Miðvikudagur 14.03.2018 - 11:09 - Rita ummæli

Svifryk er heilsuspillandi

Nú er sá árstími sem svifryk veldur mestum vandræðum. Við þekkjum tímabilið frá seinnihluta febrúar og fram í apríl, jafnvel fram í maí þar sem veðurfarið er þannig að mest situr á götunum og mest þyrlast upp vegna umferðarinnar. Þegar kornastærð svifryks er skilgreind er talað um PM 10 sem er vont og óþægilegt og verulega vont fyrir viðkvæma. PM 2,5 er heilsuspillandi og það kemur fyrst og fremst úr sóti díselvéla.

Í Þýskalandi er talið að 6.000 ótímabær dauðsföll séu þar árlega vegna NO2 (köfnunarefnisdíoxíðs). Þessi mengun er vaxandi vandamál á höfuðborgarsvæðinu en á síðasta ári fór NO2 alls 17 sinnum yfir leyfileg mörk sem eru 7 sinnum á ári skv. reglugerð.

Mest af NO2 kemur frá díselvélum. en díselbílum hefur fjölgað verulega frá aldamótum. Þá voru 15% bifreiða með díselvél en núna eru það 27%. Að miklu leyti kemur aukningin til vegna þess sem reyndist vera röng ákvörðun stjórnvalda um að hvetja til notkunar díselbíla umfram bensínbíla á tímabili. Við þurfum nokkur ár til að aðlaga okkur að breyttum forsendum hvað þetta varðar. Vandamálið er vaxandi hér á höfuðborgarsvæðinu enda jókst umferðin um 8% á síðasta ári og hefur aukist verulega undanfarin ár. Og 80% svifryks kemur frá umferð, þar af er um 90% vegna stofnvegakerfisins.

Það er ekki hægt að horfa framhjá þessu vandamáli. Hluti þess mun væntanlega leysast með nýrri tækni, fleiri rafmagnsbílum og slíku. Þeir munu engu að síður slíta gatnakerfinu og þyrla upp ryki en mengun frá vélum þeirra verður ekki vandamál.

Það er hægt að sópa eitthvað betur og rykbinda eins og gert er í borgum á borð við Osló og Stokkhólm en það er frekar plástur á sárin að rykbinda en einhver endanleg lausn.

Það þarf að draga úr nagladekkjanotkun. Díselvélum mun trúlega fækka. Það er verið að vinna í frumvarpi að nýjum umferðarlögum þar sem verða heimildir til að lækka umferðarhraða tímabundið, jafnvel banna umferð við sérstök skilyrði og leggja gjald á nagladekk. Allt eru þetta nauðsynlegar aðgerðir en það þarf líka að bæta verulega almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu til að þær séu raunhæfur kostur í stað þess að allir séu á einkabíl. Meðaltalið í hverjum bíl er 1,1 og það segir sig sjálft að það gengur ekki upp á vaxandi borgarsvæði þar sem sífellt fleiri íbúar þurfa að komast á milli staða. Stærsta raunhæfa aðgerðin er góðar almenningssamgöngur og færri einkabílar á götunum.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur