Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 9. febrúar sl.:
Á borgarstjórnarfundi 7. febrúar sl. lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram enn eina ferðina tillögu um fjölgun lóða hjá borginni.
Tillagan hljóðaði svona: ,,Borgarstjórn samþykkir að fjölga lóðum í Úlfarsárdal umfram þá takmörkuðu fjölgun sem verður vegna breytinga á deiliskipulagi sem nú er í vinnslu. Er þetta gert til að bregðast við alvarlegum lóðaskorti í Reykjavík. Hafist verði handa nú þegar við undirbúning þessa verkefnis til að Reykjavíkurborg geti uppfyllt þá mikilvægu grunnskyldu gagnvart íbúum sínum að útvega lóðir í samræmi við þörf.“ Meirihlutinn vísaði tillögunni til borgarráðs sem ber vott um ákvarðanafælni og vandræðagang og verður bara til þess að seinka úrræðum í húsnæðismálum því hætt er við að málið verði svæft af hálfu Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar.
Til þessa hafa allar tillögur um að fjölga lóðum umfram skilgreiningu í aðalskipulagi í Úlfarsárdal verið felldar eða svæfðar. Það má rifja upp að 20. október 2015 felldi meirihlutinn það meira að segja að taka tillögu okkar á dagskrá um þessi sömu mikilvægu mál. Það mátti ekki einu sinni ræða málið á þeim borgarstjórnarfundi af því að meirihluti Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar var ekki undirbúinn og treysti sér ekki til að taka upplýsta afstöðu til þessara mála eins og sagði í bókun þeirra við þetta tilefni.
Vinna við breytingu deiliskipulags í Úlfarsárdals stendur yfir núna. Það nær hins vegar einungis til þess sem rúmast innan gildandi aðalskipulags. Samkvæmt upprunalegu deiliskipulagi frá 2005 eru 904 íbúðir í hverfinu. Upphaflegar hugmyndir um þetta hverfi gerðu hins vegar ráð fyrir miklu fleiri íbúðum. Grafarholt og Úlfarsárdalur áttu að geta orðið allt að 28.000 íbúa hverfi í stærstu hugmyndunum. En þetta verður 9.000 íbúa hverfi þegar allt er byggt verði áfram staðið gegn stækkun hverfisins í Úlfarsárdal. Sú ákvörðun vinstri meirihlutans í borgarstjórn að draga verulega úr íbúabyggð í Úlfarsárdal frá því sem áður var ákveðið, dregur mjög úr möguleikum hverfisins á að vera sjálfbært varðandi ýmsa þjónustu og á það ekki síst við um íþrótta- og æskulýðsstarf. Stækkun hverfisins er einnig mikilvægur þáttur í því að gera fólki á öllum aldri auðveldara að koma sér þaki yfir höfuðið.
Breyting á deiliskipulagi gerir ráð fyrir íbúðum norðan Skyggnisbrautar þannig að ef það verður að veruleika erum við að tala um 1.332 íbúðir í Úlfarsárdal. Þar af eru 70 aukaíbúðir í einbýlishúsum. Þetta er fjölgun um 428 íbúðir frá skipulaginu eins og það er núna.
Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 gerir ráð fyrir að byggingarþörfin sé 700 íbúðir á ári. Það er ljóst að uppsöfnuð þörf er miklu meiri. Greiningardeild Arion banka segir að það vanti a.m.k. 8.000 íbúðir á næstu þremur árum. Hlutdeild Reykjavíkur í því er alveg áreiðanlega ekki undir 4000 íbúðum.
Í árlegri skýrslu um framfylgd aðalskipulags Reykjavíkur segir að breyta þurfi þessu viðmiði og fara í 1.000 íbúðir á ári til 2030. Það er vitanlega fyrir utan þessar 8.000 íbúðir og hlutdeild borgarinnar í þeim fjölda sem er talað um í greiningu Arion banka. Það er áhugavert að skoða þetta í samhengi við hvað hefur gerst. Þegar við skoðum fjölda fullgerðra íbúða í Reykjavík 2010 til 2015 kemur í ljós að þær eru 1.557. Þá erum við að tala um allar íbúðir sem byggðar eru í borginni. Það er ansi langt frá þessum markmiðum aðalskipulagsins og óravegu frá yfirlýsingum borgarstjóra f.h. meirihlutans í borgarstjórn.
Af hverju erum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að leggja til úthlutun fleiri lóða? Það er vegna þess að það er lóðarskortur í borginni og hann hefur þrýst húsnæðisverði harkalega upp. Frá 2010 til 2016 er hækkunin yfir 42% á húsnæðismarkaði. Í glænýrri skýrslu Arion banka er spáð 30% nafnverðshækkun frá ársbyrjun 2017 til ársloka 2019 og varar bankinn við ofhitnun á húsnæðismarkaði til lengri tíma litið.
Reykjavíkurborg er í lykilstöðu til að standa í aðgerðum sem draga úr þessum hækkunum.
Til þessa hefur afstaða vinstri meirihlutans í Reykjavík verið bæði upplýst og undirbúin. Það er lóðaskortsstefna með þeim afleiðingum að ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum vegna þess að það vantar húsnæði og vegna þess að lóðaskortsstefnan hækkar verð á húsnæði.
Með samþykki tillögunnar hefði verið hægt að setja málið strax í vinnslu og nýta tímann og landið sem rúmar miklu fleiri byggingar og þannig sinna skyldum borgarinnar sem er að sjá til þess að lóðaframboð mæti eftirspurn frekar en að halda aftur af lóðaúthlutunum með þeim afleiðingum að húsnæðisverð hækkar langt umfram það sem eðlilegt getur talist.
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.