Laugardagur 25.4.2015 - 19:57 - FB ummæli ()

Spilltur Makríll

Makrílfrumvarp núverandi sjávarútvegsráðherra er skilgetið afkvæmi liðinna ríkisstjórna. Að afhenda gríðalega verðmæta auðlind fáum útvöldum er í takt við fyrri lög um svipuð efni. Spillingin í kringum makrílfrumvarpið núna er með eindæmum og þar er innmúruðum hyglað blygðunarlaust.

Kosningasigrar fjórflokksins undanfarna áratugi hafa fært auðlindir þjóðarinnar í hendur fárra. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að almennginur fái að njóta sjávarauðlindarinnar ef við höldum áfram að kjósa þessa flokka. Auk þess tekur Björt framtíð undir málflutning LÍÚ manna. Auðlindir Íslands eru á pari við auðlindir Noregs og því gætu verið svipuð lífsgæði á Íslandi og eru í Noregi. Ef kjósendur vilja breytingar þá verða þeir að taka sér tíma til að; kynna sér söguna og hverjir séu líkegir til að bylta þessu arðránskerfi.

Dögun er stjórnmálasamtök sem berjast gegn spillingunni í sjávarútveginum og ætla sér að gjörbylta kerfinu til að arðurinn verði almennings en ekki fárra. Ályktun okkar frá því í dag um makrílfrumvarpði er svohljóðandi:

”Stjórnmálasamtökin Dögun hafna alfarið lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um kvótasetningu á makríl. Dögun hafnar þeim þjófnaði og þeirri einkavinavæðingu sem þar er ráðgerð.

Dögun bendir á að veiðireynsla stórútgerðarinnar byggist að stórum hluta á óábyrgum veiðum til mjölvinnslu, sem miðuðust við að landa sem mestu magni af makríl óháð þeim verðmætum sem hægt var að búa til.

Íslenska þjóðin og fulltrúar hennar á Alþingi eiga ekki að ljá máls á því að verðlauna örfáa útgerðaraðila sem ganga augljóslega gegn almannahagsmunum.”

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 10.4.2015 - 18:45 - FB ummæli ()

Tómir hraðbankar

Yfir páskahelgina tæmdust hraðbankar borgarinnar. Talsmenn bankanna sögðu í fréttum að ekki yrði fyllt á hraðbankana fyrr en eftir helgina. Á meðan yrðu menn bara að bíða. Þarna er komin upp staða sem er mjög athyglisverð. Ef menn vilja ekki nota rafræna peninga Þá er komin upp sú staða að þrátt fyrir að menn eigi verðmæti/innistæðu þá geta þeir ekki nýtt sér hana vegna skorts á seðlum. Það er ekki þú sem ákveður hvar og hvenær þú notar þinn auð heldur bankarnir. Ástæðan er sú að bankarnir stjórna magni peninga í umferð. Ef magn peninga minnkar þá erum við handlama hvað sem auði eða framleiðslu okkar líður.

Þegar bankakreppan kom haustið 2008 var Ísland að framleiða(fisk, ál). Bankakreppan fólst fyrst og fremst í minnkun peninga í umferð(lánalínur þorna upp) og allt hrundi. Það var ekki vegna þess að við værum ekki að framleiða minni verðmæti heldur vegna þess að magn peninga minnkaði í umferð og því magni stjórnuðu bankarnir. Slíkar kreppur eru algengar.

Peiningar eru til að flytja verðmæti frá einum stað til annars og frá einum tíma til annars. Dásamleg uppfinning og því allt of valdamikið tæki til að leyfa einkabönkum að stjórna því. Síendurteknar bankakreppur með hörmulegum afleiðingum eru dæmi um að öllum örðum ætti því að takast það betur upp að hafa nægjanlegt magn peninga til staðar á hverjum tíma.

Sá sem stjórnar magni peninga í þjóðfélaginu stórnar lífi einstaklinga, fyrirtækja, sveitafélaga og ríkis. Peningavaldið er því fjórða valdið í lýðræðisskipulagi okkar, það valdamesta og er núna í höndum einkafyrirtækja, banka, sem vinna í þágu hluthafa.

Það skiptir ekki máli hvaða pólitík stjórnar landinu hún verður alltaf sveigð að hagsmunum bankanna því þeir halda á valdamesta verkfæri lýðræðisins, framleiðslu peninga.

Þessu valdi þarf að koma aftur til almennings þar sem það á heima. Það er eini möguleikin til að pólitík-hugsjónir stjórni.

Skýrsla Frosta Sigurjónssonar Alþingismanns um peninga fjallar einmitt um þetta. Hún skýrir margt og kemur með lausnir sem ættu að henta mörgum, ekki síst almenningi. Skýrslan veldur ótta hjá valdastéttinni og því mun allt verða gert til að tortryggja hana af þeirra hálfu og handbendi þeirra. Hvet ég því almenning til að kynna sér hana vel því með róttækum breytingum á peningavaldinu verður fyrst möguleiki á því að draumar um jafnrétti og réttlæti geti orðið að raunveruleika.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 13.3.2015 - 23:25 - FB ummæli ()

Lýðræðishalli

Ákvörðun stjórnarflokkanna að senda utanríkisráðherrann með bréf til Evrópu þess efnis að Ísland sé ekki lengur að sækjast eftir inngöngu í Evrópusambandið veldur vonbrigðum. Ekki það að ég vilji að Ísland gangi í ESB, ég hef verið á móti ESB í núverandi mynd í meira en tvo áratugi.

Mann setur eiginlega hljóðan yfir bjánaskapnum, maður fer svolítið hjá sér hvernig silfurskeiðadrengirnir haga sér. Í fyrsta lagi var kjósendum lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og maður svíkur ekki slik loforð með smá axlarhreyfingu og iss piss rökum. Í annan stað er sniðganga við Alþingi og viðeigandi þingnefndir sökum fullvissu ráðherra um algjört tilgangsleysi málefnalegrar umræðu um málið í þingsal ákaflega slæm og alvarleg þróun.

Sko, þessi ríkisstjórn er komin yfir síðasta söludag og í raun fyrir löngu. Það eitt er næg ástæða til að mæta á Austurvöll hvað svo sem manni finnst um ESB.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 7.3.2015 - 18:32 - FB ummæli ()

Bankar á jötunni

Það ríkir bæði óréttlæti og misskipting á Íslandi. Sennilega gera lang flestir Íslendingar sér grein fyrir því. Lausnin hingað til hefur falist í því að allir hýrast hver í sinni skotgröf, skjóta á allt sem hreyfist og ætla þannig að vinna stríðið, fyrir alla. Þessi aðferð hefur virkað vel fyrir þá sem eru betur settir en ekki hina.

Verkefnið er alls ekki óleysanlegt. Almenningur þarf að einbeita sér að aðalatriðunum, þeim sem virkilega skipta máli þegar kemur að því að skapa aukið réttlæti og eyða misskiptingu.

Við höfum upplifað það á Íslandi á liðnum árum að bankar virðast njóta mikillar sérstöðu. Þeir virðast ekki lúta venjulegum lögmálum um líf og dauða í fyrirtækjarekstri. Fjöldi fyrirtækja fór á hausinn við bankahrunið 2008 en bankarnir fengu aftur á móti góðan ríkisstyrk og skiptu svo um kennitölu. Þessi aðferðafræði hefur verið notuð um allan heim eftir hrunið 2008. Reyndar er þetta síendurtekin saga s.l 300 ár og mun halda áfram að endurtaka sig svo lengi sem við breytum ekki stöðu banka í samfélagi okkar. Þess vegna eru afleiðingar sífelldra bankahruna líka skýring á misskiptingu. Svo þegar bankarnir fara nánast strax að sýna mikinn gróða er réttlætinu storkað.

Grikkir ákváðu í síðustu kosningum með lýðræðið að vopni að breyta þessu. Þeir rákust á vegg. Til að Grikkland gæti fúnkerað vantaði þá peninga, hraðbankar myndu tæmast og ríkisstjórnin gæti ekki greitt laun og þess háttar. Þar sem bankarnir búa til peningana en ekki ríkið þá stjórna þeir ríkinu. Ef við viljum pólitíska lausn á misskiptingu verðum við að afnema vald bankanna til að búa til peninga svo að sú pólitík sem við aðhyllumst virki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.2.2015 - 20:52 - FB ummæli ()

Smjörklípur

Dagleg umræða almennings snýst mest um smjörklípur, afsakið dónaskapinn, en þetta er svona. Fæst af þeim málum sem skora mest í lækum myndu breyta stöðu almennings í grundvallaratriðum. Þessi deilumál eru dægurmál að mestu og almenningur hrífst með og á erfitt með að greina hvað það er sem skiptir raunverulegu máli. Ég veit að ég hljóma eins og óþolandi besservisser en tökum dæmi.

Sjávarauðlindin, gróðinn fer í vasa fárra og hann er gríðalegur. Sumir vilja meina að við séum ríkari en Norðmenn per höfðatölu og því ættum við að hafa það betra en þeir. Frakkar sættu sig ekki við smákökurnar og hví ættum við að gera það? Almenningur ætti því að ræða um sjávarútveg daginn út og inn. Almenningur ætti því að krefjast fullrar hlutdeildar í auðlind sinni til að bæta kjör sín; lágmarksframfærslu, ókeypis heilbrigðiskerfi, gott menntakerfi, nýtt sjúkrahús og svo framvegis.

Rafmagnið er selt stóriðju ódýrt og bankarnir mala gull. Við erum ógeðslega rík en það eru bara örfáir sem njóta ríkisdæmis okkar. Hvað er að okkur? Hvers vegna erum við alltaf að rífast um keisarans skegg, veltandi okkur uppúr smjörklípum sem eru matreiddar ofaní okkur. Hvað er að okkur? Er mikilvægara að skora hátt í lækum um smjörklípur en að ræða alvarleg mál eins og auðlindamál, slor og rafmagn. Er mikilvægara að hrauna yfir náungann þó hann beri enga ábyrgð á ástandinu. Getum við ekki staðið saman eða ætlum við að láta smjörklípumeistarana sundra okkur áfram?

Við erum ógeðslega rík þjóð, við þurfum bara að deila auðnum jafnt til allra. Er farið fram á of mikið? Getum við ekki sameinast um eina slíka smábyltingu áður en við leiðum til lykta allar smjörklípurnar, geta þær ekki beðið smá stund? Plís!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 26.2.2015 - 21:16 - FB ummæli ()

Strokleður Schaeubles

Grikkir geta varpað öndinni, í bili.

Samningaviðræður fóru fram á liðnum vikum og sérstaklega í síðustu viku. Grikkir reyndu að semja við Troikuna, þ.e. IMF, EU og ESB. Þeir fóru fram með miklar kröfur en Troikan beið bara eftir því að tíminn liði því að lokum yrðu Grikkir að gefa eftir sökum peningaleysis. Mikil hætta var á því að hraðbankar tæmdust og bankaáhlaup yrði í Grikklandi.

Sigur Grikkja felst í því að þeim tókst að fá fram samningaviðræður í stað þess að taka við fyrirmælum í tölvupósti hvað þeir ættu að gera eða hvað þeir ættu ekki að gera, næstu fjóra mánuðina. Grikkir fengu að skrifa sitt eigið ”Letter of Intent”, þ.e. loforðalista gagnvart Troikunni. Sá listi er í anda Troikunnar en Grikkir hafa sett inn ákvæði um ”sócial réttlæti” á nokkrum stöðum og ekki er fjallað um sum hjartans mál Troikunnar.

Viðbrögð IMF og ESB benda til þess að loforðalistinn sem Grikkir sömdu sé samþykktur með semingi og bent er á að markmið Troikunnar sé að koma gömlu skilyrðunum á blað aftur. Það er eins og þetta upphlaup Grikkjanna eigi helst að vera minniháttar hrukka á ferli Troikunnar í Grikklandi. Þar mun strokleður þýska fjármálaráðherrans koma að notum. Í Grikklandi munu áhrifin verða þau að þeim mun finnast mikilvægt að komast undan valdi Þjóðverja innan Evrunnar og því hætt við því að Grikkir kjósi einfaldlega að hætta þessu samstarfi við ESB. Í raun eina leiðin.

Ég hef fylgst með Yanis Varoufakis fjármálaráðherra Grikkja í all nokkur ár. Hann hefur þekkinguna og núna hefur hann möguleika til að skáka Troikunni ef hann vill. Þetta snýst því í raun um hugrekki hans og að fá þjóðina með sér í þessa vegferð. Það verður mjög spennandi að fylgjast með framvindunni í Grikklandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 25.1.2015 - 23:20 - FB ummæli ()

Syriza

Núna virðist ljóst að Syrizas hafi unnið kosningarnar í Grikklandi. Þess vegna eru miklar líkur á því að ný ríkisstjórn Grikklands muni véfengja aðferðafræði Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á lausn kreppunnar í Grikklandi. Sú hugmyndafræði gengur út á það að mistök bankanna séu greidd af almenningi en ekki af þeim sem ollu. Þess vegna verður mjög athyglisvert að fylgjast með framvindunni þegar verkfærum bankanna(ESB og AGS) verður ógnað af hugmyndum Syrizas.

Til að Syrizas nái árangri þarf Syrizas að beina auknum fjármunum til þeirra sem verst hafa það í grísku samfélagi. Þá fjármuni verður Syrizas að fá að láni hjá bönkunum og samtímis fer Syrizas fram á að skuldir sem almenningur í Grikklandi ber enga sök á verði afskrifaðar hjá bönkunum. Það mun verða mjög spennandi að fylgjast með þeirri baráttu. Munu stuðingsmenn Syrizas halda vöku sinni og veita flokknum það aðhald sem þarf til að ná árangri gegn mútum og hótunum.

Rúmlega þriðjungur grískra kjósenda hafa numið staðar og ákveðið að segja fjármálavaldinu stríð á hendur. Almenningur við Miðjarðahafið gæti ákveðið að fara í sömu vegferð og Grikkir og þar með ógnað veldi fjármagnsins. Meira hangir á spýtunni, helstu verkfæri fjármagnsins í Evrópu, þ.e. ESB og Evran gætu verið í hættu ef Syrias og systurflokkar í S-Evrópu ná völdum og krefjast þess að manneskjan sé í fyrirrúmi en ekki fjármagnið.

Framundan eru mjög spennandi tímar. Ef Syrizas heldur til streitu stefnu sinni verður mjög fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum fjármálavaldsins. Ef hefðbundnar aðferðir eins og  ruslflokkun matsfyrirtækja í eigu bankanna og vaxtahækkanir á ríkisskuldabréfum bera ekki árangur, hvað verður Grikkjum boðið uppá. Eina litla byltingu eða styrjöld í Evrópu? Vonandi mun þetta þó verða friðsamleg breyting okkur öllum til hagsbótar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 23.1.2015 - 22:27 - FB ummæli ()

Valdhafarnir þurfa aðhald

Í dag eru (lang)flestir mjög sáttir við umboðsmann Alþingis. Hann hefur staðið sig vel gagnvart valdinu. Hann hefur kreist út úr því, eins og úr gamalli tannkremstúpu, að minnsta kosti hluta af sannleikanum. Valdið mun sjálfsagt sjá til þess að þetta endurtaki sig ekki.

Í dag varð mér hugsað til togstreitunar um valdið. Okkar er valdið en við notum það ekki. Við krefjumst ekki réttar okkar og á meðan misnotar valdstéttin valdið okkar. Við getum ekki gert ráð fyrir fyrirmyndarríki ef við söppum á sjónvarpinu og treystum því svo að opinberir aðilar hafi eftirlit með valdhöfunum.

Málin í dag, Hanna Birna og lekamálið, Steingrímur J og hrægammasjóðirnir, fleiri virkjanakostir, ný kvótalög og fleira og fleira minna okkur á að valdstéttin þarf aðhald.

10341565_288801914621543_8631473859864814128_n

Spurningin er hvort Hanna Birna verður lítil krumpa á ”flekklausum” ferli valdstjórnarinnar eða við vöknum upp og breytum þjóðfélaginu. Okkar er valið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.12.2014 - 16:54 - FB ummæli ()

Kæri Bjarni Ben

Áskorun þín í Kryddsíldinni til lækna um að líta í eigin barm kom of seint. Það var það sem þeir gerðu áður en þeir tóku til verkfallsvopnsins.

Til að létta þér starfið vil ég benda á eftirfarandi:

  1. Vegna yfirlýsingar Rríkisstjórnarinnar á sínum tíma(2008) um að allar innistæður í íslenskum bönkum á Íslandi væru tryggðar með skattfé landsmanna hefur skapast skuld við sömu aðila hjá viðkomandi bönkum. Samkvæmt lögum 121/1997 skal greiða fyrir slíka þjónustu. Þess vegna átt þú að rukka bankana um þessa ríkisábyrgð. Hugsanleg upphæð er um 3-500 milljarðar.
  2. Hvalrekaskattur(windfall tax). Hagnaður sem verður til mest fyrir utanaðkomandi aðstæður frekar en elju og útsjónarsemi fyrirtækis kallast hvalreki. Þá er verið að vísa til þess að ekki hafi verið sérstaklega unnið fyrir honum. Hvalrekaskattur er skattur á slíkum hagnaði. Gott dæmi á Íslandi eru lánveitendur (bankar og lífeyrissjóðir) sem hafa hagnast mikið á verðtryggðum lánum vegna þess að verðbólgan gaus upp í kjölfar bankahrunsins. Bankahrun sem viðkomandi lánadrottnar bera töluverða ábyrgð á. Annað dæmi er að íslenska krónan féll mikið í kjölfar bankahrunsins. Þar með jókst hagnaður útflutningsfyrirtækja (sjávarútvegur og áliðnaður) án þess að þau hefðu breytt einhverju hjá sér. Gengisfallið skapaði fyrirtækjunum auknar tekjur en launamanninum minni tekjur. Hvalrekaskattur væri þá aðgerð til að leiðrétta aukið misvægi í tekjum og yrði lagður á áður en að menn fara að greiða sér út arð. Meðan nánast ríkir neyðarástand á mörgum sviðum í velferðarmálum á Íslandi þá er það réttlætismál að skattleggja þá sem eru í dag að greiða sér hagnað talin í tugum eða hundruðum milljarða, þeir svelta ekki.

Lauslega áætlað ættir þú að geta snarað svo sem tugi milljarða inní ríkiskassann með þessum aðgerðum án þess að skapa mikla eymd og vesöld hjá viðkomandi aðilum.

Þetta er barmurinn þinn Bjarni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 21.12.2014 - 23:31 - FB ummæli ()

Að auka útflutning

Nú hafa fimm sérfræðingar sagt upp á Landspítalnum. Hef heyrt í nokkum og frétt af enn fleirum sem eru að kanna málið. Ég flutti til Svíþjóðar 2011 og hef því fengið  nokkrar fyrirspurninr um lífið hinum megin.

Við skulum setja læknadeiluna í víðara samhengi því bankakreppur eru margendurtekið fyrirbæri. Eftir að einkabankarnir eru farnir á hausinn taka skattgreiðendur á sig skellinn. Þess vegna þarf að spara. Þess vegna er velferðarkerfið skorðið niður. Komugjöld sjúklinga eru aukin og stundum er kerfið einkavætt. Niðurstaðan er að þeir sem eru betur settir fá þjónustu en hinir ekki. Þar með hafa útgjöld til heilbrigðismála verið lækkuð. Árangur heilbrigðiskerfisins á landsvísu versnar. Allt vel skráð á spjöld sögunnar og í rannsóknum.

Spurningin er hvort stjórnvöld nema staðar við læknadeiluna eða halda áfram með þjóðina hina hefðbundnu leið. Hvernig tekst til með læknadeiluna er afgerandi fyrir trú landans á framtíðina hér á landi. Það vita allir að sérhagsmunahóparnir, útgerðin, ferðaþjónustan og bankarnir njóta forgangs. Ef þessum hópum er áfram hyglt á kostnað velferðakerfisins í stað þess að sækja þangað fjármuni er nokkuð ljóst hvert stefnir.

Þá gæti það sama hent okkur sem gerst hefur í mörgum öðrum löndum sem hafa lent í bankakreppum, þ.e. að mennta fólk til útflutnings.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur