Framsóknarflokkurinn var um langt árabil faglegasti stjórnmálaflokkurinn þegar unnið var í stefnumótun um aðildarumsókn eða aðildarumsókn ekki að ESB. Framsóknarflokkurinn vann undirbúning Evrópustefnu sinnar á árabilinu 2001 til 2009 afar faglega.
Í kjölfar afar vandaðrar greiningarvinnu Framsóknarflokksins í aðdraganda flokksþings árið 2005 var ljóst að klár meirihluti Framsóknarmanna vildu skoða aðildarumsókn að Evrópusambandinu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
En vegna hatrammrar baráttu stækra andstæðinga Evrópusambandsins gegn því að aðildarumsókn að Evrópusambandinu yrði skoðuð gáfu stuðningsmenn mögulegrar aðildarumsóknar eftir. Flestir þeirra mátu mikilvægara að halda flokknum saman og fresta ákvörðun um aðildarumsókn eða aðildarumsókn ekki að sinni.
Enda börðust meðal annars áhrifamiklir ráðherrar og fyrrverandi ráðherrar með kjafti og klóm gegn meirihlutaskoðun flokksþingsfulltrúa í Evrópumálum. Þar gerði tilfinningaríkt innlegg hins ástsæla leiðtoga Framsóknarmanna, Steingríms Hermannssonar heitins, gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu gæfumuninn.
Fylgjendur aðildarumsóknar að Evrópusambandinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum drógu sig í hlé í anda samvinnu og frjálslyndis til að koma í veg fyrir alvarlega sundrung flokksins. Andstæðingar aðildarumsóknar unnu fullan sigur þótt færri væru.
Afleiðingar þessa varð sú að fjölmargir góðir samvinnumenn og frjálslyndir miðjumenn hættu þátttöku í starfi Framsóknarflokksins og sumir sögðu sig alfarið úr flokknum.
Þrátt fyrir þetta hélt fagleg umræða um kosti og galla aðildar að Framsóknarflokknum áfram innan flokksins. Sú umræða náði hámarki í aðdraganda flokksþings í janúar 2009 – flokksþings sem svaraði kalli þjóðarinnar um endurnýju og endurnýjaði algerlega forystusveit Framsóknarflokksins.
Hluti hins nýja Framsóknarflokks var breið samstaða um að sækja skyldi um aðild að Evrópusambandinu með ákveðnum skilyrðum. Rúmlega 90% þingfulltrúa á rúmlega 900 fulltrúa flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar 2009 samþykkti að hefja ætti aðildarumsókn.
Þrátt fyrir það var lítill en afar öflugur hópur innan Framsóknarflokksins sem staðfastlega vildi vinna gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Sumir þeirra ákváðu að bera kápuna á báðum öxlum og tjá sig sem minnst um samþykkta stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum.
Fleiri en einn og fleiri en tveir þeirra náðu að komast í efstu sæti Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 2009 og fleiri en einn og fleiri en tveir náðu kjöri.
Þrátt fyrir skýra stefnu Framsóknarflokksins sem byggist á margra ára faglegrar upplýsingaöflunar og umræðu um kosti og kalla aðildar að Evrópusambandinu, þá telja flestir kjósendur að Framsóknarflokkurinn sé gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
Eðlilega þar sem áberandi þingmenn tala og kjósa gegn stefnu sem grasrót Framsóknarflokksins vann og samþykkti á flokksþingi í janúar 2009.
Stefnu sem byggir á margra ára umræðu og upplýsingaöflun.
Það er sárgrætilegt að horfa upp á þessa stöðu þar sem sumir þingmenn og forystumenn Framsóknarflokksins vanvirða áralanga faglega vinnu almennra Framsóknarmanna og vinna gegn samþykktri stefnu flokksins um aðildarviðræður á grunni ákveðinna skilyrða.
Eftirfarandi var eitt helsta áherslutriði í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar árið 2009:
“… að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar líkt og kveðið er á um í skilyrðum síðasta flokksþings framsóknarmanna. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings.”
Þar sem Framsóknarflokkurinn er ekki lengur að vinna heilsteyptur að framgangi aðildarumsóknar að Evrópusambandinu er ljóst að núverandi og fyrrverandi Framsóknarmenn og aðrir miðjumenn sem vilja láta reyna á aðildarumsókn að Evrópusambandinu verða að finna sér öflugan vettvang utan Framsóknarflokkinn þar sem leiðarljósið er samvinna og frjálslynd miðjustefna.
Fagleg vinna Framsóknarflokksins í Evrópumálum:
Evrópunefnd Framsóknarflokksins 2001 – niðurstöður smella hér
Skýrsla Evrópunefndar Framsóknarflokksins 2007 – smella hér
Samþykkt stefna Framsóknarflokksins á flokksþingi 2009 – smella hér
Mér finnst þú skauta dálítið létt framhjá sannleikanum í málinu og halla þér vel að þinni hlið. Staðreyndin er sú að á flokksþinginu var komist að málefnalegri niðurstöðu sem að þingmenn flokksins vinna eftir. En það er ekki þar með sagt að 90% flokksmanna kjósi aðild að ESB. Ég var t.d. samþykkur stefnu Framsóknarflokksins á þessu þingi og hef lengi verið þeirrar skoðunar að við eigum að stefna að því að taka upp aðildarviðræður við ESB. En hins vegar er ég mótfallinn þeirri stefnu sem mörkuð var strax við upphaf umræðunnar um aðildarviðræður. Ég tel að við ættum að setja okkur samningsmarkmið líkt og flokksþingið lagði til en ekki það eitt markmið að komast í ESB.
Þess vegna er ég ánægður með þingmenn Framsóknarflokksins og þeirra framgöngu í málinu. Það sem meira er að ég er sáttur við þá alla, því að ég veit að innan flokksins eru skiptar skoðanir og sitt sýnist hverjum.
Hallur, ég skil ekki alveg þessa umræðu, nema hún eigi að vera einhverskonar fræðileg umræða um fortíð aðildarumsóknarinnar. Sko þetta mál er búið. Þetta er ekki lengur og verður aldrei aftur á forræði flokkanna, hvort sem flokkurinn heitir Framsókn, VG eða eitthvað annað.
Það er búið að sækja um inngöngu inn í esb, alþingi gerði það. Alþingi mun ekki einu sinni fjalla meira um málið, samningurinn sem gerður mun verða verður lagður undir þjóðina – ekki Sjálfstæðisflokk eða Framsókn, ekki Hreyfinguna eða Samfylkinguna. Nei – þjóðina.
Vonandi verður umræðan sem fylgir samningnum málefnaleg, vonandi verður samningurinn krufinn til mergjar og allar skoðanir fái að koma fram. En það verður fyrst og fremst verkefni fjölmiðla, ekki stjórnmálaflokka. Enda er þetta ekki flokkspólitískt mál. Flokkarnir eru búnir með sína aðkomu að málinu, nú tekur þjóðin við.
Gissur.
Það er rangt hjá þér að þingmenn flokksins vinni eftir niðurstöðu flokksþings. Sumir vinna hatrammlega gegn henni.
Bið þig að lesa pistil minn aftur.
Það sem ég segi í pistlinum – er að flokksþing hafi samþykkt AÐILDARVIÐRÆÐUR að ESB. Ekki AÐILD að ESB. Það hef ég aldrei sagt – hvorki í þessum pistli né annars staðar.
Enda hef ég sjálfur ekki tekið afstöðu til þess hvort við eigum að ganga í ESB. Einungis að það eigi að ganga til aðildarviðræðna – og að þjóðin taki afstöðu til aðildar þegar aðildarsamningur liggur fyrir. Enda ekki unnt að taka vitræna afstöðu fyrr en við vitum hvernir slíkur samningur lítur út.
ÞAÐ VAR NIÐURSTAÐA FLOKKSÞINGS!
Frábið mér komment um að ég skauti framhjá sannleikanum í málinu – það er EKKERT í pistlinum sem ekki er sannleikanum samkvæmt. EKKERT.
Það að flokksþing Framsóknarflokksins 2009 skyldi samþykkja aðildarumsókn að ESB en síðan 6 af 9 þingmönnum flokksins greiða atkvæði gegn því að sækja um aðild hálfu ári seinna sýnir einfaldlega að Framsóknarflokkurinn er hvorki trúverðugur né stjórntækur í augnablikinu.
Tíminn verður síðan að leyða það í ljós hvort hann verður það einhvern tímann.
Þórður.
Já, þetta er fræðileg umræða um fortíð aðildarumsóknar – en einnig áminning á samþykkta stefnu Framsóknarflokksins – sem sumir þingmenn hafa unnið hatrammlega gegn.
Ástæða þess að ég rifja þetta upp nú er að margir telja Framsóknarflokkinn á móti aðildarumsókn að ESB. Eðlielga því sumri þingmenn hafa unnið og talað gegn samþykktri stefnu flokksins í Evrópumálum.
En einnig að minna núverandi Framsóknarmenn, fyrrverandi Framsóknarmenn og aðra frjálslynda miðjumenn á að til staðar er afar vandaður grunnur að miðjustefnu sem ber að halda á lofti í aðildarviðræðunum.
Einnig að vekja núverandi Framsóknarmenn, fyrrverandi Framsóknarmenn og aðra frjálslynda miðjumenn sem vilja klára aðildarumsókn til umhugsunar um að taka höndum saman og vinna að framgangi samvinnu og frjálslyndis í aðildarviðræðunum.
Því miður hefur hluti þingflokks Framsóknarflokksins ákveðið að vinna gegn skynsamlegri samþykktri stefnu flokksins í Evrópumálum – stefnu sem ætti að vera kjölfestan í aðildarviðræðunum.
Leifur.
Það var að mestu leiti tilviljun að þingflokkur Framsóknarflokksins endurspeglaði ekki vilja flokksmanna á þeim tíma í Evrópumálum.
Það er ein ástæða þess að flokkurinn hefur ekki náð vopnum sínum í kjölfar mikilvægrar endurnýjunnar.
En málið snýst ekki um flokka – heldur hugmyndafræði og stefnu. Sú faglega vinna sem Framsóknarflokkurinn vann í Evrópumálum á síðasta áratug og sú skynsamlega stefna sem flokksþing samþykkti ætti að hafa vísan langt út fyrir flokkinn.
Það að hluti þingsflokks hafi horfið frá stefnunni ætti einmitt að gera fleirum kleift að vinna að henni utan stjórnmálaflokka.
Já, það er rétt hjá þér Hallur og bið þig afsökunar á að hafa vænt þig um að segja ósatt. Meining mín var að mér finnst þú ekki segja allan sannleikann.
Það er alveg rétt að ályktun flokksþingsins hefst svo „Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi…“ en hún ef miklu lengri eins og sjá má hér http://www.framsokn.is/files/3948-0.pdf og þar eru talin upp skilyrði sem ég og þú og 90% þingfulltrúa samþykktu.
Ályktunin endar á þessum orðum, sem kölluð eru fyrstu skref. „Þessi helstu samningsmarkmið, sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda, með sem víðtækastri samstöðu, verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræður við Evrópusambandið.“ Þessu tel ég að hafi ekki verið framfylgt (sérstaklega ekki þessu um víðtæku samstöðuna) og því ekki óeðlilegt að þingmen hafi greitt atkvæði á móti aðildarviðræðum.
Tek undir með Þórði að í raun er þetta umræða um fortíðina og ekki hefur Framsóknarflokkurinn ályktað um aðild að ESB, Því veitir ekki af að „aðildarviðræðusinnar“ taki höndum saman eins og þú segir í nafni „samvinnu og frjálslyndis“ og það verður hvergi betur gert en innan Framsóknarflokksins þar sem allar góðar hugmyndir eiga heima.
Ekkert stórmál Gissur.
Skilyrðin sem eru sett fyrir aðildarsamning eru mjög mikilvæg.
Það ætti náttúrlega að leggja þau til grundvallar í aðildarviðræðunum. Ég veit að þau hafa verið til hliðsjónar í undirbúningi viðræðnanna – en eiginlegar viðræður eru að fara að hefjast. Hingað til hefur starfið verið greining á stöðunni.
Það er þess vegna sem ég dreg þetta fram núna!
Mér finnst ég ekki draga úr hörðum ágreiningi innan Framsónar um Evrópumál gegnumtíðina. Þvert á móti.
Hins vegar finnst mér skipta máli að við notum þá faglegu vinnu sem unnin hefur verið á vegum flokksins – og á erindi langt út fyrir flokkinn – í vinnuna á næstunni.
Ég vil líka gjarnan taka þessa málefnalegu umræðu sem við erum að taka – að mestu leiti – til að hafa áhrif á það hvernig tekið verði á málunum.
Og ég vil fá frjálslynt, Evrópusinnað miðjufólk til að taka höndum saman um þau grunngildi sem Framsókn hefur lagt í Evrópumálum – óháð flokkum.
Líka þig Gissur – þótt þú hafir efasemdir. Ég hef efasemdir um inngöngu – en vil klára aðildarviðræður og leggja samning fyrir þjóðina. Helst samning sem tekur tillit til skilyrða sem fram koma í samþykkt flokksþings Framsóknar
Hallur má ekki treysta því að Jón Siurðsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins fylgi þér í þessa hreyfingu þína ? Er e.t.v. Von til þess að Halldór Ásgrímsson fylgi líka með ? Með þessa tvo „heiðursmenn“ með þér þyrftir þú varla að örvænta um fjöldafylgi, þið gætuð jafnvel náð tölunni 7 þ. e. ef þið teljið makana með.
Annars og að öllu gríni slepptu þá dáist maður nú innst inni að ykkur þessum félagsmálatröllum sem hafið vit á öllu og vitið þar af leiðandi best allra hvað okkur hinum er fyrir bestu. Og ef þið sem hafið þessa miklu samfélagsvitund náið ekki að sannfæra flokkinn ykkar þá er bara sagt bless og stofnuð ný hreyfing. Svei mér þá ef maður fer ekki að halda að þið hafið einfaldlega lifibrauð af því að vera í félagsmálastússi ?
Ég sá að einhver kratasamtök ( ég hef aldrei verið hrifin af ykkur krötum ) voru að sameinast i ein ESB samtök en á sama tíma segist þú vera að stofna ný samtök miðjumanna um ESB aðild. Af hverju þarf fleiri ESB samtök ? Ég skil þetta ekki er hægt að velja um ESB fyrir krata og annað ESB fyrir miðjumenn ?
Margr málefnalegt hér í andsvörum og sumt ekki. Tilhneigingin er sú að menn hlusti/lesi ekki rök andmælanda. Þann rann Gissur af leið en komst á fætur. Ekki er betra að rökkastast með hroka eins og Þórður virðist gera. Gera lítið úr því að áhugafólk um ESB sameininst. Ekkert er við það að athuga að menn hafi mismunandi sýn á aðild en sameinist í regnhlífarsamtök. Því fleiri sjónarmið því betra.
Ég hef aldrei skilið þá afstöðu nokkurra þingmanna framsóknar að reyna að koma í veg fyrir að ferlið taki enda. Að við að lokum fáum að kjósa um samning – punktur. Hvað er svona hættulegt við að kjósa um samning? Það er tvískynnungur að hrópa á stjórnlagaþing, opið lýðræði, þjóðaratkvæði um Icesave, allt upp á borðið, meiri áhrif almennings, nýtt Ísland o.sv.fr. ef að á sama tíma er komið í veg fyrir lýðræðislegar kosningar um samning við ESB – góðan eða vondann eftir atvikum. Fólk getur þá sagt hug sinn í atkvæðagreiðslu.
Allt tal um aðlögun, mikinn kostnað og rangar forsendur er bara fyrirsláttur þeirra sem eru í hjarta sínu á móti því að yfirleitt verði samið við bandalagið. Þeir fá tækifæri til að kjósa um aðild þegar samningur liggur fyrir í eitt skipti fyrir öll. Búið mál og við getum þá snúið okkur að öðru ef samningur verður felldur í þjóðaratkvæði.
Jahérna hér, Gísli. Hvernig lestu það út úr skrifum mínum að ég sé með hroka gagnvart fólki sem vill ganga í esb???
Ég er sjálfur í tveim af þessum fimm félögum sem voru að sameinast.
Og í hverju og hverjum sýndi ég hroka? Ég var að benda á að valið er úr þessu þjóðarinnar, ekki Framsóknarflokksins.
Mér þætti vænt um að þú útskýrðir í hverju meintur hroki minn liggur.
Með fyrirfram þakklæti.
Fyrirgefðu margfaldlega Þórður Áskell! Skjásýni mitt er ekki meir en það að skeyti mitt átti að lenda á HH; „Ég sá að einhver kratasamtök ( ég hef aldrei verið hrifin af ykkur krötum ) voru að sameinast i ein ESB samtök en á sama tíma segist þú vera að stofna ný samtök miðjumanna um ESB aðild. Af hverju þarf fleiri ESB samtök ? Ég skil þetta ekki er hægt að velja um ESB fyrir krata og annað ESB fyrir miðjumenn ?“ Aftur árétta afsökun….