Á fundi borgarráðs 27. ágúst var lagt fram 6 mánaða uppgjör fyrir A og B hluta Reykjavíkurborgar. Þ.e. borgarsjóð og fyrirtæki.
Í stuttu máli er reksturinn í mjög alvarlegri stöðu. Skatttekjur duga ekki fyrir rekstri borgarinnar. Ef þetta væri einungis að koma fram núna væri maður rólegri en svona er þetta búið að vera síðan Besti flokkurinn og Samfylking mynduðu meirihluta árið 2010 að undanteknu einu ári. Reksturinn er búinn að versna stöðugt hjá þessum meirihluta. Og núna á hálfu ári er tapið rúmir þrír milljarðar. Þrjú þúsund milljónir eða 700.000 kr. á hverjum einasta klukkutíma frá 1. janúar til 30. júní 2015.
Við borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum fram þessa bókun við framlagningu 6 mánaða uppgjörsins:
,,Alvarleg staða á rekstri Reykjavíkurborgar
Uppgjör fyrir rekstur fyrstu 6 mánuði ársins 2015 sýnir að áfram er mikið tap á A-hluta Reykjavíkurborgar eða sem nemur rúmum 3 milljörðum króna sem er næstum tvöfalt meira tap en reiknað var með í fjárhagsáætlun. Staðan er því orðin mjög alvarleg sem er því miður í samræmi við viðvaranir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum.
Veltufé frá rekstri A-hluta sem er það fjármagn sem reksturinn skilar í peningum er 1,4% af rekstrartekjum en þarf að lágmarki að vera 9% miðað við greiningu fjármálaskrifstofu í tengslum við ársreikning 2014.
Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar segir í skýrslu sinni að þessi slæma niðurstaða kalli á viðbrögð í fjármálastjórn borgarinnar. Mikill þungi er í þeim orðum fjármálaskrifstofunnar og undirstrikar þörf þess að markviss vinna verði sett strax af stað við að taka á rekstrarvandamálum Reykjavíkurborgar. Við afgreiðslu ársreiknings ársins 2014 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að slík vinna færi strax af stað.“
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.