Fimmtudagur 09.06.2011 - 18:54 - 26 ummæli

Guðni á móti ESB vegna misskilnings?

Guðni Ágústsson er á móti aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið vegna misskilnings.  Það kom skýrt fram í viðtali við hann á Útvarpi Sögu.

Rök Guðna gegn aðildarviðræðum voru eitthvað á þá leið að „…við Íslendingar viljum ekki innflutning á lifandi búfénaði og hráu kjöti til Íslands. Við Íslendingar viljum ekki að Íslendingar beri vopn og gegni herskyldu fyrir Evrópusambandið. Íslendingar vilja ekki að landhelgin okkar fyllist ef erlendum togurum sem veiða fiskistofnana okkar“.

Það er alveg rétt að við „…við Íslendingar viljum ekki innflutning á lifandi búfénaði og hráu kjöti til Íslands. Við Íslendingar viljum ekki að Íslendingar beri vopn og gegni herskyldu fyrir Evrópusambandið. Íslendingar vilja ekki að landhelgin okkar fyllist ef erlendum togurum sem veiða fiskistofnana okkar“.

Það hefur bara ekkert með aðildarviðræður og mögulega inngöngu að Evrópusambandinu að gera.

Þvert á móti.

Því  aðildarviðræðurnar ganga meðal annars út á að við mögulega inngöngu verði tryggt að slík innganga þýði EKKI innflutning á lifandi búfénaði og hráu kjöti til Íslands. Að Íslendingar beri EKKI vopn og gegni EKKI herskyldu fyrir Evrópusambandið.  Einnig að landhelgin okkar fyllist EKKI af erlendum togurum sem veiða fiskistofnana okkar.

Ef slíkt verður ekki tryggt í aðildarsamningi mun íslenska þjóðin fella hann í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Reyndar er alveg ljóst að mýtan um herskyldu sem ungir bændur undir leiðsögn trúbróður Guðna – Ásmundar Einars Daðasonar – reyndu að ljúga inn á þjóðina stenst ekki. Evrópusambandið getur einfaldlega ekki skikkað einstök ríki innan sambandsins til herskyldu.

Reyndar eru allar líkur á því að Evrópusambandið muni telja það fullkomlega eðlilegt í ljósi sérstöðu og aldalangrar einangrunar íslenskra búfjárstofna að í bindandi aðildarsamningi verði tryggt að ekki verði flutt inn lifandi fé gegn vilja Íslendinga. Ekki frekar en nú.

Reyndar eru allar líkur á því að ef Íslendingar kjósa svo þá verði íslenska landhelgin lokuð erlendum togurum . Enda gera núverandi reglur Evrópusambandsins EKKI ráð fyrir að landhelgin opnist fyrir erlendum togurum þótt Ísland gangi inn!

En Guðni vill bara ekki láta á þetta reyna. Hann óttast að staðhæfingar hans standist ekki og þá er svo erfitt að standa frammi fyrir þjóðinni og segjast vera á móti aðild að ESB. Því Guðni er á móti aðild að ESB – hvað sem er í boði. Ég virði skoðun Guðna að vera á móti inngöngu í Evrópusambandið. Hann hefir rétt til þess og þarf ekki að færa rök fyrir þeirri skoðun sinni.  Og alls ekki með hjákátlegum tröllasögur hans sem hann vill ekki láta reyna á hvort séu réttar eða ekki í aðildarviðræðum.

Ef tröllasögur Guðna reynast réttar þá mun þjóðin fella aðildarsamning við Evrópusambandið. Því ætti Guðni ekki að óttast aðildarviðræður. En hann óttast þær samt. Af hverju ætli það sé?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (26)

  • Sæll; Hallur !

    Burt séð; frá “misskilningi“ Guðna Ágústssonar – eða annarra, vita sæmilega upplýstir Íslendingar, í hverju ESB ríkja samsteypan liggur.

    Beint framhald; Þriðja ríkis Þjóðverja (1933 – 1945), en með sterkum einkennum forsjár skipulags og hafta kerfis, gömlu Sovétríkjanna, jafnframt.

    Hvað; sem líður gaspri, þeirra Barrósó´s, og hans hirðar í dag, um ómótsæðilegan mikilleik Evrópusambandsins, sem,, í öllu sannar sig í, að vera leppríkja samsteypa Bandaríkjanna, nr. 1, á Heims vísu, og er þá mikið sagt (sé litið til Saudi- Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna, til hliðsjónar), að þá var Comecon heitið (Efnahagsbandalag Austur- Evrópu), ívið frjálslegra, í öllum reglugerða frumskógum sínum.

    Það; sem þið ESB liðar teljið óumbreytanlegt í dag (Herskylda – fiskveiðikerfi, o.s.frv.), suður í Brussel, kann að hljóma, á allt aðra vegu, á morgun.

    Fyrir nú utan; þá einföldu staðreynd, að Íslendingum farnast mun betur, að eiga óhindruð samskipti, við alla veröldina – en ekki; binda trúss sitt, við lítil 9 – 10%, hluta hennar, eins og í augum allra skynsamra ætti, við að blasa, Hallur minn.

    Með kveðjum; úr Árnesþingi /

    Óskar Helgi Helgason

  • Búinn að fá leið á þessu ESB kjaftæði, hef áhuga á að snúa mér að öllu alvarlegra máli sem, varðar framsóknarflokkinn, ef ég má.

    Í tillögum framsóknarflokksins til strandveiða, kemur fram að þeirra tillaga, er að til að fá leifi til að meiga stunda strandveiðar, skuli viðkomandi einstaklingur hafa skipstjóraréttindi, og þarf sannanlega að vera meirihluta eigandi viðkomandi báts. Þetta eru aðrar og strangari reglur en eru um þá sem fara að gera út í krókaaflamarkskerfinu. og stóra Aflamarkskerfinu, hér er greinilega verið að mismuna einstaklingum, sem stenst ekki 65. gr. stjórnarskrárinnar „allir skulu jafnir fyrir lögum“ og sömuleiðis brot á 11. gr. stjórnsýslulaga“stjórnvöld skul gæta þess að samræmis og jafnræðis gæti í lagalegu tilliti“

    Nú held ég að góðir og sannir framsóknarmenn, þurfi að safna fyrir stjórnarskránni, og stjórnsýslulögum, og senda þingmenn sýna í próf í þessum fræðum, þar sem ég veit að þú ert góður og gegn framsóknarmaður, þá lætur þú þá ekki opinbera sig svona frammi fyrir alþjóð.

  • Sæll Hallur,

    Svo öllu sé haldið til haga þá kom hvergi fram í þættinum að Guðni óttist aðildarviðræður.

  • Hallur Magnússon

    Jón B Lorange.

    Þannig að öllu sé til haga haldið.

    Guðni er á móti aðildarviðræðum. Hann hefur barist gegn þeim með kjafti og klóm. Hann hefur barist fyrir því að aðildarviðræðum verði hætt. Það er að óttast aðidlarviðræður – þótt hann hafi ekki sagt það beint í þættinum.

    Guðni og mágkona hans Vigdís Hauksdóttir ganga í takt í Evróðumálunum. Vigdís hefur ítrekað reynt að stöðva aðildarviðræðu. Af sama ótta og Guðni. Sem styður við bak mágkonu sinnar í því máli eins og svo mörgum öðrum.

    Guðni var hins vegar mikilfenglegur sjórnmálamaður og er stórkostlegur karakter. Þótt við séum ósammála í Evrópumálum þá höfum við verið miklir og góðir vinir. Erum það held ég ennþá.

    Ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar hefði átt að hlusta á viðvörunarorð Guðna á haustdögum 2007 varðandi efnahagsmálin. En þau létu þau eins og vind um eyru þjóta. Með þekktum afleiðingum.

    Mér finnst þáttur Guðna í að vara við þróun mála árið 2007 hafa verið undarlega þaggaður niður!

  • Sæll Hallur.
    Um meintan misskilning þinn um Guðna þ.e. hvernig hann sér ESB og þær hættur og ófærur sem hann telur að aðild myndi þýða fyrir land okkar og þjóð, þá er ég alveg sammála honum og ég er ekki að misskilja neitt.

    ESB aðild væri stórslys og stórsakðleg landi okkar og þjóð !

    Það mætti alveg eins snúa þessum meinta misskilningi uppá þig félagi Hallur og segja að það sért einmitt þú sem sért uppfullur af misskilningi og ranghugmyndum um það hvað ESB aðild myndi þýða fyrir land okkar og þjóð !

  • Hallur Magnússon

    Gunnlaugur.

    Heldur þú því fram að innganga Íslands þýði innleiðingu herskyldu á Íslandi eins og Guðni hélt fram á Útvarpi Sögu í gær?

  • Hallur Magnússon

    Gunnlaugur.

    Telur þú virkilega að landbúnaðir á Íslandi muni ekki njóta sérstöðu innan Evrópusambandsins?

    Verð að minna þig á að í AÐALSÁTTMÁLA Evrópusambandsins er sjálfræði og sérstaða landbúnaðar á Kanaríeyjum, Madeira og Azoreyjum tryggt.

    Er eitthvað sem mælir gegn því að íslenskur landbúnaður fái sambærilega stöðu í AÐALSÁTTMÁLA Evrópusambandins?

    Er eitthvað sem bendir til þess að Evrópusambandið vilji ógna hefðbundnum bústofnum á eyríkinu Íslandi með því að krefjast innflutnings á lifandi dýrum?
    ´
    Ákvæði um að innflutningur lifandi dýra milli Evrópusambandsríkja sé leyfður tekur mið af aðstæðum á meginlandi Evrópu – þar sem landamæri ríkja liggja saman – og er til þess að koma í veg fyrir tæknilegar viðskiptahindranir á landbúnaðarvörum innan Evrópusambandins.
    ´
    Hins vegar hefur Evrópusambandið viðurkennt sérstöðu eyríkja hvað þetta varðar – eins og sérákvæðin um landbúnað á Azoreyjum, Kanaríeyjum og Madeira í AÐALSÁTTMÁLA ESB sýna.

    Við eigum að láta á það reyna hvort sambærileg ákvæði gagnvart Íslandi verði í aðildarsamningi Íslands – ákvæði sem ekki verður breytt nema með samþykki Íslendinga. Ef það tekst ekki – þá skulum við tala saman. Það er barnalegt að halda því fram fyrirfram að sérstaða íslensks landbúnaðar á eyjunni Íslandi verði ekki viðurkenndur – og þess vegna eigi að hætta aðildarviðræðum.

  • Þórhallur

    Sæll Hallur.

    Góður pistill en afhverju viljum við ekki hrátt kjöt?

  • Hallur Magnússon

    Smithætta.
    Innflutta mæðuveikin dugir okkur.

  • Komið þið sælir; að nýju !

    Hallur !

    Ég sé; að þú átt við ákveðinn stirðleika að etja, að svara minni framsetningu, ágæti drengur.

    Sýnir bezt; holan hljóm, ykkar nýlendu velda (Evrópskra) aðdáenda, svo sem vænta mátti, þá; til rökræðunnar kæmi.

    Með; sömu kveðjum – sem fyrri /

    Óskar Helgi Helgason

  • Hallur Magnússon

    Óskar Helgi.

    Ég verð að játa að ég á við ákveðinn stirðleik að etja, að svara þinni framsetningu.

    Hélt þú værir að grínast!

    Meinaru þetta í alvöru?

  • Komið þið sælir; enn !

    Hallur !

    Vitaskuld; meinti ég, hvert orða minna. Læt fimbulfaldarann; Guðna Ágústsson, úr Hraungerðishreppi austur, og hans síbreytilegu meiningar, liggja millum hluta, vitaskuld.

    Með; þeim fyrri kveðjum – sem áður /

    Óskar Helgi Helgason

  • Hallur Magnússon

    Ok!

    1.
    Bið þig að rifja upp fyrir þér sögu þriðja ríkisins og óhæfuverk nasista – sem og hreinsanir Stalíns í Sovétinu, gúlakið og fjöldamorð Rússa td. á 10 þúsund pólskum liðsforingjum í Katynskógi – áður en þú heldur áfram að líkja Evrópusambandinu við kommúnista í Sovét og nasissta í Þýskalandi.

    Hins vegar má segja að Evrópusambandið sé sprottið upp úr þessum óhæfuverkum að því leitinu til að gamla stálbandalaginu – forvera ESB – var ætlað að tryggja frið í Evrópu og koma í veg fyrir að sagan í þriðja ríkinu endurtæki sig ekki.

    2.
    Ég verð að játa að ég næ þér ekki alveg í eftirfarandi fullyrðingu:

    „Hvað; sem líður gaspri, þeirra Barrósó´s, og hans hirðar í dag, um ómótsæðilegan mikilleik Evrópusambandsins, sem,, í öllu sannar sig í, að vera leppríkja samsteypa Bandaríkjanna, nr. 1, á Heims vísu, og er þá mikið sagt (sé litið til Saudi- Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna, til hliðsjónar), að þá var Comecon heitið (Efnahagsbandalag Austur- Evrópu), ívið frjálslegra, í öllum reglugerða frumskógum sínum.“

    Verð því að bíða með svar við þessu þar til ég hef fengið liðsinnis túlks.

    3.
    Aðildarviðræður að ESB snúa nákvæmlega að „óumbreytanleikanum“. Hvort við getum tryggt ákveðin atriði er varðar sérstöðu Íslands í aðildarsamningi – sem ekki verður breytt nema með samþykki Íslendinga – eða ekki.

    4.
    Veit þú ert vel gefinn. En það er barnaskapur að halda að Ísland geti átt „óhindruð samskipti“ við allan heiminn – ef þú átt við „óhindruð tvíhliða samskipti“ á sjálfstæðum forsendum Íslendinga. Gott dæmi er Norðuratlantshafsráðið – þar sem önnur ríki þess „gleymdu“ að boða Ísland á undirbúningsfund – þrátt fyrir að Ísland sé stofnaðili að ráðinu. Þá hef ég ekki séð að td. Bretar, Frakkar, Danir eða Möltubúar – hafi ekki getað haft samskipti við önnur ríki heims – þótt þessi ríki hafi verið í Evrópusambandinu.

  • Hans Haraldsson

    Hallur: Azoreyjar, Kanaríeyjar og Madeira eru ekki eyríki heldur landsvæði innan aðildarríkja, líkt ög öll önnur svæði sem njóta sérstöðu í krafti 349. greinarinnar.

    Aðildarríki verður að standast hin svokölluðu Kaupmannahafnarskilyrði. Efnahagshluti skilyrðanna gengur út á að riki sé í stakk búið til að taka fullan þátt í innri markaði sambandsins.

    Innan sumra aðildarríkja eru hinsvegar fjarlæg og sérstök landsvæði, í raun sérstök hagkerfi, sem í raun standast ekki Kaupmannahafnarskilyrðin. 349. greinin er til þess að mæta þörfum þeirra.

    Fyrsta skrefið í umsóknarferli ríkis um aðild er úttekt með tillliti til Kaupannahafnarskilyrðanna. Ísland er þegar búið að fara í gegn um þá úttekt og stóðst að því frátöldu að sambandið gerði athugasemd við skipan dómara (rýnivinnuhluti ferlisins fer ekki í gang fyrr en ríki hefur staðist Kaupmannahafnarskilyrðin).

    Hugmynd Jóns Sigurðssonar um unndanþágur fyrir fullgilt aðildarríki í kraft 349. greinarinnar er með þeim allra fráleitustu sem sett hefur verið fram í ESB-umræðunni. Almenn herskylda í Evrópuherinn er kannski sú sem helst má jafna við hana.

  • Sælir; enn !

    Hallur !

    Án þess; að ég hyggist elta frekari ólar, við hártogunum þínum, finnst mér rétt að minna á, að ágætlega komust Íslendingar af, með hægri – en öruggri framþróun; áranna 1918 – 1967, unz tekin var sú óskynsamlega ákvörðun, að ganga í EFTA.

    Annan eftirleik; þekkja allir, sem skynugir eru, til skilnings, nokkurrs, á þróun mála.

    Svo; vil ég árétta, þó ekki hafi fram komið hér, að ofan, að Ísland er óaðskiljanlegur hluti Norður- Ameríku, svo þangað mætti margt sækja, til heillavænlegrar framþróunar.

    Skenz þitt; með liðsinni túlks, til skilnings minna meininga bendir til, að lítt hugnist þér, frekari þátttaka mín, í umræðunni, hér á síðu – og; skal svo vera, um hríð, að minnsta kosti.

    Með; kveðjum þó /

    Óskar Helgi Helgason

  • Hallur Magnússon

    Æi, Óskar.
    Ekki móðgast!
    Það er alltaf gaman að fá athugasemdir frá þér 🙂

  • Sæll Hallur,

    Skrifaði pistil þér og öðrum trúgjörnum aðildarsinnum til heiðurs: http://islandsfengur.blog.is/blog/islandsfengur/

  • Hallur Magnússon

    Jón B Lorange

    Kúturinn minn 🙂

    Pistillinn þinn byrjar á rangfærslu – og heldur áfram á rangfærslu!

    Kemur reyndar ekki á óvart 🙂

    Enda orðnir rökþrota á þínum væng:)

    Kjarni málsins er einfaldur.

    Ef dómsdagsspár ykkar – eins og mýtan um herskyldu Íslendinga – ganga eftir í aðildarsamningi – þá verður hann auðvitað felldur!

    Þið Guðni – og mágkona hans Vigdís Hauksdóttir – þorið ekki að mæta þjóðinni á RAUNVERULEGUM forsendum. Þess vegna gerið þið allt til þess að ljúka ekki aðildarsamningi – því líkur eru á að dómsdagsspár ykkar rætist ekki.

    Ég hef einungis sagt að við ættum að klára aðildarviðræður og taka síðan afstöðu til niðurstöðu þeirra.

    Þannig að kalla mig aðildarsinna fellur um sig sjálft. Eins og annað í þinni röksemdarfærslu undanfarið!

    Enda hef é ekki LENGI fengið raunveruleg málefnaleg andmæli gegn því sem ég hef sett fram 🙂

    Enda eruð þið Guðni rökþrota 🙂

  • Sæll Hallur,

    Átti þetta að vera málefnalegt svar hjá þér? Þá hef ég misst af því. Komið endilega með aðildarsamning sem fyrst til að leggja fyrir þjóðina. En fyrst þarf að koma á blað samningsmarkmið. Það væri nú fínt að fá þau fram í dagsljósið, áður en samningsviðræður hefjast eftir viku.

  • Hallur Magnússon

    Jón.

    Ég er sammála þér í því!

    En Guðni og Vigdís og greinilega Sigmundur hafa einmitt barist GEGN því að halda samningsmarkmiðum Framsóknar frá því 2009 – skynsamlegum samningsmarkmiðum – á lofti.

    Þess í stað gert allt til þess að koma í VEG fyrir EÐLILEGA markmiðssetningu – með því að berjast gegn aðildarviðræum í stað þess að tryggja stöðu okkar.

    Samningsmarkmið Framsóknarflokksins hafa legið fyrri frá því í janúar 2009 – en liðið sem var kosið á þing á fölskum forsendum fyrir Framsókn – fylgdi ekki stefnunni – þvert á móti – og dró í land um daginn á afar fámennu flokksþingi.

  • Hallur Magnússon

    En þú ert sömu sökinni brendur. Vilt ekki fá niðurstöðu sem lögð verði fyrir þjóðina. Treystir þú ekki þjóðinni?

  • Jóhann Kristjánsson

    Hvernig hafa ESB sinnar hugsað sér að landbúnaði og sjávarútvegi verði háttað eftir inngöngu í ESB?

  • Sæll Hallur,

    Það er nú orðið svolítið þreytandi þessi slitna plata ykkar: ,,Treystið þið ekki þjóðinni?“. Auðvitað gerum við það og höfum gert, enda hefur þjóðin oftar en ekki haft vit fyrir stjórnmálamönnunum, þegar hún hefur fengið tækifæri til þess, svo sem í Icesave málinu.

    Hins vegar hefur það verið sjónarmið okkar margra sem eru andvígir aðild Íslands að ESB eftir að hafa kynnt okkur þær skyldur sem ESB leggur á herðar aðildarríkja, að það sé tíma- og peningaeyðsla að eyða öllum þessum tíma í vegferð sem er á fyrirheits. Þú veist alveg eins og ég hver eru lög og reglur ESB í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Ef við þurfum að undirgangast þær þá þjónar það ekki hagsmunum Íslands. Þau skilyrði sem Framsóknarflokkurinn setti fyrir aðild eru mörg algjörlega á skjön við lög og reglur ESB. Það veistu jafnvel og ég. ESB hefur þegar í þessu aðildarferli undirstrikað hvaða aðlögun þarf að fara fram í landbúnaði svo dæmi sé tekið, m.a. að hér verði að tryggja fjórfrelsið í landbúnaði og reglur um innri markað. Verndartollar eru þess vegna ekki inn í myndinni og sömuleiðis ekki bann við innflutningi á lifandi dýrum og hráu kjöti. Í sjávarútvegsmálum hefur ESB sagt jafnframt að lagasetningarvaldið verði hjá ESB.

    Það er í gangi einhver blekkingarleikur í þessum máli öllu. Við höfum þegar fengið ávinning af samstarfinu við ESB í gegnum EES. Við fengum þær sérreglur sem við þurftum á að halda varðandi sjávarútveg og landbúnað. Lengra komust við ekki.

    Við eigum að leggjast í víking með frændum okkar Norðmönnum og sækja á um endurskoðun á EES samningnum til að ,,leiðrétta“ þá annmarka sem hafa komið upp frá því sá samningur var samþykktur árið 1993. Norðmenn eru þegar farnir að þrýsta á um þessa leið.

    Ég fagna því hins vegar að loksins er komið að þeim tímamótum að nú verða menn að fara tala um staðreyndir og verða að fara að leggja á borðið samningsmarkmið.

  • Ásmundur

    ESB-aðild Íslands hefur mikil áhrif á landbúnað. Það er því skiljanlegt að Guðni sé uggandi. Það réttlætir þó engan veginn svona grófar rangfærslur. Hefur Guðni enga sómatilfinningu?

    ESB er mjög þróað lýðræðislegt bandalag sjálfstæðra ríkja þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð. Það eru því mikil öfugmæli að líkja því við samblandi af Þýskalandi Hitlerstímans og kommúnísma Sovét. Slíkt tal lýsir örvinglun.

    Með inngöngu í ESB mun Ísland njóta þeirra viðskiptasamninga sem ESB hefur gert við þjóðir utan sambandsins. Eðlilega er ESB með 500.000.000 manna markað í aðstöðu til að gera miklu betri samninga við þjóðir utan samandsins en Ísland með 320.000 manna markað.

    Í löndum Evrópu hafa hægri flokkar verið fylgjandi ESB-aðild vegna frelsis í viðskiptum og samskipuim þjóða. Hér eru öfgarnar til hægri og vinstri helstu andstæðingar aðildar af ólíkum ástæðum.

    Þrátt fyrir að afleiðingar frjálshyggjunnar liggi fyrir vilja öfga hægri menn halda henni áfram. Hún gengur út á að maka krókinn á kostnað almennings sem situr svo uppi með tjónið þegar allt hrynur.

    Öfga vinstri menn óttast allar breytingar jafnvel þó að heimurinn breytist og kalli á þær. Vegna þess hvernig heimurinn hefur breyst er valið annars vegar um ESB og evru eða hins vegar krónu og úrsögn úr EES. Seinni kostinum fylgir töluverð einangrun líkt og var hlutskipti Íslendinga lengst af á síðustu öld.

    Slíkri einangrun fylgir óhjákvæmilega mikil skerðing lífskjara almennings. EES samningurinn samræmist ekki gjaldeyrishöftum. Gjaldeyrishöft í einhverri mynd munu alltaf fylgja krónu.

  • Jóhann Kristjánsson

    Ásmundur: Mannréttindi í hávegum höfð? Hvað um reglugerðarfarganið sem fylgir því að ganga í ESB. Hér nefni ég eitt lítið dæmi glóperubannið. Eru það ekki ákveðin mannréttindi að fá t,d að velja um hvernig ljósaperur maður vill nota?

    Mér sýnist ESB ganga út á það eitt helst að setja höft á höft ofan.

    Ég fæ ekki séð hvernig það telst til mannréttinda að hefta hitt og þetta og taka það af einstaklingnum að hafa frjálst val.

  • Ásmundur

    Jóhann, að banna glóperur til að spara orku hefur ekkert með mannréttindi að gera. Sparperur gera sama gagn og glóperur.
    Vegna takmarkaðrar orku í Evrópu er þetta hagsmunamál fyrir heildina.

    Þessi ráðstöfun stuðlar að nægilegri orku á lægra verði. Það eru mannréttindi. Þannig má segja að með glóperubanni sé verið að standa vörð um þau mannréttindi að tryggja orku á sem hagstæðasta verði.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur