Þriðjudagur 02.09.2014 - 22:29 - Rita ummæli

Gagnrýniverður meirihlutasamningur

Í dag sátum við okkar fyrsta fund í borgarstjórn eftir sumarfrí. Þetta er því minn annar borgarstjórnarfundur frá kosningum í vor. Nefndir og ráð hafa starfað í sumar og fundar t.d. borgarráð því sem næst vikulega yfir sumarið en að jafnaði vikulega allt árið. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði höfum flutt þar tillögur um endurskoðun aðalskipulags, að unnin verði stefnumótun í styrkjamálum borgarráðs, lagt fram gagnrýni á kostnað við stofnun nýs stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, gagnrýni á 6 mánaða uppgjör borgarsjóðs og fyrirtækja ásamt fleiru sem við fylgjum svo eftir í borgarstjórn.

Bara borgarrekstur
Mestur tími á þessum borgarstjórnarfundi fór í að ræða um samstarfssáttmála þeirra fjögurra flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórn. Af mörgu var að taka sem við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins erum ekki fyllilega sátt við. Sumu erum við algjörlega andvíg og teljum sumt hreinlega ekki í takt við nútímann í rekstri borgarinnar. Nefna má sem dæmi að ákvæði er um það í sáttmálanum að meginreglan verði sú að borgin sjái um rekstur leik- og grunnskóla sem og velferðarþjónustu. Fyrirfram er verið að útiloka mögulegar leiðir hagkvæmni og betri þjónustu með samstarfi við einkaaðila á markaði.

Hvað er að marka þetta?
Í húsnæðismálum er talað um að borgin beiti sér fyrir því að 2.500-3.000 leiguíbúðir verði byggðar í Reykjavík á næstu þremur til fimm árum. Á sama tíma vantar a.m.k. 500 félagslegar leiguíbúðir enda stóð meirihlutinn sig ekki í þeim málum á síðasta kjörtímabili. Lágmarksviðmið um 100 íbúðir á ári var ekki virt og einungis bættust við 74 íbúðir allt kjörtímabilið en hefðu að lágmarki átt að vera 400. Sami en aukinn meirihluti, með tilkomu Pírata og VG til viðbótar við Samfylkingu og Bjarta framtíð, lofar núna allt að 3.000 leiguíbúðum. Það er eitthvað sem ekki gengur upp í því að lofa allt að 3.000 íbúðum en hafa ekki einu sinni getað fjölgað um 400 leiguíbúðir á síðustu fjórum árum.

Ekkert um rekstur og skattheimtu
Það vekur athygli að ekkert er talað um rekstur borgarinnar í sáttmála meirihlutans nema í ákvæði um að staða borgarsjóðs á síðari hluta kjörtímabilsins muni ráða því hvort frekari skref verði tekin til að bæta kjör barnafjölskyldna. Að öðru leyti er ekki fjallað um grunnþáttinn undir allt annað reksturinn sjálfan. Ekkert um mikilvægi hagræðingar og mikilvægi þess að draga úr skattheimtu í áföngum. Það er með ólíkindum að langsamlega stærsta sveitarfélag landsins skuli vera með útsvarið í hæstu leyfilegu prósentu. Liður í því að bæta almenna hagsæld borgarbúa er að leita leiða til að samræma betur skattheimtu á borgarbúa og þá þjónustu sem veitt er.

Auka þátttöku íbúa í ákvarðanatöku – fylgja efndir orðum?
Mikið er um stjórnkerfi og lýðræði í samstarfssáttmálanum. Það á að hlusta á allar raddir við að efla lýðræðið og skapa alls konar röddum vettvang. Auka á þátttöku íbúa í ákvarðanatöku og ýmislegt í þeim dúr. Þarna koma inn áherslur Pírata og þær eru um margt líkar áherslum Sjálfstæðisflokksins. En svo mun koma í ljós hvernig framkvæmdin verður hjá Pírötum í meirihluta. Fyrstu skrefin á kjörtímabilinu boða þó ekki neinar róttækar breytingar hvað þetta varðar.
Upplýsingar um framleiðslutölur Orkuveitunnar eru ekki birtar en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn OR hafa flutt tillögur um það á þessu nýhafna kjörtímabili en án árangurs.
Ekki hefur verið samþykkt að taka aðalskipulagið upp að nýju í samræmi við 35. gr. skipulagslaga þrátt fyrir að margt þurfi að endurskoða, t.d. málefni flugvallar þar sem Íslandsmet var sett í fjölda undirskrifta gagnvart aðalskipulaginu. Meirihlutinn felldi tillögu okkar enn einu sinni á borgarstjórnarfundinum um að taka aðalskipulagið til endurskoðunar.
Nýtt stjórnkerfis- og lýðræðisráð verður undir formennsku Pírata. Þó það sé skoðun okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hægt sé að vinda sér í þessi verk án þess að stofna um það sérstakt ráð verðum við að binda vonir við að margar góðar breytingar verði gerðar í því að efla þátttöku og áhrif borgarbúa á mikilvæg mál hjá borginni.

Meira um borgarmálefnin fljótlega. Kíkið á vef okkar Sjálfstæðisfólks í borginni – betriborg.is

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur