Hvernig mun ríkið, sem ég tek fram að ég tel ekki nokkurn vafa leika á að er eigandi allra auðlinda, úthluta aflaheimildum verði þær innkallaðar? Umræðan snýst um réttlæti og ég tek undir að margar sjávarbyggðir hafa orðið fyrir miklu óréttlæti. En meginvandinn er sá að það hefur dregið svo mikið úr heildarveiðum að miklu minna er til skiptanna.
Þess vegna er orðalag um að við stöndum í fjöruborðinu og horfum út á fiskimiðin án þess að mega nýta þau í raun marklaust vegna þess að ekki verður farið í kerfi frjálsra veiða. Ég hef ekki heyrt neinn þingmann tala um það.
Þess vegna kemur upp spurningin hvernig á að úthluta aflaheimildum upp á nýtt? Leigja hæstbjóðanda? Þá munu margir missa af því. Úthluta á byggðirnar? Þá er það spurningin um sérhæfingu og hvað gerist ef aflabrestur verður á ákveðnum landssvæðum, þá kemur líka upp hætta á offjárfestingu í sjávarútvegi miðað við heildarafla á Íslandsmiðum.
Hvernig á að úthluta heimildum til veiða á uppsjávarfiski? Verður því kannski dreift á allar byggðir landsins? Það eru ekki margir sem sérhæfa sig í uppsjávarveiðum.
Á kannski að úthluta heimildum til hvers og eins Íslendings? Þá dragast aflaheimildir verulega saman út um landið. Á Vestfjörðum færu þær úr ca. 10% af heildarheimildum niður fyrir 3%.
Sama hvaða aðferð verður notuð þá hljóta heimildir til veiða verða teknar af einum og færðar öðrum. Annað heiti á fiskveiðistjórnunarkerfi fjölgar ekki fiskunum í sjónum.
Ég er hlynntur ákveðnum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. En það verður að gæta þess að skemma ekki það góða starf sem unnið er í sjávarútvegi um allt land.
Hvað ertu að meina Halldór – þessi skrif þín verða vart skilin með öðrum hætti en að þú viljir að mestu halda áfram með kerfi sem skilar stöðugt færri fiskum á land og er uppspretta mikils óréttlæti eins og þú bendir réttilega á?
Væri nú ekki nær að formaður Samtaka íslenskra sveitarfélaga, Halldór Halldórsson verði nú tíma sínum í það að leita leiða út úr ógöngum vonlauss og óréttláts kerfis. Frjálslyndi flokkurinn hefur bent á fjölmargar leiðir s.s. að taka upp sóknarstýrðar fiskveiðar og stórauka atvinnufrelsi í greininni.
Frjálslyndi flokkurinn hefur bent á, að það eigi að gefa krókaveiðar frjálsar. Það yki ekki neitt svo nokkru nemi álag á fiskstofna. Í öðru lagi á að stefna að því að draga smám saman úr veiði með botnvörpu.Þáttur í því er að leyfa ekki botnvörpuveiðar innan við 200 sjómílur. Taka ber fram, að dragnótaveiðar eru allt annar hlutur og umhverfisvænni.
Uppboðsleiðin, eða tilboðsleiðin eins hún hefur verið útfærð er augljóslega sú sem er réttlátust og hagkvæmust fyrir þjóðarbúið. Þeir sem telja sig geta veitt á sem hagkvæmasta máta bjóða hæst verð í leigukvótann. Enginn klíkuskapur enginn ættartengsl eða annað rugl sem ræður. Þeir sem búa við hliðina á miðunum og hafa veiðireynslu hljóta að hafa mikið forskot því þeir vita hvernig á að fá sem mest verðmæti úr aflanum. En þetta útilokar ekki nýliðun eins og núverandi kerfi.
Símon: Það sem mér finnst athugavert við óhefta uppboðsleið er að með því móti stæðu byggðir eins og Flateyri – og raunar flest byggðarlög á Vestfjörðum, uppi enn verr sett en núna. Mér finnst nauðsynlegt að byggðatengja þetta, sem og að hefta togveiðar með einhverjum hætti.
Æ Halldór þú ættir að vita betur en þetta. Eins og Sigurjón bendir á, þá ber þér hreinlega skylda til að huga frekar að erfiðleikum landsbyggðarinnar en að fylgja flokknum þínum og verja þetta vonlausa fiskveiðistjórnunarkerfi. Þú átt annað hvort að velja flokkshollustuna eða það sem kemur landsbyggðinni best, hvort verður það Halldór Halldórsson?
Hvernig geturðu varið þetta Halldór? Afleiðingarnar af þessu kerfi hreinlega blasa við.
Takk fyrir skrifin. Ég hef reyndar aldrei skilið þegar fólk tengir saman skoðun manns og einhverja flokkshollustu? Hvað eru þá skrif mín um ESB? Er það flokkshollusta?
Endilega skrifa hérna áfram, ég vil fá ábendingar og athugasemdir en helst efnislegar. Það er slík umræða sem fleytir okkur fram veginn. En munum! Kerfin fjölga ekki fiskunum í sjónum. Það er of lítið af fiski til skiptanna, því miður. Ég vil fá enn meiri heimildir vestur en því eru mjög margir sem búa annars staðar á landinu algjörlega ósammála.
Afleiðingar sóknarstýringar er offjárfesting í skipum sem keppa við reglurnar og bitna á hagræðingu. Á endanum fer meira fjármagn í atvinnutækin, minna í hagræðingu, markaðssókn, þróun og laun.
Það þarf ekkert að ræða þetta frekar.
Kerfið er ónýtt og 80% af öllum sjávarútvegsfyrirtækjum á landinu eru gjaldþrota.
Brottkast og kvótasvindl undir þessu „aflamarkskerfi“ hefur kostað samfélagið hundruði milljarða.
Talið er að brottkast og kvótasvindl hlaupi á 50-60 þúsund tonnum á ári.
Ein ótrúleg staðreynd sem ekki hefur verið sagt frá opinberlega og er einn alsherjar skandall og hneyksli.
Aflareglan í þorski var færð úr 20% í 25% til að koma á móts við kvótasvindl og brottkast í kerfinu.
Þessu er haldið leyndu.
Reikni hver fyrir sig verðmætin.
Viljum við þetta Halldór ?
Afsakið klaufaskapinn.
Átti að sjálfsögðu að vera úr 25% niður í 20%.