Þriðjudagur 12.01.2010 - 19:46 - 4 ummæli

Við erum flottust…….nei aumingjar

Ég hef að undanförnu skrifað aðeins um umræðuhefðina í stjórnmálum á Íslandi. Núna langar mig að skrifa aðeins um sjálfsmynd okkar og hvernig við ræðum um sjálf okkur.

Við Íslendingar erum lítil þjóð sem hefur náð þeim árangri að vinna okkur úr mikilli fátækt í lífsskilyrði sem eru með því besta sem þekkist.

Í mesta uppganginum var umræðan meðal manna (ekki allra, það þarf varla að taka það fram) og í fjölmiðlum að við Íslendingar værum ótrúlegir. Við gætum allt og værum í útrás. Við værum að kaupa upp Danmörku og gagnrýni þaðan væri öfundssýki. Útlendingar gætu lært af okkur.

Við værum flottust og stærst og best.

Núna les maður greinar þar sem við erum ekki lengur flottust, stærst og best. Nei hálfgerðir aumingjar. Ástandið svo slæmt að nú verði fólk hreinlega að flytja í stórum stíl úr landi. Svona grein má lesa á bloggi Egils Helgasonar í dag, 12. jan.

En er ekki best fyrir okkur að rata einhvern meðalveg þarna þó ekki væri nema í umræðunni? Við verðum að takast á við þessi vandamál og getum svo sem velt okkur endalaust upp úr þeim en þetta er verkefnið. Vonandi gerir ríkisstjórnin okkur kleift að vinna okkur út úr vandanum án þess að skattleggja fólk og fyrirtæki í átt að vandanum frekar en frá honum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (4)

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Ég er algjörlega sammála þér Halldór.

    Ég verð að segja að ríkisstjórnin á svolítið sök á þessu hugarástandi okkar Íslendinga, því í öðru orðinu heldur hún því fram – ásamt AGS – að framtíðarhorfur hér á landi séu „öfundsverðar“, en í hinu orðinu er hér allt að fara fjandans til.

    Á undanförnum vikum hefur þetta síðan gengið út yfir allan þjófabálk!

  • Sammála þér Halldór. Sérð þú fyrir þér stöðuna fyrir sveitarfélögin varðandi endurfjármögnun á næstu árum verði ekki gengið frá þessu með einhverjum hætti

  • Sammála menn fara offari í öllu á þessu landi. Eina sem ekki er farið offari í er uppræting spillingar.

    Úr því að þú ert í skynsemisskapi væri ekki flott að hringja í Bjarna Ben og biðja hann að segja af sér? Hringja í Gunnar kollega í Kópavogi og biðja hann líka að hætta að skipta sér af pólitík. Byrjum á okkar umhverfi ekki benda á aðra.

    „All that is necessary for the triumph of evil is that good men do nothing“
    Edmund Burke.

  • Halldór Halldórsson

    Skynsemisskap er skemmtileg orðasamsetning. Ég vona að ég sé oft í skynsemisskapi.

    Varðandi fyrirspurn um endurfjármögnun þá gildir sama um sveitarfélögin, ríkið, fyrirtækin og heimilin. Það er ekki hægt að fara í stórar fjárfestingar nema fá lán og það er dýrara að endurfjármagna erlendu lánin með innlendum lánum.

    En þannig hefur staðan verið hjá okkur frá hruni og við getum seiglast þetta eitthvað áfram. En það er ljóst að þetta þarf að breytast. Það kann að vera kostur að bíða eitthvað núna vegna Icesave, þ.e. ef í kjölfar biðar sigla betri samningar.

    Ég sagði um daginn að ruslflokkur í lánshæfismati breytti engu fyrir sveitarfélögin. Þá var ég að vísa til þess að við höfum nánast verið án erlendar fjármögnunar frá hruni og þetta breytir ekki stöðunni eins og hún er í dag. Hins vegar reiknar maður með að við komumst úr ruslflokknum. Þegar ég sagði þetta var ég líka með í huga að manni fannst lánshæfisfyrirtækið ansi fljótt að demba okkur í þennan flokk og mér finnst þau ekki hafa verið trúverðug þessi lánshæfisfyrirtæki. Ísland var mjög hátt flokkað þegar ástandið hérna var orðið slæmt í bankakerfinu.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur