Fimmtudagur 30.12.2010 - 20:31 - FB ummæli ()

Flugeldurinn Jón Gnarr

Þessa dagana keppast ýmsir aðilar við að velja mann ársins. Á meðan þau mál skýrast finnst mér við hæfi að lýsa tilfinningum mínum gagnvart núverandi Borgarstjóra. Hann virkar á mig eins og flugeldur sem skaust upp á stjörnuhimininn og sprakk síðan með hvelli. Fram að þeim tímapunkti var hann stórkostleg sýning og fékk óskipta athygli. Eftir að prikið féll niður í Borgastjórastólinn erum við mörg að bíða eftir því að eitthvað nýtt og frábrugðið gerist.

Ég þekki reyndar eitt dæmi um ný vinnubrögð. Guðjón Arnar fyrrverandi formaður Frjálslyndaflokksins átti bókaðan viðtalstíma hjá Borgarstjóra s.l. haust. Þar átti að ræða hvernig borgin myndi standa í skilum með þá fjármuni sem ráðuneytið var búið að úrskurða að væru flokksins. Jón Gnarr mætti ekki og ekki fékkst nein skýring á fjarveru hans.

Ef stjórnunarstíll Jóns snýst um óvæntar uppákomur sem og fjarverur þá ber það vott um skort á kurteisi eða hreinlega að það sé svo gaman að stjórna, að hann njóti valdanna nú þegar.

Ég hef orðið var við mikil vonbrigði meðal margra sem kusu Jón á sínum tíma. Ég tel að flestir hafi verið að kjósa breytingar til batnaðar og umbætur. Að sitja uppi með kulnað sótugt prik er að vonum svekkelsi. Huggun Jóns er sú að stjórnmálaelítan á Alþingi er nákvæmlega jafn svekkjandi, nema bara fyrir þá staðreynd að Jón ætlaði að vera öðruvísi en þau.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 27.12.2010 - 05:49 - FB ummæli ()

Fossalögunum snúið á haus í boð Magma Energy

Jólagjöfin í ár, til okkar sem viljum að auðlindir Íslendinga séu í eigu þjóðarinnar, kom í formi fréttatilkynningar frá Magma Energy til fjölmiðla. Þar kom fram að Magma Energy í Kanada væri búið að greiða fyrir hlut sinn í HS Orku. Þar með á Magma Energy 98,53% í HS Orku. Af því leiðir að íslenskir aðilar eiga 1,47%.

Til að flækja málið þá er sænskt dótturfélag Magma í Kanada sem á HS Orku. Magma gat ekki keypt HS nema að vera innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þess vegna er sænska fyrirtækið svokallað skúffufyrirtæki. Því er klárlega um sýndargjörning að ræða til að komast fram hjá lögum og reglum á Íslandi. Illar tungur sögðu að þetta ráð hafi verið gefið innan íslensku stjórnsýslunnar.

Fjölmiðlar hafa þrástagast á því að „nefnd um orku- og auðlindamál“ hafi komist að þeirri niðurstöðu að kaup Magma Energy í Kanada séu lögleg. Það er rangt og er vísbending um að blaðamenn hafi ekki lesið niðurstöðu nefndarinnar.

Við lestur skýrslu nefndarinnar er augljóst að hún telur gjörninginn ekki samræmast meginmarkmiðum íslenskra laga um erlenda fjárfestingu á Íslandi. Hún átelur stjórnvöld fyrir að hafa ekki ígrundað niðurstöðu sína betur. Hún segir ekki berum orðum að um ranga túlkun á lögum sé að ræða. Aftur á móti er megin niðurstaða nefndarinnar sú að til þess að fá úr þessu skorið verði að skjóta málinu fyrir dómstóla og fá á þann hátt úrskurð um túlkun laganna. Þessa niðurstöðu nefndarinnar er ekki hægt að túlka á annan hátt en að lögmæti sölunnar sé verulega dregin í efa.

Hvernig fjölmiðlamenn komast að þeirrri niðurstöðu að „nefnd um orku- og auðlindamál“ telji söluna á HS Orku til Magma Energy í Kanada löglega er mér hulin ráðgáta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.12.2010 - 01:40 - FB ummæli ()

Hvernig jól viljum við hafa

Öll fjölskyldan sameinuð á aðfangadag við undirbúning á kvöldinu. Ris Á L´amande með falinni möndlu, möndlugjöfin. Óaðfinnanlegur kalkúnn að hætti húsbóndans. Pakkar, gleði og toppað með heimgerðum ís móðurinnar. Því miður ekki öllum gefið.

Baráttan fyrir bættum heimi verður sérstaklega ágeng á jólum. Jólin eru tengd ákveðnum friðarboðskap og kærleika. Auk þess er vitneskjan um neyð annarra ekki jafn auðmelt og kræsingarnar okkar þegar við minnumst þess að Guð gerðist maður og deildi kjörum með okkur. Mönnum er gjarnara að sitja að sínu en að deila.

Haítí búar lentu í miklum hörmungum á árinu auk Pakistana. Hörmungar þeirra komust í fréttirnar en það er bara brot af öllum sem eru í neyð. Við fréttum minnst af öllum þeim aragrúa sem eiga við sárt að binda. Til að mynda deyja 22.000 börn á dag úr hungri eða sjúkdómum sem auðvelt er að koma í veg fyrir. 80% mannkyns lifir á minna en 10 dollurum á dag. Hvernig jól skapar maður með 300 dollurum á mánuði. Þeir ríku, um 20% mannkyns, hafa 75% af tekjum jarðarinnar og deila því í mjög takmörkuðu magni með hinum.

Annað hvert barn í heiminum lifir í fátækt, kannski halda þau gleðileg jól, ef þau trúa þá á Krist eins og við hin sem höfum það svo gott. „Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þið og þeim gjöra“ sagði Jesús en það er að minnsta kosti ekki að virka í dag. Einhver önnur lög gilda í dag í heiminum um það hvernig maður kemur fram við meðbræður sína.

Megnið af öllum heiminum skuldar peninga í dag. Fátæku löndin skulda svo mikið og borga svo mikið í afborganir af lánum að þau geta ekki fætt né klætt börnin sín. Fjárstreymi úr landi fátæku landanna í formi afborgana af lánum er mun meira en innstreymi af neyðaraðstoð. Undanfarið hafa einnig ríku löndin verið að lenda í sömu skuldagildru. Lettland, Grikkland og Írland. Þar er núna skorið niður hjá almenningi til að greiða afborganir af skuldum. Fleiri rík lönd í Evrópu er væntanleg í hóp skuldugra þjóða. Skuldin er ein megin orsök þess að sárafá börn geta notið jólanna eins og börnin mín.

Trúarlega og siðferðilega er það fordæmt að manneskja svelti í hel fyrir skuldir, skuldir á peningum, og við erum sjálfsagt öll sammála þessu. Þrátt fyrir það segja stjórnmálamenn að við eigum að borga skuldir okkar og nánast án tillits til afleiðinganna. Þar með er verið að styrkja í sessi það viðhorf sem veldur fátækt og dauða um allan heim. Ef allir myndu horfa á skuldina í stærra og hnattrænna samhengi, vitandi að 22.000 börn deyja á dag vegna skulda, þá vaknar vonandi skilningur á því að véfengja réttmæti skuldarinnar.

Ef við ætlum að berjast fyrir betri heimi verðum við að byrja einhverstaðar. Auðveldast er að byrja heima við. Lánadrottnar um víða veröld innheimta sínar skuldir með vöxtum án tillits til þeirra hörmunga og barnadauða sem það hefur í för með sér. Flestir Íslendingar hafa enn nóg að bíta og brenna, þrótt og þrek til að skapa fordæmi. Ef við viljum í hjarta okkar og meinum það að öll börn jarðarinnar njóti sömu jóla og börnin okkar þá er fyrsta skrefið að stöðva banvæna sigurgöngu skuldarinnar, að brjóta ísinn, og segja nei. Okkar nei gæti skapðað fordæmi sem sigraði heiminn og hver veit, kannski munu þá fleiri börn fá að hafa jólin eins og þau sjálf vilja en ekki eins og innheimtumennirnir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.12.2010 - 00:47 - FB ummæli ()

Eru menntun og Alþingi andstæður

Núverandi ríkisstjórn ætlar sér að bjarga Íslandi hvað sem það kostar. Hún ætlar að bjarga Íslandi frá kreppunni sem nýfrjálshyggja Sjálfstæðisflokksins skapaði. Hún ætlar alveg sérstaklega að bjarga okkur frá arfleifð Davíðs Oddsonar og segja síðar, sjáið tindinn þarna fór ég forðum daga, og líkin eru öll Davíð að kenna. Það virðist vera staðföst ákvörðun þeirra í ríkisstjórninni að komast frá a til b, nokkurn veginn án tillits til hvernig þau fara að því.

Það má svo sem margt gott segja um ríkisstjórn okkar og að hún  hafi reynt sitt besta. Bæði finnst mér það ekki nóg og hitt að sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig og þessir reynsluboltar, Jóhanna og Steingrímur, mættu líta meira til sögunnar. Bankakreppur eru ekki nýjar af nálinni og hafa margendurtekið sig. Oftast hafa verið einhverjir Davíðar og síðan einhverjir Steingrímar. Hér er upptalning á helstu kreppum undanfarin ár. Ef þau myndu kynna sér söguna nánar þá rækjust þau sjálfsagt á eina eða aðra kennslubók í Hagfræði. Þar kæmi sjálfsagt fram að það gæti skipt máli hvernig maður fer frá a til b en ekki bara að fara frá a til b.

}   1637

}  1720

}  1772

}  1792

}  1796

}  1813

}  1819

}  1825

}  1837

}  1847

}  1857

}  1866

}  1873

}  1884

}  1890

}  1893

}  1896

}  1901

}  1907

}  1910

}  1929

}  1973

}  1980

}  1983

}  1987

}  1989

}  1990

}  1992

}  1994

}  1997

}  1998

}  2001

}  2007

Doing the same thing over and over again

expecting a different outcome

is insanity.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.12.2010 - 00:29 - FB ummæli ()

Hundar Pavlovs

Tilvera vinstri manna er erfið í dag. Hjá sumum á Íslandi að minnsta kosti. Vinstri menn sem styðja vinstri ríkisstjórn Íslands virðast skiptast í tvo ólíka hópa. Þeir sem styðja fjárlagafrumvarpið og eru fylgispakir við Steingrím og eru ósáttir við þremenningana sem höfnuðu fjárlagafrumvarpi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Síðan er það hinn hópurinn og eru þremenningarnir þar meðtaldir.

Þessi ágreiningur hefur verið auglýstur kirfilega undanfarna daga í fjölmiðlum. Þar sem hann snýst um grundvallaratriði er ekki skrýtið að maður sé að skrifa um þetta dag efti dag. Það sem er athyglisvert er að vinstri menn og verkalýðsfélög í mörgum löndum Evrópu eru þessa dagana að mótmæla niðurskurði og hugmyndum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins hvernig maður bjargar einkabönkum á kostnað almennings. Það sem er athyglisvert er að þremenningarnir virðast vera samstíga þessum öflum í Evrópu. Hvar maður á að staðsetja hina vinstri þingmennina og verkalýðshreyfinguna á Íslandi er vandséð.

Svona heilt yfir þá virðist þessi hópur plast-vinstri manna og krata bara sjá ESB sem lausn allra mála og það ræður viðbrögðum þeirra í einu og öllu. Skrítin þessi tilvera því vinstri menn eru að mótmæla aðferðum ESB/AGS í Evrópu. Hvað er vinsti maður eiginlega?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 21.12.2010 - 22:14 - FB ummæli ()

Kranablaðamennska eða sannleikurinn

Ég las pistil Láru Hönnu hér á Eyjublogginu „sannleikurinn og fjölmiðlanir“. Það er pistill sem enginn á að láta fram hjá sér fara. Í pistlinum hefur Lára Hanna sett inn myndina „The War You Don’t See“  eftir John Pilger. Þessa mynd verða allir að skoða. Í mjög stuttu máli segir hún frá því hvernig spunameistarar stórveldanna undirbúa jarðveginn áður en þeir fara í stríð eða taka upp á einhverju álíka gáfulegu. Í myndinni kemur skýrt fram að blaðamenn láta misnota sig og gera sig seka um gagnrýnislaus vinnubrögð. Það sem á íslensku er kölluð kranablaðamennska. Blaðamenn eru því í raun hluti af áróðursvél valdhafanna.

Síðustu daga hafa íslenskir spunameistarar sett upp farsa sem uppfyllir flest skilyrði þeirrar kranablaðamennsku sem lýst er í mynd John Pilger. Þrír þingmenn VG, þau Ásmundur, Atli og Lilja, tóku þá ákvörðun að greiða ekki atkvæði með fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þau birtu yfirlýsingu þar sem þau rökstuddu ákvörðun sína.

Öll umræða eftir það hefur snúist að mestu leyti um allt aðra hluti en rökstuðning þeirra fyrir hjásetu. Þremenningarnir hafa auglýst eftir málefnalegri umfjöllun, þau hafa kallað eftir því að þeim sé mætt með málefnalegri rökræðu. Gagnrýni þeirra á vinnubrögð foringjanna er ekki megin ástæðan fyrir því að þau sátu hjá. Þessir tveir þættir, hjásetan og gagnrýnin á foringjaræðið, hafa fengið mest rými í umræðunni þrátt fyrir að þessir tveir þættir séu ekki aðalatriðin. Í kjölfarið kemur svo umræða um að þau séu ekki í liði, svíki samherja, skaði liðsheildina og verði að gera upp hug sinn hvoru megin línu þau standa. Hér eru spunameistararnir á ferð og kranablaðamennskan fylgir í kjölfarið eins og þægur rakki.

Gagnrýni þremenninganna á fjárlagafrumvarpið snýst um grundvallaratrið. Hún snýst um hvers konar efnahagsstefnu íslensk stjórnvöld ætla að fylgja. Þremenningarnir eru ekki sáttir við að vinstri ríkisstjórn Íslands fylgi stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem er í ætt við nýfrjálshyggju. Þau vilja að ríkisstjórnin marki sér sjálfstæða stefnu sem helgast af þeim gildum sem vænta má af ríkisstjórn sem kennir sig við vinstri stjórnmál. Flóknara er það ekki.

Ef einhver blaðamaður gæti reynt að lesa í mismuninn á þessum tveimur stefnum og reyndi að leggja sjálfstætt mat á þær. Ef fjölmiðlar héldu síðan umræðunni innan málefnalegra marka og létu hanaslag stjórnmálanna ekki þekja forsíður fréttanna væri strax mikið unnið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 20.12.2010 - 21:49 - FB ummæli ()

Guð blessi Írland… og okkur hin líka

Ég hef verið að lesa Letter of intent(Loi) milli írsku ríkisstjórnarinnar og Evrópusambandins og Alþjóðagjadeyrissjóðsins.  Ég mun kannski síðar fjalla nánar um einstaka þætti í því en núna læt ég mér nægja að tjá heildarmyndina sem teiknast upp í huga mínum við þennan lestur.

Það sem er merkilegt er að alþjóðastofnanir eins og Evrópusambandið, Seðlabanki Evrópu,   Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn koma núna með miklum krafti inn í Írland til að taka til hendinni. Aðgerðir þeirra snúast fyrst og fremst um að bjarga bönkum eða fjármálakerfinu. Við lestur á Loi fyrir Írland er augljóst að bankakerfið er sett í gjörgæslu. Írsk stjórnvöld, þessi sem þjóðin kaus síðast, eru greinilega í aukahlutverki. Lýðræðiskjörin stjórn Írlands á að framkvæma það sem fyrir þau er sett af hálfu þessara stofnana. Ég velti því fyrir mér, hvar voru þessar stofnanir á meðan bankarnir steyptu sér í botnlausar skuldir sem settu allt á hliðina á Írlandi?

Þvingunarúrræðin sem alþjóðastofnanirnar setja á fjármál írska ríkisins eru mjög ströng. Þar eru margvíslegar reglur um eftirlit á notkun fjármagns hins opinbera ásamt nákvæmari áætlunargerð. Allt í þeim tilgangi að írska ríkið sé rekið eins og fyrirmyndarfyrirtæki og einnig til að írska ríkið geti fjármagnað tap bankakerfisins. Með tilliti til þess að það voru bankarnir sem fóru offari hefði ég haldið að þessi vinna hefði átt að beinast að bönkunum fyrir hrun.

Ef þú lesandi góður ert sammála því að allar skuldir skulu greiddar án tillits til afleiðinga og að bankakerfið njóti forgangs fram yfir almenning ert þú sennilega sammála aðgerðum alþjóðastofnana. Eftir því sem ég kynni mér meira hvernig galin bankakerfi eru endurreist á kostnað almennings í allt fleiri löndum Evrópu finnst mér sem ESB sé að sýna á sér nýtt andlit sem verkfæri lánadrottna í Evrópu. Stuðningsmenn ESB ættu því til framtíðar að vera ultra hægri menn og áhangendur nýfrjálshyggjunnar, þ.e. þeir sem græða á daginn og grilla á kvöldin. Það sem við ekki vissum var að það er almenningur sem er grillaður.

Eftir að hafa lesið Loi fyrir Írland og kynnt mér slík skjöl fyrir all nokkur önnur ríki, bæði í Evrópu og annar staðar, þá er að koma mynd á þann lyfseðil sem er kjarninn í öllum slíkum skjölum.

Grunnreglur lánadrottna/ESB/AGS/SBE

1.      Enginn banki má tapa krónu nema það sé algjörlega óumflýjanlegt.

2.      Ríkið tekur á sig skellinn að svo miklu leyti sem gerlegt er.

3.      Ef einhverjir bankar þurfa að fara á hausinn, þá skulu það vera litlu bankarnir en stóru hákarlanir skulu lifa.

4.      Til að ríkið geti tekið eins mikið á sig þá eru skattar hækkaðir á almenning með þeirri undantekningu þó að þeir betur settu sleppi við slíkt. Velferðarkerfi almennings skorið niður. Ríkisfyrirtæki einkavædd til að losa fé til að borga sukkið hjá bönkunum.

5.      Síðan tekur ríkið lán hjá stóru bönkunum, í gegnum ESB/AGS, eins mikið og það getur tekið á sig til að endurfjármagna bankana.

6.      ESB/AGS taka síðan við stjórn ríkisins í raun og segir ríkisstjórnum fyrir verkum til að hlutirnir gangi hraðar fyrir sig. ESB/AGS segir til um hvað lög eigi að semja, hverjum eigi að breyta o. sv .fr.. Rökræður á þingi viðkomandi þjóða um réttmæti fyrrnefndra aðgerða er allt of tímafrek aðferð að mati bankanna og gæti auk þess verið hafnað af kjörnum fulltrúum almennings.

7.      Að loknum þessum aðgerðum er bankakerfið endurreist á kosnað almennings. Kostnaður atvinnulífsins af eftirlaunum, barnabótum, atvinnuleysisbótum og launum er skorinn niður. Grunnþjónusta einkavædd og afgangurinn af launum almennings tekinn með hækkandi álögum á grunnþjónustu. Niðurstaðan er mjög samkeppnishæft vinnuafl sem verður að vinna mikið og alla æfi án neins sérstaks kostnaðar fyrir framleiðsluna. Góðu fréttirnar eru þær, að minnsta kosti býr almenningur við gott og endurnært bankakerfi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 19.12.2010 - 19:39 - FB ummæli ()

Búum við í einræðisríki

Núna er Alþingi Íslendinga komið í jólafrí. Á lokasprettinum samþykktu þingmenn fjárlagafrumvarpið. Þar er gert ráð fyrir bæði niðurskurði og skattahækkunum í boði bankanna.

Fjárlögin túlka ranga nálgun á því hvernig við eigum að leysa bankakreppuna og auk þess standast fjárlögin ekki skoðun. Sem dæmi þá gera lögin ráð fyrir nokkuð góðum hagvexti, um 3%, en spáin núna er tæplega prósent fyrir næsta ár. Nálgun fjárlaganna snýst um að bremsa hagvöxt með skattahækkunum og niðurskurði.  Þess vegna er mjög sennilegt að fjárlögin haldi ekki út árið og að leiðrétta þurfi mistökin á árinu 2012. Þessi atriði hefðu átt að vera fyrirsagnir, blaðamenn hefðu átt að setja hausinn í bleyti og ráðfæra sig við marga hagfræðinga. Í kjölfarið hefðu átt að vera fréttaskýringaþættir.

Þess í stað snýst umræðan mest um vanlíðan foringjanna þegar þremenningarnir í VG sátu hjá. Hvort slíkt hefði gerst áður á Alþingi eða ekki. Blaðamenn gátu ekki höndlað kjarnann eða hina málefnalegu umræðu. Blaðamönnum er vorkun, við Íslendingar erum ekki neinir dúxar í málefnalegri umræðu. Við spörkum frekar í sköflunga, öskrum og æpum, en látum boltann vera.

Hér á landi þarf margt að breytast ef vel á að fara. Við þurfum að læra málefnalega umræðu og reyna að hlusta eftir rökum annarra. Núna þá horfum við bara á viðkomandi og ef hann er ekki í liði með okkur þá er hann asni og allt sem hann segir er rangt. Einnig er lífsspursmál fyrir þjóðina að hún noti tíma sinn frekar til að kynna sér málefnin með sjálfstæðum hætti en að horfa bara á sápuþætti í sjónvarpinu. Sem borgarar í lýðræðisþjóðfélagi er það skylda okkar að kynna okkur málin og taka upplýsta ákvörðun.

Vel upplýstur almenningur mun styðja góð málefni og hafna slæmum. Þess vegna mun virkur almenningur bæta þjóðfélagið sem við lifum í.

Stundum velti ég því fyrir mér hvers vegna svona mörgum finnst nánast vonlaust að standa í baráttu fyrir breytingum, hvers vegna almenningi finnist ekki taka því að kynna sér málin á eigin spýtur. Látum við spunameistarana stjórna okkur eða er hugsanlegt að við upplifum okkur búa í einhverskonar einræðisríki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 17.12.2010 - 20:02 - FB ummæli ()

Umræðan um fátækt-til hvers

Það eru ólíkir heimar sem við hrærumst í eða tengjumst. Við mótumst af því umhverfi sem við lifum í. Ég þekki nokkra fátæka einstaklinga og öryrkja sem hafa það ekki gott og kjör þeirra hafa versnað í kjölfar bankakreppunnar. Ég deili ekki kjörum með þeim(ennþá) en dreg ekki í efa aðstæður þeirra. Ég hlustaði á viðtal við konu sem fékk næstum 400 þús. kr. á mánuði í bætur og sótti sér matargjafir hjá neyðarstofnunum. Viðbrögðin við þessari frétt voru mjög sterk. Viðbrögðin eru að hún hafi mun meira en flestir og þurfi því alls ekki matargjafir, einnig að bótaþegar hafi það nú ágætt og neyðarstofnanirnar séu meira að þessu fyrir sig en nokkurn annan.

Einhvern veginn fór það framhjá flestum að konan sagði frá skuldum sínum sem gerðu það að verkum að hún átti ekki fyrir mat.

Mjög vel heppnuð fréttaskýring-en fyrir hvern?

Að sjálfsögðu á að setja fréttir í samhengi og jöfnuður á að vera í fréttaflutningi. Afrakstur slíkra frétta er að neyðin sé ofmetin og styrkir þá í trúnni sem vilja trúa því að aðferðir núverandi ríkisstjórnar út úr kreppunni séu réttlætanlegar. Sá hluti þjóðarinnar sem er þessarar skoðunar á sjálfsagt rétt á slíkum fréttum.

Ef við reynum að setja kreppulyf ríkisstjórnarinnar í samhengi því kreppan og ráðstafanir við henni eru samhengi viðkomandi einstaklinga sem þurfa aðstoð. Í fyrsta lagi orsökuðu viðkomandi einstaklingar ekki kreppuna og þeir þjást vegna hennar. Auk þess greiða þeir kostnaðinn sem kreppan veldur. Í öðru lagi þá eru ráðstafanir ríkisstjórnarinnar ekki hennar heldur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og slíkum ráðstöfunum hefur verið beytt undanfarið í nokkrum löndum Evrópu. Auk þess er komin nokkurra áratuga reynsla á þessar aðferðir hjá fátækari löndum heimsins.

Afrakstur af slíkri rýni gæfi mjög sterkar vísbendingar um að kreppuráðstafanir AGS auka vandamál almennings en ekki banka sem eru orsök kreppunnar. Afleiðingarnar eru ekki eingöngu minna fé á milli handanna og þörf fyrir matargjafir heldur skert heilsa með aukinni hættu á ótímabærum dauða af völdum kreppuráðstafana. Ráðstafanir AGS hafa oft fjölgað fátækum og skert möguleika þeirra til að fá heilbrigðisþjónustu m.a. með aðkomugjöldum. Auk þess gæti frekari rýni sýnt að til eru aðrar aðferðir, en núverandi, út úr kreppunni, aðferðir sem heimsþekktir hagfræðingar mæla með og jafnvel nokkrir íslenskir þingmenn.

Hvort orsök kreppunnar, afleiðingar kreppunnar, AGS og stjórn hans á fjárlögum Íslands eigi eitthvert erindi í frétt um öryrkja sem á ekki fyrir mat sökum skulda við lánadrottna, lánadrottna sem skópu kreppuna frekar en öryrkinn, er alltaf mat fagaðila, þ.e. blaðamanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.12.2010 - 15:56 - FB ummæli ()

Evrópusambandið-fyrir hvern

Á Írlandi er í uppsiglingu mjög alvarlegt ástand. Stjórnvöld ákváðu árið 2008 að bjarga einkabönkum á Írlandi og töldu sig geta það. Í haust þegar gramsað hafði verið í haugnum kom í ljós að gjaldþrot bankanna voru mun verri en talið var. Til að standa við loforð sitt þurfa Írar að taka gríðalega stór lán. Lánveitendur eru Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið.

Án skulda einkabankanna væri ríkissjóður Íra í ágætis málum.

Hegðun írsku bankanna var ábyrgðarlaus fyrir hrun. Þeir höfðu fjármagnað sig með lánum frá stórum evrópskum bönkum. Öll þessi starfsemi með samþykki Seðlabanka Evrópu. Eftir hrun hafa stóru bankarnir ekki viljað lána írsku bönkunum og þeir lenda því í vanda sem núna er kominn á herðar hins almenna Íra. Aftur á móti þá fjármagna stóru bankarnir neyðarlánin sem ESB lánar síðan til írsku þjóðarinnar til að bjarga gjaldþrota írskum bönkum. Því virðast stóru þýsku og frönsku bankarnir ekki geta tapað þrátt fyrir ábyrgðarlausa lánastarfsemi fyrir hrun sem setti írsku bankana á hausinn.

Það eru ekki ný sannindi að bankar vilji græða sem mest. Það eru heldur ekki ný sannindi að AGS sé vanur að aðstoða banka við að þjóðnýta tapið. Hitt hefur ekki verið jafn ljóst að ESB sé sauðtryggur liðsmaður bankaelítunnar í Evrópu.

Sú áætlun sem AGS/ESB hafa sett Íra í er um margt merkileg.

Írum eru sett mjög ströng skilyrði sem hafa hingað til verið aðalsmerki AGS og verið mjög gagnrýnd. Nú bregður svo við að ESB er algjörlega sammála AGS í aðferðarfæðinni. Það stingur í stúf því AGS hefur verið kallaður handrukkari fjármagnsaflanna í heiminum en ESB hefur frekar verið tengt við lýðræði, jöfnuð, vinnuvernd, réttlæti, neytendavernd og mannréttindi. Nú sýnir það sig að elítan í ESB er líka í handrukkarabransanum.

Annað sem er merkilegt við áætlunina er að til þess að halda bara í horfinu þarf hagvöxtur Íra árið 2014 að vera um 8-10%. Það er náttúrulega ekki hægt. Þess utan eru skilyrðin sem AGS/ESB setja kreppudýpkandi s.s. niðurskurður og skattahækkanir. Þess vegna mun þessi spírall með minnkandi hagvexti og stöðugt vaxandi skuldum enda í gjaldþroti Írlands.

Stóru bankarnir, í Þýskalandi og Frakklandi, undir handleiðslu og eftirliti Seðlabanka Evrópu, eiga útistandandi um 1000 milljarða evra hjá jaðarlöndum ESB. Jaðarlöndin eru m.a. Írland og Grikkland. AGS/ESB er því mætt að svæðið til að bjarga stóru bönkunum því litlir bankar í gjaldþrota löndum gera engan stórbisness.

Þegar umgengni ESB gagnvart almenningi er á pari við umgegni AGS, þá veltir maður því fyrir sér fyrir hverja er Evrópusambandið eiginlega.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur