Sunnudagur 20.3.2011 - 21:42 - FB ummæli ()

Bréf til ESB

Íslandi 18.03 2011

Mr Herman Van Rompuy

European Council
Rue de la Loi 175
B-1048 Brussels

Kæri  herra Van Rompuy

Haustið 2008 hrundi nánast allt íslenska bankakerfið (90%) á nokkrum dögum og þar með Landsbankinn og útibú hans í London og Amsterdam (Icesave-reikningarnir). Samkvæmt grundvallarreglu EES samningsins virðist jafnréttishugtakið um jafna stöðu allra á markaði vera undirstaða alls samstarfs innan Evrópusambandsins. Það kemur skýrt fram í 1. hluta samningsins um EES eins og hann birtist í íslenskum lögum nr. 2/1993 en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr:

„að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum“ (Áhersluletur er bréfritara) Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni.

Í ljósi þessa verður ekki betur séð en breskum og hollenskum stjórnvöldum hafi borið skylda til að sjá til þess að útibú Landsbanka, í London og Amsterdam, hefði fullgildar tryggingar innlána í Tryggingasjóðum innistæðueigenda í viðkomandi löndum. Annað hefði verið mismunun á markaði annars vegar í óhag fjármagnseigenda en hins vegar til hagsbóta fyrir Landsbankann.

Bretar og Hollendingar tóku Icesave einhliða úr eðlilegum farvegi réttarfars yfir í hið pólitíska umhverfi. Á þeim grundvelli krefja þeir íslenska skattgreiðendur af mikilli hörku um endurgreiðslu þeirra innlána sem tryggð áttu að vera í bresku og hollensku innistæðutryggingakerfi eins og EES reglurnar kveða skýrt á um.

Fyrstu viðbrögð íslenskra stjórnvalda voru að þau hefðu verið beitt ofríki og vildu því fara með málið fyrir dómstóla. Bretar og Hollendingar höfnuðu því en áður höfðu Bretar sett hryðjuverkalög á Ísland og Landsbankann. Bretar stöðvuðu í framhaldinu starfsemi Kaupþings-banka (Singer & Friedlander) í London og féll þá stærsta fjármálafyrirtæki Íslands.

Vegna harkalegra viðbragða Breta og Hollendinga lokaðist fyrir flæði fjármagns til og frá Íslandi. Með því voru ríkisfjármál Íslands tekin í gíslingu. Þess vegna urðu Íslendingar að samþykkja að semja um Icesave-skuldina til að fá aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Krafa AGS um þetta atriði kom fyrir samstilltan þrýsting Breta, Hollendinga og ESB-þjóðanna að gangast undir Icesave-kröfurnar.

Núverandi Icesave-samningar geta kostað okkur hálf fjárlög íslenska ríkisins. Ef neyðarlögin frá því í október 2008 verða dæmd ógild verða Icesave-kröfurnar tvöföld fjárlög ríkissjóðs. Íslenskur almenningur á erfitt með að sætta sig við að bera þessar byrðar vegna fjárglæfrastarfsemi einkabanka. Byrðar sem í raun tilheyra tryggingasjóðum Breta og Hollendinga samkvæmt grunnreglum EES um jafna samkeppnisstöðu útibúa Landsbankans í þessum löndum við aðra banka á sama markaðssvæði.

Íslenska þjóðin mun kjósa um nýjasta Icesave-samninginn þann 9. apríl næst komandi. Við höfnuðum þeim síðasta. Þess vegna finnst okkur undirrituðum áríðandi að fá svör við eftirfarandi spurningum fyrir þann tíma.

1.      Hvers virði eru þríhliða samningar (Icesave samningarnir) þar sem tveir aðilar samningsins hafna eðlilegri málsmeðferð og í krafti aðstöðu sinnar neyða þriðja aðilann að samningaborði til að fjalla um málefni sem allar líkur benda til að séu uppgjörsmál Landsbankans við innistæðutryggingakerfi Breta og Hollendinga?

2.      Hvers vegna var Íslendingum meinað að verja sig fyrir þar til bærum dómstólum um réttmæti krafna Breta og Hollendinga haustið 2008?

3.      Í ljósi þess að Landsbankinn varð að fara eftir breskum lögum hvers vegna var honum þá heimilað að taka við innlánum áður en bankinn var búinn að tryggja sig hjá breska innistæðutryggingasjóðnum?

3.1  Veitti það bankanum ekki óeðlilegt forskot á markaði að vera undanskilinn þeirri kröfu?

3.2  Var hagur breskra neytenda ekki fyrir borð borinn með því að leyfa Landsbankanum að    tryggja sig með minni kostnaði en aðrir á markaði?

3.3  Ætlar ESB að láta Breta og Hollendinga komast upp með að brjóta grunnreglur EES samningsins um jafna stöðu fyrirtækja á sama markaði ?

4        Samrýmist það stefnu ESB að þegar einkabanki verður gjaldþrota myndist krafa á skattfé almennings?

5        Er innistæðutryggingakerfi einhvers Evrópulands nógu öflugt til að standa undir falli 90% af bankakerfinu í landi sínu?

6        Hver verða viðbrögð ESB ef íslenskur almenningur hafnar nýjustu Icesave samningunum   þann 9. apríl n.k?

Virðingarfyllst og með ósk um góð svör

Ásta Hafberg, háskólanemi

Baldvin Björgvinsson, raffræðingur / framhaldsskólakennari

Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður

Elinborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður, núverandi nemi

Elías Pétursson, fv. framkvæmdarstjóri

Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi

Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Haraldur Baldursson, tæknifræðingur

Helga Garðasdóttir,  háskólanemi

Helga Þórðardóttir, kennari

Inga Björk Harðardóttir, kennari/myndlistakona

Karólína Einarsdóttir, líffræðingur og kennari

Kristbjörg Þórisdóttir, kandídatsnemi í sálfræði

Kristján Jóhann Matthíasson, fv sjómaður

Pétur Björgvin Þorsteinsson,  djákni í Glerárkirkju

Rakel Sigurgeirsdóttir,  framhaldsskólakennari

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur

Steinar Immanúel Sörensson, hugmyndafræðingur

Þorsteinn Valur Baldvinsson Hjelm, eftirlitsmaður

Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður Hreyfingarinnar

Svör og eða spurningar skal senda til

Gunnars Skúla Ármannssonar

Seiðakvísl 7

110 Reykjavík

Ísland

gunnarsa@landspitali.is

Afrit sent til ýmissa ráðamanna ESB og EFTA, viðkomandi ráðuneyta Bretlands, Hollands og Íslands auk evrópskra fjölmiðla.

Enska útgáfan:

LETTER TO ESB REGARDING ICESAVE 18 MARS 2011

Flokkar: ESB · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 18.3.2011 - 22:49 - FB ummæli ()

Lilja er sigld

Lilja Mósesdóttir kemur fram með tillögur sem snúast um að leysa aðsteðjandi vanda þjóðarinnar. Hugmynd hennar um að taka upp nýjan gjaldmiðil á Íslandi hefur valdið miklum viðbrögðum. Menn hafa sammælst um að gera lítið úr henni og rangtúlkað hugmyndir hennar. Atgangurinn hefur verið það mikill að augljóst er að hugmynd Lilju er mjög hættuleg og þar af leiðandi mjög góð.

Það sem gerir málið erfitt í umræðu er að grunnhugtökin eru ekki vel kunn í umræðunni. Fullt tilefni er að ræða um hvað peningar eru, hver býr til peninga og hver stjórnar magni peninga í umferð í þjóðfélaginu?

Gróft má skipta peningum í tvennt. Um 2-5% af peningum í umferð eru seðlar og mynt, þetta sem við handfjötlum og fáum út úr hraðbönkunum. Þá peninga má Seðlabanki Íslands eingöngu framleiða og stjórnar því magni þeirra peninga í umferð. Seðlabankinn miðar magnið við að viðskipti geti farið fram án vandkvæða og myndi því prenta meira ef á þyrfti að halda.

Hinn hluti peninganna eru svokallaðir bankapeningar, þ.e. um 95%. Það eru peningar sem eru til í bókhaldinu-rafrænir. Þessa peninga búa bankarnir til og bankarnir stjórna magni þeirra.

Bankarnir geta engöngu búið til peningana sína með því að skuldsetja viðskiptavini sína. Það er, til að banki búi til peninga verður einhver að taka lán. Þess vegna eykst peningamagn í umferð þegar bankar lána mikið og minnkar þegar bankar lána lítið. Þegar peningamagn minnkar eins og í dag þá eigum við í stökustu vandræðum með að stunda viðskipti. Ástæðan er ekki skortur á vilja, verkefnum, vinnuafli né hráefni heldur skortur á peningum. Þar sem bankarnir blésu út bankabóluna og sprengdu hana líka þá stjórna þeir magni peninga í umferð og örlögum okkar hinna líka. Við erum öll hérna með öll okkar tæki og tól en skortir bara peninga til að skiptast á verðmætum.

Þess vegna verðum við að skilja peninga, að þeir eru í raun verkfæri. Það að hæðast að skynsamlegri notkun verkfæra eins og menn reyna að gera við hugmyndum Lilju sýnir mikið ábyrgðarleysi. Almenningur á Íslandi í dag er farinn að sannfærast æ betur að allar hugmyndir sem koma almenningi til góða eru annaðhvort hlægilegar eða óframkvæmanlegar. Lilja er sigld kona og veit sínu viti en ef fram heldur sem horfir verðum við mörg hver sigld til annarra landa að meira eða minna leyti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 13.3.2011 - 20:17 - FB ummæli ()

Lilja og aðallinn

Lilja Mósesdóttir setur fram hugmynd í Silfri Egils í dag, hugmynd sem hefur valdið nokkru fjaðrafoki. Sagt er frá þessu á Eyjunni og einnig setur Lilja fréttina á Facebook síðu sína. Friðrik Jónsson Eyjubloggari kemur með skynsamlega umræðu um málið. Lang flestir aðrir telja að Lilja sé haldin óráði og rugli. Mjög margir gera lítið úr henni og greinilegt að sumum finnst hér kominn snöggur blettur á Lilju og því best að hamra á henni.

Því miður uppljóstrar umræðan um mjög snöggan blett á þeim sem gagnrýna Lilju því margir gera sér alls ekki grein fyrir því hvað peningar eru.

Annað sem er mjög eftirtektarvert er hversu menn eru ófúsir að kynna sér hugmyndir áður en þeir úttala sig um málið. Það læðist jafnvel að manni sá grunur, eftir lestur ýmissa athugsemda hjá Lilju, að það skelfilegasta sem gæti gerst ef að einhver hugmynd myndi bæta ástandið á Íslandi svo mikið að almenningur hefði ekki lengur áhuga á ESB.

Hugmynd Lilju mun hugsanlega hafa áhrif á stóreignamenn og skattsvikara. Það er mjög athyglisvert hvernig þeim hópum hefur tekist að kalla fram andstöðu umvafða í ESB pakkningu. Þeir sem fylgjast með þjáningum almennings í Evrópu í kreppunni er það líka fullljóst að ríka fólkið nýtur ESB mun meira en þeir fátæku. Hugmynd Lilju ógnar þessari stöðu, enda viðbrögðin eftir því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 11.3.2011 - 23:29 - FB ummæli ()

Catch 22

Almenningur er í vanda þegar kemur að því að ákveða sig hvort hann samþykkir eða hafnar Icesave 9. apríl n.k.. Skilaboð stjórnvalda eru að um viðráðanlega upphæð sé að ræða og það sé ekki áhættunnar virði að hafna samningum. Ástæður mínar fyrir að hafna Icesave eru eftirfarandi.

Ég samþykki ekki að greiða skuldir einkafyrirtækis með skattfé. Það á jafnmikið við um Icesave skuld Landsbankans sem og önnur einkafyrirtæki.

Ég samþykki ekki að Bretar og Hollendingar hafi komið í veg fyrir að við könnuðum lögmæti þess að vera krafin um að greiða Icesave.

Ég samþykki ekki að Bretar og Hollendingar hafi neytt íslensk stjórnvöld til að semja um Icesave.

Ég samþykki ekki að afkomendur okkar þurfi að greiða Icesave.

Ég tel að ef einhver samþykkir Icesave sé viðkomandi að sætta sig við fyrrnefnd atriði. Fyrrnefnd nýlenduveldi hafa barið okkur til hlýðni og af þeim sökum finnst mörgum vissara að þóknast þeim í þeirri von að barsmíðunum linni.

Það sem er sorglegast við Icesave er að niðurstða málsins skiptir ekki lengur neinu höfuðmáli um framtíð landsins. Það sem ákvarðar framtíð okkar er hvort hér verði einhver raunverulegur uppskurður á gamla Íslandi og meinin fjarlægð. Spillt sérhagsmunatengd valdastétt hugsar um eigin hag, klýfur þjóðina með ESB umsókn, og deilir bitlingum til sérhagsmunaaðila og fær fjármuni að launum. Það má leiða hagræn rök að því að kostnaðurinn við Icesave verði okkur þungur baggi og jafnvel setji landið á hausinn. Aftur á móti mun spillt valdastétt örugglega setja okkur á hausinn og því er afnám hennar mun mikilvægara en Icesave.

Því má segja að meðan þjóðin kýs bara um já eða nei við Icesave sé framhaldið svolítið catch 22.

Þess vegna má leiða sterk rök fyrir því að fyrir þá sem óska eftir raunverulegum breytingum á Íslandi, hinu nýja Íslandi, sé full þörf á öðru bankahruni. Í þetta sinn er nauðsynlegt að það verði nægjanlega öflugt þannig að sérhagsmunaaðilarnir lifi örugglega ekki af eins og haustið 2008.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 5.3.2011 - 19:54 - FB ummæli ()

Íslensk heimalöguð evra að hætti Lilju Mós

Í beinni útsendingu frá nefndarfundi Alþingis með Má Guðmunssyni Seðlabankastjóra stakk Lilja Mósesdóttir upp á því að smíða nýja krónu og kalla hana evru. Ég verða að segja að ég tek hattinn ofan fyrir Lilju fyrir það að hún þori að bölva í kirkjunni. Lilja gerir sér lítið fyrir og skellir inn í umræðuna grundvallarspurningu sem enginn tók í raun afstöðu til.

Hvað er króna? evra? eða þá hvað eru peningar? Þarf maður ekki að skilja það ef maður ætlar að ræða smíði nýrrar krónu eða velta fyrir sér hagfræði?

Peningar eru miðill. Við flytjum vinnustundirnar okkar út í búð með peningum. Ef við greiddum með vinnustundum yrði það flókið fyrir kaupmanninn að koma þeim í verð hjá byrgjum. Þess vegna flytja peningar verðmæti frá einum stað til annars. Við gætum svo sem notað hvað sem er fyrir peninga. Við gætum notað prik sem við skærum í ákveðinn fjölda af raufum. Prikin hefðu mismargar raufar eftir því hvað tímakaupið væri. Því gæti sá sem fengi margar raufar í kaup keypt meira en hinir. Ástæðan fyrir því að við notum krónur en ekki prik eru vegna þess að löggjafinn hefur ákveðið að nota krónur sem peninga. Það sem gerir krónur að peningum eru lögin. Það sem gefur krónum gildi sitt eru þau verðmæti sem þær flytja, túlka eða miðla. Í tilfelli Íslands er það sú landsframleiðsla sem við öll sköpum og þurfum að deila með okkur. Þess vegna eru „prikin“ sem við notum sem miðil í raun verðlaus, verðmætin felast í framleiðslunni.

Þess vegna getur löggjafinn búið til nýja krónu. Það hefur verið gert áður. Þjóðverjar gerðu þetta eftir fyrri heimstyrjöldina, 1923. Þá hafði Seðalbanki Þýskalands, sem þá var undir stjórn einakaðila, prentað svo mikið af þýskum mörkum að það var orðið einskis virði. Þá tók ríkisstjórnin til sinna mála og bjó til Rentenmark til nota innanlands. Það var bannað að skipta Rentenmarkinu til útlendinga og þar með var lokað á spákaupmennsku með gjaldmiðil Þýskalands. Í kjölfarið myndaðist smá saman traust.

Þess vegna er Lilja að storka hefðbundnum sérhagsmunum, til að mæta henni með rökum verða menn að skilja grunnhugtök í hagfræði, eins og hvað eru peningar, og auk þess að kunna þokkaleg skil á sögu hagfræðinnar. Þeir sem hrista hausinn í forundran yfir tillögum hennar hafa takmarkaða þekkingu á báðum þessum þáttum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 1.3.2011 - 16:54 - FB ummæli ()

Gylfi svarar opnu bréfi um lágmarksframfærslu

Gylfi Arnbjörnsson svarar bréfi okkar sem við birtum um daginn. Það er virðingavert af honum en núna bíðum við eftir svari Guðbjarts ráðherra við sama bréfi.

Reykjavík, 28.febrúar 2011

Ágætu viðtakendur.

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir bréfið og tek heilshugar undir mikilvægi þess að fram fari vönduð og góð umræða um stöðu þeirra hópa sem veikast standa í okkar samfélagi og með hvaða hætti við getum tryggt að allir landsmenn búi við mannsæmandi kjör og hafi tækifæri til virkrar samfélagþátttöku.

Umræðan um neysluviðmið og framfærsluþörf er flókin og vekur upp ýmsar áleitnar spurningar sem erfitt er að svara með algildum hætti, oftast er hér um að ræða huglægt og persónulegt mat manna sem seint verður óumdeilt. Skoðun mín hefur verið sú að rétt væri í þessu samhengi að horfa til alþjóðlegra mælikvarða og meta umfang vandans þannig að horft sé til þess hversu stór hluti þjóðarinnar hefur ráðstöfunartekjur sem eru lægri en gengur og gerist í því samfélagi sem um ræðir. Evrópusambandið skilgreinir þann hóp sem er undir s.k. lágtekjumörkum sem þau heimili sem hafa lægri ráðstöfunartekjur en sem nema 60% af miðgildi ráðstöfunartekna. Í þessu flest tilraun til þess að bæði meta umfang fátæktar í samfélagi út frá tekjum fremur en að meta þörf fólks fyrir ýmsa neyslu og einnig setja fram skilgreint markmið fyrir bæði stjórnvöld og aðila vinnumarkaðar að vinna eftir við ákvörðun lægstu launa og bóta.

Öllum má vera ljóst að þau heimili sem þurfa að framfleyta sér á bótum eða lágmarkslaunum búa mörg við kröpp kjör. Hér er fyrst og fremst um samfélagslegt viðfangsefni að ræða, sem snýst um það með hvaða hætti við skiptum þeim lífsgæðum sem þjóðin býr yfir. Vissulega hefur verkalýðshreyfingin veigamikið hlutverk í þeim efnum í gegnum aðkomu sína að gerð kjarasamninga en pólitísk sýn og aðgerðir stjórnvalda í efnahags- og félagsmálum ráða hér úrslitaáhrifum um hvernig til tekst. Verkalýðshreyfingin hefur í baráttu sinni lagt áherslu á að stjórnvöld nýti þá möguleika sem í skattkerfinu felast til þess að hafa áhrif á tekjuskiptingu í samfélaginu og tryggi með pólitískri stefnu sinni félagslegt jafnrétti á sem flestum sviðum s.s. í mennta- og heilbrigðismálum svo ekki sé talað um það sem snýr að velferð og uppvexti barna og ungmenna. Allt eru þetta þættir sem varða miklu möguleika fólks til virkni og velfarnaðar í nútíma samfélagi.

Á síðustu árum hefur góð samstaða verið um það innan verkalýðshreyfingarinnar að leggja megin áherslu á að bæta kjör þeirra hópa sem lakast standa, þetta hefur endurspeglast í áherslum í kjarasamningum og í kröfum gagnvart stjórnvöldum. Samið hefur verið um hækkanir á lægstu laun talsvert umfram almennar launahækkanir og kröfur gerðar á stjórnvöld í tengslum við kjarasamninga um hækkun á bótum almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga auk þess sem rík áhersla hefur verið á að auka tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins m.a. í gegnum hækkun persónuafsláttar og hækkanir á barna- og húsnæðisbótum.

Í nýlegum samanburði á stöðu lægstu launa innan Evrópusambandsins kom í ljóst að Ísland er enn í hópi þeirra ríkja sem hafa hæst lágmarkslaun. Fyrir hrun krónunnar árið 2008, í kjölfar alvarlegustu hagstjórnarmistaka sem sögur fara af, var raungildi lægstu launa enn hærra og vorum við hæst í Evrópu. Einnig kom fram í þessari könnun, að ef lægstu laun eru sett í hlutfall við meðallaun í viðkomandi löndum, var það hlutfallið hæst hér á landi. Þetta sýnir betur en nokkuð annað þann mikla árangur sem stefna verkalýðshreyfingarinnar um að hækka lægstu laun umfram almennar launahækkanir hefur skilað. Í yfirstandandi kjaraviðræðum er ljóst, að þrátt fyrir áherslu á að tryggja aukin kaupmátt með almennum launahækkunum, er uppi þessi sama áhersla á jöfnun kjara. Í síðasta kjarasamningi tókst okkur að tryggja óbreyttan kaupmátt lágtekjuhópanna þrátt fyrir mestu efnahagskreppu Íslandssögunnar. Nú getum við byggt ofan á þann grunn og aukið kaupmátt lágtekjuhópanna þannig að við endurheimtum stöðu okkar í fremstu röð.

Virðingarfyllst,

Gylfi Arnbjörnsson

Forseti Alþýðusambands Íslands

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 26.2.2011 - 21:46 - FB ummæli ()

Smá upprifjun

Þessi þingsályktunartillaga var samþykkt 5. desember 2008 og segir m.a. frá aðdraganda Icesave málsins.

Þskj. 219  —  177. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka
á Evrópska efnahagssvæðinu.
(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grund-
velli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.
Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Lagaleg afstaða.
Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 kom í ljós að umtalsverðar fjárhæðir voru á innlánsreikningum í útibúum íslenskra banka í Evrópu. Þessar fjárhæðir voru að stærstum
hluta til á innlánsreikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, svokölluðum Icesave- reikningum. Þar sem starfsemi bankans í viðkomandi löndum var rekin í formi útibúa en ekki dótturfélaga gilda lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, um þessa starfsemi en þau lög eru byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi.
Í samræmi við ákvæði 3. gr. laga nr. 98/1999 nær greiðsluskylda sjóðsins, og þar með talin ábyrgð hans á greiðslufalli, til útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu. Í
þessu efni er vísað til reglugerðar nr. 120.,/2000 um sama efni. Á þessari forsendu sneru stjórnvöld í viðkomandi ríkjum Evrópusambandsins sér að íslenskum stjórnvöldum í því skyni að kanna með hvaða hætti þau hygðust tryggja að sjóðurinn stæði við þær skuldbind- ingar sem í tilskipuninni felast.
Íslensk stjórnvöld voru ekki tilbúin til að fallast á að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda
og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn. Hafa þau haldið því skýrt til haga í öllum sínum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja að þau telji að vafi leiki á um ábyrgð ríkja á tryggingarsjóðnum, ekki síst undir kringumstæðum þar sem fjármálakerfi aðildarríkis hrynur nánast að fullu eins og reyndin er hér á landi. Þessari lagatúlkun hefur verið hafnað af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli svo og af Evrópusambandinu.
Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól. Þessu hafa aðildarríki Evrópusambandsins alfarið
hafnað. Afstaða þeirra byggist ekki síst á því að þau telja það mjög varhugavert að gefa með einhverjum hætti til kynna að vafi kunni að leika á um gildissvið þess innlánstryggingakerfis sem liggur til grundvallar innlánastarfsemi í Evrópu, þar sem ótvírætt gildi tilskipunarinnar
sé forsenda þess að innstæðueigendur treysti bönkum fyrir sparifé sínu. Réttaróvissa kynni að valda ófyrirséðum afleiðingum í evrópsku bankakerfi.

2. Pólitísk staða.
Við upphaf þeirrar deilu sem hér um ræðir sneri hún einvörðungu að Bretum og Hollend- ingum og voru því viðræður teknar upp við þau ríki sérstaklega. Á þeim tíma stóðu líkur þegar til þess að Ísland mundi þurfa að reiða sig á lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyris- sjóðnum sem og tvíhliða aðstoð erlendra ríkja til þess að koma efnahagslífinu á réttan kjöl á nýjan leik. Eftir að gengið hafði verið frá viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í samvinnu við sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var skipulega unnið að því í gegnum tengslanet utan- ríkisþjónustunnar að kynna málstað og málaleitan Íslands fyrir aðildarríkjum Alþjóðagjald- eyrissjóðsins. Varð framan af ekki vart neins annars en stuðnings. Það snerist hins vegar og verulegar tafir urðu á fyrirtöku viljayfirlýsingar Íslands í framkvæmdastjórn sjóðsins.
Þessi staða kom enn skýrar í ljós þegar Frakkland, sem formennskuríki í Evrópusam- bandinu, ákvað að beita sér fyrir viðræðum milli deiluaðila með pólitíska lausn að markmiði. Þá varð ljóst að ríki Evrópusambandsins töluðu einum rómi í málinu og lögðu kapp á að ábyrgð Íslands skýrðist sem allra fyrst. Sama átti við um starfshóp norrænu ríkjanna um lánafyrirgreiðslu við Ísland sem starfaði í framhaldi af fundi forsætisráðherra Norðurland- anna á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki. Þannig varð ljóst að lausn þessa máls væri forsenda
þess að hægt væri að fjármagna að fullu þá efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til afgreiðslu og að Ísland stæði einangrað ef pólitískri samn- ingaleið væri hafnað.

3. Niðurstaða íslenskra stjórnvalda.
Með allt framangreint í huga er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni. Gert er ráð fyrir því að þau ríki sem hlut eiga að máli muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni og það verði í formi lánveitinga við- komandi ríkja til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins. Þær viðræður sem fram undan eru munu skera úr um nánari útfærslu þessara lánveitinga, auk þess sem hin endanlega niðurstaða mun ráðast af því að hve miklu leyti andvirði eigna viðkomandi banka mun renna til sjóðsins við uppgjör á búum þeirra.
Endanlegar niðurstöður framangreindra samninga munu verða lagðar fyrir Alþingi og aflað viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.

Fylgiskjal.
UMSAMIN VIÐMIÐ
1. Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/ EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
2. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samn- ingaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Al- þjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna
sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 24.2.2011 - 05:59 - FB ummæli ()

Opið bréf til Guðbjarts og Gylfa

Reykjavík 23. febrúar 2011

Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.

Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.

Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (Sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.

Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (Sjá hér) á vef ráðuneytisins. Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.

Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu:

Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?

Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári.

Virðingarfyllst og með ósk um svör.

Ásta Hafberg

Björk Sigurgeirsdóttir

Gunnar Skúli Ármannsson

Elías Pétursson

Jón Lárusson

Kristbjörg Þórisdóttir

Ragnar Þór Ingólfsson

Rakel Sigurgeirsdóttir

Bréf með sömu fyrirspurn sent á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands.

Afrit sent á fjölmiðla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 19.2.2011 - 23:12 - FB ummæli ()

Hver er hugsjón Alþingismanna

Núverandi vinstri ríkisstjórn dælir peningum inn í fallna banka og sparisjóði eins og fyrri ríkisstjórn. Það er vitað að megnið af peningunum okkar hefur farið í að bæta upp tap þeirra sem áttu 5 milljónir eða meira á sínum bankabókum. Það eru svokallaðir stóreignamenn sem vinstri menn hafa háð harðvítuga baráttu við áratugum saman. Síðan vill núverandi vinstri ríkisstjórn ólm borga Icesave sem okkur ber engin skylda til að greiða. Það er mjög sérkennilegt að fyrsta hreina tæra vinstri ríkisstjórn Íslands leggur sig í framakróka við að lagfæra hrunið fjármálakerfi nýfrjálshyggjunnar. Fyrrnefndir vinstri menn hafa talið nýfrjálshyggjuna rót hins illa og forsenda misskiptingar og fátæktar í heiminum.

Ekki skrítið að hinir vinstri mennirnir séu svolítið áttaviltir. Hvers vegna er ekki ráðist að rótum meinsins?

Frjálshyggjumenn innan raða Sjálfstæðisflokksins sem telja það helgispjöll að ríkið púkki upp á einkafyrirtæki sem fara á hausinn eru líka ráðvilltir í dag. ESB andstæðingar innan Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, sem töldu sig óhulta þar, vita ekki í dag hvaðan á sig stendur veðrið.

Kjósendur töldu sig vera að kjósa stefnur, hugsjónir eða málefni.

Núverandi ríkisstjórn er ekki stjórn sem styðst við pólitíska stefnu því hún hefur svikið flest allar pólitískar stefnur sem þjóðin hefur tileinkað sér á liðnum áratugum. Ríkisstjórnin mokar peningum í banka, gefur bönkum og fjármálafyrirtækjum óheft veiðileyfi á skulduga einstaklinga og fyrirtæki þannig að ævistarf fólks eru rjúkandi rústir. Fyrir utan það að vera taglhnýtingur umboðsmanns alþjóðafjármagnsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, virðist eina stefna ríkisstjórnarinnar vera að koma okkur inn í Evrópusambandið sem eru umbúðir utan um ofurríka valdastétt Evrópu og hagsmuni þeirra.

Síðan eigum við að treysta á dómgreind þingmanna sem hafa kastað hugsjónum og kosningaloforðum sínum út í hafsauga. Aðdáendur þeirra eru fullir vandlætingar vegna efasemda okkar um ágæti einstaklinga sem virðast geta sagt eitt í dag og eitthvað allt annað á morgun.

Ástandið er svo grafalvarlegt að með núverandi stefnu er varla hægt að forða landinu frá gjaldþroti. Þegar Icesave hefur verið samþykkt erum við í frjálsu falli í gin lánadrottna okkar. Einurð núverandi valdhafa nálgast sturlun sem er ekki auðvelt að skýra nema með algjörri aftengingu við raunveruleikann. Því miður er sagan full af slíkum dæmum og einnig almenningi sem er haldið frá staðreyndum málsins. Því miður virðist sem Ísland þurfi að feta sig eftir sögu annarra þjóða í stað þess að læra af reynslu þeirra.

Úr því sem komið er þá verður bara svo að vera.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 17.2.2011 - 23:06 - FB ummæli ()

Þeir fiska sem róa.

Þetta er grein sem ég skrifaði í júní 2009 og birtist skömmu síðar í Morgunblaðinu. Það voru sárafáir sem skildu hvað ég var að tala um. Ég endurbirti hana núna og tel að fleiri skilji í dag hvað ég er að ræða um, því miður.

Veiðiskapur er sport, beitan er valin af innsæi, fiskurinn þreyttur og síðan dreginn að landi. Þar fær hann síðan náðarhöggið.

Við vorum skuldlaus þjóð og því nokkuð sjálfstæð. Í dag erum við skuldug og ósjálfstæð þjóð. Við bitum á agnið, afbrot okkar var að láta glepjast en núna situr öngullinn fastur og það er sárt. Það er verið að þreyta okkur núna. Stýrivextirnir lækka ekki neitt að ráði. Afleiðingin er að fleiri fyrirtæki komast í þrot. Atvinnulausum fjölgar. Þar með er kominn ásættanlegur grundvöllur fyrir launalækkunum. Af þeim sökum minnka tekjur ríkisins verulega, bæði beinir og óbeinir skattar minnka. Þar með er einnig kominn grundvöllur fyrir launalækkun opinberra starfsmanna og síðan verulegur niðurskurður hjá hinu opinbera. Til að tryggja þetta ástand til frambúðar munum við samþykkja IceSave samninginn í sumar.

Við verðum að framleiða eins mikið af vörum sem gefa gjaldeyri og við getum. Ál og fisk. Það viljum við gera til að standa í skilum. Það vilja líka þeir að við gerum sem voru svo góðhjartaðir að lána okkur til að bjarga okkur frá vandræðunum, sem öngullinn veldur okkur. Því vinnur veiðimaðurinn ötull að því að hámarka afrakstur veiði sinnar. Fljótlega mun þjóðin framleiða eins mikið og hún getur. Þjóðinni mun vera greitt eins lágt kaup og framast er unnt til að halda framleiðslukostnaðinum niðri. Það mun hámarka afraksturinn úr verksmiðjunni Íslandi. Það mun gera okkur kleift að greiða niður lánin og taka ný. Í stað þess að hagnaður okkar, vegna vinnu okkar, fari í okkar vasa mun hann streyma óhindrað í vasa lánadrottna okkar.

Nú er okkur bent á að með aukinni stóriðju muni okkur ganga betur að greiða skuldir okkar. OECD er búið að gefa línuna. Til stóriðju þarf lán. Lánveitendurnir skella okkur í ruslflokk lánshæfismatsins til að stilla af vaxtabyrði okkar, sér í hag. Síðan mun hver stóriðjan af annarri fylgja í kjölfarið og við höfum ekkert um málið að segja. Lánadrottnarnir stjórna og stýra, þannig er það hjá gjadþrota heimilum og eins er það hjá gjaldþrota þjóðum.

Eina spurningin sem út af stendur er hvort eða hvenær þeim þóknast að veita okkur náðarhöggið. Sennilega munu þeir ekki gera það. Mun arðvænlegra er að setja okkur í kvíar til hámarks nytja. Að velta því fyrir sér hvað Davíð, Solla eða Geir gerðu er tímasóun. Jafn glórulaust er að velta sér upp úr því hvað Jóhönnu dettur í hug. Önglar hafa þá náttúru að sitja fastir. Veiðimaðurinn á næsta leik.

Niðurstaðan er sú að íslensk þjóð er komin í kvíar lánadrottna sinna. Við munum strita og púla þangað til síðasta lánið er greitt og það mun taka okkur marga áratugi. Hver er sinnar gæfu smiður…..

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur