.

Það er ljóst að þessi hönnun veitir einkabönkum mjög mikil völd. Sá sem ræður yfir veskinu þínu ræður í raun yfir þér. Þær ráðstafanir sem gerðar eru í dag í Evrópu bera þess merki að bankarnir hafi síðasta orðið. Evran hefur verið hönnuð af bönkunum og fyrir bankana en ekki til að auðvelda kjörnum fulltrúum í lýðræðisríkjum til að sinna hutverki sínu. Einkabankarnir hafa aldrei verið kjörnir til að stjórna en gera það samt.

Kjörnir fulltrúar almennings í skuldsettum löndum Evrópu verða að beygja sig undir kröfur bankanna um niðurskurð og skattahækkanir til að geta endurgreitt bönkunum hávaxtalánin. Þjóðríki sem fara ekki að vilja bankanna fá ekki lán. Eitt er víst að Seðlabanki Evrópu er ekki lánveitandi til þrautavara fyrir þjóðríki Evrópu heldur fyrir einkabanka.

Einkabankar stjórna buddum þjóðríkja í Evrópu. Þeir gera það með yfirráðum sínum á stofnunum ESB eins og Seðlabanka Evrópu og framkvæmdavaldi ESB.  Fjárlagagerð skuldsettra ríkja ESB er í höndum fyrrnefndra aðila og sjálfstæði þeirra sömuleiðis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.3.2012 - 21:36 - FB ummæli ()

Lýðræðið er vinna

Íslensk þjóðarsál er sennilega margbrotið fyrirbæri. Þrátt fyrir það tel ég að við fylgjum nokkurn veginn svipuðum ferlum og aðrir.

Til að mynda þá er almenn óánægja með ástandið á Íslandi sérstaklega hjá þeim sem voru og eru með skuldir. Mjög margir hafa orðið gjaldþrota, bæði einstaklingar eða fyrirtæki. Núverandi ríkisstjórn sem var kosin vegna loforða sem aldrei sáu dagsins ljós er ekki vinsæl. Margir vilja breytingu frá hefðbundinni fjórflokka pólitík á Íslandi. Að minnsta kosti eru margir sem gagnrýna núverandi valdhafa.

Á sunnudaginn 18. mars gefst almenningi kostur á því að máta sig við nýjan stjórnmálaflokk sem er fæddur en ekki meira en svo. Núna vantar skírnavotta og uppalendur. Króinn hefur gengið undir nafninu Breiðfylkingin sem er vinnuheiti. Hugmyndir að lögum og kjarnastefnu hefur hann búið til. Nú bíður hann upp á dans sá litli og þar kemur þú inn í myndina.

Aðstandendur Breiðfylkingarinnar hafa kappkostað að skapa lýðræðislegan flokk. Sú umgjörð krefst mikils umburðarlyndis, virðingar fyrir skoðunum annarra og þolinmæði því oft þarf að ræða málin lengi og vel þangað til menn átta sig á því að þeir eru og hafa alltaf verið sammála. Tekið hefur verið mikið mið af hugmyndum Öldunnar um hvernig lög flokka skulu vera svo þeir séu sem lýðræðislegastir. Þetta fyrirkomulag, þ.e. lýðræðið, er tafsamt, snúið og krefjandi en við teljum það þó þjóna fjöldanum best og til lengdar. Við teljum að þá séu meiri líkur á því að hefð skapist fyrir því að almenningur fylgi stefnunni frekar en einhverjum foringjum eða stjörnum augnabliksins.

Þess vegna viljum við bjóða öllum sem áhuga hafa á því að starfa í lýðræðslegum flokki að mæta á sunnudaginn 18. mars 2012  á Grand hótel í Reykjavík. Á þessum seinni stofnfundi verður tekin afstaða til margra hluta því það verður fyrst á þessum stofnfundi sem stefnan verður ákveðin. Þess vegna getur þú haft áhrif. Auk þess á eftir að taka afstöðu til margra álitamála sem mun verða tekist á um í málefnahópum.

Sem sagt, við sem stöndum að þessu höfum skaffað mest allt hráefnið en nú er komið að þér að matreiða sjálfan réttinn. Spurningin er því hvort íslenska þjóðarsálin aðhyllist klassískt eldhús þar sem allir leggja sitt á vogarskálina við eldamenskuna eða hvort hún er orðin háð hraðafgreiðslu á skyndibitamat búin til úr einhverju sem enginn veit hvað er. Ef þú mætir og tekur þátt þá veistu að minsta kosti hvert er innihaldið.

Lýðræðið er vinna, sorry, en þú ert hjartanlega velkomin og Ísland þarfnast þín.

Breidfylking_Heilsida_final

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 11.3.2012 - 00:14 - FB ummæli ()

Breið samstaða eða magafylli-why should I care

Þráin að hafa allt í föstum og öruggum skorðum er mikil. Flestir vilja og kjósa sér einfalt líf. Heimili, fjölskyldu og kannski börn. Nærumhverfið er viðmiðið og allt er gert til að rétlæta tilvist þess. Örugg vinna og heimili samfara unaðsstundum í faðmi fjölskyldu og vina, eða bara að horfa á bolta yfir ölglasi samfara umræðum um veðrið eða nýjustu slúðursögum fræga fólksins er allt sem þarf til að gera manneskju hamingjusama. Þessi tilvera og tilvist er ekki talin samningsatriði því þegar hún hrynur verður bylting. Til að vera nákvæmari þá verður bylting þegar viðkomandi aðilar geta ekki satt hungur sitt.

Þess vegna er um að gera að framkvæma ekki neitt sem getur ógnað þessari tilveru. Þess vegna er um að gera að kynna hugmyndir sem styrkja viðkomandi tilveru í sessi. Þráin yfir stöðugleika í eigin nærumhverfi er manninum svo rík að almenn skynsemi hefur ekki einu sinni áhrif þar.

Í Grikklandi eiga sér núna stað skelfilegir atburðir. Við segjum að Grikkir verði að taka sig saman í andlitinu og greiða sínar flatskjárskuldir. Þegar Björgólfur gamli sagði þetta á Íslandi um okkur Íslendinga þá var okkur misboðið. Kostnaðurinn við að endurreisa íslenska bankakerfið varð um 64% af einni þjóðarframleiðslu okkar og sá kostnaður leggst á íslenska skattgreiðendur. Ég þarf ekki að minna á það að bankarnir voru allir einkabankar og komu Íslendingum ekkert við í góðærinu því þá fengu bara útvaldir bónusana en ekki við.

Það sama er að gerast í Grikklandi nema þar er gengið mun harðar fram. Það er sagt að lánadrottnar Grikkja taki mikið á sig en það er ekki svo. Nouriel Roubini, heimsfrægur hagfræðingur skrifar grein í Financial Times þar sem hann bendir á að í raun eru lánadrottnar Grikkja að koma vel frá sínu. Öðru máli gegnir um almenning í Grikklandi. Starfsbróðir minn í Grikklandi hefur ekki sömu sögu að segja. Stöðugt fleiri frásagnir af sjálfsbjargarviðleitni einstaklinga og hópa í Grikklandi bera þess merki að miklar hörmungar ganga núna yfir grísku þjóðina. Allar þessar hörmungar eru réttlættar með því að lánadrottnar verði að fá sitt. Við skulum ekki gleyma því að þeir fjárfestu sitt umfram fjármagn sem þeim var ekki nauðsyn og hitt að mest af skuldum gríska ríkissins í dag hefur aldrei komið grískum skattgreiðendum til góða.

Óréttlætið er svo himinhrópandi að öllum venjulegum mönnum ætti að vera misboðið og samfara því ætti krafa um réttlæti að fylgja í kjölfarið. Vegna reynslu íslensks almennings í hruninu okkar haustið 2008 þá ættum við að finna verulega til með Grikkjum. Við ættum að skilja ofurvald Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem neyddi okkur til að endurreisa þrjá íslenska einkabanka á okkar kostnað auk þess sem nýju bankarnir fengu veiðileyfi á skuldsettan íslenskan almenning með samþykki spilltra stjórnvalda. Ergó, eins og í Grikklandi.

Þrátt fyrir að samhengið ætti að vera augljóst og vitræn hugsun ætti að leiða til þess að menn fylktu liði til að berjast með evrópskum samborgurum sínum gegn kúgurum þeirra þá sitja menn heima. Til að vernda nærumhverfi sitt og öryggi litlu einingarinnar sem viðkomandi tilheyrir þá velur hann frekar að leiða þetta hjá sér og hlusta á fréttaskýringar bankavaldsins sem hefur tögl og haldir í helstu fjölmiðlum heimsins. Þeir tala stöðugt um lata Grikki eins og Bretar sem sögðu haustið 2008 að Íslendingar greiddu aldrei skuldir sínar þrátt fyrir að við höfðum alltaf staðið í skilum. Heimurinn trúði pressunni og taldi okkur vanskilamenn. Eins trúum við því að Grikkir séu latir og verðskuldi meðferðina sem þeir fá núna.

Andstaðan við að rugga okkar eigin bát til að hjálpa öðrum veldur því að við kjósum frekar að horfa á eftir öðrum manneskjum ofaní hafið en að eiga á hættu að litli báturinn okkar sökkvi. Að sjá ekki heildarmyndina kemur í veg fyrir samtsöðu alls almennings en slík samstaða myndi breyta tilverunni á þann veg að allir sætu í öruggum bátum.

Ef allir aðilar sjá heildarmyndina á Íslandi og sameinast sem einn maður gegn fjórflokknum, spilltri stjórnsýslu og bankavaldinu mun Ísland verða dæmi öðrum til eftirbreytni. Slíkir möguleikar skapa íslenskri alþýðu mikla ábyrgð og skyldur. Eftir sem áður mun sagan sennilega endurtaka sig hér sem annar staðar að meðan eitthvað fyllir magann verður ekki um slíka samstöðu að ræða.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 7.3.2012 - 23:09 - FB ummæli ()

Landsdómur og Svikamyllan

Ég hef gaman af mannkynssögu og tel okkur geta lært mikið af henni. Þrátt fyrir það hef ég ekki haft dug né áhuga til að eltast við frásagnir af Landsdómsmálinu. Ekki að þær séu ekki merkilegar né mikilvægar en einhvern veginn finnst mér þær ekki skipta öllu máli. Það má ekki misskilja mig þannig að ég sé á mótu réttarhöldunum heldur frekar mættu menn kafa dýpra í frásögn sinni af orðum vitnanna.

Þarna mætir rjóminn af íslenskri elítu og hefur það helst að segja; að það var ekki ég eða hvað svo sem ég hefði gert þá hefði ekkert breyst eða bara orðið ennþá verra.

Menn skammast yfir dugleysi viðkomandi einstaklinga sem sátu í mikilvægum embættum hins íslenska stjórnkerfis og stjórnsýslu. Það er þetta með manninn og boltann.

Einstaklingarnir voru í sjálfu sér ekki slæmir en þeir voru staddir í kerfi sem stjórnaði þeim. Kerfið var ekki að þjóna hagsmunum almennings sem var í andstöðu við hlutverk framkvæmdavaldsins. Það er „conflict of intrest“.

Það má kalla eða skilgreina kerfið sem kapítaliskt eða sem nýfrjálshyggju. Það eru reyndar skilgreiningar sem eru full mildar eða upphefjandi miðað við afleiðingarnar. Mun frekar er um að ræða glæpi, rán, mismunun, eigingirni, mannvonsku og kúgun. Þegar bankakerfi kemur sér þannig fyrir í þjóðfélaginu, að tilraun til þess að það sæti ábyrgð gjörða sinna hafi þær afleiðingar að allt þjóðfélagið fari á hausinn og þannig valdi því að kjörninr fulltrúar geta ekkert gert, þá er það ekkert annað en kúgun og svikamylla.

Þess vegna er þessi íslenska elíta í raun að segja okkur að þeir höfðu engin raunveruleg völd í þjóðfélaginu. Fjármálakerfið, eða bankarnir voru búnir að setja upp svikamyllu þannig að tap þeirra lenti á skattgreiðendum og nánast án tillits til hvað íslenskir ráðamenn gerðu . Eins og öllum má því  ljóst vera er að atburðarrásin var og er í höndum fjármálvaldsins. Ef bankakerfið hefði hagað sér af ábyrgð þá hefði aldrei komið til þátttöku skattgreiðenda. Það er nokkuð langsótt að setja dæmið upp þannig að bankarnir megi gera hvað sem er og ef stjórnvöld hafa ekki vit fyrir þeim þá skuli stjórnvöld sett í gapastokkinn.

Að kasta fúleggjum í valdalausa elítu er ekki vænlegt til framfara samfara því sem strengjabrúðumeistarnir frá bönkunum sleppa skaðlausir. Þetta er svipað og að sá sem stelur hangikjötslærinu sleppur en lögreglunni er refsað.

Ef Geir sleppur þá er það kvittun dómsvaldsins að framkvæmdavald Íslands er valdalaust gagnvart bankavaldinu. Ef svo er þá þarf að hafa a.m.k. eina grein um bankavaldið í Stjórnarskrá Íslands vegna þess að það er þá valdamesta valdið í íslenskri stjórnsýslu.

Hvað um það, yfirheyrslurnar eru sjálfsagt allra athygli verðar og munu fá sinn sess í sögubókum framtíðarinnar. Ef orsakatengslin eru ekki skilgreind mun lítil breyting verða til framtíðar. Sá þáttur sagnfræðinnar má ekki gleymast.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 4.3.2012 - 02:42 - FB ummæli ()

Evran; valdboð eða lýðræði

Evrópa brennur. Mótmæli eru vaxandi. Almenningi er ofboðið í Evrópu. Aþena brann um daginn. Fréttir berast eftir krókaleiðum að mótmæli á Spáni hafi endað með brunnum húsum og bílum. Netþræðir eru stútfullir af andstöðu, ályktunum gegn framkvæmdavaldi ESB og skipulagningu á frekari mótmælum gegn framkvæmdavaldi ESB. Núna er ekki rætt um einhver blómamótmæli heldur alvöru occupy.

Almenningur í Evrópu krefst í dag lýðræðislegs ESB þar sem almmeningur hefur völd en ekki bankar. „Brake free from the power of finance“ er slagorð víðsvegar um Evrópu. Almenningur í Evrópu krefst nýs Evrópusáttmála sem er byggður á lýðræði og að almenningur skrifi hann sjálfur-ný stjórnarskrá Íslands er þar fordæmi.

Boðskapur framkvæmdavalds ESB er; launalækkanir, skerðing á eftirlaunum, skerðing á réttindum launþega, skerðing á lýðræðsilegum réttindum almennings, afnám sjálfstjórnar sjálfstæðra ríkja, niðurskuðrur í heilbrigðis-mennta-félagsmála. Skattahækkanir sem koma verst niður á þeim sem minna mega sín en hlífa þeim betur settu.

Boðskapur framkvæmdavalds ESB er sniðinn að þörfum banka og þeirra sem eru best settir.

Boðskapur framkvæmdavalds ESB í dag er akkúrat það sem Jóhanna, Steingrímur og ASÍ hafa barist gegn alla tíð-nema í dag.

Að þeirra mati þá væri;

það skelfilegt að á Íslandi kæmist fólk til valda sem leiðrétti lánakjör lánþega með þeim afleiðingum að þúsundir heimila væru ekki undir hamrinum á degi hverjum. Að Íslendingar myndu afnema verðbólguna sjálfir. Að einhver önnur lausn sé á peningamálum Íslands en evran. Þetta allt er svo skelfilegt því þá er ekki hægt að reka Íslendinga inn í Evrópusambandið-eins og hverja aðra sauði í rétt.

Ef við myndum leysa okkar vandamál sjálf yrði alltaf fyrsta verkið að henda út óhæfu setuliði á Alþingi-stjórnsýslu og verkalýðshreyfingu. Síðan ef við myndum leysa okkar vandamál sjálf-verðbólguna, skuldir heimilanna, peningamálin- þá tækjum við svipuna úr hendi þeirra sem vilja okkur inn í ESB. Þar með myndi tilgangurinn að tilvist þeirra gufa upp.

Það er full þörf á því að íslensk alþýða setji smalahundana á sinn bás til að forða þjóðinni frá frekari iðraveiki.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 2.3.2012 - 23:23 - FB ummæli ()

Verðbólga; peningaprentun eða skuldasúpa

Flest allar tegundir af hagfræðingum telja verðbólgu orsakast af allt of mikið af peningum að eltast við allt of fáar vörur.

Þar sem allir peningar eru búnir til sem skuld þá eykst skuldin nákvæmlega jafn mikið og peningamagnið. Þess vegna erum við með tvær jafngildar stærðir, magn skuldar og magn peninga í umferð. Hvort er líklegra til að valda verðbólgu?

Veltum þessu aðeins fyrir okkur.

Við erum með annars vegar framleiðendur sem gera allt til að geta framleitt vörur án taps og hins vegar kaupendur sem vilja kaupa án þess að fara í mínus. Þarna á sér stað stöðug barátta. Þetta er krafturinn sem þrýstir upp vöruverði og launum. Kjarninn í þessu stríði er skortur á kaupmætti.

Þegar nánast allir peningar eru búnir til sem skuld og þegar sömu peningar eiga að vera miðill viðskipta og sömu peningar eiga einnig að vera notaðir til endurgreiða skuldir til bankanna, þegar allir upplifa stöðugan skort á peningum samfara því að allar hillur eru fullar af vörum, stenst þá þessi hugsun að of mikið sé af peningum að eltast við allt of fáar vörur, að það orsaki verðbólgu?

Þar sem peningar eru búnir til sem skuld hefur þá ekki aukið peningamagn í umferð í för með sér jafn mikla aukingu í skuldsetningu? Það getur því ekki verið skynsamlegt hjá góðum fræðimönnum að láta sem skuldin sé ekki til og einblína bara á peningamagnið, eða hvað?

Ef mið er tekið af vöruframboði þá er það mun meira en framboð af peningum til að kaupa allar þessar vörur og því hefði verðbólga átt að hverfa fyrir löngu.

Ef kaupmaðurinn vill eingöngu soga til sín alla umframpeninga með hækkun á vörurverði hvers vegna eru þá ekki bankabækur ríka mannsins líka tómar? Hvers vegna hækkar þá ekki verðið á lúxusvörum þangað til að bankabækur ríka mannsins eru tómar? Hvers vegna er verðbólga í bólum þegar nægjanlegt vöruframboð ætti að soga til sín alla umframpeninga? Hvers vegna er verðbólga í kreppum?

Er það ekki svo að þegar bólan kemur þá hafa þau fyrirtæki sem hafa lifað af kreppuna uppsafnaða skuld sem þarf að endurgreiða. Þá hækka allir vöruna sína til að geta endurgreitt skuldir sínar til að komast hjá gjaldþrotum. Í kjölfarið verður verðbólga vegna skulda fyrirtækjanna sem verða að standa í skilum.

Í kreppum er ekki allt fljótandi í umframpeningum en þrátt fyrir það er verðbólga. Þegar kreppan dregst á langinn verða fyrirtæki að hækka vöruverð, eftir aðhald, til að lifa af. Hér er það skuldin sem er í aðalhlutverki.

Í bólum eru meiri peningar í umferð en ekki endilaga hjá hverjum einstakling því það eru fleiri einstaklingar sem fá vinnu. Hver einstaklingur hefur því ekki svo mikið aukinn kaupmátt, heldur er aukinn fjöldi þeirra sem hefur einhvern kaupmátt sem eykur söluna.  Fleiri fyrirtæki hafa möguleika á því að taka lán. Einstaklingar taka stöðugt meiri neyslulán sem bendir til þverrandi kaupmáttar sem fólk bætir sér upp með lántökum. Skuldir einstaklinga og fyrirtækja minnka tekjur framtíðarinnar hjá viðkomandi og þess vegna verður kaup og vöruverð að hækka, vegna endurgreiðslu skulda. Þess vegna er það skuldin sem rekur áfram hækkanir sem við metum sem verðbólgu.

Framleiðandi getur samið við birgja og starfsmenn um að lækka kostnað sinn við framleiðsluna meðan illa árar. Ef allir kostnaðaliðir fyrirtækja og heimila lytu svipuðum kjörum væri hægt að lækka útgjöld nánast niður í núll. Aftur á móti að fara í bankann og reyna það sama er vonlaust. Þess vegna er skuldin flöskustúturinn í hagræðingarmöguleikum fyrirtækja og það sem gerir út af við þau. Þess vegna er það skuldin sem veldur nauðsyn þess að framleiðandi verður að hækka vöruverð. Sama á við heimilin. Allt er sveigjanlegt í rekstri nema skuldin við lánadrottna.

Peningakerfi þar sem peningar eru búnir til sem skuld endar í blindgötu. Peningar búnir til án skuldsetningar ykju kaupmátt, framleiðslu og gerðu allt hagkerfið mun sveigjanlegra til að mæta þörfum almennings frekar en lánadrottna.

Er ekki skuldin frekar meinið en magn peninga?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.2.2012 - 20:35 - FB ummæli ()

Peningaprentun og skuldir heimilanna

Algengast er að peningar séu búnir til af tveimur aðilum í þjóðfélaginu. Ríkið/Seðlabankinn býr til seðla og mynt sem við höfum í veskinu til daglegs brúks. Það er eingöngu um 1-5% af öllum peningum. Hinn hlutinn um 95-99% er búinn til af bönkum.

Framleiðsla seðla og myntar stjórnast af þörf þjóðfélagsins fyrir peninga í þessu formi. Seðlabankanum ber skylda til að sjá til þess að skortur á seðlum og mynt hamli ekki eðlilegum viðskiptum í þjóðfélaginu.

Bankar hafa einkaleyfi á því að búa til aðra peninga, þ.e. um 95% allra peninga í umferð. Það má kalla þá rafræna peninga. Til að banki geti búið til peninga verður einhver að taka þá að láni hjá bankanum. Banki getur ekki bara búið til peninga án þess að einhver taki þá að láni hjá bankanum. Þess vegna eru nánast allir peningar skuld einhvers. Ef við aukum peninga í umferð þá eykst skuldin.

Ef ríkið þarf peninga umfram skatttekjur þá þarf að gefa út ríkisskuldabréf. Ríkið skráir einhverja upphæð á bréfið, segjum 100 milljarða, og síðan „kaupir“ bankinn bréfið. Bréfið er bara loforð til bankans um að ríkið muni endurgreiða upphæðina til baka til bankans. Síðan er samið um hversu mörg ár ríkið fær til þess og hverjir vextirnir verða. Það er bankanum í sjálfsvald sett hvort hann kaupir ríkisskuldabréfið. Dæmi er um að ríki hafi átt í vandræðum með að fjármagna sig þegar bankar hafa verið tregir til að kaupa ríkisskuldabréf. Auk þess hafa bankar stundum hækkað vextina svo mikið að ríki hafa ekki haft efni á þetta háum vöxtum og þess vegna ekki getað fjármagnað sig.

Þegar bankinn er búinn að fá ríkiskuldarbréfið, sem er í raun bara skuldaviðurkenning ríkisins, þá framleiðir bankinn peningana og leggur þá inn á bankabók hins opinbera.

Þess vegna eru það bankarnir sem „prenta“ peninga. Þeir ráða magni eða skorti peninga í umferð. Þeir ákveða hversu mikil verðbólga er í samfélaginu. Starfsemi þeirra ákvarðar skynsemina í lánamálum, ef hún er ábyrg gengur allt vel. Reynsla liðinna 300 ára með endurteknum bólum og hrunum segir okkur að peningaframleiðsla bankakerfisins hefur verið mjög óábyrg.

Þegar haft er í huga að bankar búa til peninga úr engu, því ekki lækkar í neinni bankabók þó mikið sé lánað út, er augljóst að þetta fyrirkomulag er geggjað. Að bankar hafi einkaleyfi á peningamyndun og stjórni þar með magni þeirra í umferð á hverjum tíma gerir kjörna fulltrúa okkar algjörlega valdalausa og lýðræðið hreint klám.

Ef bankar búa til peninga úr engu getur ríkið gert það líka. Verðbólguáhrifin hafa ekkert með það að gera hver býr til peningana og þess vegna eru peningar búnir til af bönkum ekkert minna verðbólguhvetjandi en ríkisins. Þess vegna ætti ríkið að geta búið til peninga úr engu eins og bankarnir.

Þess vegna getur ríkið „prentað“ 200 milljarða og greitt inn á skuldir heimilanna. Þeir peningar yrðu búnir til án skuldar öfugt við bankapeninga. Það myndi valda auknum kaupmætti og því auknum viðskiptum og ef til vill verðbólgu. Það sem er mest um vert að skaðinn af gjaldþrotum allra þessara heimila hyrfi og yrði ómæld framleiðsluaukning fyrir samfélagið(aukinn hagvöxtur) sem ynni gegn verðbólgunni.

Þetta hefur verið gert áður, virkar og er flestum til góðs. Það skiptir ekki höfuðmáli hvernig við skilgreinum peninga því hægt er að rífast um það í þúsund ár. Þetta er bara siðferðileg spurning hvernig við ákveðum að nota peninga.

Sennilega getum við skilgreint borðhníf á mismunandi vegu en það er alltaf siðferðileg ákvörðun hvort við skerum matinn okkar með honum eða drepum mann með honum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur