Föstudagur 08.05.2009 - 18:47 - 18 ummæli

Áhyggjur í útgerðarbæjum

Nú heyrir maður af áhyggjum víða af landsbyggðinni vegna fyrirhugaðrar fyrningarleiðar hjá ríkisstjórninni sem verið er að mynda.

Nokkrar sveitarstjórnar hafa nú þegar samþykkt bókanir þar sem lagst er gegn fyrningarleið. T.d. Grindavík þar sem allir bæjarfulltrúar samþykkja slíka bókun, þ.á.m. tveir fulltrúar Samfylkingar og einn fulltrúi Frjálslynda flokksins.

Ekki skrýtið að fulltrúar almennings í sjávarútvegsbæjum samþykki mótmæli gegn fyrningarleið því hún vegur að fyrirtækjum í rekstri og setur atvinnuveginn í uppnám. Allir halda að sér höndum og það hefur svo öfug keðjuverkandi áhrif í þjóðfélaginu. Einmitt þegar við þurfum á því að halda að starfhæf fyrirtæki eins og í sjávarútveginum séu að athafna sig sem mest.

15 fulltrúar útgerðarmanna og fiskverkenda í Ísafjarðarbæ óskuðu eftir fundi með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í dag. Á þeim fundi komu fram áhyggjur þeirra af fyrningarleið og bentu þeir á að í hópi þeirra væru hlutfall nýliða hátt og langflestir ef ekki allir byrjuðu eftir að kvótakerfinu var komið á. Þessir útgerðarmenn og fiskverkendur sögðu okkur að þeirra rekstur yrði í uppnámi ef fyrningarleið yrði farin. Þá þarf nefnilega að takast á við rekstur og skuldir vegna kaupa á aflaheimildum og svo að leigja til baka aflaheimildir sem þeir hafa fjárfest í. Fyrsta árið 5%, næsta ár 10%, þriðja árið 15%, fjórða árið 20% o.s.frv. alveg þangað til alveg verður búið að taka aflaheimildirnar af þeim.

Þá standa eftir skuldirnar og óvissan um hvort þeim tekst að leigja til sín aflaheimildir á markaði þar sem hæstbjóðandi fær þær heimildir sem hann býður í.

Þetta fólk sem kom til okkar var fulltrúar fyrir mjög stóran hluta af útgerð og fiskvinnslu í Ísafjarðarbæ. Þau lögðu fram eftirfarandi áskorun:

,,Áskorun til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, áréttaði í viðtali þann 6. maí sl. að áform um að fara svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi væru enn í fullu gildi og að þeim yrði beitt.

Útvegsmenn og fiskverkendur um land allt, hvort sem þeir gera út stór skip eða smá, hafa eindregið varað við að þessi leið verði farin. Með fyrningarleið er verið að gera að engu þá hagræðingu sem nauðsynleg hefur verið í sjávarútvegi undanfarin ár. Þessi leið er aðför að rekstrargrundvelli atvinnugreinarinnar og þar með undirstöðu lífsafkomu fjölda Vestfirðinga sem starfa í sjávarútvegi eða þjónustugreinum tengdum honum. Við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu er glapræði að vega að undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar.

Við skorum á bæjaryfirvöld að beita áhrifum sínum til að koma í veg fyrir þess aðför. Við skorum á ykkur að standa vörð um stöðugleika sem er forsenda afkomu atvinnugreinarinnar og gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar.

Vestfirskur almenningur þarf á því að halda að raddir ykkar heyrist á opinberum vettvangi til stuðnings sjávarútvegi.“

Undir rita 15 fulltrúar útgerðar og fiskvinnslu í Ísafjarðarbæ.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (18)

  • Guðjón

    Bíddu hverjir eru það í útgerðarbæjunum sem hafa áhyggjur? Alveg örugglega ekki almenningur sem er lafhræddur við að koma fram og taka undir hugmyndir ykkar kvótamanna? Fólkið samþykkir með þögninni einni. Skoðanakannanir sýna að þið eruð fyrir löngu búnir að tapa stríðinu, og þegar svo er sest maður að samningaborðinu og semur um frið en hroki ykkar varðmanna kerfsins er hreint út sagt alveg ótrúlegur. Útgerðarmenn búnir að skuldsetja sjávarútveginn þrisvar sinnum á við það sem hann aflar í útfluningstekjur árlega og samt vogið þið ykkur að halda því fram að kerfið sé vel rekið. Ef ég skuldið þrisvar sinnum húsið mitt, þá væri búið að gera mig upp það eitt veit ég.

    Kem úr „útgerðarbæ“…þannig að ég er ekki sérfræðingur að sunnan, eins og sagt er á mínum heimaslóðum.

  • Benóný Harðarson

    Ég skil þá svo að hafa áhyggjur að þetta er tekið af þeim, EN nú er ég úr Grindavík þínum gamla heima bæ, þú kannast kannski við fyrra nafnið,en hvað með okkur sem erum orðin skíthrædd um það að mennirnir sem eiga kvótann úr bæjarfélaginu, eigendur Þorbjarnar, Vísis og Stakkavíkur eru allir komnir yfir fimmtugt er einhver til að taka við af þeim, eru þeir tilbúnir að skuldbinda sig að selja kvótann ekki úr bæjarfélaginu??

  • sigurður j hafberg

    Hvaða hugmyndir hefur þú Halldór til að tryggja að ekki gerist það sama á Ísafirði með Gunnvör og gerðist á Flateyri með Kamb á sínum tíma.
    Samúð þín gagnvart stöðu okkar á Flateyri endurspeglast í því að þú ert fjórum sinnum búinn að reyna að rústa Grunnskóla Önundarfjarðar þann tíma sem þú hefur verið bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar,svo fátt eitt sé nefnt.
    kv
    Sigurður J hafberg
    Flateyri

  • Kemur á óvart að forsvarsmaður stærsta sveitarfélags þess landssvæðis, sem hefur farið hvað verst út úr kvótakerfinu, skuli taka þessa afstöðu.

  • Þú ættir að skammast þín kvótavarðhundur, komandi úr bæ sem varð illa út úr kvótakerfinu á sínum tíma. Ég nenni ekki að telja upp öll sveitarfélögin sem hafa farið illa út úr þessu kerfi, og hvað þá allt fólkið sem var skilið eftir í verðlausum eiginum með skuldarklafa langt fram eftir aldri. Þú og aðrir Sjálfstæðismenn eruð glæpamenn í mínum augum fyrir það sem þið þessi flokkur er búinn að gera þjóð sinni. Þeir sem þið hafið verið að verja, þ.e. kvótagreifarnir, eru búnir að veðsetja kvótann langt upp í rjáfur og hrifsa til sín verðmæti auðlindarinnar. Ég hef skömm af ykkur öllum upp til hópa sem eruð meðmæltir þessu óréttlæti.

  • Halldór Halldórsson

    Ég hef haft þá stefnu að ummæli hér á síðunni birtist svo framarlega sem þau eru ekki meiðandi í garð annarra.

    Mér er kunnugt um að margir sem halda úti svona síðum hleypa bara sumu í gegn. Ég hef til þessa ekki útilokað nein ummæli.

    Mér finnst samt ekki til of mikils mælst þegar ég óska eftir því að fólk sem hér setur inn ummæli sé málefnalegt og gæti að orðavali sínu.

  • Ég bý á Ísafirði og gleðst yfir því að loksins er komin ríkisstjórn sem ætlar að breyta kvótkerfinu.
    Ég hef áhyggjur af undirlægjuhætti bæjarstjórans gagnvart útgerðarmönnum, þeim fimmtán hræðum sem skipa honum fyrir verkum og hvað hann á að skrifa um. Þeir eru ekki fulltrúar fjöldans.

  • Ef fyrirtækin fara á hausinn vegna 5% fyrningarleiðar, þá eru þau dauðadæmt hvort eð er.
    Ef þau eru hinsvegar traust vegna kvótakerfisins sem við nú búum við (og þau vilja viðhalda), þá er líklegt að fyrningarleiðin styrki þau enn frekar. Hagkvæmustu einingarnar bjóða best, framboð á kvóta til smærri aðila eykst (verðið lækkar) og fjármagnið í greininni helst innan hennar en endar ekki í fjármálabraski á Cayman.

  • Illa rekin fyrirtæki eiga að fara á hausinn.
    Síðan koma nýir eigendur sem vonandi standa sig betur.
    Útgerðarmenn þessa lands hafa einfaldlega rekið fyrirtæki sín mjög illa. Þess vegna eru þau á hausum í dag…

  • Sig.Vald

    Ég hef fylgst með færslum á þessari síðu og undrast ummælin oft á tíðum.

    Í minum hug er foristumaður í sveitarfélagi að skrifa um hagsmuni samfélagsins sem honum virðist mjög umhugað um.

    Þó ég sé í fjarlægð landsbygðar í dag þekki ég vel til þar. Ég veit að atvinnurekstur byggir á frumkvæði einstaklinga og krfati fyritækja.

    Eitt sinn var ég á Suðureyri og eitt sinn á Breiðdalsvík. Þá bæði með togara og allt á fullu. Í dag allt á fullu á Suðureyri en hvað á Breiðdalsvík? lítið. Munurinn er að á Suðureyri hafa kraftmiklir einstaklyngar byggt upp. Nú á að rífa þá nður með fyrnyngarleið.

    Ég hef ekki séð skýrslu um hvað fyrnyungarleið gerir fyrir plássin. Hver þorir að gera svona þegar skýrsla er ekki til?

  • Hvernig hefur kvótakerfið virkað á landsbyggðina ? Auðvitað vilja útgerðarmenn ekki missa það sem þeir hafa en hefur þetta kerfi verið hagstætt fyrir hinn almenna landsbyggðarmann ? Hefur þetta kerfi kanski sogið fjármagn úr landsbyggðinni og flutt suður og út ? Af hverjum hefur þú áhyggjur, útgerðarmönnum eða almenningi ?

  • Benóný ég er ennþá undir fimmtugu en hvað voru þeir gömlu gamlir þegar þeir hættu?

  • Halldór, mér hefur kannski hlaupið kapp í kinn og látið reiði mína skerða dómgreindina og bið ég afsökunar á því, ég virði það að menn leyfi frjáls skoðanaskipti á síðum sínum. Reiði mín stafar af því að ég hef sjálfur orðið fyrir barðinu á þessu kvótakerfi, bæði beint og óbeint, það er þó beint af ykkar völdum, manna sem hafa gætt sérhagsmuna fárra á kostnað fjöldans. Það skýtur bara svo skökku við að menn sem koma frá bæjarfélagi eins og þínu, sem hefur orðið illa útivegna þessa kerfis, að þú skulir verja þessan ósóma íslensks samfélags. Fyrir hvern ertu að tala?

  • Hér eru menn sem óttast það að 5% fyrrning setji einhvern á hausinn, má benda þaim sömu á að sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins minkaði kvótann á einu bretti um 30% fyrir tveimur árum og ekki var sagt eitt einasta múkk. Alveg með ólíkindum að fólk skuli koma með svona rökleysu.

  • Sig vald. ertu að segja að það hafi verið minni kraftur í fólkinu á Breiðdalsvík? Það var útgerð í hverju og einu einasta bæjarfélagi á Vestfjörðum fyrir kvótakerfið, en það er það ekki lengur nema í litlu mæli. Tálknafjörður var með stórt fristihús, togara, og tvo stóra báta sem gerðu út allt árið, enda hægt að veiða yfir 400 þúsund tonn fyrir tíma kvótakerfisins, en vegna brottkasts og löndunar fram hjá vikt hefur tekist að rústa auðlindinni á 30 árum, ætla menn að bíða þangað til all er þurrausið?

  • Benóný Harðarson

    Gestur ekki misskilja mig ég vill fyrst og fremst halda kvótanum í okkar heimabyggð ég byggi mína afkomu af sjávarútvegi og ég er á móti þessari fyrningaleið enþú verður samt að sjá það að við hin getum líka verið hrædd um að allt heila klabbið verði bara selt annað á einni nóttu, ég ber mikla virðingu fyrir sjávarútvegsfyrirtækjum í bænum okkar Grindavík það er stót hluti þeim að þakka að við búum aðeins við 3% atvinnuleysi en ekki 11-14 eins og nágrannasveitarfélögin, það er stór hluti þeim að þakka að við erum með eitt sterkasta íþróttalíf á landinu, það er stór hluti þeim að þakka að allir sem viljaog nenna geta verið með mannsæmandi laun, svona er staðan í dag en hvað þegar ykkar tími er liðinn…

    Þú spyrð líka hvað þeir gömlu voru gamlir þegar þeir hættu, ætli þeir hafa verið á milli 60-70, en þeir sáu líka sóma sinn flestir að halda kvótanum í okkar frábæra byggðalagi….

  • Halldór Halldórsson

    Benóný hefur áhyggjur af því hvað geti orðið um kvótann ef eigendur ákveða að selja. Þetta áhyggjuefni hefur alltaf fylgt útgerð og fiskvinnslu og reyndar hvaða atvinnugrein sem er. Líka fyrir daga kvótakerfisins.
    En ég held að það sem Benóný lýsir svo ágætlega sé einmitt helsti gallinn á kerfinu. Þ.e. hættan á að byggðarlag missi frá sér heimildir.

    Mér sýnist að með fyrningarleið sé verið að auka á þá áhættu fyrir byggðarlög sem ráða ekki við að leigja til sín. Auðvitað vona ég að þar hafi ég rangt fyrir mér.

    Hugsanlega má leysa þetta atriði með kvótasjóði sem kaupi aflaheimildir þegar þær eru til sölu. Viðurkenni að ég hef ekki skoðað þetta mikið m.t.t. hvað verður um frjáls markaðsviðskipti. En þarna er a.m.k. leið til að verja byggðarlögin en um leið ekki vera að skerða möguleika fyrirtækja sem eru ekkert annað að gera en stunda útgerð og vinnslu og eru ekkert að hugsa um að selja aflaheimildir.

    Valsól spyr fyrir hvern ég sé að tala. Ég hélt að það væri augljóst en ég skal samt taka það sérstaklega fram. Ég tala alltaf fyrir þeim hugmyndum og rökum sem ég tel koma samfélaginu best og því fólki sem þar býr. Ef það lítur út eins og barátta fyrir sérhagsmunum eins og í tilfelli fyrningarleiðar þá er það ekki svo. Ég tel einfaldlega að fyrirtækin okkar sem eru starfandi í sjávarútvegi séu góð tæki samfélagsins til að tryggja þar góð lífsskilyrði.

    Tilvera þeirra er ekki nægjanleg og því hef ég barist fyrir, og oft náð árangri sem betur fer, nýjum tækifærum hér í samfélaginu.

  • Halldór!

    íslensk stjórnvöld hafa verið dæmd fyrir mannréttindabrot vegna núverandi kerfis. Á að horfa framhjá því?

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur