Miðvikudagur 06.01.2010 - 21:57 - Rita ummæli

Tiltekið hlutfall kosningabærra

Ég skrifaði um viðbrögð nokkurra við ákvörðun forseta Íslands í gær. Þau eru ólík því sem var þegar hann synjaði því að staðfesta fjölmiðlalögin. Svona er nú pólitíkin á Íslandi og því miður víðar, það fer eftir því hvorum megin við borðið fólk situr, hver afstaða þess er. Þetta er sem betur fer ekki algilt en of algengt.

Mér finnst eins og fyrr að breyta þurfi stjórnarskrá lýðveldisins þannig að einn einstaklingur, forseti Íslands, hafi ekki þann rétt að hafna staðfestingu laga sem 63 kjörnir fulltrúar á Alþingi hafa rætt fram og til baka og að endingu tekið ákvörðun um í atkvæðagreiðslu.

Öryggisventillinn þarf að vera hjá kjósendum þannig að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að atkvæði verði greidd um umdeild mál. Einnig þarf að ræða hvort ekki eigi að skilgreina í stjórnarskrá að ákveðin mál fari ávallt í þjóðaratkvæði.

Kerfið til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að vera betra en undirskriftir Indefence hópsins. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir því framtaki en því miður voru á því gloppur. Fólk er á listanum án þess að hafa skrifað sig sjálft á hann.

Mér þykir miður ef kjósendur eru að senda þingmönnum, sama hvar í flokki þeir eru, hótanir vegna afstöðu þeirra með eða á móti Icesave. Við verðum að ná okkur upp úr skotgrafarfarveginum og geta rætt umdeild mál án þess að meiða hvort annað. Kannski hefur Alþingi ekki verið okkur góð fyrirmynd undanfarin misseri og vitanlega hefur erfitt ástand sín áhrif. En samt þá verðum við að sýna hvort öðru og skoðunum hvors annars tilhlýðilega virðingu og skilning. Það er oft erfitt, ég þekki það en nauðsynlegt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur