Föstudagur 19.02.2010 - 16:50 - 1 ummæli

Málefni fatlaðra, nærþjónusta sveitarfélaga

Stefnt er að því að málefni fatlaðra færist frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 og að því er unnið. Framundan er vinnufundur sveitarfélaga 24. febrúar um þetta mikilvæga mál.

Um langa hríð hefur verið vilji fyrir því að færa málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Það gekk næstum eftir árið 2001 en þá slitnaði upp úr viðræðum. Mikil vinna hafði þá verið lögð í undirbúning þess máls og fyrir lá frumvarp til laga um félagsþjónustu þar sem þjónusta við fatlaða var felld inn í þann lagabálk. Í raun strandaði málið á því að sveitarfélögin vildu hafa endurskoðunarákvæði í samningi um yfirfærsluna þar sem að tilteknum tíma liðnum yrði þróun kostnaðar og tekna við þjónustuna endurmetin í ljósi reynslunnar.

Árið 2006 fór málið af stað aftur og undanfarin misseri hefur mikil vinna átt sér stað.

Bæði hjá sveitarfélögum, ríki og hjá hagsmunasamtökum fatlaðra hefur verið vilji fyrir því að færa málaflokkinn til sveitarfélaganna. Svo virðist sem flestir telji að þjónusta við fatlaða eigi betur heima hjá sveitarfélögum en ríki.

Það er a.m.k. sameiginlegur skilningur flestra að málaflokkurinn eigi ekki að vera hjá bæði ríki og sveitarfélögum eins og í dag því það skapar grá svæði milli þjónustuaðila með slæmum afleiðingum fyrir þá sem þjónustuna þurfa.

Rannsókna­miðstöð Háskólans á Bifröst vann að beiðni félagsmálaráðuneytisins, vorið og sumarið 2006, rannsókn á viðhorfum sveitarstjórnarmanna og alþingismanna til framtíðar íslenska sveitarstjórnar­stigsins. Könnunin var þýðiskönnun og náði til allra alþingismanna, sveitarstjórnarmanna og fram­kvæmda­stjóra sveitar­félaga í landinu.

Meðal helstu niðurstaðna var þetta:

  • Mikill meirihluti sveitarstjórnar­- og alþingis­manna telur þörf á að efla sveitarstjórnarstigið á Íslandi.
  • Góður meirihluti er jafnframt þeirrar skoðunar að sveitarfélögin séu ekki nægilega öflug til að standa undir núverandi lögbundnum verkefnum og að fjöldi fámennra sveitarfélaga valdi því að íslenska sveitarstjórnarstigið sé veikara en ella.
  • Þrír af hverjum fjórum telja æskilegt að sveitarfélögin taki við fleiri verkefnum frá ríkisvaldinu.
  • Málefni aldraðra og fatlaðra eru þeir málaflokkar sem stjórnmálamenn telja æskilegast að sveitarfélögin taki yfir. Þetta á sérstaklega við um málefni aldraðra en hartnær þrír af hverjum fjórum svarenda vilja flytja þann málaflokk til sveitarfélaga.
  • Þá telja stjórnmálamenn að það sé æski­legt að hækka lágmarksíbúatölu sveitarfélaga og er þá oftast nær nefnd lágmarkstala um og yfir 1000 íbúar.
  • Á sama tíma telur mikill meirihluti stjórnmálamanna að tillögur um sameiningu sveitar­félaga skuli leggja í dóm kjósenda með atkvæðagreiðslum.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið um haustið 2006 að afloknum sveitarstjórnarkosningum um vorið. Margt var til hliðsjónar á þinginu, m.a. þessi könnun.

Á landsþinginu var samþykkt að fara í stórar yfirfærslur verkefna frá ríki til sveitarfélaga eins og sveitarstjórnarstigið er í dag eða var árið 2006, það hefur ekki breyst mikið síðan þá. Það var með öðrum orðum ákveðið að bíða ekki eftir frekari sameiningum sveitarfélaga og þannig öflugra sveitarstjórnarstigi heldur að sveitarfélögin yrðu að vinna saman að yfirtöku verkefna á ákveðnum landssvæðum eða að sameinast eða annað sem dygði til að ráða við verkefnin.

 Samþykktin er þessi:

,,Mikilvægt er að nú þegar verði hafin vinna við færslu verkefna milli stjórnsýslustiga. Sveitarfélögin lýsa vilja sínum til að taka við verkefnum á sviði heilbrigðis-, mennta- og félagsmála.”

Fyrir þessum vilja sveitarfélaganna í landinu eru ýmsar ástæður. Skulu nokkrar þeirra nefndar hér:

Í fyrsta lagi er velferðarþjónusta og þar á meðal félagsleg þjónusta við íbúana hér á landi í meira mæli verkefni ríkisins og hlutdeild sveitarfélaganna þar af leiðandi minni í ráðstöfun opinberra útgjalda og skipulagningu þjónustunnar en í öðrum norrænum ríkjum sem við berum okkur gjarnan saman við. Í öðrum norrænum ríkjum eru sveitarfélögin með um 60–70% af starfsemi hins opinbera í heild sinni en hér á Íslandi ráðstafa þau um 33% opinberra útgjalda. Skýringin á þessu liggur annarsvegar m.a. í því að þriðja stjórnsýslustigið annars staðar á Norðurlöndum hefur farið með tiltekin opinber verkefni og hinsvegar í fjölda fámennra og vanburðugra sveitarfélaga á Íslandi.

Í öðru lagi er þjónustan bæði á hendi ríkis og sveitarfélaga og í sumum tilvikum ekki nægjanlega glögg skil á því hver á að veita hvaða þjónustu. Það kann að leiða til þess að hvor vísar á annan og þeir sem leita eftir þjónustu vita ekki hvert þeir eiga að leita.

Í þriðja lagi hefur félagsleg þjónusta og önnur opinber þjónusta verið færð frá ríki til nokkurra sveitarfélaga með þeim hætti að sveitarfélögin hafa tekið að sér verkefni, eins og á sviði þjónustu við fatlaða, málefna aldraðra og heilsugæslu, á grundvelli þjónustusamninga við ríkið. Reynsla af því fyrirkomulagi er góð og hefur mælst vel fyrir bæði af þeim sem við þjónustuna starfa og þeirra sem hennar njóta. Gallinn er hinsvegar sá að ríki og sveitarfélög þurfa að semja hverju sinni um fjármögnun þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin taka að sér að veita og óvissa getur ríkt um framhald þessa fyrirkomulags.

Í fjórða lagi má vísa til þess að sveitarfélögin eru það stjórnvald sem stendur næst íbúunum og á best að geta metið þörf þeirra fyrir þjónustu almennt og lagað hana að staðbundnum aðstæðum sem geta verið ólíkar eftir svæðum og sveitarfélögum. Það getur miðstýrt ríkisvald í takmarkaðra mæli.

Eins og flestir þekkja hefur vinna við yfirfærsluna staðið yfir frá árinu 2007. Fyrsta fundargerð verkefnisstjórnarinnar er frá apríl 2007.

Viljayfirlýsing milli ríkis og sveitarfélaga um málefni fatlaðra var undirrituð 13. mars 2009, hlutverk hennar er að undirstrika sameiginlegan vilja aðila um að halda áfram með vinnuna. Samkvæmt henni skal skilgreina þjónustusvæði á árinu 2010 og sveitarfélög þurfa að hefja nauðsynlegan undirbúning. Víðast er þessi vinna komin nokkuð af stað. Þá er miðað við að yfirfærslan eigi sér stað 1. janúar 2011 og svo er mikilvægt endurskoðunarákvæði miðað við árið 2014.

Í endurskoðunarákvæðinu er tekið á fjárhagslegum áhrifum tilfærslunnar. Komi í ljós að forsendur hafi ekki staðist mun fara fram leiðrétting á tekjutilflutningi milli ríkis og sveitarfélaga vegna verkefnisins.

Ég hef heyrt þær raddir sem segja, að á krepputímum sé ekki skynsamlegt að sveitarfélög taki við nýjum verkefnum. Ég er ekki sammála því. Þessi flutningur byggir á margra ára vönduðum undirbúningi. Hugmyndafræðin að baki honum er einnig þannig, að hinir tveir aðilar hins opinbera sem almannaþjónustu veita eru að færa til verkefni á sanngjarnan hátt. Þetta er ekki spurning um að annar aðilinn græði eða tapi. Þetta er samstarfsverkefni sem verður fylgst mjög vel með sameiginlega hvernig mun þróast og það verur farið í tekjuleiðréttingar reynist þess þörf. Sveitarfélögin munu taka við ákveðnu þjónustustigi og þau munu þróa það eins og efni og ástæður leyfa. Flutningur þessa verkefnis mun leysa ýmis vandamál sem alltaf verða til vegna þeirra gráu svæða sem skapast milli ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlaða. Það kemur þeim best sem þurfa á þjónustunni að halda en einnig sveitarfélögunum sjálfum sem geta samnýtt margt betur í sinni stjórnsýslu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • Sigursteinn Másson

    Þetta er góð grein Halldór. Það er sjálfsagt að halda yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga til streitu þrátt fyrir kreppu eða öllu heldur enn frekar vegna hennar. Réttast hefði verið að færa þjónustuna við aldraða yfir um leið. Hinsvegar tel ég að forsendur þess að vel takist séu þær að sveitarfélög sameinist sem allra fyrst og myndi mun öflugari einingar. Hugmyndir um fækkun sveitarfélaga úr 78 í 17 hugnast mér vel. Einnig er brýnt að með yfirfærslunni sé ekki aðeins verið að framkvæma tæknilegan gjörning, þ.e.a.s að þjónustan haldist svo til óbreytt heldur verður að stokka hana upp og afstofnanavæða og horfa þá sérstaklega til notendastýrðs persónulegs aðstoðarmannakerfis og svo talsmannakerfis fyrir þá sem ekki geta stýrt þjónustu sinni sjálfir. Það verður að færa fötluðum og öldruðum vald yfir eigin lífi og ég treysti því að það verði leiðarstefið með yfirfærslunni. Bestu kveðjur vestur!

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur