Þriðjudagur 17.01.2017 - 15:48 - Rita ummæli

Kosningaloforð Samfylkingar í borginni verður ekki uppfyllt

Á borgarstjórnarfundi 17. janúar var umræða um húsnæðismálin og ekki vanþörf á enda mikill húsnæðisskortur í Reykjavík með tilheyrandi hækkunum á húsnæðiskostnaði hvort sem um kaup eða leigu er að ræða.

Í umræðunni um félagslegt leiguhúsnæði kom fram að á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum eru 893 manns og hefur fjölgað um 150 á einu ári. Þetta er staðan þrátt fyrir að kosningaloforð Samfylkingarinnar í kosningunum 2014 hafi verið 2.500 til 3.000 leiguíbúðir á kjörtímabilinu 2014-2018. Þegar það er skoðað kemur í ljós að það hefur fjölgað um 138 almennar félagslegar leiguíbúðir frá 2010. Miðað við 3.000 íbúðir á kjörtímabilinu vantar þá ennþá 2.862 íbúðir upp í það kosningaloforð.

Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vöruðum við þessu kosningaloforði 2014 og töldum það óráð að borgin væri að seilast svona mikið sjálf inn á húsnæðismarkaðinn. En við töldum alltaf að standa yrði undir þeirri þjónustu í húsnæðismálum sem borginni ber skylda til en það er að útvega þeim 893 sem eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði lausn í þeim málum.

Í umræðunni um lóðamálin fór undirritaður yfir stöðuna hjá meirihlutanum sem er upptekinn af þéttingarreitum hér og þar í borginni. Hins vegar hefur meirihlutinn (Píratar, Samfylking, Vinstri græn og Björt framtíð) fellt tillögur okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokkins að bæta við fleiri lóðum í Úlfarsárdal til að létta þungann í húsnæðismálum í borginni. Það vantar 5.000 íbúðir nú þegar og það gengur hægt að byggja á þéttingarreitum. Þetta hefur þau áhrif að verð íbúða hefur rokið upp í borginni með auknum erfiðleikum fyrir fólk við að koma þaki yfir höfuðið og ráða við húsnæðiskostnaðinn. Reykjavíkurborg getur haft jákvæð áhrif á húsnæðismarkaði með því að úthluta fleiri lóðum.

Reyndar áttum við borgarstjóri orðaskipti um þetta og hann mótmælti þeirri fullyrðingu minni að fleiri lóðir og lækkun lóðaverðs hefði jákvæð áhrif á húsnæðismarkað. Borgarstjóri sagði þetta marxíska hugsun hjá mér og að lóðaverð hafi ekki leiðandi áhrif á fasteignaverð. Miðað við þessa fullyrðingu hans skiptir þá væntanlega engu máli hvað lóðir kosta, hvað smíðavinna kostar eða hvað steypa í húsið kostar.

Það eru kosningar vorið 2018, stóra kosningaloforð Samfylkingarinnar 2014 um allt að 3.000 leiguíbúðir verður ekki uppfyllt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur