Mánudagur 10.01.2011 - 08:32 - 13 ummæli

Öflugasta markaðssókn Íslandssögunnar?

Íslensku viðskiptabankarnir áttu að líkindum öflugustu markaðssókn Íslandssögunnar haustið 2004 þegar þeir juku markaðshlutdeild sína í íbúðalánum gagnvart Íbúðalánasjóði úr 2% í nær 90% á einum mánuði.  Þá juku bankarnir íbúðalán sín úr 10 stykkjum að fjárhæð samtals 90 milljónum í ágústmánuði 2004 í 30 milljarða í septembermánuði 2004. 

Þessi öfluga markaðssókn sést vel þegar skoðuð er markaðshlutdeild bankanna gagnvart Íbúðalánasjóði tímabilið 1. júlí 2004 til ársins 2008. 

Bankarnir juku markaðshlutdeild sína gagnvart Íbúðalánasjóði á í íbúðalánum úr 2% í nær 90% á einum mánuði. Þessi markaðssókn bankanna setti efnahagslífið á hvolf.

Andstætt því sem haldið hefur verið fram þá höfðu viðskiptabankarnir enga markaðshlutdeild að verja vegna fyrirhugaðra 90% almennra lána Íbúðalánasjóðs sem boðuð voru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar vorið 2003. Sú söguskýring kom ekki fram fyrr en á árinu 2005 þegar forsvarsmenn bankanna þurftu að verja útlánastefnu sína sem hafði sett efnahaghagslífið á Íslandi á hvolf,  myndað mestu fasteignabólu Íslandssögunnar og skapað gífurlega þenslu.

Reyndar höfðu bankarnir verið yfirleitt með allt að 5% markaðshlutdeild en einhverra hluta vegna ákváðu þeir að lána ekki nema örfá slík lán fyrri part ársins 2004.  Hugsanlega vegna undirbúnings þessarar öflugu markaðssóknar.

Það kaldhæðnislega er að ein ástæða þess að stjórnvöld hugðust gefa almenningi kost á 90% íbúðalánum til kaupa á hóflegu húsnæði var einmitt sú staðreynd að bankarnir voru ekki að bjóða viðskiptavinum sínum lán til kaupa á íbúðarhúsnæði á eðlilegum vaxtakjörum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Apotekeren

    Gott að fá það staðfest frá fyrrverandi innanbúðarmanni hjá ÍLS að það var kosningaloforð Framsóknarflokksins um 90% fasteignalán ÍLS sem hratt fasteignabólunni af stað.

    Framsóknarflokkurinn lofaði þessu í nauðvörn sinni í kosningabaráttunni vorið 2003. Að kosningum loknum bauð Samfylkingin Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherrastólinn.

    Jóhanna Sigurðardóttir fagnaði 90% lánum ÍLS mjög og skammaði Sjálfstæðisflokkinn blóðugum skömmum fyrir að hafa staðið gegn þeim.

  • Hallur Magnússon

    Þetta hefur ekkert með loforð um 90% lán ríkisstjórnarinnar að gera. Þvert á móti. Lestu nú betur.

  • Hallur Magnússon

    … og skoðaðu markaðshlutdeildina.

    Bankarnir voru með 2% markaðshlutdeild í ágúst 2004.
    Þá voru engin almenn 90% lán ÍLS.

    Fóru í 90% í september 2004. Þá voru heldur ekki almenn 90% lán ÍLS.

    Kjarni málsins er að innkoma bankanna var algerlega óháð almennum 90% lánum ÍLS – sem ekki voru áætluð fyrr en 3 árum síðar – vorið 2007.

  • Sko… Hér er nú verið að skemmta skrattanum með því að upphefja ÍLS á kostnað bankanna.

    Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, bindi 1, kemur m.a. framt að OECD ályktaði 2008

    „að stefna ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum hefði stuðlað að ójafnvægi efnahagslífsins. Slökun á lánsforsendum og breytingar á fjármögnun Íbúalánasjóðs ríkisins hefði sett
    af stað harðvítuga samkeppni við banka í einkaeign og valdið lækkun vaxta á fasteignaveðlánum á meðan Seðlabankinn var að hækka vexti. Ekki væri lengur hægt að tefja umbætur á fasteignamarkaði. Ríkið þyrfti að fella ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði úr gildi eða krefja hann um endurgjald sem endurspeglaði verðmæti ábyrgðarinnar.“

    Enn fremur benti AGS á það árið

    „að þörf væri á endurskipulagningu Íbúðalánasjóðs. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taldi innkomu bankanna á fasteignaveðlánamarkaðinn jákvæða þróun sem stuðlaði að fjármálastöðugleika en nauðsynlegt væri að endurskipuleggja Íbúðalánasjóð til þess að tryggja veru bankanna á markaðnum.“

    Ergo – innkoma bankanna var hið besta mál. Hvort að þeir voru með 2% hlutdeild eða 90% hlutdeild skiptir í raun engu máli í stærra samhengi.

  • Hallur Magnússon

    Hermann.

    Það er rækilega búið að hrekja staðhæfingar bæði OECD – sem reyndar var skrifuð í sakbitnum Seðlabanka – og niðurstöðu Rannsókanrnefndar Alþingis – sem rannsakaði bara alls ekki Íbúðalánasjóð – heldur tók á „face value“ greinargerð hagfræðings í Seðlabankanum.

    Sem betur fer er verið að setja á fót nefnd til að fara yfir rekstur Íbúðalánasjóðs – það er eina leiðin til að hrekja rangfærslurnar.

    Ein rangfærslan var að bankarnir væru að verja markaðshlutdeild.

    Hvaða markaðshlutdeild?

  • Fram og aftur blindgötuna,.

  • Ég hélt að menn væru að tala um lánin sem bankarnir veittu til að brúa bilið á milli 65 prósentanna og verðs fasteignanna þegar menn voru að ræða um „markaðshlutdeild bankanna“ sem þeir þurftu að verja.

    Flestir sem keyptu fyrir markaðssóknina miklu tóku eins mikið að láni frá Íbúðalánsjóði og var í boði en fengu svo viðbótarlán hjá lífeyrissjóði eða banka.

    Mér sýnast þessi lán ekki koma fram á grafinu góða. Gæfi það ekki réttari mynd að telja með t.d. öll bankalán heimila með fasteignaveði eða eitthvað í þá veru?

  • Hallur Magnússon

    Grímur.
    Það er verið að tala um öll fasteignatryggð lán bankanna til einstaklinga og fjölskyldna – þegar við ræðum um íbúðalán.

    Það var sú „markaðshlutdeild“ sem var yfirleitt um 5% af heildarmarkaðshlutdeild „íbúðalána“!!!

  • Halldór Á

    Ég gæti trúað að hluti af þessari aukningu hafi verið skuldbreyting. Svo var í mínu tilfelli. Ég var með eitt gamalt lán frá forvera Íbúðalánasjóðs og eitt frá lífeyrissjóðnum. Vextirnir voru tæp 6% á öðru láninu og rúmlega 7% á hinu.
    Bankinn bauð hins vegar 4,15% vexti og með því að skuldbreyta lækkaði greiðslubyrðin um ca. 35%. Það var góður díll og ég passaði að taka ekki hærra lán í bankanum en sem nam skuldbreytingunni.

  • Hallur Magnússon

    Já Halldór.
    Það var umtalsverður hluti þessa skulbreyting – enda setti bankinn það sem skilyrði að lán ‘ILS yrðu greidd upp.

    Því miður voru allt of fáir sem fóru þína leið – skuldbreyttu eingöngu. Allt of margir bættu verulega í skuldsetninguna – og losuðu þannig um umtalsvert „eifgið fé“ í húsnæðinu.

    Það var ekki síst það sem olli þessari hrikalegu þenslu.

    Þetta hefði þurft að gerast hægar – og ekki svona hömlulaust. Því það var eðilegt og æskilegt að bankarnir kæmu hægt og bítandi inn í íbúðalánin. Við værum á öðrum stað ef það hefði verið gert.

  • Jøss! Ekki var það mikið.

    Þú hefur að minnsta kosti sýnt fram á að menn hafa farið mjög frjálslega með orðin verja og markaðshlutdeild.

    Hvað ætli þessi brúunarlán hafi verið stór hluti af lánum banka til einstaklinga? Veistu hvort það eru einhverjar tölur tilgengilegar um það? Kannske hafa menn talið sig þurfa að verja hlutfallslega stóran lið í efnahagsreikningnum hjá „einstaklingslánadeildinni“.

    En mér finnst það fyndið að heyra fólk tala um að bankarnir hafi verið að verja eitthvað. Þeir spiluðu engan varnarbolta. Á þessum tíma voru allir leikmennirnir í vítateig andstæðinganna.

    (En ég er að velta fyrir mér fyrstu setningunni sem þú skrifar. Getur verið að það hafi bara verið 10 svona lán útistandandi í ágúst 2004? Eða ertu að tala um veitingu lána?)

  • Hallur Magnússon

    Veitingu lána já.

  • Hallur, þetta kemur kannske út eins og ég sé að reyna að hanka þig á einhverju. En ég er bara að tryggja að ég getið notað þessar tölur sjálfur á kaffistofunni. 😉

    Eru lán til byggingarfyrirtækja inni í báðum tölunum?

    En varðandi það sem Halldór Á er að segja. Þegar verið var að skuldbreyta, þá var m.a. þeim kosti haldið að fólki að breyta bílalánum yfir í fasteignalán. Það snarlækkaði greiðslubyrðina að vera 40 ár að borga af druslunni í stað 3-7!

    Væntanlega hafa einhverjir millistjórnendur fengið bónusa fyrir að auka verðmæti fasteignalána í bókum bankanna og sleppt beislinu af sköpunargáfunni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur