Í dag komu fulltrúar sveitarfélaganna í landinu saman til vinnufundar um málefni fatlaðra. Þessi fundur var sérstaklega hugsaður til að fjalla um málið frá sjónarhóli sveitarfélaganna. Við höfum haldið fundi með öllum hagsmunaaðilum og tökum alvarlega setninguna góðu: ,,Ekkert um okkur án okkar.“
En núna vorum við að ræða hvað þyrfti að gera þá rúmu 10 mánuði sem til stefnu eru þar til málefni fatlaðra flytjast frá ríki til sveitarfélaga. Sveitarfélögin eru að taka ákvarðanir um þessar mundir um það hvernig best verði staðið að verkefninu. Útfærslurnar verða misjafnar. Sum stærri sveitarfélögin eiga þann möguleika að taka verkefnið beint til sín en önnur þurfa að vinna saman, jafnvel í heilu landshlutunum því miðað er við að lágmarksfjöldi íbúa á þjónustusvæði verði almennt ekki undir 7-8 þús. Frá því eru möguleg frávik en þetta er viðmiðunin.
Það kom fram á fundinum að á vettvangi landshlutasamtaka sveitarfélaga er verið að vinna af kappi að því hvernig best verði staðið að verkefninu á hverju svæði.
Öll sveitarfélög vinna eftir þeirri hugmyndafræði að málaflokkurinn verði eðlilegur hluti af þeirra starfsemi með þeim samlegðaráhrifum sem því fylgja.
Miðað er við skilgreiningu á málaflokknum eins og hann er rekinn í dag. Þannig er hægt að meta þjónustuþörfina í dag, biðlista o.fl. sem þarf að meta vegna þeirra tekna sem fylgja verkefninu frá ríki til sveitarfélaga. Svo má reikna með að þjónustan breytist og þróist hjá sveitarfélögunum enda eiga þau að geta verið sveigjanlegri en ríkið í þessari nærþjónustu. Auðvitað má ekki hífa væntingarnar upp úr öllu valdi við þær aðstæður sem nú eru í rekstri þjóðarbúsins en sveigjanleikinn og samlegðaráhrifin við aðra þjónustu sveitarfélaganna gefur möguleika á þróun þjónustunnar.
Árið 2014 er svo endurskoðunarákvæði um að ríki og sveitarfélög fari yfir það hvernig rekstur málaflokksins hefur þróast og hvort nægilegir fjármunir hafi fylgt. Þetta er mikilvægt ákvæði sem gerir okkur kleift að meta hvað hefur breyst og hvers vegna. Komi í ljós að einhver verkefni hafi verið vanáætluð þarf ríkið að bæta sveitarfélögunum það.
Þetta endurskoðunarákvæði og mjög vönduð vinna sannfærir vonandi þá sveitarstjórnarmenn sem eru áhyggjufullir og vilja bíða með að taka yfir málaflokkinn um að það er rétt að halda ótrauð áfram í samræmi við markaða stefnu og færa málefni fatlaðra til sveitarfélaganna 1. janúar 2011.
Þeir tæplega 200 sveitarstjórnarmenn og aðrir fulltrúar sveitarfélaganna í dag ræddu þessar áhyggjur, stöðuna í dag og þann stutta tíma sem er til stefnu. Að loknum þeim umræðum kynntu hópstjórar niðurstöðu hvers hóps. Það var mikill samhljómur í þeim niðurstöðum. Áfram skal haldið með þetta metnaðarfulla verkefni, mikið er búið, mikið er eftir en við erum á réttri leið.
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.