Mánudagur 20.04.2009 - 17:04 - 6 ummæli

Feigðarleið vinstri flokkanna

Eftir kynningu vinstri flokkanna á fyrningarleið í sjávarútvegi ákváðum við bæjarstjórar þriggja bæjarfélaga sem byggja að stærstum hluta á sjávarútvegi að senda greinina hér að neðan í Morgunblaðið og birtist hún þar laugardaginn 18. apríl.

Við skrifuðum greinina vegna þess að okkur finnst fyrir löngu nóg komið af því að vega stöðugt að sjávarbyggðunum. Við skrifuðum hana vegna þess að við sjáum í gegnum þessa fyrningarleið. Hún er hugsuð til þess að úthluta aflaheimildum með ,,sanngjarnari“ hætti.

 

Sem þýðir í tilfelli Vestfjarða, Vestmannaeyja og Snæfellsness í þessu tilfelli að engin ,,sanngirni“ er á bak við að 5% íbúa landsins hafi yfir um 30% aflaheimildanna.

 

Þess vegna vilja þessir flokkar fara fyrningarleiðina. Þeir vilja skipta um útgerðarmenn og færa aflaheimildir handvirkt frá okkur og til annarra.

 

Hér er greinin:

Kosningabarátta sú sem nú stendur yfir hefur illu heilli hvorki snúist um menn né málefni. Engin gaumur er nú gefinn að þeirri staðreynd að vinstriflokkarnir hyggjast nú hrinda öllum þeim málum, sem þjóðin hefur ítrekað hafnað í framkvæmd. Þannig fá Vinstri grænir og Samfylkingin fullkominn frið til að boða að atvinnuuppbygging í tengslum við orkufrekan iðnað skuli stöðvuð, lagður skuli auka tekjuskattur á launþega, laun skuli lækkuð, lagður skuli á sérstakur eignaskattur sem helst bitnar á eldri borgurum og áfram mætti telja.  Ekki einu sinni kosningaloforð þessara flokka um að setja þær atvinnugreinar sem enn standa styrkum stoðum á hausinn fá gagnrýna umfjöllun fjölmiðlanna.

Landsbyggðin lifir á veiðum og vinnslu
Sú staðreynd kann að koma vinstriflokkunum á óvart að í sjávarbyggðum landsins býr enn drjúgur hluti þjóðarinnar.  Íbúar í heimabyggðum höfunda þessarar greinar, Vestfjörðum, Vestmannaeyjum og Snæfellsnesi, eru um 5% þjóðarinnar.  Með elju, útsjónarsemi og óþrjótandi trú á sjávarútveginn hefur íbúum þessara svæða tekist að eignast um 30% af aflaheimildunum Íslendinga. Megnið af þessum verðmætum hafa fyrirtæki og einstaklingar á þessum atvinnusvæðum keypt, því andstætt því sem vinstrimenn halda fram hafa á milli 80 og 90% af aflaheimildum skipt um eigendur frá því að aflamarkskerfinu var komið á.  Að gefnu tilefni og með tilliti til orðræðu vinstri flokkanna skal það tekið fram að enginn af höfundum þessarar greinar á gramm af kvóta né hefur átt slík verðmæti.  Allir búum við hinsvegar í bæjum þar sem allt stendur og fellur með sjávarútvegi og hagsmunir okkar, sjómanna, fiskverkafólks og útgerðarmanna fara því saman. Íbúar þessara svæða hafa frá því að byggð hófst haft metnað fyrir sjávarútvegi og lifað á veiðum og vinnslu.  Jafnvel þegar útrásin stóð sem hæst blinduðust þeir ekki af skjótfengnum gróða bankanna heldur héldu sínu striki. Á þeim tíma fengum við í sjávarbyggðum nokkuð góðan frið fyrir löngum ríkisvæðingarfingrum Samfylkingarinnar enda voru fingurnir þá notaðir til að klappa fyrir Baugi sem styrkti þá jú um þriðjung hverrar krónu sem kom í kassa þeirra.  Sjávarútvegurinn var ekkert annað en slorvinna sem við á landsbyggðinni gátum dundað okkur við á meðan elíta Samfylkingarinnar var að sinna alvöru atvinnugreinum á borð við listsköpun, bókaskrif, og vinnu á fjölmiðlunum.

Á að taka aflaheimilirnar af þeim sem hafa af þeim afkomu?
Nú horfir öðruvísi við.  Á ný hefur höfuðborgarelíta Samfylkingarinnar með varaformanninn og fyrrverandi borgarstjóra í broddi fylkingar áttað sig á að íslenskt hagkerfi stendur og fellur með sjávarútvegi.  Þar hefur hin raunverulega verðmætasköpun átt sér stað og enn eru þar verðmæti. Í landsfundarályktun Samfylkingarinnar segir ,,Allar aflaheimildir í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi verða innkallaðar eins fljótt og auðið er”.  Þetta merkir að loforð Samfylkingarinnar er að taka aflaheimildirnar af íbúum sjávarbyggðanna og deila þeim út á “sanngjarnari máta”.  Getur verið að íbúar þessara byggða vilji stuðla að því að kosningaloforð þetta nái fram að ganga?

Feigðarleiðin
Stjórnendur og starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja hafa lýst yfir miklum áhyggjum af kosningarloforði Samfylkingarinnar því þrátt fyrir að ganga fram undir merkjum vinnu og velferðar lofa þeir íbúum sjávarbyggða gjaldþroti og atvinnuleysi.  Vönduð úttekt Deloitte á fyrningarleiðinni sýndi að það tekur stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins einungis sex ár með fimm prósenta fyrningu að fara á hausinn.  Leiðina mætti því allt eins kalla feigðarleiðina. Verði hraðar farið tekur það skemmri tíma.  Slíkt hefði í för með sér hörmungar fyrir sjávarbyggðirnar því er hægt að lofa. Með loforð sem þetta í handraðanum þarf ekki að undrast að vinstri flokkarnir vilji ekki ræða málefni.

Staðreyndin er sú að þegar horft er bak við sykurhúðun vinstriflokka á ,,sanngjarnri” fyrningarleið blasir eftirfarandi við:

 * Fyrningarleiðin er í eðli sínu þjóðnýting. Aflahlutdeildir sem útgerðin hefur keypt verða gerðar upptækar og boðnar upp á almennum markaði.  

*Fyrningarleiðin vegur að rótum sjávarútvegsins; eykur óstöðugleika, kemur í veg fyrir markmiðssetningu og langtímahugsun og stórskaðar afkomumöguleika fyrirtækjanna. 

*Fyrningarleið leiðir til óhagkvæmni og sóunar. Fyrirtækin geta ekki gert langtímaáætlanir vegna óvissu um aflaheimildir og verð þeirra.

*Fyrningarleiðin kemur til með að valda fjöldagjaldþroti sjávarútvegsfyrirtækja og annarra fyrirtækja í sjávarbyggðum.

 

 

 

Elliði Vignisson er bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Halldór Halldórsson er bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og Kristinn Jónasson er bæjarstjóri í Snæfellsbæ.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (6)

  • Sjálfstæðismenn á Vestfjörðum spá því að þetta gerist á næstu fimmtán árum ef hróflað verði við núverandi kvótakerfi.
    Norðurtanginn verði lagður niður og allt fiskvinnslufólk missi vinnuna
    Íshúsfélag Ísfirðinga verði lagt niður og allir missa vinnuna
    Skuttogarinn Guðbjörg ÍS verði seld úr byggðalaginu ásamt öllum kvóta
    Flateyringar missi allan sinn kvóta
    Íbúum Vestfjarða fækki úr ellefu þúsund í sjö þúsund
    Gríðarleg fækkun smábáta
    Hrun í greinum tengdum fiskvinnslu
    Þeir er svo miklir spámenn að þeir sjá fyrir sér að Norðurtanginn verði gerður að íbúðarblokk.
    Þetta er hræðilegur spádómur, skyldi hann ganga eftir?

  • Ykkur getur ekki verið alvara! Eruð þið virkilega að mæla lénsfyrirkomulagi bót á 21.öldinni? Af hverju berjist þið ekki fyrir því að allir íbúarnir í bæjunum fái kvótann? Ekki bara nokkrir karlar og örfáar kerlingar sem selja hann sín og milli og láta síðan erfingjana um að selja hann í burtu? Í stað þess eruð þið óbeint að hóta íbúunum að ef þeir kjósi ekki rétt þá fari allt til fjandans. Þið hljómið eins og aðkomumenn en hér þreifst blómleg útgerð áður en valdir menn úr bæjarfélögunum tóku upp á því að flytja peninga úr greininni á eins og gerst hefur m.a. í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Við vitum um hverja ræðir. Og ekki fara á það plan að þetta sé eitthvað hægri/vinstri eða höfuðborg/landsbyggð mál því þetta er réttlætismál.

  • Magnús Bjarnason

    Hvernig var það, var fiskvinnslufólki á Flateyri ekki hótað því að ef það kýsti ekki SjálfsstæðisFLokkinn þá myndi það missa vinnunna.

    Hvernig fór?

    Sjálfstæðismenn unnu og sjoppunni lokað!

    Já, gerið þveröfugt við það sem íhaldið vill og þá munu sjómenn hafa það fínt.

  • ,,Hvernig var það, var fiskvinnslufólki á Flateyri ekki hótað því að ef það kýsti ekki SjálfsstæðisFLokkinn þá myndi það missa vinnunna.“

    Þessi ummæli ykkar eru hreint út sagt fáránleg og dæma sig sjálf. Ég sé að þú þekkir ekki mikið til á Flateyri Magnús.

    Þetta er dæmigerður málflutningur vinstri manna í dag – engin rök eða málefnaleg umræða.

  • Fólk var tilbúið að gefa kvótakerfinu séns meðan að það leit út fyrir að það væri góð leið til að stýra fiskveiðum á hagkvæman hátt. Nú er hinsvegar orðið almenningi ljóst að kvótakerfið hefur stóraukið skuldsetningu sjávarútvegsins og fært arðinn af honum úr veiðum og vinnslu og yfir í fjármálafyrirtæki.

    Atvinnugreinin býr því í raun við 100% skattlagningu (til ríkis og lánadrottna) sem er að sliga greinina og hótar grunnstoð byggðar á Íslandi. Til þess að hægt sé að réttlæta að fara í greiðsluaðlöðun fyrir sjávarútveginn verður fólkið í landinu að endurheimta vald yfir auðlyndinni.

    Valkosturinn við fyrningarleiðina er ekki endursköpun á ástandinu 2007 eins og Sjálfstæðisflokkurinn virðist telja heldur að senda greinina í fangið á erlendum kröfuhöfum bankanna og láta Deutche Bank eftir að eiga alla útgerð í landinu.

  • sigurður j hafberg

    Sæll Halldór.
    Ætla þessir brjálæðu vinstri menn að taka allan kvótann af okkur Flateyringunum. Hverjir ætla að taka af okkur skólann? Eru það kannski líka þessir brjáluðu kommúnistar.
    kv sig haf

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur