Fimmtudagur 19.09.2013 - 18:26 - 1 ummæli

Reykjavíkurflugvöllur og skipulagsmál

Allt landið er skipulagsskylt og samkvæmt skipulagslögum er sveitarfélögunum falið að annast gerð skipulagsáætlana. Sömu lög og tengdar reglugerðir eiga að tryggja vandað og frekar langt kynningar- og umsagnarferli við breytingu skipulags eða innleiðingu á nýju. Allir eiga umsagnarrétt um skipulag án tillits til þess hvar lögheimili þeirra er. Þess vegna er ekki óalgengt að sjá umsagnir fólks búsett í Reykjavík um skipulagsmál á Vestfjörðum eða Austfjörðum svo dæmi sé tekið. Nú eða umsagnir fólks búsett um allt land vegna skipulagsmála í höfuðborginni okkar. Fólk hefur sínar skoðanir á skipulagsmálum og oft á tíðum ríka hagsmuni.

Skipulagsvald sveitarfélaga byggir, eins og annað vald þeirra, á lögum frá Alþingi Íslendinga. Þar taka 63 þjóðkjörnir þingmenn ákvarðanir en það nægir reyndar að 32 séu sömu skoðunar til að ná lagabreytingu í gegn. Í sveitarstjórnum landsins eru um 500 einstaklingar sem kosnir hafa verið af almenningi til að stýra sveitarfélögunum og gæta hagsmuna íbúanna.

Alþingi hefur því miður nýtt sér vald sitt til að breyta lögum og takmarka skipulagsvald sveitarfélaganna. Þess sér stað í náttúruverndarlögum, að nokkru leyti einnig í vegalögum og það er að gerast með rammaáætlun um orkunýtingu. Nýverið kom ákvæði um landsskipulagsstefnu inn í skipulagslögin og er nokkuð víst að með tíð og tíma mun þrýstingur aukast á að knýja ákvarðanir, sem snúa að öllum eða flestum sveitarfélögum í einu, í gegnum þá stefnumörkun. Líkleg dæmi um slíkt eru línulagnir og vegagerð. Eignaupptaka á grundvelli kröfugerðar ríkisins við rekstur mála fyrir óbyggðanefnd, sbr. lög um þjóðlendur hefur líka áhrif á sveitarfélögin.

Sumir telja að þjóðkjörnir alþingismenn séu betur fallnir til ákvarðanatöku en kjörnir sveitarstjórnarmenn. Þeir hinir sömu tala jafnvel um að Alþingi eigi að seilast enn frekar inn á skipulagsvald sveitarfélaganna. Það nýjasta í því eru hugmyndir um að taka skipulagsvaldið af borginni til að tryggja Reykjavíkurflugvöll þar. Það hentar í dag þeim sem vilja að höfuðborgin sé áfram miðstöð almenningssamgangna í landinu, m.a. undirrituðum. En hvað vilja hinir sömu þegar meirihluti verður á Alþingi fyrir því að beita skipulagsvaldinu á þann veg að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður? Það getur auðvitað gerst. Þá yrði umræðan sennilega svipuð og varðandi neitunarvald það sem forseti Íslands tók sér fyrst með synjun fjölmiðlalaga. Þá var ákveðinn hópur mjög ánægður með það, sérstaklega vinstri menn. Þegar forsetinn beitti svo neitunarvaldi á mál þegar vinstri stjórn var komin til valda breyttist umræðan eins og fólk þekkir og óþarfi er að rifja frekar upp hér.

Það er full ástæða til þess að mótmæla hugmyndum um enn frekari inngrip í skipulagsvald sveitarfélaganna. Hvað kemur næst í því samhengi? Taka skipulagsvald af sveitarfélögum á öllum reitum þar sem ríkiseignir standa? Taka skipulagsvald af sveitarfélögum sem vilja ekki hafa virkjun í sínu sveitarfélagi? Eða taka skipulagsvaldið af þeim sveitarfélögum sem vilja hafa virkjun í sínu sveitarfélagi, svona allt eftir því hvernig hinir pólitísku vindar á Alþingi blása. Nei, best er að halda áfram að treysta sveitarstjórnarfólki fyrir þessum málum sem ágætlega hefur verið staðið að hjá sveitarfélögunum þó misjafnar skoðanir séu á einstaka þáttum. Kosningar eru til að útkljá um slík mál hverju sinni. Þá leggja menn mál sín í lýðræðislegan dóm kjósenda og una þeim dómi.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • Bjarni Kjartansson

    Rvíkurborg hefur nú þegar úthlutað HÍ stórri lóð undir fyrirtæki sem kemur til með að byggja upp á tveimur árum, hátæknifyrirtæki sem mun verða starfsvetvangur 200 hátæknistarfa. Okkur Íslendinga vantar sárlega einmitt svona.

    Það er bitamunur en ekki fjár, hvort lent sé í Rvík eða Keflavík, fyrir stærstan hluta farþega í innanlandsfluginu. Svo er það óþolandi, að millilandaflug skuli vera frá flugvelli inni í miðri borg. Þjóðverjar lögðu af einn fallegasta flugvöll veraldar, Tempelhof.

    Við verðum að hætta þessu bulli og koma okkur í gírinn til að hefja stórsókn í hátækni og Raunvísindum einmitt í Vatnsmýrinni, milli tveggja háskóla á því eina svæði sem kemur til greina að gera svoleiðis.

    Jafnvel ætti að hætta að kenna greinar í skólum, sem ekki geta mannað stöður sínar með fólki sem vill búa á staðnum, líkt og er víst alvanalegt í HA.

    Við höfum ekki efni á svona dómadags vitleysu, sama hvað Möllerinn og Blöndalinn segja.

    Með kveðjum fyrrum Tálknfirðing og áhugamanni um heiðarleika í samkeppni og framfarir um land allt, byggðum á héraðsbundnum sérkennum. Og auðvitað fyrrum sveitastjórnarmanni, með reynslu á að sameina gott fólk undir merkjum Íhaldsins.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur