Það eru komin tvö ár síðan enn einni skýrslunni um húsnæðismál var skilað af þverpólitískum hópi. Í þeirri vinnu náðist samstaða um helstu mál. Fyrstu skref voru tekin við undirbúning upptöku húsnæðisbóta með sameiningu vaxtabóta og almennra húsaleigubóta í samvinnu við sveitarfélögin. Einn milljarður var settur í málaflokkinn í þeim tilgangi að jafna í áföngum húsnæðisstuðning við leigjendur og kaupendur íbúðarhúsnæðis. Þessi skýrsla ásamt ótal öðrum skýrslum, nefndarálitum og sameiginlegum niðurstöðum þeirra sem láta sig húsnæðismál varða á að gagnast sem grunnur undir aðgerðir í húsnæðismálum. Fulltrúar sveitarfélaga hafa verið virkir aðilar í þessari stefnumótun og átt fulltrúa í öllum nefndum sem unnið hafa á þessu sviði.
Ráðherra húsnæðismála telur þetta ekki nægja til að hefjast nú þegar handa til að leysa úr vanda fjölda fólks á húsnæðismarkaði og hefur sett af stað nýja stefnumótunarvinnu sem mun taka einhvern tíma. Lausnir þurfa að byggja á samvinnu og þær þurfa að grundvallast á því að hægt sé að reisa húsnæði og reka það sem leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði fyrir leigutaka. Í því samhengi þarf að hafa þátt einkaaðila í huga vegna þess að það þarf ekki endilega ríkis- og sveitarfélagavæða allar lausnir. Samfélagið datt í þann gírinn eftir hrun að helst yrði allt að vera á vegum opinberra aðila. Við þurfum ekki annað en að líta í kringum okkur til þeirra landa sem við viljum helst miða okkur við til að sjá að þar er þáttur einkaaðila mikilvægur. Okkur hættir til að festast í flækjustigi hins opinbera og gefast upp fyrir verkefnum af því að þau þurfa alltaf meira fjármagn. Stundum er það ekki svo heldur er kerfið og villur þess að þvælast fyrir okkur. Þegar ætlunin er að bæta það slæðist oft eitthvað með sem vinnur gegn umbótum. Byggingarreglugerð í tíð síðustu ríkisstjórnar bætti t.d. verulega við byggingarkostnað þannig að ekki hjálpaði það til við að bregðast við húsnæðisvandanum.
Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lýst áhuga sínum og vilja til að vinna hratt og örugglega í húsnæðismálum, það er gott. Hins vegar hefur valdið mér og fleirum vonbrigðum að í þeirri vinnu virðist ekki áhugi fyrir því að kalla eftir beinni þátttöku sveitarfélaga sem þó eru ábyrg fyrir stórum hluta húsnæðismála. Í verkefnisstjórn ráðherra sem móta á húsnæðisstefnu eru einungis fulltrúar frá stjórnarflokkunum, velferðarnefnd og þremur ráðuneytum. Sveitarfélögin eru staðbundið stjórnvald í húsnæðismálum. Þau taka stjórnvaldsákvarðanir um húsaleigubætur og veita stuðning til húsnæðismála skv. lögum um félagsþjónustu. Það er því augljóst að sveitarfélögin eru stór aðili að húsnæðismálum og þurfa að koma að stefnumótun í málaflokknum.
Ráðherra hefur ákveðið að hleypa sveitarfélögum ekki að stefnumótun í málaflokknum með öðrum hætti en í gegnum einhvers konar samvinnuhóp með u.þ.b. 30 hagsmunaaðilum. Sveitarfélögin eru framkvæmdaaðili og stjórnvald en ekki venjulegur hagsmunaðili. Vegna þessarar afstöðu ráðherra bókaði stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga eftirfarandi á stjórnarfundi sínum 13. september sl.: ,,Það er algjör nýlunda af hálfu ráðherra húsnæðismála að halda sveitarfélögunum frá starfi nefnda sem fjalla um framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Stjórn sambandsins leggur því þunga áherslu á að ráðherra endurskoði afstöðu sína í þessu máli og taki upp þau samskipti við fulltrúa sveitarfélaga á sviði húsnæðismála sem verða að teljast eðlileg m.t.t. til verkefna og skyldna ríkis og sveitarfélaga á þessu sviði.“
Frábær grein, hér hefur félagsmálaráðherra eflaust gert mistök sem full ástæða er að leiðrétta strax. Í þessum málaflokki þarf að taka til hendinni og þar þurfa ríki og sveitarfélög að vinna saman. Breyta mjög íþyngjandi reglugerð sem hækkar byggingarkostnað umtalsvert. Sveitarfélögin koma síðan með sín útspil. Núverandi staða skaðar alla.
Halldór ;
„Lausnir þurfa að byggja á samvinnu og þær þurfa að grundvallast á því að hægt sé að reisa húsnæði og reka það sem leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði fyrir leigutaka. Í því samhengi þarf að hafa þátt einkaaðila í huga vegna þess að það þarf ekki endilega ríkis- og sveitarfélagavæða allar lausnir “
Hvorki ríki né sveitarfélög hafa skipt sér mikið af Íslenskum leigumarkaði síðustu áratugina. Leigumarkaðurinn er í dag að mestu einkavæddur og fólk talar um frumskógarlögmálið og villta vestrið til að lýsa ástandinu í dag. Þetta er ekkert nýtt ástand.
Ef þú googlar á „Neyðarástand á leigumarkaði koma upp 10, 20 og 30 ára gömul áköll frá verkalýðsfélögum um viðbrögð frá stjórnvöldum.
„Markaðurinn “ Mun ekki af sjálfsdáðum útvega ódýrar leiguíbúðir. Það hefur sýnt sig allt frá stríðsárunum á Íslandi.
Erlendis td. í Svíþjóð mættu stjórnvöld þessu með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða. Stéttarfélög komu einnig að málinu. Í Svíþjóð voru td. byggðar yfir miljón leiguíbúðir landinu á árunum 1965 til 1975 Með stöðlum,magninnkaupum og einfældu byggingarferli var byggingarkostnaði og þar með leigu haldið niðri.
Tæknilega séð er ekkert til fyrirstöðu að gera eitthvað svipað á Íslandi. Í Svíþjóð er það oftast viðkomandi sveitarfélag sem er stærst á staðbundnum leigumarkaði. Í krafti stærðarinnar ræður þannig viðkomandi sveitarfélag verðinu á leigumarkaði svæðisins. Samt sem áður þrífast einkarekin leigufélög og hefðbundið húsnæði til hliðar við þetta.
Samanteknar aðgerðir sveitarfélaga og ríkis og Alþingis geta leyst húsnæðismálin og losað fólk úr því fangelsi sem það er í dag. Og það án þess að það hafi mikil áhrif á arðsemi byggingaraðila eða fjárfesta. Í ljósi þess kostnaðar og skaða sem núverandi ástand veldur ríki og sveitarfélögum er furðulegt hvers einsleitnar aðgerðir í einsleitnum nefndum eiga að vera.
Allt er byggt á óskhyggjum um peninga frá Frúnni í Hamborg.
Í stað þess að fá 2 krónur af hverjum 1000 manns á dag í tuttugu ár taka menn 2000 krónur í dag og einungis 10 manns borga.
Ástæðan er sú sama og kom okkur í 2008 stöðuna … valdatog og skortur á framtíðarsýn ásamt talibanisma á „mat“ fræðinganna.
Ef kerfið hefði ekki verið kolvitlaust þá hefðum við aldrei lent í 2008 stöðunni sem ennþá gengur yfir …ergo: Við þurfum að fara hugsa í lausnum til frambúðar og hætta græðginni og valdabröltinu.
Spurningin er bara hvort menn vilji gjalda fórnarkostnaðinn sem alltaf er eða hvort menn vilja tryggja sig og sína … og skítt með hitt pakkið.