Miðvikudagur 14.02.2018 - 11:20 - Rita ummæli

Sjálfkeyrandi bílar, greining tækifæra.

Umræðan um fjórðu iðnbyltinguna er töluverð og vaxandi enda er margt spennandi að gerast í þeim málum. Sjálfvirkni er að aukast. Gervigreind gerir vélum kleift að vinna sífellt flóknari störf. Þetta sést í flestum ef ekki öllum atvinnugreinum. Nýjasti togari Granda er sem dæmi með mikla sjálfvirkni, t.d. við löndun.

Sjálfkeyrandi bílar eru notaðir víða um heim og sjálfkeyrandi lestir og vagnar í sérrýmum eru mikið notuð á fjölda flugvalla og höfum við eflaust flest nýtt okkur slíkar samgöngur.

Með þetta í huga lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftirfarandi tillögu fram í borgarstjórn í
desember 2017. Hún fór til umhverfis- og skipulagsráðs sem óskaði eftir umsögn samgöngustjóra.

„Borgarstjórn samþykkir að hefja greiningu á tækifærum sem felast í notkun sjálfkeyrandi bíla
með það að markmiði að gefa kost á Reykjavík sem samstarfsborg við framleiðendur
sjálfkeyrandi bíla. Farið verði í viðræður við samgönguráðuneytið, Samgöngustofu og
lögregluna til að greina möguleika og tækifæri slíks samstarfs.“

Umsögn samgöngustjóra borgarinnar, dags. 12. febrúar 2018, er þessi:
,,Segja má að Reykjavíkurborg hafi nú í janúar tekið fyrstu formlegu skrefin í að gefa kost á
Reykjavík sem samstarfsborg við framleiðendur sjálfkeyrandi bíla. Reykjavíkurborg sendi þá,
ásamt 16 samstarfsaðilum hérlendis og erlendis, umsókn um styrk úr Horizon 2020
rannsóknaráætlun ESB. Meðal samstarfsaðila í verkefninu, ef af verður, eru Vegagerðin,
Strætó bs. Háskóli Íslands, Tækniháskólinn í Munchen, Siemens, Orkuveita Reykjavíkur,
bílaumboðið Hekla og Toyota á Íslandi.

Ef styrkur fæst mun Reykjavíkurborg ásamt samstarfsaðilum skilgreina ákveðnar götur og
götukafla í borginni sem rannsóknarsvæði fyrir prófanir á sjálfkeyrandi tækni í fólks- og
vöruflutningum. Markmiðið er prófa hvort og þá hvaða vandamál koma upp við innleiðingu
sjálfkeyrandi tækni í borg eins og Reykjavík til að borgir af svipaðri stærð og samstarfsaðilar
úr tæknigeiranum geti gert viðeigandi úrbætur.

Í lok apríl verður ljóst hvort umsóknin kemst á næsta stig í umsóknarferlinu. Ef ekki verður
framhald á verkefninu þá telur undirritaður rétt að Reykjavíkurborg leiti annarra leiða til að
gefa kost á Reykjavík sem samstarfsborg við framleiðendur sjálfkeyrandi bíla.“

Við hljótum öll að vona að styrkur fáist í þetta áhugaverða verkefni en ef ekki þá verðum við að stíga okkar eigin sjálfstæðu skref í samstarfi við framleiðendur sjálfkeyrandi bíla til að finna út hvernig þetta hentar okkar umhverfi. Mjög líklegt er að merkingar séu ekki nægilegar fyrir þessa bíla til að lesa úr götunum (línur, punktalínur o.fl.).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur