Miðvikudagur 17.02.2010 - 20:47 - 11 ummæli

Fyrningarleið var ekki efst á baugi hjá kjósendum

Sá hluti stjórnarliða sem talar fyrir því að stórskaða fyrirtæki í sjávarútvegi og þar með landsbyggðina alveg sérstaklega heldur því fram að um þetta hafi verið kosið vorið 2009.

Það var talað um fyrningarleið í kosningabaráttunni en það sem fólk talaði mest um var bankahrunið og að stjórnarflokkarnir hefðu látið þetta gerast á sinni vakt. Einhverra hluta vegna ákváðu kjósendur að refsa Samfylkingunni ekki fyrir að vera annar stjórnarflokkanna en refsuðu Sjálfstæðisflokknum fyrir það. Eðlileg viðbrögð kjósenda að mörgu leyti því flokkurinn hafði verið miklu lengur í stjórn en Samfylkingin.

Þessu til viðbótar ákváðu margir kjósendur (alltof margir að mínu mati) að veðja á Samfylkinguna vegna stefnu um aðild að ESB.

Þetta heyrði ég fullmarga tala um (þ.e. ESB áhersluna hjá Samfylkingunni) og svo hrunið. Enginn var að tala um fyrningarleiðina.

Þess vegna held ég því fram að kjósendur hafi ekki verið neitt sérstaklega að hugsa um sjávarútveginn þegar þeir greiddu atkvæði.

Vitanlega einhverjir en að mínu mati ekki nema lítill hluti þeirra sem völdu núverandi stjórnarflokka í kjörklefanum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

«
»

Ummæli (11)

  • Ómar Harðarson

    Þetta getur svo sem verið rétt hjá þér, að margir kjósendur hafi ekki verið mjög áfjáðir um fyrningarleiðina. Alla vega ekki kjósendur Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Borgarahreyfingar. Þetta má hins vegar segja um mörg þjóðþrifamál sem ratað hafa inn í málefnasamninga.

    Fyrningarleiðin var þó á stefnuskrá beggja þeirra flokka sem náðu meirihluta. Hún var rædd í kosningabaráttunni. Ólíkt öðrum kosningum gengu flokkarnir ekki alveg óbundnir til kosninga, þannig að það var ljóst hvað stefna yrði tekin í sjávarútvegsmálum næðu Vg og Sf meirihluta.

    Það er þörf á orðheldni í íslenskum stjórnmálum. Það yrði ekki stjórnmálamönnum, hvar í flokki sem þeir standa, til framdráttar ef ríkisstjórnin brygðist kjósendum með þeim hætti sem þú mælir með.

  • Ásgeir Gunnarsson

    þinglýsa kosningarloforðum eina sem dugar á ykkur

  • Þið fjörulallarnir í Ríkisflokkum verið að fara að skammast ykkar og koma ykkur af landinu. Skelfilegt að hlusta og horfa á ykkur greyin. Farvel

  • Fyrningarleiðin var rækilega rædd hér norðan heiða. Hún ætti reyndar að heita Innköllunarleiðin. Hitt er villandi.

  • „Sá hluti stjórnarliða sem talar fyrir því að stórskaða fyrirtæki í sjávarútvegi og þar með landsbyggðina alveg sérstaklega heldur því fram að um þetta hafi verið kosið vorið 2009“.

    Þarna komstu loks grímulaus til dyranna !

    Mér ofbýður þetta rugl í þér maður !

    Reyndu nú að fara með rétt mál í þessari umræðu um fyrningarleiðina.

    Annað hvort hefur þú ekki hæfileika til að meta áhrifin af fyrningarleiðinni eða þú beinlínis lætur mata þig á skoðunum.

    Mér finnst það mikið ábyrgðarleysi af bæjarstjóra að ganga með slíkum hætti gegn hagsmunum almennings í Ísafjarðarbæ og allra Vestfirðinga.

  • Jóhannes Laxdal

    Halldór, ég hef aldrei skilið þessa afstöðu þína og annarra sveitastjórnarmanna sem hafið varið „eignarrétt“ útgerðarmannanna yfir veiðiheimildunum. Ég bjó á Ísafirði þegar þar var blómleg útgerð og 2 stór frystihús auk nokkurra lítilla fiskverkunahúsa og þriggja rækjuverksmiðja. Nú skilst mér að þessu sé öllu hætt. Og hver heldur þú að orsökin sé? Það skyldi þó ekki vera kvótakerfið og framsalið og söfnun kvótans á fáar hendur. Hvað gerðir þú þegar Hinrik Kristjánsson á Flateyri seldi gjafakvótann sinn og flutti suður? Gerðir þú eitthvað til að tryggja að aflaheimildirnar yrðu áfram nýttar á staðnum? Eða trúið þið sjálfstæðismenn blint á kvótaguðspjallið? Innköllun veiðiheimilda felur ekki í sér að hætta eigi veiðum. Þvert á móti þá mun útgerðarmönnum áfram tryggður réttur til veiða. Eina varanlega breytingin er að þeim verður ekki heimilt að braska með veiðiréttinn. Og þeir sem núna leigja til sín aflaheimildir munu áfram geta gert það en bara á miklu sanngjarnara verði. Þessari hræðsluáróðursmaskínu sem sett hefur verið í gang af LÍÚ verður að svara af stjórnvöldum. Ég auglýsi eftir viðbrögðum stjórnarsinna. Það er ekki nóg að Ólína tali

  • Það veit enginn til hvers þessi fyrningarleið leiðir, ekki einu sinni útgerðaraðallinn hvað þá Ólína þó hún sé hávær um hana. Ég hef ekki mikla trú á að hún verði farin, til þess er hún of óviss en hins vegar er brýn nauðsyn að stöðva framsalsheimildina hún er skaðvaldurinn.

  • Guð hjálpi þeim sem halda að fyrninarleiðinn færi eitthvað réttlæti inní íslenskt samfélag. Þetta er bara slæmur og heimskulegur skattur. Hvorki meira né minna. Tekur ekki á neinum meintum vandamálum á aflamarkskerfinu.

  • Stjórnmálaflokkar eru með margt á stefnuskránni fyrir kosningar. Það er ekki hægt að segja að allir kjósendur eins flokks séu sammála öllum stefnumálunum.
    Sjálfstæðisflokkurinn notaði reyndar þessi rök til að réttlæta byggingu Kárahnjúkavirkjunnar og afnám hátekjuskattsins.

  • Halldór Halldórsson

    Ég ætti ekki að þurfa að taka það fram einu sinni enn að skoðanir mínar byggjast ekki á skoðunum annarra heldur reynslu og þekkingu á því sem til umræðu er. Það kunna að vera um það skiptar skoðanir, og eru, en það er óþarfi að gera manni upp að skoðanir mínar séu byggðar á skoðunum einhverra annarra.

    Að gera mér það upp að ég sé talsmaður einhverra ákveðinna aðila, hvað þá LÍÚ, er algjör firra. Ég stend sjálfur fyrir minn málflutning og tel að með því standi ég hvað best vörð um hagsmuni míns samfélags.

    Og einu sinni enn. Ég hef aldrei varið eignarrétt nokkurs yfir auðlind okkar. Veiðiheimildirnar eru afnotaheimild útgerðarmanna að sameiginlegri auðlind okkar Íslendinga. Þeir eiga ekki auðlindina. Til að tryggja góðan rekstur fyrirtækja í sjávarútvegi og þannig að fá góðan arð fyrir þjóðina á að láta fyrirtækin í friði meðan þau einbeita sér að því að veiða og vinna fisk. Langflest eru að því. Breytingar á sjávarútvegskerfinu eiga ekki að bitna á þessum fyrirtækjum.

    Það hefur verið dregið úr veiðum á Íslandsmiðum síðan tvö stór frystihús voru á Ísafirði auk fjölda rækjuverksmiðja. Rækjan hætti nánast að veiðast á tímabili og hefur reyndar ekki verið veidd í Djúpinu í nokkur ár. Þetta þekkja allir.

    Það sem ég gerði þegar fréttist af því að Hinrik á Flateyri væri að hætta var að setja mig í samband við útgerðarmenn á svæðinu og hvetja þá til að kaupa aflaheimildir. Þeir gerðu það og lögðu í það fjármuni og/eða skuldsettu sín fyrirtæki til þess.

    Nú á að taka það af þeim með fyrningarleið.

  • Jóhannes Laxdal

    Takk Halldór, Ég held það sé útbreiddur misskilningur eða lúmskur áróður að halda því sífellt fram að það eigi að taka veiðiheimildir af mönnum og rústa fyrirtækjunum. Það dettur engum í hug. Þeim sem eru í útgerð og hafa til þess fjárhagslega burði að gera út gegn hóflegu afgjaldi, fá auðvitað forkaupsrétt að þeim kvóta sem þeir sannanlega hafa sjálfir nýtt á einhverju ákveðnu árabili. Þeir sem hafa leigt frá sér kvóta hafa auðvitað misst þann rétt til þeirra sem leigðu til sín. Þetta tel ég kjarnann í innkölluninni. Og ég vara við einkverju „uppboði“ á aflaheimildum. Ákveða þarf hóflegt afgjald sem útgerðum gefst kostur á að færa sem kostnað, eins konar hráefnisverð. En á móti þarf að gera ráðstafanir til að sjávarbyggðirniar njóti auðlindarinnar. Kannski með því að skylda menn til að bjóða aflann til sölu í sinni heimabyggð? En slík útfærsla þarf að vera með aðkomu allra hagsmunaaðila

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur