Það gerðist í borgarráði í dag að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar greiddi atkvæði gegn eigin tillögu sem þau höfðu sjálf samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði. Tillagan sem þau höfðu samþykkt með mótatkvæðum Sjálfstæðisflokksins var skipulags- og matslýsing fyrir hverfi borgarinnar. Þar mátti sjá hugmyndir um þéttingu inn á grónum lóðum. Íbúum var brugðið og mótmæltu vitanlega svona gerræðislegum hugmyndum.
Hefði meirihlutinn greitt atkvæði gegn sjálfum sér ef það væru ekki kosningar eftir einn mánuð? Svarið er vitanlega nei og auðvelt að rökstyðja það með því að vísa til þess hvernig íbúalýðræðið hefur verið virt eða öllu heldur ekki virt á kjörtímabilinu. Ekkert gert með 70 þúsund undirskriftir vegna flugvallar eða hávær mótmæli vegna sameiningar skóla.
Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði einn flokka gegn þessum hugmyndum um að gjörbreyta grónum hverfum. Þó því sé fagnað að meirihlutinn hafi lagst gegn sjálfum sér í þessu máli þá er engu að treysta í því.
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.