Laugardagur 08.01.2011 - 12:09 - 4 ummæli

Á radar Evrópuvaktarinnar

Ég rataði á radar Evrópuvaktarinnar í kjölfar þess að ég birti skýra stefnu Framsóknarflokksins um aðildarviðræður við Evrópusambandið á blogginu, en sú skýra stefna hefur farið afar illa í aðstandendur Evrópuvaktarinnar. Evrópuvaktin er vefmiðill harðra andstæðinga Evrópusambandsins.

Það skemmtilega er að fyrirsögn fréttarinnar er  „ESB-framsóknarmenn gera hosur sínar grænar fyrir stjórnarflokkunum“  og með fylgir mynd af Halli Magnússyni! 

Reyndar segir Evrópuvaktin „Framsóknarbloggarinn Hallur Magnússon, sem sagði sig að vísu úr Framsóknarflokknum 1. desemer 2010, segir á vefsíðu sinni 7. janúar að aðildarviðræður að Evrópusambandinu ættu ekki að trufla Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn, þótt þær trufli vinstri græna.“ 

Allt satt og rétt.

Evrópuvaktin reynir að færa rök fyrir því að hlutar skýrar ályktunar Framsóknarflokksins um aðildarviðræður við ESB – sem hefst á orðunum:  „Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. „  – gangi ekki lengur.

Annars vegar  skilyrðið „Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.“ og hins vegar  „Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.“

Aðstandendur Evrópuvaktarinnar ættu að vita að eiginlega samningaviðræður við ESB hefjast núna í marsmánuði – hingað til hefur vinnan falist í greiningarvinnu – hvað liggi klárt fyrir eftir 15 ára aðlögunarferli Íslands á grunni samningsins um Evrópska efnahagssvæðið – og hvað þurfi að semja um.

Ríkisstjórnin ætti að sjálfsögðu að fara eftir ályktun Framsóknar og leita nú þegar eftir að það verði: „…gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.“

Mögulega hefur slíkt þegar verið rætt – allavega byggir nýsamþykkt stefnumótun ríkisstjórnarinnar á aðgerðum sem miða að upptöku evru.

Evrópuvaktin.is er öflugur og flottur vefmiðill. Ég var að velta fyrir mér hver fjármagnar hann – og hver fjármagnar milljónakostnað við hin bráðskemmtilegu NEI flettiskilti meðfram helstu umferðaæðum höfuðborgarsvæðisins?

Þau skilti eru dæmi um örvæntingafulla barátta harðvítugra andstæðinga Evrópusambandsins gegn viðræðum um mögulega aðild að Evrópusambandinu. Sú barátta er ekki tilviljun. Andstæðingar viðræðnanna vita hvað gerist ef niðurstaða fæst í aðildarviðræðurnar.

Íslenska þjóðin mun samþykkja samning um aðild að Evrópusambandinu. Jafnvel þótt hann verði ekki góður. Hegðan íslenskra stjórnmálamanna undanfarnar vikur, undanfarna mánuði og undanfarin ár sér til þess.

Íslenskir stjórnmálamenn geta því valið hvort þeir vilja slæman samning sem verður samþykktur eða góðan samning sem verður samþykktur.

Ég mæli með góðum samningi – og þar eru áherslur ályktunar flokksþings Framsóknar góður grunnur að byggja á.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Georg Georgsson (gosi)

    Gaman að sjá hvað málefnaleg umræða um ESB gerir við málfluttning evrópuvaktarinnar. Hún er farin að mynna á málfuttning gamanvefsins AMX.

  • Sæll Hallur og afsakaðu að ég set hér fram fyrirspurn sem fjallar um allt annað en þessi Evrópumál sem pistill þinn fjallar um.
    Þú ert vel tengdur inn í ísl. stjórnmál og þekkir það sem gerst hefur bak við tjöldin í stjórnmálum á liðnum árum. Ég vildi því biðja þig um að upplýsa okkur lesendur þína um þetta sem Davíð Oddsson íjar að í leiðara í Mogganum í dag. Ef ég skil skrif hans rétt þá er hann að segja að hann sjálfur hafi ekki átt frumkvæði að hinu umdeilda eftirlaunafrumvarpi heldur hafi það verið Steingrímur J Sigfússon. Segðu okkur nú hvernig þessi mál báru að og hvort það sé rétt að Steingrímur J Sigfússon hafi verið einn helsti hvatamaður að því að eftirlaunafrumvarpið var samið og samþykkt á Alþingi ? Hallur þú getur grafið þetta upp ef þú nennir, þú ert það vel tengdur, við áhugafólkið um stjórnmál viljum vita þetta.

  • Hallur Magnússon

    Nú var ég embættismaður á þessum tíma og ekki aktívur í pólitík. En ég veit hins vegar að það var upphaflega mjög breið samstaða meðal leiðtoga stjórnmálaflokkanna allra og þingmanna um að tryggja þingmönnum og ráðherrum þokkalega góð eftirlaun.

    Mér persónulega hefur fundist of hart gengið að þessari hugsun.

    Fólk ræðst að þeim stjórnmálamönnum sem hætta í pólitík og taka að sér önnur störf.

    Sama fólk ræðst að stjórnmálamönnum sem þáðu á sínum tíma þokkaleg eftirlaun.

    Hugsunin var að menn gætu helgað líf sitt stjórnmálum – hvar í flokki sem þeir væru – og ef að þeir fengju brautargengi á Alþingi – þá væru þeim tryggð þokkaleg eftirlaunakjör eftir hæfilegan tíma – þannig að menn gætu hætt á skynsamlegum tíma og hleypt nýjum aðiljum að.

    Þetta viðhorf er náttúrlega mótað af gamla flokkakerfinu.

    Ég var alltaf á móti því að alþingismenn væru teknir út fyrir sviga í sérstakan eftirlaunasjóð. Þeir eiga að vera í sama lífeyrissjóði aðrir ríkisstarfsmenn.

    Ég hef verið talsmaður þess að alþingismenn og ráðherrar séu MJÖG vel launaðir – miklu betur en í dag þótt þau laun séu þokkalega – og ávinni sér lífeyrisréttindi með sama hætti og aðrir ríkisstarfsmenn – en hafi það val að aðeins stærri hluti launa þeirra renni í lífeyrissjóð en almennt gerist – á móti aðeins betri réttindum en almennt gerist.

    Á sama tíma verði gerð enn stífari krafa á bæði ráðherra og þingmenn.

    En þetta er bara mín persónulega skoðun – sem ég veit að margir eru ósammála um.

    Laun þingmanna eiga nefnilega að vera hærri en efri millistjórnenda í öflugum fyrirtækjum. Það er ekki þannig í dag – þrátt fyrir mikla launalækkun stjórnenda í öflugri fyrirtækjum landsins.

  • Hallur þakka þér fyrir svör þín við spurningu minni. Ég er alveg sammála skoðunum þínum á launum og starfskjörum Alþingismanna. Þingmenn eiga að vera það vel launaðir að alvörufólk sé ekki fælt frá vegna þess að laun fyrir þingmennsku séu mikið lægri en viðkomandi getur fengið í vinnu við annað. Eru þingmannslaun ekki 520.000 kr á mánuði ? Í margra augum eru 520.000 auðvitað góð laun en það breytir ekki því að fjöldi manns þ.m.t. margir í þjóðfélagi okkar hafa mikið hærri laun en þetta. Við eigum að gera kröfur til þingmanna okkar en til þess þurfum við líka að launa þingmenn þannig að besta fólkið sé tilbúið að gefa sig í starfið. Mér finnst að laun fyrir þingsetu ættu að nema að lágmarki 800.000 kr.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur