Nýrri ríkisstjórn vil ég óska alls hins besta. Það er mikilvægt að stjórninni gangi vel að vinna úr þeim fjöldamörgu málum sem nauðsyn er að leysa og það helst strax.
Mest aðkallandi eru efnahagsmálin með efnahag heimilinna og fyrirtækjanna í forgrunni. Almenningur hefur miklar væntingar til nýrrar ríkisstjórnar og þau heimili og fyrirtæki sem standa verst þurfa að fá úrlausn sinna mála hratt.
Ég hef ekki lesið stjórnarsáttmálann nákvæmlega en finnst við fyrstu sýn mikilvægt að hafa skýr markmið eins og 100 daga til að takast á við dýpsta efnahagsvandann.
Sameining ráðuneyta með fækkun úr 12 í 9 um næstu áramót hljómar vel. Mér sýnist hugmyndir um sveitarstjórnarráðuneyti koma til móts við hugmyndir sveitarstjórnarmanna. Það á að enda í nýju innanríkisráðuneyti sem er áhugavert. Maður á auðvitað eftir að átta sig betur á þessu en mér finnst mikilvægt að sameina málaflokka sem tengjast sveitarstjórnarmálum betur.
ESB málin eru í nokkrum vanda hjá þessari ríkisstjórn. Ég vona auðvitað að Alþingi veiti aðildarviðræðum við Evrópusambandið brautargengi. Það verður væntanlega hlutverk stjórnarandstöðu að ákveða það. Ég vona svo sannarlega að mínir flokksfélagar í Sjálfstæðisflokknum greiði því atkvæði. Svo er það þjóðarinnar að taka endanlega ákvörðun. Mér finnst Alþingi ekki geta staðið í vegi fyrir því.
Svo hefur maður auðvitað áhyggjur af fyrningarleið í sjávarútvegi. Mér finnst almenningur og fyrirtæki í sjávarbyggðunum hafa barist svo lengi. Ekki síst hér á Vestfjörðum þar sem of lengi var barist gegn kvótakerfinu. En nú þegar fyrirtækin hafa náð vopnum sínum innan þess kerfis þá kemur breyting. Ég hef mestar áhyggjur af þeim sem eru nýir í kerfinu og minni fyrirtækjum.
En forystumenn ríkisstjórnarinnar lofa samráði vegna þessarar leiðar. Við skulum vona að það fari allt saman vel.
Þarna sest gott fólk að borði ríkisstjórnarinnar. Fyrstu vinstri stjórnarinnar sem er með hreinan meirihluta á lýðveldistímanum. Verkefnin eru erfið. Við þurfum öll að taka á árunum með þeim og gefa stjórninni tækifæri til að sýna hvað í henni býr.
Gangi ykkur vel.
Sæll Halldór.
Ég er ekki skoðanabróðir þinn í stjórnmálum, en tek eftir þeim þroska og velvilja sem þú sýnir umfram marga stjórnmálamenn í þessum skrifum þínum (hvar í flokki sem þeir standa). Ég tel að það ríði á að við tökum saman um að vinna okkur upp úr þeim pytti sem við erum sokkin í, en það gerum við ekki með því að spyrna hvert öðru í kaf.
Því er ekki að neita að það er nærandi að finna eins og einn stjórnmálamann sem rís yfir dægurþrasið og e.t.v. eru ekki allir stjórnmálamenn í vinnu við að ata keppinautana auri, því óneitanlega verður sá sem kastar skít dálítið illa lyktandi sjálfur.
Vegni þér sjálfum sem best, því það er augljóst að þér er hægt að fela trúnað.
Reykvíkingur.
Sammála síðasta ræðumanni!
Sama hér!
Persónukjör á Íslandi er að mínu mati röng leið, það hefur t.d. sýnt sig að prófkjör hafa leitt til mikilla kostnaðar aukiningu fyrir frambjóðendur og leitt af sér styrki sem teljast verða óeðlilegir. Einnig sést það kannski best að þeim sem vegnar best í prófkjörum eru þekktir einstaklingar, (samanber alla fyrverandi fjölmiðlamenn á þingi). Það hefur líka verið sýnt að persónukjör hyglir sitjandi fulltrúum og veitir þeim óeðlilegt forskot. Það hefur sést greinilega í Bandaríkjunum þar sem að margir þingmenn í öldunga- og fulltrúadeildinni eru nánast með áskrift að sínum sætum. Ef þú ert óþekktur og með takmarkað fjármagn skiptir engu máli hversu klár eða hæfur þú ert.