Laugardagur 17.10.2015 - 20:43 - FB ummæli ()

Mislingar eða réttlæti

Á fréttavef RÚV er frétt um mislingafaraldur í Kongó. Faraldurinn hefur geisað undanfarna mánuði og sýkt 30.000 manns og 428 hafa látist. Árið 2011 var líka mislingafaraldur í Kóngó sem sýkti 77.000 manns og meira en 1000 manns létust. Mislingar eru gríðalega smitandi og í 30% tilfella fá þeir sem lifa af alvarlegar aukaverkanir. Flestir sem látast eru börn innan við fimm ára aldur. Þetta rifjar það upp að samkvæmt Sameinuðu Þjóðunum þá deyja 21.000 börn á dag, þ.e. 875 á klukkustund. Þau eru 0 til 5 ára en hægt væri að bjarga langflestum þeirra með einföldum og ódýrum aðferðum.

Margir trúa því að hægt sé að skattleggja þá ríku þeim fátæku til hagsbótar. Það hefur ekki gengið eftir. Þess í stað verða þeir ríku alltaf ríkari. Það bendir til þess að löggjafarvaldið sé það valdalítið að hinir ríku komist alltaf undan skattheimtu. Þessi staðreynd um vanmátt löggjafarvaldsins ætti að fá fólk til að leita að hinu raunverulega valdi í þjóðfélaginu. Hver stjórnar?

Til að koma í veg fyrir mislingafaraldur er allt þekkt og til staðar. Bólusetning virkar eins og Vesturlönd eru dæmi um. Aftur á móti þá virkar það ekki í Kóngó því þar vantar peninga. Reyndar vantar líka peninga á Vesturlöndum. Það er margt sem við viljum gera sem myndi bæta ástandið hjá okkur en svarið sem við fáum alltaf er að það eru ekki til peningar fyrir þessu eða hinu.

Þess vegna er það augljóst að sá sem stjórnar magni peninga, stjórnar samfélaginu. Löggjafinn getur bara búið til lög til að taka peninga frá einum og færa þá til einhvers annars. Löggjafinn getur ekki búið til peninga. Það geta bankarnir og þeir hafa einkaleyfi á því. Þess vegna stjórna bankarnir magni peninga í umferð og þar með þjóðfélaginu. Þeir búa ekki til peninga fyrir bólusetningar í Kóngó. Þeir gera það fyrir spámennsku í rafrænum heimi verðbréfahallanna.

Að löggjafinn hafi ekki vald til að búa til peninga til að sinna þegnum sínum veldur því að langflest barnanna 21.000 sem deyja á hverjum degi, gera það að nauðsynjalausu.

Skoðun okkar á þvi hver ætti að hafa vald til að búa til peninga hefur ekkert með vinstri eða hægri pólitík að gera, bara réttlæti og almenna skynsemi.

congo minin kids

 

Hvers vegna eru þessi börn í þessari stöðu. Hvers vegna eru þau neydd til að vinna í námu djúpt í yðrum jarðar. Hvers vegna voru þau svift því að vera börn, hvers vegna fengu þau ekki hollan og góðan mat, gott uppeldi og sluppu við áþján og sjúkdóma. Hvers vegna fengu þau ekki tækifæri til að dreyma um framtíðina eins og unglingar gera og vinna að því að skapa sér framtíð við hæfi. Þau eru þrælar þess kerfis sem krefst hámarksgróða fyrir sem minnstan tilkostnað. Skuldir fyrirtækja og vextir eru stærsti kostnaðarliðurinn. Lán veitt af bönkum, peningar búnir til úr engu og með vöxtum. Löggjafinn gæti alveg eins búið til peninga úr engu í stað banka. Beint í gegnum Seðlabankann eða óbeint með samfélagsbönkum.  Munurinn er samfélagshugsjón eða einkagróði. Þetta hefur ekkert með vinstri eða hægri pólitík að gera bara réttlæti og skynsemi. Meðan við hömumst við að búa til vinstri,hægri eða sjóræninga pólitík til að selja kjósendum þá kljúfum við samstöðu almennings. Þessi pólitíska sundrung veitir bönkunum fullkomið næði til að sinna sínu. Auk þess eiga þeir alla mein-strím miðlana og þar með helstu álitsgjafana þannig að umræðan snýst um smjörklípur og önnur smáatriði. Þess vegna er hægt að fullyrða það að öll þessi umræða og deilur um mismunandi pólitík í þjóðfélaginu skapar þau skilyrði að við ræðum aldrei aðalatriðin. Það hver býr til peningana og stjórnar þannig þjóðfélaginu. Þess vegna eru þessi börn að vinna í þessari námu í Kóngó.

Pældu í þessu, er ekki ástæða til að breyta þessu?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 8.10.2015 - 23:10 - FB ummæli ()

Indefence og baráttan um Ísland

Indefence hópurinn hefur bent á það með sterkum rökum að sú aðferðarfræði sem fyrirhuguð er við afnám gjaldeyrishafta muni ekki uppfylla það skilyrði að verja lífskjör almennings. Allt bendir til þess að kröfuhafar munu geta flutt 500 milljarða úr landi og mun það valda gegnisfalli íslensku krónunnar og hækkun verðbólgu. Það mun skerða lífskjör almennings samtímis og kröfuhafar sem keyptu sitt á slikk koma út með gróða. Seðlabanki Íslands á að meta hvort aðferðafræðin standist skilyrði um stöðuleika og lífskjör almennings og á því að vera öryggisventill til að almenningur haldi sínu.

Í Basel í Sviss er Seðlabanki seðlabankanna. Bank for international settlements (BIS) heitir hann og er kallaður BIS. Hann hefur svipaða stöðu og sendiráð. Svissnesk yfirvöld geta ekki farið þar inn og hafa þar enga lögsögu. Starfmenn hans hafa stöðu diplómata og ferðast þannig, ónæmir fyrir afskiptum. Bankinn lýtur ekki stjórn neins þjóðkjörins valds.

Á átta vikna fresti hittast átján seðlabankastjórar stærstu landanna á sunnudagskvöldi í Basel. Þar eru málin rædd og ákvarðanir teknar. Enginn kaus þá til þessara verka. Þeir eru í raun bara ríkisstarfsmenn. Ekkert er skráð og ekki möguleiki að fá vitneskju um hvað fer fram á fundunum. Ákvarðanir þeirra stjórna í raun heiminum.

BIS sá um millifærslur milli þjóða og var meðal annars þekktur fyrir það að varðveita og koma í verð tanngulli Nazista í seinni heimstyrjöldinni. BIS mönnum fannst gagnrýnin eftir stríð ósanngjörn. Gull er bara gull. Bankamenn geta ekki verið að draga menn í dilka, viðskipti eru bara viðskipti. Atvinnumenn í viðskiptum geta ekki látið mannréttindi stjórna gerðum sínum. Í raun sönnun þess að kjörnir fulltrúar eru óhæfir til að sinna ríkisfjármálum að mati BIS manna.

Núverandi Seðlabankastjóri Íslands, Már Guðmundsson hefur mikla reynslu af störfum hjá seðalbönkum. Árin fimm áður en hann varð Seðlabankastjóri Íslands starfaði hann hjá BIS. Þess vegna sér hann sennilega viðskipti bara sem viðskipti og ekki á færum annarra en bankamanna.

Þetta vekur upp óþægilegar spurningar. Stærstu seðlabankar heimsins hafa einbeitt sér að því að bjarga gjaldþrota bönkum og fjárfestum á kostnað skattgreiðenda. Í ljósi þess er þá ekki harla ólíklegt að Seðlabanki Íslands sjái nokkuð athugavert við það að kröfuhafarnir komist með gull úr landi. Er þá ekki barátta Indefence glötuð. Þeir hafa engan skilning á raunverulegum viðskiptum því þeir eru ekki bankamenn.

Að mati Indefence er togstreitan á milli mannréttinda og viðskipta. Það virðist sem skilningur seðlabankanna á viðskiptum takmarkist við mannréttindi til handa fjárfestum. Ef skattgreiðendur eru ósáttir við mannréttindastefnu seðlabanka skilja þeir ekki viðskipti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 23.9.2015 - 20:02 - FB ummæli ()

Hvers vegna Samfélagsbanka

Hugmyndin að samfélagsbanka mætir töluverðri andstöðu. Það virðist búið að negla það inní hausinn á okkur að einkaaðilar eigi bara að fá að reka banka. Einkaaðilar eru réttkjörninr að gróða í samfélaginu. Þegar kemur að bankarekstri þá er hin hliðin á skildingnum sú að ef bankar fara í gjaldþrot bera skattgreiðendur tapið. Þess vegna má segja að núverandi bankarekstur sé samfélagslega rekinn, að minnsta kosti tapið.  Sú niðurstaða er mun algengari en við höldum:

Bankakreppur:   1637, 1720, 1772, 1792, 1796, 1813, 1819, 1825, 1837, 1847, 1857, 1866, 1873, 1884, 1890,1893, 1896, 1901, 1907, 1910, 1929, 1973, 1980, 1983, 1987, 1989, 1990, 1992, 1994, 1997, 1998, 2001,2007.  

Þetta eru helstu ártöl yfir bankakreppur og þó er mörgum minni bankakreppum sleppt. Í lang flestum tilfellum hafa skattgreiðendur tekið skellinn en ekki þeir sem orsökuðu kreppuna. Þetta er því afrekaskrá bankakerfisins og er svo hörmuleg að hvaða aðili sem er gæti staðið sig betur. Meira að segja var þýski seðlabankinn 1923 undir stjórn einkaaðila þegar óðaverðbólgan setti allt á annan endann þar. Það var ekki fyrr en hið opinbera tók í taumana sem skikk komst á hlutina(Hjalmar Schacht).

Sögulega séð er það galin hugmynd að einkaaðilar sinni bankarekstri. Reyndu bara tryggja bankabókina þína hjá tryggingafélagi-þú færð neitun.

Þar sem tapið er skattgreiðenda er alveg eins gott að við tökum að okkur allann reksturinn og fáum gróðann þegar hans nýtur við.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 19.9.2015 - 16:23 - FB ummæli ()

Bankar, völd og Samfélagsbanki

Egill Helgason skrifar gagnmerkan pistil með mikilvægum spurningum um bankavaldið. Hvers vegna ræður bankakerfið öllu og hvers vegna andmælir fólk þessu kerfi ekki meira. Bankakerfið sem olli hruninu og var endurreist með skattfé okkar en mjólkar okkur síðan miskunnarlaust. Hvenær kæmist blómabúð upp með slíkt.

Hinir svokölluðu valdhafar, Alþingi, hafast ekkert að. Nokkrir einstaklingar andmæla, Jóhannes Björn hefur árum saman bent á klikkunina. Frosti Sigurjónsson Alþingismaður hefur í seinni tíð líka bent á gallana í núverandi peningkerfi og haldið úti síðunni Betra peningakerfi. Bæði í bók og bloggi Jóhannesar og síðu Frosta, Betra peningakerfi, eru vandamálin greind og lausnir ræddar. Stjórnmálaflokkurinn Dögun hefur einnig tekið sama pól í hæðina gagnvart fjármálavaldinu og þeir og endurspeglast það í stefnuskrá Dögunar.

”Það mætti halda að stjórnmálakerfið sé í vasanum á bönkunum – allavega sá hluti sem er ekki í vasanum á útgerðinni.”

Spyr Egill. Og svarið er að allir eru í vasa bankakerfisins. Viljum við hafa það þannig? Viljum við ekki að Alþingi sem við kjósum stjórni en ekki bankarnir sem við kjósum ekki?

Til að taka upplýsta ákvörðun um slíkt þarf almenningur fræðslu. Þegar þeir sem gagnrýna bankakerfið eins og Jóhannes, Frosti og Dögun fá ekki athygli fjölmiðla er ekki hægt að reikna með því að almenningur veiti málflutningi þeirra athygli. Þegar margir blaðamenn nánast flokka þau sem ”sérlunda” og bíða bara eftir því að þeir hætti að röfla þá eru það svo sterk skilaboð til almennings að þau komast aldrei með sinn málflutning inní ”mein strím umræðu”.  Sú umræða er keypt og hönnuð af fjármálavaldinu og varðhundum þess.

Til að afnema einræði bankakerfisins þarf almenningur mikla fræðslu um eðli málsins. Þegar almenningur skilur hvernig kerfið virkar mun hann rísa upp gegn því. Forsendan fyrir fræðslu er að blaðamenn sinni hlutverki sínu sem fjórða valdið og taki þátt í að upplýsa almenning.

“It is well enough that people of the nation do not understand our banking and monetary system, for if they did, I believe there would be a revolution before tomorrow morning.”

Henry Ford

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.9.2015 - 21:52 - FB ummæli ()

Baráttan við valdið

Stjórnmál hafa á sér ýmsar hliðar. Það vex smátt og smátt hjá manni skilningur hvaða stefnumál eru eitruð og hver ekki. Hvar maður á að leggja sínar pólitísku áherslur til að ná árangri. Mikilvægt að vera meinstrím og ef maður virðir ekki það þá sýnir maður af sér pólitíkskan barnaskap. Í stefnumálum Dögunar til s.l. Alþingiskosninga kristallast þessi glópska.

Þar er fast að orði kveðið um fjármálavaldið sem er sterkasta valdið á Íslandi. Dögun ætlar að afnema verðtrygginguna og stofna samfélagsrekinn banka til höfuðs gróðabönkunum. Við ætlum að hjóla í lífeyrissjóðina sem gína yfir þjóðfélaginu sökum auðs okkar sem ”þeir” ráðstafa. Við ætlum að stokka upp lífeyrissjóðakerfið, sameina og einfalda. Húsnæðisstefnu sem byggist á samvinnu en ekki gróða.  Við viljum óskorað vald þjóðarinnar yfir auðlindunum og þær  séu alfarið í eigu hennar. Við viljum stokka upp fiskveiðikerfið þannig að núverandi hreðjataki fárra sé afnumið og arðurinn færist á reikning ríkissjóðs. Líkkistunaglinn er að við viljum nýja stjórnarskrá.

Í skoðanakönnunum hefur þjóðin lýst yfir stuðningi við flestar meginkröfur Dögunar. Ef kjósendur hefðu lesið stefnu Dögunar hefði leiðin átt að vera greið. Kjósendur lesa sjaldan stefnuskrár heldur fylgjast frekar með fjölmiðlum. Helstu fjölmiðlum heimsins er stjórnað af sex fyrirtækjum. Á Íslandi á útgerðin Moggann(og Sjálfstæðisflokkinn) og bankarnir eiga útgerðina( og xD). 365 ” Baugsmiðill.” Framsókn á restina. Útgerðin, bankarnir og Þórólfur eiga Framsókn. Að ætla sér að hjóla í þessa elítu með slíka stefnuskrá sem mun svifta valdastéttinni forréttindum sínum er að sjálfsögðu ekki farsælt. Reynsla Dögunar er í samræmi við það og árangurinn ekki góður.

Í raun er besta von Dögunar að kjósendur lesi stefnuskrár og ígrundi þær vel.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 3.9.2015 - 23:45 - FB ummæli ()

Að bregðast við

Maður hefur reynt að halda haus, hugsa skynsamlega og virða skoðanir annarra en þessi mynd rauf múrinn. Sjálfsagt tilfinningaklám en svo verður þá að vera. Maður hefur verið þeirrar skoðunar að Ísland taki við eins mörgum flóttamönnum og kostur er. Samtímis hefur maður reynt að leiða hjá sér þær raddir sem vilja taka við eins og fáum og kostur er.

Barnið sem drukknaði September 2015

Eftir að hafa séð ljósmyndirnar úr fjöruborðinu og síðan þessa mynd auk textans sem fylgdi með á Facebook síðu Europe says Oxy og Egill Helgason deildi svo að ég sá, þá fraus ég. Ekki skrítið því sem faðir sem farið hefur inn til sofandi barnanna sinna til að gæta að þeim þá tel ég það eðlileg viðbrögð foreldris. Að fá að fylgja börnunum og sjá þau vaxa úr grasi og verða fullorðnir er draumur allra foreldra og þess vegna stingur þessi mynd öll foreldri. Þeir sem eru ósáttir við slík viðbrögð kalla það tilfinningaklám.

“His name was Aylan. He was 3 years old. He drowned at sea with his parents and his 5 year old brother, Galip. They fled from violence, oppression and poverty and tried to reach Europe. They symbolise the desperation of thousands.
This is how he should have been lying tonight. Safe. Warm. Alive.
Our Europe didn’t let him. We need another Europe.”

Það er ekki bara Evrópa sem brást. Víst þurfum við aðra Evrópu en hún endurspeglar bara stjórnsemi valdstéttarinnar, hinna ríku, þeirra sem stjórna. Bandaríkin og Rússland eru þarna líka. Stórveldin standa að baki styrjaldanna sem hrekur fólk á flótta. Stórveldin eru að sækjast eftir völdum og auðlindum. Í Sýrlandi berjast Bandaríkin og Rússland með sýrlenskum börnum, ekki sínum eigin þegnum. Börnin þar eru limleist, brennd eða dáin. Fleiri falla síðan í valinn á leiðinni til okkar. Ástæðan er að við gerum þeim ekki kleift að koma til okkar eftir löglegum leiðum, vegna pennastriks á landakortinu. Það hefur komið í ljós á liðnum dögum að stór hluti almennings vill ekki hafa þetta svona.

Stórveldin eru flest lýðræðisríki og stjórnvöld þar sem framkvæma styrjaldarstefnu eru kosin af almenningi. Þess vegna er þetta á endanum á ábyrgð almennngs þar sem lýðræði er til staðar. Það dugar ekki að segja að lýðræðið virki ekki, yppta öxlum og halda áfram að horfa á fótbolta í sjónvarpinu. Það er okkar að láta lýðræðið virka og þá verðum við að leggja eitthvað á okkur. Það er sú fórn sem vegur salt við örlög Aylan á ströndinni.

Það var þess vegna sem ég fraus því ég veit hvað við getum breytt miklu ef við stöndum saman og látum ekki sundra okkur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 31.8.2015 - 21:40 - FB ummæli ()

”Við berum ábyrgð í samfélagi þjóðanna”

Flóttamannastraumurinn frá Sýrlandi er skelfilegur. Andstaða sumra Evrópuþjóða við að sinna fólkinu og skortur á raunverulegum aðgerðum af hálfu Evrópusambandsins er jafn skelfileg. Sínu verst er þó að til eru hópar manna sem ráðast í ræðu og riti eða með beinu ofbeldi á flóttamenn.

Þeir fáu sýrlensku flóttamenn sem ég hef hitt virðast vera frekar einsleitur hópur og því sennilega ekki marktækt úrtak. Þokkalega stætt millistéttarfólk sem lendir í styrjöld og allar eigur þeirra sprengdar í tætlur, atvinna og lífsviðurværi farið sömu leið. Ekkert í umhverfinu til að byggja eðlilegt líf á. Dauði eða limlestingar á næsta götuhorni. Það flýr til okkar, ekki vegna þess að lönd okkar séu betri en þeirra heimaland fyrir stríðið, nei við erum bara skásti kosturinn núna.

Gömul saga en ekki ný. Ofsóknir og styrjaldir hrekja fólk á flótta. Ef okkur tækist að stöðva styjraldarekstur myndi flóttamannavandamálið verða lítið og viðráðanlegt. Peningar stjórna þarna miklu því ekki er hægt að stunda stríðsrekstur ef maður hefur ekki aðgang að peningum.  Og maður fær peninga meðal annars í bönkum.

Fyrrum forseti Bandaríkjanna Woodrove Wilson vildi stöðva fyrri heimstyrjöldina. Árið 1916 reyndi hann að fá bandaríska banka til að stöðva allar lánveitingar til stríðandi aðila í Evrópu. Hann vissi sem var að stríðsrekstur þeirra var háður þessum lánum. Með þessu vonaðist hann að minnsta kosti til þess að þvinga menn að samningaborðinu. Því miður neituðu bankarnir beiðni hans. Gróðinn var of mikill og þeir fjármögnuðu fyrri hemstyrjöldina allt til enda með öllum þeim hörmungum sem því fylgdi.

Ef Wilson hefði getað stöðvað heimstyrjöldina með þessum hætti væri heimurinn sjálfsagt öðruvísi í dag. Því miður erum við á sama stað í dag og fjármunir streyma sem aldrei fyrr í styrjaldarekstur. Þessari uppsprettu verður að loka því engar stórstyrjaldir verða háðar með prikum eða grjótkasti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 30.8.2015 - 23:27 - FB ummæli ()

Fjórða valdið

Pólitísk umræða er oft yfirborðskennd, bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Þegar kvartað er yfir þessari yfirborðsmennsku þá er sagt að augljóslega sé eftirspurn eftir henni og því eigi hún rétt á sér. Vandamálið er að slík umræða kæfir nauðsynlega umræðu um það sem skiptir samborgarana mestu máli. Þess vegna verður framgangur mikilvægra mála lítill. Er það ásættanlegt?

Eitt dæmi eru skoðanakannanir í aðdragenda kosninga. Umræðan snýst mjög mikið um þær í staðinn fyrir hvað flokkarnir standa fyrir. Auk þess eru þær mjög skoðanamyndandi og viðhalda fjórflokknum við völd því litlu flokkarnir ná sér aldrei á strik hjá kjósendum. Jafnvel verða niðurstöður skoðanakannana grundvöllur þess við hverja fjölmiðlar ræða eða ekki. Þessu verður að breyta.

Eitt lærdómsríkasta dæmið hin síðari ár um fallvaltleika fjórða valdsins er þegar Jón Gnarr bauð sig fram. Hann stjórnaði umræðunni og þrátt fyrir að frambjóðendur annarra flokka vildu ræða ýmis þjóþrifamál, fátækt eða hvernig bregðast ætti við bankakreppunni var það Ísbjörninn og Jón sem umræðan snérist um, með fullu samþykki fjölmiðla. Jón var að spauga með hefðbundin stjórnmál og því stikkfrí frá allri gagnrýni. Gott og blessað, Jón er hinn besti spaugari en geta fjölmiðlar verið stikkfrí og bara lækað vinsælasta nettrúðinn? Er ekki hlutverk fjölmiðla mikilvægara og merkilegra en svo.

Niðurstaðan verður því sú að hafa alvöru stefnumörkun í lágmarki. Láta fjölmiðla hæpa sig upp eða auglýsingastofur eða öfugt. Verða þannig meinstrím, vinsæll og ná völdum. Það í skjóli auðs eða aðstöðu eða hvoru tveggja.

Að stjórna umræðuninni og halda henni er mikilvægt til að ná völdum. Til þess kaupa flokkarnir sér þjónustu fjölmiðlaráðgjafa. Björt Framtíð hefur haldið umræðunni gangandi undanfarið um ekki neitt nema persónur. Þar verða blaðamenn að veita mótvægi. Þeir ættu að draga fram þau atriði sem skipta almenning mestu máli og stuðla að því að umræðan snúist um þau. Núna um helgina gerðust þó merkilegir atburðir í íslenskum fjölmiðlum. Blaðamenn virðast hafa ákveðið að hafa niðurstöður skoðanakannana að engu og Landsfundur Pírata um helgina varð einhver millifyrirsögn í fréttum helgarinnar. Ekki það að ekki hafi verið minnst á þá heldur hitt að væntanlegur stærsti flokkur landsins fái ekki að vera fyrsta eða önnur frétt finnst mér vera lélegt. Allt of mikil þægli við valdhafa.

Fjórða valdið hefur í raun því hlutverki að gegna að segja sannleikann. Þetta hefur mjög sennilega í för með sér að sterkum öflum verður misboðið. Ef mark á að vera takandi á þeirri fullyrðingu að blaðamenn hafi eitthvað sérstakt hlutverk innan lýðræðisskipulags okkar verður svo að vera að þeir bjóði þeim öflum byrginn. Þeirra hlutverk er ekki að safna lækum, vera meinstrím eða að halda frið við valdhafana.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 8.8.2015 - 19:38 - FB ummæli ()

Dilkadráttur

”From the moment that this devastation was loosed upon Hiroshima the people who survived have hated the white man. It is a hate the intensity of which is almost as frightening as the bomb itself”.

Wilfred Burchett’s stríðsfréttamaður  úr seinni heimsstyrjaldarinnar er fyrsti vestræni fréttamaðurinn sem kemur til Hiroshima eftir kjarnorkusprengjuna og verður frægur fyrir grein um upplifun sína(The Atomic Plague 1945). Hann upplifir ákveðin þáttaskil í stærð en lýsir í raun hluta af langri sögu.

Það var engin hernaðarleg þörf á því að nota kjarnorkusprengjur á Japani því þeir voru að niðurlotum komnir og reiðubúnir að gefast upp. Ástæðan var pólitísk og sennilega til að sýna Rússum hvað Bandaríkjamenn væru með mikla hernaðarlega yfirburði yfir þá. Menn voru byrjaðir að skipuleggja kalda stríðið og þess vegna var íbúum Hirosima og Nagasagi fórnað.

Nýlendustefna og valdabrölt hefur einkennt stjórnmál mjög lengi. Þar hefur almenningi verið fórnað ótal sinnum eins og í Hirosima. Fjárhagslegir og pólitískir hagsmunir hafa ráðið för í reykfylltum herbergjum og fjöldi fólks látist eða þjáðst í kjölfarið til að fullnægja valdafíkn.

Þar með hefur skapast hatur sem verður hvati til frekari átaka.

Það er eins og mannskepnan eigi mjög erfitt með að læra af reynslunni. Henni er hægt að smala í ólíka hópa og báðir aðilar trúa því að þeir séu heilagir og hafi aldrei gert nokkrum manni skráveifu en hinn hópurinn sé alslæmur og eigi ekkert gott skilið.

Þannig hefur verið reynt að sannfæra okkur um það að nauðsynlegt hafi verið að myrða nokkur hundruð þúsund Japani með kjarnorkusprengju til að auðvelda framgang seinni Heimstyrjaldarinnar. Það er að japanskur almenningur, konur og börn, hafi verið réttdræp til að þjóna pólitískum hagsmunum stórvelda.

Í dag er allt við það sama því á litla Íslandi hafa menn ákveðið að núna séu Rússar réttdræpir eins og Japanir forðum og með sama sannfæringakraftinum og þá. Við eigum ekki sjálfir kjarnorkusprengur en setjum á Rússa viðskiptabann, aðallega til að vera með í rétta liðinu. Mjög vanhugsuð aðgerð þar sem Ísland vill vera hlutlaust og sú ákvörðun ætti að gegnsýra utanríkispólitík okkar.

Dilkadráttur hefur verið áberandi á Íslandi að undanförnu í umræðunni um viðskiptabann á Rússa. Annað hvort ertu með eða á móti. Röksemdir sem nýttar eru til að kæfa almenna skynsemi. Að ætlast til þess að ég trúi því að Rússar séu alvondir og NATÓ algott er of mikið en verst er að þó að vera bendlaður við það að fylgja frekar öðrum skíthælnum en hinum í ljósi sögunnar.

Hatrið og réttlætingin, hvatinn til átaka, hann verður að stöðva. Skynsemin verður að ná yfirhöndinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 29.7.2015 - 21:25 - FB ummæli ()

Akkilesarhæll Grikkja

Átökin milli Grikkja og Evrópusambandsins eru lærdómsrík. Það sem er þó athyglsiverðast er hvar skilur á milli almennings og Evrópusambandsins í völdum. Skýringin hefur komið upp á yfirborðið núna vegna viðtals við fyrrverandi fjármálaráðherra Grikkja Yanis Varoufakis þar sem hann skýrir þetta betur út í þessari  bloggfærslu.

Grískir kjósendur kusu Syriza til valda. Þar með vildu þeir fara þá leið í samningaviðræðum við Evrópusambandið sem Syriza boðaði. Þegar allt var komið á suðupunkt í samningaviðræðunum þá kaus þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu með aðferð Syriza en á móti Evrópusambandinu. Grísku samningamennirnir höfðu þjóðina á bak við sig, þ.e. fullt umboð og skýra verklýsingu þjóðarinnar en samþykktu þó allt sem Evrópusambandið krafðist. Grikkir höfðu gripið till allra verkfæra lýðræðisins sem þeir hönnuðu sjálfir fyrir margt löngu. Það kom ekki að neinum notum í samningum við Evrópusambandið. Í hverju fólust þessi afgerandi völd ESB að það gat knésett stolta þjóð.

Bankar hafa einkarétt á því að framleiða peninga og stjórna magni þeirra í umferð. Án peninga hrynur samfélagið. Þess vegna hafa bankar hreðjartak á þjóðfélögum og geta sagt réttkjörnum ríkisstjórnum að sitja og standa eins og þeim hugnast. Evrópusambandið með Seðlabanka Evrópu sem verkfæri skrúfaði fyrir peninga til Grikklands. Þar með var ekki hægt að stunda eðlileg viðskipti og allt hrundi og Grikkir urðu auðveld bráð fyrir ESB. Til þess að lýðræðið virki, til þess að vilji almennings verði ofaná verður framleiðsla peninga að tilheyra lýðræðislega kjörnum fulltrúm almennings. Framleiðsla peninga er valdamesti hluti lýðræðisskipulags okkar, mun valdameira en löggjafar-framkvæmda- eða dómsvald lýðræðissins.

Meðan bankakerfið hefur einkarétt á því að framleiða peninga og stjórna magni þeirra þá skiptir harla litlu máli hvað við kjósum eins og reynsla Grikkja kennir okkur. Það eru hin mikilvægu skilaboð frá deilu Evrópusambandsins og Grikkja. Þess vegna verðum við núna að einbeita okkur að því að afnema einkarétt banka  að stjórna peningaframleiðslu. Sá hluti lýðræðisins á heima hjá almenningi en ekki einkareknum bönkum eða seðlabönkum sem þjóna einkabönkum. Þegar því hefur verið kippt í liðinn getum við kosið mismunandi pólitík en þangað til ræður stefna bankakerfisins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur