Föstudagur 18.05.2018 - 15:26 - Rita ummæli

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar

Það er óásættanlegt að fólk þurfi jafnvel að aka fleiri hundruð kílómetra til að nýta rétt sinn til að kjósa til sveitarstjórnar utan kjörfundar. Það er líka óásættanlegt að einungis sé einn kjörstaður á öllu höfuðborgarsvæðinu til að kjósa utan kjörfundar.
Sveitarfélögin sjá um framkvæmd allra kosninga. Þau sjá um framkvæmd kosninga til Alþingis, forsetakosningar og kosningar til sveitarstjórna á kjördag. En þeim er ekki treyst til þess að sinna þeirri sjálfsögðu þjónustu við kjósendur að þeim sé kleift að kjósa utan kjörfundar í sinni heimabyggð. Það er verkefni sýslumanna en þeim hefur fækkað svo mikið á undanförnum árum og stöður hreppstjóra (umboðsmanna sýslumanna) hafa í flestum tilvikum verið lagðar niður. Þess vegna þarf þetta verkefni að færast til sveitarfélaganna.
Stöndum saman að því að auka kosningaþátttöku en mikilvæg leið til þess er að bæta aðgengi kjósenda að kosningum utan kjörfundar.

Þessi bókun var samþykkt í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag:

,,Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga gerir þá kröfu til dómsmálaráðuneytisins og sýslumannsembætta að þau tryggi að skipulag utankjörfundaratkvæðagreiðslu henti íbúum í hverjum landshluta án þess að þeir þurfi að ferðast um langan veg. Jafnframt þarf að tryggja að sjómenn eigi kost á því að greiða atkvæði utan kjörfundar.  Óásættanlegt er að skortur á þjónustu af hálfu sýslumanna verði til þess að draga úr kjörsókn.

Stjórn sambandsins telur mikilvægt að hafnar verði sem fyrst viðræður á milli sambandsins, dómsmálaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Þjóðskrár Íslands um nauðsynlegar úrbætur á kosningalöggjöf og framkvæmd kosninga. Í þeim viðræðum verði sérstaklega horft til þess á hvern hátt sé hægt að auka kosningaþátttöku.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur