Það fór eins og skoðanakannanir gáfu til kynna. Fyrsta tveggja flokka vinstri stjórnin á lýðveldistímanum í kortunum.
Mér finnst ólíklegt annað en að VG og Samfylking nái saman þrátt fyrir ESB málin. Ég skrifaði um það hérna á dögunum að mögulega væri ESB sérstaða Samfylkingarinnar ekki eins mikil og halda mætti. Ástæðan væri sú að semja yrði við VG og þá frekar á forsendum VG um aðferðina.
Þetta kemur í ljós. Ég er reyndar sammála því að fara eigi í aðildarviðræður og leggja niðurstöðu þeirra í dóm þjóðarinnar. VG vill tvennar kosningar og það gæti orðið niðurstaðan í stjórnarmyndunarviðræðum því VG vann mun stærri sigur en Samfylkingin.
Það er ástæða til að óska vinstri flokkunum til hamingju með þessa niðurstöðu og óska þess að nýrri ríkisstjórn gangi vel að vinna að hag okkar landsmanna.
Ég vil líka nefna Borgararhreyfinguna sem vann auðvitað mikinn sigur með því að fá fjóra þingmenn kjörna. Það verður áhugavert að fylgjast með þeim og sjá hvernig þau nálgast viðfangsefnið sem við þeim blasir.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk mikinn skell í kosningunum eins og við máttum eiga von á. Kjósendur eru að refsa honum fyrir efnahagshrunið, styrkjaruglið og fleira. Samstarfsflokkar okkar hafa sloppið við þetta þó þeir séu ekki með hreinan skjöld í þessum málum. Sjálfstæðisflokkurinn var 18 ár samfleytt í ríkisstjórn og margt hefur komið í ljós sem flokkurinn á eftir að vinna endanlega úr. Það mun takast.
Reyndar bætir Samfylkingin litlu við sig, sérstaklega ef við eigum að reikna með því að fylgi hafi farið þangað vegna ESB.
Hér í okkar kjördæmi er Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi og Ásbjörn oddviti okkar hér í kjördæminu fyrsti þingmaður. Íbúar í þessu kjördæmi bera traust til frambjóðenda flokksins og hugmyndafræðinnar enda er fólk meðvitað um mikilvægi atvinnulífsins og að umhverfi þess þarf að vera eins gott og mögulegt er. Þá kemur allt hitt á eftir.
Þessi niðurstaða segir okkur að kjósendur í Norðvesturkjördæmi voru ekki að velja þá flokka sem vilja fyrna aflaheimildir. Öðru nær. Sjálfstæðisflokkurinn með mesta fylgið. Frjálslyndi flokkurinn sem hefur verið sterkastur í þessu kjördæmi og barist fyrir því að innkalla aflaheimildir hverfur af þingi og vinstri flokkarnir bæta litlu við sig í fylgi.
Að VG hafi unnið stærri kosningasigur en S finnst mér furðuleg ályktun.
Ef ég fæ 9 á prófi, þá er ég hærri en sá sem fær 7, jafnvel þó hinn aðilinn hafi ekki fengið nema 4 á síðasta prófi og hækkað sig meira en ég í síðara prófinu.
Halldór er er talsmaður kvótabraskarana og greifanna. Alveg eins og vinur hanns og flokksbróðir Kristján þór Júljusson fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði trúnaðarbrotsmaður og kvótaþjófur.
VG vann stærri kosningasigur en S, og sama má segja um Borgarahreyfinguna og Framsókn.