Mánudagur 30.05.2011 - 09:09 - 15 ummæli

Mikilvægur misskilningur Jóhönnu!

Frjálslynt fólk í Samfylkingu, Framsókn og Sjálfstæðisflokki eiga oft á tíðum miklu meira sameiginlegt með hvort öðru en með öðrum hópum innan sömu flokka.  Þetta hefur Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar áttað sig á og biðlar nú til Evrópusinnaðs fólks í Framsókn og Sjálfstæðisflokki um að stofna nýjan flokk með Samfylkingunni.

Þetta er pólitískt mjög merkileg yfirlýsing hjá Jóhönnu!

Vandamálið hjá Jóhönnu er hins vegar að málið snýst um frjálslyndið en ekki Evrópusambandið. Það er nefnilega ákveðinn hópur í Samfylkingunni sem er ekkert sérstaklega frjálslyndur. Eins og til dæmis Jóhanna sjálf. Á sama hátt og innan Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru hópar sem eru allt annað en frjálslyndir.

Uppstokkun flokkakerfisins er því ekki spurning um að frjálslyndir hópar innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gangi í Samfylkinguna.

Vissulega er fylgi við aðildarviðræður að Evrópusambandinu langtum mun meira hjá frjálslyndu fólki í Framsókn og Sjálfstæðisflokki en öðrum hópum innan þeirra flokka. En það er ekki algilt samansem merki milli þessa. Ekki frekar en að það sé samasem merki milli Evrópusinnaðs fólk innan Samfylkingarinnar og frjálslyndis. Innan Framsóknarflokksins er til dæmis hópur frjálslynds fólks sem er efins um aðild að ESB á þessari stundu.

Þegar og ef íslenska flokkakerfið stokkast upp – þá mun það ekki gerast vegna Evrópumála sérstaklega – þótt átök stækra andstæðinga Evrópusambandsins og frjálslynds fólks sem vill klára aðildarviðræður að Evrópusambandinu hafi vissulega losað um flokkstengsl. Það mun stokkast upp á grundvelli hugmyndafræði og lífsskoðana óháð aðildarviðræðum að Evrópusambandinu – sem væntanlega verða að baki fyrir næstu Alþingiskosningar.

Í slíkri uppstokkun mun Samfylkingin klofna eins og aðrir flokkar – og flokkakerfið leggja sig upp á nýtt.  Það er jákvætt. Líka fyrir fólkið í Samfylkingunni.

En þrátt fyrri þetta þá er yfirlýsing Jóhönnu Sigurðardóttur stórmerkileg – og gæti mögulega komið af stað ferli sem endi í allt öðru flokkamynstri en það úrelta flokkakerfi sem við sjáum í dag.

Sjá einnig fyrri pistil minn „Hrun 100 ára flokkakerfis“ .

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Jóhanna var ekki að bjóða eitt eða neitt. Hún veit af óróleika í eigin röðum og þetta tilboð var bara til að friða þær sálir og halda þeim heima við.

  • Jóhanna vill fá Hall og Evu-flokkin sem er flokkur inní Framsókn en sást ekki á flokksþinginu, svo vill hún fá Þorgerði sem skuldar 1700.000.000.

  • Mjög góður pistill hjá þér Hallur þú ert alveg með þetta, eini ljóðurinn á skrifum þínum er að þú ert alltaf að gefa fólki þá einkunn að það sé „frjálslynt“ eða ekki „frjálslynt“. Sé reyndar í fyrsta skipti hjá þér, að þú setur ekki sama-sem merki milli stuðnings við ESB aðild og frjálslyndis enda er ekkert í fari ESB sinna sem flokka má sem frjálslyndi. Einstaklingar í þessum hópi geta verið frjálslyndir eða íhaldssamir en stuðningur við ESB er ekki merki um frjálslyndi, fyrst og fremst stuðningur við „burokratisma“.Var Steingrímur Hermannsson minna frjálslyndur en Halldór Ásgrímsson?
    En það er fróðlegt að velta fyrir sér ástæðu þess að spunameistari Jóhönnu hann Hrannar B Arnarson lét hana setja fram þessa hugmynd á flokksfundinum. Ég les það út úr þessari hugmynd að Jóhanna sé að undirbúa brottför sína, þetta er bara forleikurinn. Hún mun réttlæta brottförina með því að hun vilji opna möguleika á stofnun breiðfylkingar, bla, bla, bla.
    Ég var nú viss um að þú mundir ekki falla fyrir þessu gylliboði Hallur ættir að fara að ganga aftur í Framsókn þar sem þú átt heima. Ég var líka viss um GVald ( sbr skrif hans hér að framan ) þó hann sé nú brokkgengur blessaður. En það kæmi mér ekki á óvart þó Jón Sigurðsson fyrrum form Framsóknar noti tækifærið og gangi í herbúðir kratanna, í þeirri von að komast aftur að svipuðum kjötkötlum og Halldór Ásgrímsson kom honum að. Mig minnir líka að Jón hafi verið krati hér í eina tíð, var hann ekki félagi í Þjóðvarnarflokki Ragnars Arnalds í eina tíð ?

  • Hallur Magnússon

    Heiða.

    Þú ættir að lesa pistlana mína enn betur! Ég hef margoft farið bent á að það sé EKKI samasemmerki milli þess að vera stuðningsmaður ESB og að vera frjálslyndur Framsóknarmaður.

    Svo verð ég að leiðrétta þig um eitt. Það er ekki sama að vera ESB-sinni – og þess að vilja aðildarviðræður við ESB og taka afstöðu í kjölfar þess. Reyndar var það stefna Framsóknarflokksins þangað til á fámennu flokksþingi í vor.

    Hins vegar er eðli málsins vegna hærra hlutfall frjálslyndra Framsóknarmanna á því að það skuli ganga til aðildarviðræðna og taka afstöðu eftir að samningur liggur fyrir – en annarra sem hanga í ímynduðum sérhagsmunum og hræðast niðurstöðu slíks samkomulags. En það er annað mál.

    Steingrímur Hermannsson er einmitt gott dæmi um frjálslyndan Framsóknarmann.

    Sérkennileg ólund þín út í Jón Sigurðsson. Þú þekkir manninn greinielga ekki neitt fyrst þú tengir hann kjörkötlum 🙂 Það væri betra að sumir Framsóknarmenn væru jafn miklir hugsjónamenn og hann!

    Talandi um kjötkatla. Veistu afhverju Sigmundur skipaði Arnar Bjarnason í stjórn Landsvirkunar?

  • Anna María Sverrisdóttir

    Mér fannst Jóhanna ekki vera að bjóða neinum í Samfylkinguna heldur bjóða upp á stofnun nýs flokks umrædds fólks. Raunar er ég alls ekki sátt við þessa hugmynd Jóhönnu þó almennt treysti ég henni betur en mörgum öðrum. Ég vil bara meina að það sé grundvallarmunur á sjónarmiðum fólks í þessum flokkum og það verði farsælt að þeir sameinist. Þess vegna tek ég ekki undir með Jóhönnu að þessu sinni. En höfum það sem sannara reynist um það sem Jóhanna var að ræða um.

  • Anna María Sverrisdóttir

    Ekki farsælt átti þetta að vera.

  • stefán benediktsson

    Í hverju kemur frjálslyndisskortur Jóhönnu fram?

  • Hallur Magnússon

    Stefán.
    Óheftu stjórnlyndi.

  • Sæll Hallur.
    Ég þekki ekkert til stjórnar Landsvirkjunar eða skipunar í þá stjórn og skil alls ekki hvernig það mál kemur því máli við sem við höfum verið að ræða ? Er ekki nefndur Dr. Arnar Bjarnason hinn ágætasti kandidat í stjórn Landsvirkjunar?Var eitthvað að þeirri skipun hjá Alþingi væntanlega skv tilnefningu Framsóknar ? Segðu okkur hinum hvað þú ert að fara með því að nefna þetta, berðu kala til nefnds Arnars? Maður verður forvitinn ?
    En þú fótar þig alls ekki í umræðu um hugtakið “ frjálslyndi“ getur ekki rætt það nema í tengslum við umsókn að ESB. Sérkennilega þröng skilgreining á frjálslyndi þó þú tönnlist á að ESB sé ekki eina skilgreining þín á frjálslyndi þá kemur lítið annað frá þér í þeim efnum. ( Þú ert samt ágætur Hallur þó þú fótir þig ekki á þessu frjálslyndismáli 🙂 búin að þekkja þig lengi )

  • Hallur Magnússon

    Heiða.

    Hafir þú þekkt mig lengi – þá ættir þú að vita að ég hef ekki beintengt frjálslyndi og aðildarumsókn að ESB – eins og þú rembist aftur og aftur á að reyna að gera mér upp. Líklega vegna þess að þú óttast frjálslyndið í Framsókn.

    En Heiða.

    Þessi kafli:

    „Er ekki nefndur Dr. Arnar Bjarnason hinn ágætasti kandidat í stjórn Landsvirkjunar?Var eitthvað að þeirri skipun hjá Alþingi væntanlega skv tilnefningu Framsóknar ? “

    er dálítið skemmtilegur 🙂

    Sérstaklega þessi vísun í að Arnar kallinn hefur nælt sér í doktorsgráðu 🙂

    Heiða.

    Ertu kannske „Dr. Arnar Bjarnason“ 🙂

    Spurning mín vaknaði bara upp úr því að þú fórst að tala um kjötkatla – og að Alþingi “ væntanlega skv tilnefningu Framsóknar“ hafði skipt öðrum manni út úr stjórn fyrir doktorinn 🙂

    Auðvitað var það að tilnefningu formanns eða þingflokksformanns Framsóknarrflokksins!

    Reyndu ekki að sýnast heimskari en þú ert – því þú ert ljómandi vel gefinn.

    Það hefði engum utan Framsóknar dottið í hug að skipa Dr. Arnar í stjórn Landvirkjunnar. Ekki einu sinni helmingur þingflokks Framsóknarflokksins hefði dottið það í hug!

    En fyrst þú ert svona hrifinn af doktorstitli Klaustursdrengsins – af hverju notar þú ekki doktorstitil dr. Jóns Sigurðssonar fyrrverandi ritstjóra Samvinnunnar – með meiru?

    Já, spurningin um kala til dr. Arnars!

    Nei, alls ekki!

    En mundi eftir honum um daginn þegar ég var að fara yfir ótrúlegt gjaldþrot Sparisjóðar Mýrasýslu og afdrif Reykjavík Capital.

  • 🙂 🙂 🙂
    Það er bara svona, þetta er skemmtielgt líf.

  • Hallur Magnússon

    Um það getum við verið sammála Heiða 🙂

  • Sæll Hallur
    segðu mér meira frá Reykjavík Capital !!! er það partur af Sparisjóð Mýrasýslu í dag ????, hvað var gjaldþrotið stórt á Bílaleiguni sem þú stjórnaðir ? tapaði Sparisjóður Mýra á því ?

  • Hallur Magnússon

    Gormar 45.

    Hitti ég á snöggan blett 🙂

    Reyndar stjórnaði ég ekki bílaleigunni Sixt – heldur bróðir minn – en rekstur þeirrar bílaleigu gekk ótrúlega vel árið 2008 – árið sem allar þessar stóru fóru á hausinn svo tapið hjá þeim skipti milljörðum – þrátt fyrir að ekki fékkst eðlileg fjármögnun úr bankakerfinu til endurnýjunar bílaflota Sixt.

    Hins vegar voru það mistök Sparisjóðs Mýrasýslu sem varð til þess að ekki varð rekstrargrundvöllur fyrir bílaleigunni haustið 2008 – ekki rekstur fyrirtækisins. Þvert á móti var reksturinn það góður að nýr öflugur aðili var að koma til liðs við félagið í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu.

    Fyrst þú vekur máls á þessu skal ég fara yfir málavöxtu.

    Í fjármögnun á bílaflota Sixt hjá Sparisjóði Mýrasýslu árið 2006 var á öllum stigum gengið úr frá því að lánin væru í gjaldeyrislánum (sem nú hafa verið dæmd ólögmæt) og að endurkaup bílaumboðsins á bílunum væru einnig í gjaldeyri. Eðlilega. Enda tekjur leigunnar fyrst og fremst í erlendum gjaldeyri.

    Þannig voru lánapappírar á öllum stigum – þar til á því síðasta – þegar einhver snillingur hjá Sparisjóði Mýrasýslu ákvað upp á sitt einsdæmi að breyta endurkaupasamningnum við bílaumboðið úr gjaldeyri í íslenskar krónur. Sem er náttúrlega gersamlega galið vegna gengisáhættunnar.

    Það sem meira var – Sparisjóður Mýrasýslu lét engan vita af þessari breytingu á lánapappírum sem gerð var korter fyrir undirskrift. Þáverandi stjórnarformaður Sixt – sem reyndar starfaði hjá fyrrnefndu Reykjavík Capital eins og doktor Arnar Bjarnason – skrifaði undir lánapappírana án þess að taka eftir þessari örlagaríku breytingu.

    Þessi mistök Sparisjóðs Mýrasýslu varð til þess að við hrun íslensku krónunnar varð mikill munur á skuldbindingunum sem Sixt þurftu að standa við í erlendu láni – og skuldbindingum endurkaupanda bílanna – bílaumboðsins – í íslenskum krónum. Hrun krónunar varð til þess að ekki var lengur rekstrargrundvöllur fyrir bílaleigunni.

    Sparisjóður Mýrasýslu hefur væntanlega tapað töluverðu á þessum mistökum sínum. Tilfinnanlegra var þó tapið fyrir þá sem höfðu lagt mikla fjármuni og mikla vinnu í rekstur fyrirtækisins – og hefðu uppskorið ríkulega á árinu 2009 – 2001. Ef ekki hefði verið fyrir aulaskap Sparisjóðs Mýrasýslu.

    Takk fyrir að gefa mér tækifæri á að koma þessari sorgarsögu mista Sparisjóðs Mýrasýslu á framfæri – því sumir halda að ástæða þess að Sixt skipti um eigendur hafi verið vegna þess að daglegur rekstur leigunnar gekk ekki upp á erfiðum tíma – þegar hið rétt var að reksturinn gekk ótrúelga vel í erfiðum aðstæðum – en fáránlega mistök sparisjóðsins – og fyrrum stjórnarmanns sem treysti því að hann væri að skrifa undir þá pappíra sem hann hafði áður séð – og las ekki það sem hann skrifað undir.

  • Hallur Magnússon

    … og Gormar45.

    Mikilmenni ertu. Þorir ekki að koma undir nafni!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur