Þriðjudagur 02.12.2014 - 17:04 - Rita ummæli

Samstarf sveitarfélaga við kjarasamninga er mikilvæg

Leiðari í Sveitarstjórnarmál nóvember 2014.

Kjarasamningsgerð sveitarfélaganna

Það er alltaf léttara yfir þegar samningalotu við kjarasamningaborðið lýkur með undirritun. Þetta á sérstaklega við ef verkfall hefur skollið á og staðið í einhvern tíma. Þess vegna var einstaklega ánægjulegt þegar skrifað var undir kjarasamning tónlistarkennara nú í lok nóvember þegar verkfall Félags tónlistarkennara hafði staðið í fimm vikur. Vonandi verður samningurinn samþykktur í atkvæðagreiðslu.

Öllum þykir erfitt þegar verkfall stendur yfir því það hefur áhrif á daglegt líf mjög margra. Þessi áhrif eru mismikil en alltaf töluverð enda næðust markmið með verkfalli varla fram ef svo væri ekki.

Sveitarfélögin eru fyrirferðarmikil á vinnumarkaðnum en hjá þeim vinna 54% opinberra starfsmanna en 46% hjá ríkinu. Samanlagt eru ríki og sveitarfélög með 23% af heildarvinnumarkaðnum. Samband íslenskra sveitarfélaga sér um alla kjarasamningagerð fyrir sveitarfélögin í landinu með þeirri undantekningu að Reykjavíkurborg sér sjálf um aðra samninga en við félög innan Kennarasambands Íslands og slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn.

Mikið álag er á okkar samningafólki almennt enda fjöldi kjarasamninga yfirleitt í vinnslu. Sérstaklega mikið áreiti og álag er þegar verkfall stendur yfir á okkar samningafólki sem og sveitarstjórnarfólki út um land allt. Við slíkar aðstæður er úthald, þolinmæði og samstaða mikil nauðsyn. Samningar nást að lokum og það er lykilatriði að okkur takist að ljúka þeim innan þess ramma sem vinnumarkaðurinn miðar við. Hið opinbera, sveitarfélög og ríki fá tekjur sínar frá hinum almenna vinnumarkaði og geta því ekki boðið upp á meiri launahækkanir en þar verða. Undantekningin er þegar samningar nást um hækkun launa umfram almennar viðmiðanir á móti vinnuhagræðingu.

Það er ekki nokkur vafi í huga undirritaðs um að það er til bóta fyrir bæði sveitarfélögin og samningsaðila þeirra að samningagerð sveitarfélaganna er samræmd með einni samninganefnd eins og nú er.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur