Í mínum huga er sjávarútvegurinn undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Ég hugsa að flestir landsmenn séu sammála mér.
Hvernig stendur þá á því að fólk telur að einhverjir aðrir en sjávarútvegurinn sjálfur geti greitt skuldir sínar? Hverjum dettur í huga að ríkissjóður geti tekið sjávarútveginn til sín og greitt skuldir hans?
Af hverju á að taka aflaheimildir af þeim sem stunda þennan atvinnuveg í dag til þess eins að úthluta þeim upp á nýtt? Fjölgar eitthvað fiskunum í sjónum við það? Eða atvinnutækifærum? Færast störfin ekki bara á milli einstaklinga. Aflaheimildir færast og 20 missa vinnuna en aðrir 20 fá vinnu í staðinn. Hver er hagurinn af því?
Ég hefði áhyggjur af því að sjávarútvegurinn á Vestfjörðum líði fyrir endurúthlutun. Hér eru 2-3% þjóðarinnar en u.þ.b. 10% af aflaheimildum.
Þið sjáið mörg spurningamerki í þessum stutta pistli. Ég set ekki spurningamerki við það að ég tel að eins og aðstæður eru í þjóðfélaginu þá sé rétt að láta okkar undirstöðuatvinnuveg í friði.
Vissulega eru ýmsar spurningar ósvaraðar en það blasir þó við að núverandi kerfi er algjörlega hrunið.
Framsal aflaheimilda hefur stórlaskað sjávarútveginn og það verður að snúa ofan af þessari vitleysu, núna er tíminn.
Svo er bara að svara þessum spurningum að yfirvegun og sanngirni, bera saman við afleiðingar á núverandi kerfi og hafa kjarkinn til að breyta rétt.
Það mætti halda að þú hefðir flutt til Ísafjarðar eftir hádegi í dag.
Vestfirðir voru hálaunasvæði fyrir kvótakefið, aðallega vegna nálægðar við gjöful fiskimið. Í dag eru vestfirðingar með lægstu meðaltekjur á landinu, tuttugu árum eftir kvótainnleiðinguna. Einstaklingar sem „áttu“ kvótann seldu hann hiklaust úr bygðalögunum og afleiðingin var fólksflótti með öllu sem því tilheyrir.
Ég er ósammála því að láta kerfið í friði. Mín skoðun er að það ætti alltaf að skoða það, meta það og ef það sést hængur á því laga það. Einnig sé ég ekki hvernig hagur ríksins sem er hagur fólksins sé borgið, með því að fáir aðilar eignist kvótann og svo leigi hann út. Ég mæli með að taka út milli manninn og láta ríkið um að leigja kvótann.
Einnig finn ég að þeirri rökhugmynd að að sé hægt að taka lán á óveiddan fisk. Það er ekkert vit í því í mínum huga…
Bestu kveðjur
Ágúst Þorvaldsson
Fjórar spurningar sem þarf að svara Halldór!
1. Hefur kvótakerfið stuðlað að uppbyggingu fiskistofna við landið?
2. Hefur kvótakerfið staðið undir blómlegum atvinnurekstri í strandbyggðum?
3. Hefur kvótakerfið stuðlað að árangursíkum rekstri sjávarútvegsfyrirtækja?
4. Eru vestfirðingar sáttir við kvótakerfið?
Það fer síðan eftir svörunum hvers við spyrjum okkur næst.
Það er hárrétt. Það á að láta hann í friði og láta hann borga skuldir sínar. Einnig á að láta þann hluta af sjávarútvegsfyrirtækjum sem ekki geta staðið í skilum, algerlega í friði. Gjalddagar lána eiga að fá að vera í friði.
Einungis skiftaráðendur eiga að fá að skifta sér af þessum málum.
Sæll, HH. Rétt er að auðvitað á sjávarútvegurinn að greiða skuldir sínar sjálfur. En skuldir atvinnugreinarinnar eru að miklu til komnar vegna spákaupmennsku sem látin er óáreitt vegna kvótaframsalsins. Afraksturinn fer sem sagt að miklu leyti út úr greininni. Leiguokið hefur ennfremur gert sjómennskuna óáhugaverða sem lífsstarf og eftirspurnin eftir því. Sem almenn undirstaða sjávarþorpa og fjölskyldna sem þar búa hefur atvinnugreinin drabbast niður með afleiðandi neikvæðum hagvexti og fólksflótta. Það versta er ónefnt en það er óöryggið fyrir íbúana sem þurfa að sjá á eftir atvinnuréttinum annað og geta ekki rönd við reist. Hver nennir að fjárfesta eða gera langtímaplön við slíkar aðstæður? Tímabundinn nýtingaréttur myndi breyta mjög viðhorfum, ásýnd og möguleikum svæða sem búa í nálægð við fiskimiðin, hagsmunir núverandi handhafa veiðiheimilda vega minna en ofangreint og auðvitað er ekkert sem meinar þeim að taka þátt í nýrri útfærslu, það eina sem verður að fara er braskið.
Kveðja, LÁ
Tek undir þau orð sem skrifuð eruð hér að ofan. Sjávarútvegurinn á að greiða sínar skuldir sjálfur. Það kerfi sem verið hefur við lýði er kerfi sem LÍÚ hefur hannað og breytt eftir því sem hentaði þeim. Það verður ekki bæði haldið og sleppt.
Gummi golli líkti kvótakerfinu við krabbamein og nú væri svo komið að það væri ólæknanlegt. Ólæknanlegt mein er ekki hægt að fjarlægja og öll vitum við hver endalok verða. Þau geta verið sár en óumflýjanleg.
Guðmundur Halldórsson (Golli) hafði ágætlega upp úr því að selja frá sér aflaheimildir á sínum tíma, svo kemur hann og segir að kvótakerfið sé ólæknandi krabbamein. Ég stend ekki með mönnum sem nýttu sér kvótakerfið og vilja svo vænan bita af aflaheimildunum aftur.