Þriðjudagur 06.09.2011 - 08:55 - 17 ummæli

Heilbrigð Evrópusýn Framsóknar 2001

Nú er rúmur áratugur frá því að Evrópunefnd Framsóknarflokksins lagði fram ítarlega, heilbrigða framtíðarsýn um Ísland og Evrópusambandið eftir mikið og gott málefnastarf  – eins og áður tíðkaðist í Framsóknarflokknum.

Framsóknarflokkurinn hefði betur fylgt eftir niðurstöðum Evrópunefndarinnar en flokkurinn brást í því þar sem sá hluti flokksmanna sem þá vildi takast á við Evrópumálin og skoða möguleika á aðildarviðræðum við Evrópusambandið gaf eftir gegn háværum og öflugum talsmönnum hagsmunaaðilja innan flokksins – sem að líkindum voru þá í minnihluta og hafa reyndar verið það allt fram undir það síðasta.

Nú þegar aðildarviðræður við Evrópusambandið eru hafnar er hollt að rifja upp framsýnar niðurstöður Evrópunefndarinnar – því þær geta enn komið okkur að notum. 

Ég birti einungis fyrri hlutan – en niðurstöðuna má lesa í heild með því að smella á fyrirsögnina. 

EVRÓPUNEFND FRAMSÓKNARMANNA NEFNDARÁLIT 22. janúar 2001 

1.

Eitt af verkefnum íslenskra stjórnvalda er að móta framtíðarstefnu og samningsmarkmið Íslendinga í samskiptum við Evrópuþjóðir með varanlegum og tryggilegum hætti sem samrýmist framtíðarstefnu, hagsmunum og rétti íslensku þjóðarinnar.

Í þessu skiptir m.a. máli að tryggja þátttöku Íslendinga í undirbúningi mála, umfjöllun og ákvörðunum og áhrif Íslendinga á umhverfi sitt, hagsmunamál og þróun. Evrópuþjóðir eru mikilvægustu viðskiptaþjóðir Íslendinga, og mikilvægustu menningarsamskipti Íslendinga eru við Evrópumenn.

 Íslendingar eru nú þegar virkir þátttakendur í Evrópuþróuninni og eiga mjög mikið undir því að hún skili sem mestum og bestum árangri. Leggja ber mikla áherslu ámálefnalegan undirbúning Íslendinga, upplýsingamiðlun til almennings og kynningu íslenskra hagsmuna og sjónarmiða innan lands og utan. Mikilvægir þættir í þessu starfi felast í því að undirbúa, móta og endurskoða stöðugt þá skilmála og markmið sem Íslendingar vilja leggja til grundvallar í Evrópusamskiptum og almennt í samstarfi við aðrar þjóðir. Nauðsynlegt er að leggja sérstaka áherslu á að nýta tækifæri sem fulltrúar Íslands fá í samskiptum við stofnanir Evrópusambandsins, ekki síst meðan mál eru enn á frumstigi enda vitað að ýmsar mikilvægar ákvarðanir eru mótaðar þá þegar og stefna í meðferð mála ræðst gjarnan þegar í byrjun umfjöllunar.

2.

Aðstæður í Evrópuþróuninni breytast ört og samhliða breytist aðstaða Íslendinga. Það er því tímabært að endurskoða stöðugt stöðu og horfur Íslands í Evrópuþróuninni. Það er ekki einsýnt lengur að telja Ísland utan við vettvang Evrópusambandsins eða að útiloka fyrirfram valkosti, möguleika og tækifæri þjóðarinnar á þeim vettvangi. Upplýsingar benda til þess að enn megi leitast við að treysta og styrkja framtíðarmöguleika samningsins um Evrópska Efnahagssvæðið og jafnframt kann að vera mögulegt að tryggja rétt, hagsmuni og framtíðarmöguleika Íslendinga innan Evrópusambandsins, en um slíkt þarf þó að nást samningsniðurstaða sem þjóðin fellst á. Bent hefur verið á að aðildarviðræður við Evrópusambandið nýtast einnig sem undirbúningur tvíhliða samninga eða annarra samstarfshátta en fullrar aðildar. Samskipti Íslendinga við aðrar þjóðir, þátttaka í Evrópuþróuninni og viðræður um hugsanlega aðild Íslendinga að Evrópusambandinu, ef til kæmi, eru leiðir til að ná markmiðum þjóðarinnar en ekki markmið í sjálfum sér og ákvarðanir um þessi mál eiga að vera frjálsar ákvarðanir á eigin forsendum Íslendinga og að eigin frumkvæði þeirra.

3.

Unnið skal að samningsmarkmiðum Íslendinga á sviði Evrópusamskipta á komandi árum með þessum hætti einkum:

A) Stöðugt verði unnið að stefnumótun og markmiðssetningu Íslendinga á þessum sviðum, og að endurskoðun og þróun stefnumiða í ljósi aðstæðna.

B) Samskipti Íslendinga við Evrópusambandið byggist á samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið og stefnt verði að því að samningurinn geti haldið upphaflegum markmiðum sínum og aðildarþjóðir haldið sínum hlut og réttindum andspænis Evrópusambandinu, þ.á m. sem fullgildir þátttakendur í samstarfi við nýjar stofnanir Evrópusambandsins og á nýjum sviðum sem Evrópusambandið tekur að sér.

C) Ef ekki reynist grundvöllur til að byggja á samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið, þannig að hann fullnægi til frambúðar skilyrðum og markmiðum Íslendinga, skal ákvörðun tekin um það hvort óskað skal viðræðna við Evrópusambandið um fulla aðild Íslendinga að því, m.a. á grundvelli þeirra skilmála og samningsmarkmiða sem Íslendingar setja sér, eða hvort leitað skal annarra valkosta.

D) Ef til ákvörðunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu kemur skal hún borin undir þjóðaratkvæði ásamt öðrum raunhæfum kostum er til greina koma í Evrópusamvinnunni, m.a. vegna undirbúnings að þeim breytingum á stjórnarskrá og lögum sem nauðsynlegar verða og til að hefja samningaumleitanir.

E) Ef aðildarviðræður skila sameiginlegri niðurstöðu um aðild Íslendinga að Evrópusambandinu skal hún að nýju lögð undir þjóðaratkvæði áður en til skuldbindinga kemur, en verði aðildarsamningur felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða leiði aðildarviðræður ekki til sameiginlegrar niðurstöðu, skal leitað viðræðna um tvíhliða samning við Evrópusambandið.

4.

Íslendingar eiga að öðru jöfnu ekki að leggja áherslu á að semja um undanþágur eða tímabundin frávik frá almennum skilyrðum í samskiptum sínum við erlendar þjóðir, þótt slíkt geti reynst nauðsynlegt í vissum málum vegna sérstöðu, heldur fremur á langtímasamninga og ásættanlega túlkun, útfærslur og tilhögun eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni. Reynsla þjóða af aðildarviðræðum við Evrópusambandið bendir t.a.m. til þess að nokkurt svigrúm geti verið í túlkun og útfærslum, og þurfa Íslendingar reyndar að leggja mikla áherslu á þetta hvort sem um aðildarviðræður verður að ræða eða önnur samskipti. Hér verður á eftir vikið að nokkrum mikilvægum samningsmarkmiðum og skilmálum Íslendinga í Evrópusamskiptum og samskiptum við aðrar þjóðir yfirleitt, en ekki er um tæmandi lýsingu að ræða. Sérstaklega er vikið að þeim sviðum sem samningurinn um Evrópska Efnahagssvæðið tekur ekki til.

5.

Meðal mikilvægra markmiða Íslendinga á sviði fiskveiða eru þessi: Skýlaus réttur Íslendinga við hagnýtingu auðlinda í efnahagslögsögu Íslands. Tillit verði tekið til mikilvægis fiskveiða í atvinnulífi Íslendinga og til þess að fiskveiðar eru sjálfbær og arðbær atvinnuvegur hér. Efnahagslögsagan sé viðurkennd sem sérstakt stjórnunarsvæði og fylgt ráðgjöf íslenskra stofnana við ákvarðanir um hana og nýtingu veiðistofna og annarra auðlinda innan hennar. Íslendingar annist umsjá og eftirlit með efnahagslögsögunni. Nálægðarregla ráði um alla nánari tilhögun og Íslendingar ákvarði um nánari útfærslu fiskveiðistjórnunar. Íslendingar hafi í raun algert forræði um kvótasettar

svæðisbundnar fisktegundir. Staðfest verði að þessi forgangur haldist við hugsanlega stækkun kvóta og að aðrir geti ekki nýtt sér samdrátt í veiðum Íslendinga eða vannýtta kvóta hvort sem er samtímis eða síðar, svo og að erfiðleikar í veiðum á öðrum hafsvæðum verði ekki látnir koma niður á Íslendingum. Fylgt verði ráðgjöf íslenskra stofnana um áður vannýtta veiðistofna og aðrar áður vannýttar auðlindir á svæðinu. Um nýtingu kvóta í efnahagslögsögu Íslands verði miðað við að útgerðarfyrirtæki starfi samkvæmt reglum sem kveða m.a. á um forræði og eignarhald Íslendinga, ráðstöfunar- og nýtingarrétt, hámarkskvóta og rekstrarleg tengsl við atvinnulíf í landi, þannig að tryggt sé að forræði Íslendinga yfir auðlindinni glatist ekki. Samkomulag náist um samkeppnisstöðu Íslendinga, m.a. varðandi rekstrarumhverfi fiskveiða og stuðningsaðgerðir. Íslendingar áskilji sér sjálfstæðan rétt til sóknar á úthafinu enda verði fylgt sameiginlega viðurkenndum reglum um deilistofna og úthafsveiðar, m.a. um tillit til veiðireynslu, líffræðilegrar dreifingar, og mikilvægis í efnahags- og atvinnulífi.

6.

Meðal mikilvægra markmiða Íslendinga á sviði landbúnaðar og búvöruiðnaðar eru: Áfram verði fylgt núverandi landbúnaðarstefnu, en meginatriði hennar eru m.a.:

– að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar skuli verða í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægilegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu;

 – að innlend aðföng skuli nýtast sem best við framleiðslu búvara bæði með hliðsjón af heilbrigði, framleiðsluöryggi og atvinnu; – að kjör þeirra sem landbúnað stunda skuli verða í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta. Þá er einnig mikilvægt að Ísland verði áfram viðurkennt sem sérstakt verndarsvæði vegna sjúkdómahættu í matvælum, búfé og öðrum dýrum.

7.

Meðal mikilvægra markmiða á sviði byggðamála eru:

Veittur verði skilgreindur stuðningur við atvinnuþróun og nýsköpun á landsbyggðinni til að greiða fyrir búháttabreytingum og hagræðingu með afkomuöryggi í heimabyggðum. Með skipulegum aðgerðum verði dregið úr byggðaröskun frá því sem nú er og stuðlað að þróun og eflingu atvinnulífs og félagslegrar aðstöðu á landsbyggðinni. Viðurkennd verði sérstök vandamál harðbýlis og dreifðrar byggðar hér á norðurslóðum og tekið tillit til sérstakra þarfa vegna þjónustu, fjarskipta, flutninga og samgangna.

8.

Meðal mikilvægra markmiða Íslendinga á öðrum sviðum eru þessi: Sérstök áhersla verði lögð á nálægðarreglu í stjórnsýslu og ákvörðunum sem varða Ísland og Íslendinga. Aðgengi Íslendinga verði tryggt að sameiginlegum stofnunum og undirbúningi allra mála sem snerta Íslendinga. Áfram verði haldið samstarfi Evrópuþjóða á sviði mennta-, menningar- og félagsmála. Staða Íslands í öryggis- og varnakerfi verði staðfest. Hagsmunir Íslendinga á sviði samgangna, fjarskipta og flutninga verði tryggðir og tillit tekið m.a. til sérstöðu vegna legu landsins. Tillit verði tekið til hagsmuna Íslendinga vegna ósamleitni í efnahagsmálum, þ.e. vegna þess að hagsveiflur hér eru með öðrum hætti en í helstu viðskiptalöndum. Tryggt verði að ákvarðanir vegna gjaldeyrismála hafi ekki í för með sér óeðlilega röskun á þjóðarhag. Sérstakt tillit verði tekið til aðstöðu og þróunarmöguleika nýrra hátekjugreina á Íslandi. Ákvarðað verði um hagsmuni Íslendinga í viðskiptum við þjóðir utan Evrópusambandsins. Tryggt verði nauðsynlegt svigrúm til aðlögunar, meðal annars vegna sérstöðu íslensks atvinnulífs, byggða og hagkerfis. Í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið ber m.a. að tiltaka ákvörðunarferli ef Íslendingar kjósa síðar að ganga úr Evrópusambandinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Ó hvað ég hlakka til þegar þessi umsókn verður troðið í ruslið og maður fær kanski smá frið fyrir þessum áróðri í heilaþvegnu liði eins og Halli.

    I have a dream!

  • Haha.. fyndið.. í annari grein stendur „Það er því tímabært að endurskoða stöðugt stöðu og horfur Íslands í Evrópuþróuninni.“

    Já Hallur. Þú sýnir þetta með því að blaðra um plagg sem var skrifað fyrir áratug!!! Hahahahaa

    Einhver fortíðarþrá í Halli, nostalgía um þá tíma þegar flest fólk vissi mun mun minna um ESB en í dag.

    Var þetta kanski á þeim tíma sem ESB hafði alvöru aðildarumræður, svona eins og Noregur tók þátt í? Þeir þurftu auðvitað að breyta því yfir í aðlögunarferli, þótt lygarar landsins haldi öðru fram.

    Megi skömm ykkar verða ævarandi. Landráðapakk.

  • Evrópuvaktin er með þetta:

    http://evropuvaktin.is/frettir/20051/

    Áralangar lygar esb-sinna eru nú öllum ljósar.

  • Jón Sig.

    Hvað er ESB?

    Hálf miljón blaðsíður af regluverki, og 125 þúsund eftirlitsmenn.
    Margir þessara 125 þúsund starfsmanna ESB, eru á skattfrjálsum launum og með lífeyrisjóði sína staðsetta í skattaskjólum.

    Þetta er greinilega stækkuð leikmynd úr Animal Farm.

    ESB hefur ekki getað skilað ársreykningum sínum síðast liðin 13 ár, uppáskrifuðum af löggiltum endurskoðendum. Þetta hlítur að segja heilmikið um fjármálaóreiðuna hjá ESB.

  • Tek hressilega undir með „Palla“ hér að ofan.

    Þess verður ekki langt að bíða að þessari hörmulegu ESB umsókn, verði kastað á ruslahauga sögunnar.

  • Srákar, hvað er að ykkur? Hví má ekki athuga hvað ESB hefur upp á að bjóða? Hví verða menn landráðamenn vegna þess? Hverju höfum við að tapa?

  • @thin

    Þetta er ekki að athuga hvað sé í boði, þetta er aðlögun að óumsemjanlegu regluverki ESB. Samningurinn snýst eingöngu um þessa aðlögun Íslands að ESB. Aðlögunin fer af stað í viðræðunum, áður en þjóðin kýs. Eftir að Noregur sagði nei takk við ESB, þá breytti ESB þessu ferli úr aðildarviðræðum í aðlögunarferli.

    ESB-sinnar ljúga. Staðreynd.

    Hér er það sem ESB sjálft segir um þetta ferli:

    „First, it is important to underline that the term “negotiation„ can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing af the candidate´s adoption, implementation and application of EU rules – some 90,000 pages of them.

    And these rules ( also known as „acquis“, French for „that which has been agreed“) are not negotiable. For candidates it is essentially a matter of agreeing how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate´s implementation of the rules.“

    ESB er ekki á bakvið tunglið. Það þarf engan aðlögunarsamning til að átta sig á hvað ESB er. Þetta er einfaldlega lyga-trúarofstækisáróður ESB-sinna.

  • Og maður er landráðamaður ef maður vill Ísland undir erlend yfirráð. Þannig er það bara. Því er haldið fram að við þurfum að vera inn í ESB til að hafa áhrif á ákvarðanatökur, en það er haugalýgi að við hefðum einhver áhrif.

    Við hefðum ca. 0,8% vægi í ESB. Vægið fer eftir íbúafjölda, bæði á þinginu og í ráðherraráðinu.

    Þetta eru staðreyndir. Viltu Ísland sjálfstætt eða undir erlendum yfirráðum? (sem kynslóðir Íslendinga lifðu undir og dreymdu um að losna undan. Nú vilja sumir fleygja því öllu út um gluggann. Óskiljanleg heimska.)

  • Ekki það að ég sé einhver Evrópusinni þá vil ég samt sjá hvað okkur ( lesist:mér) býðst. Ef ég er að fá eitthvað betra en ég hef þá vil ég fá að vita það. Þú segir óumsemjanlegu regluverki, bíddu hvað er verið að gera annað en að semja? Kaffidrykkja?

    Kærar þakkir fyrir málefnalegt svar við fátæklegum spurningum

  • Það eina sem er í boði, og er verið að semja um, er aðlögunin, þ.e. litlar tímabundnar undanþágur til aðlögunar.

    Ég segi ekki óumsemjanlegu regluverki, ESB segir það!!

    Ein stærsta lygin er að segja við þig (þjóðina) að þú þurfir aðlögunarsamning til að átta þig á því að hverju á að aðlaga sig. ESB er ekki á bakvið tunglið, og aðlögunarsamningur Íslands mun ekki breyta regluverki ESB.

    Og notabene, ESB er ekkert að stoppa í þróun sinni (lesist: áframhaldandi þjöppun valds í Brussel í átt að Bandaríkjum Evrópu) og Ísland mun í mesta lagi getað hrópað „múkk múkk múkk í Brussel, með öll sín 0,8% áhrif.

  • Sæll Palli og takk fyrir þetta.

    Ég skil þig ekki alveg, kannski ekki furða ljóshærð, en ertu að meina að verið sé að semja um að Ísland gangi í ESB án þess að þjóðin fái að segja neitt um það?

    Það sem við höfum horft upp á hér í Trúðalandi s.l. 3 ár segir mér að það muni ekki mikið breytast og þess vegna vil ég fá að sjá hvað þessi samningur býður upp á.

  • Aðlögun fer í gang áður en þjóðin kýs. Þetta er ferli sem fer af stað í „samningaferlinu“. Þegar Noregur sótti um og norska þjóðin felldi það svo, þá var það samningaferli með þeim skilningi sem þú setur í það orð. Eftir Noreg, í kringum síðustu aldamót, þá ákvað ESB að breyta þessu í aðlögunarferli.

    Breyta reglum/lögum, setja af stað stofnanir til að t.d. útbítta styrkjum til landbúnaðar o.fl. áður en þjóðin kýs.

    Hvers vegna heldurðu að Jón Bjarnason sé svona úthrópaður af ESB-sinnum, ef þetta væri bara samningaferli? Af hverju er „samningaferlið“ stopp? Ef þetta væri samningaferli, gæti þá það ferli ekki haldið áfram hvað sem einhver ráðherra segir?

    Samningarnir snúast svo um áframhaldandi aðlögun að óumsemjanlegu regluverki ESB, hversu langan tíma umsóknarland fær til að aðlagast.

  • Takk fyrir.

    Þá vil ég bara fara í þess aðlögun til að sjá hvað mér býðst.

    kv

  • Ef þú vilt það þá er það þinn vilji, en það þarf enga aðlögun né aðlögunarsamning til að sjá hvað er í boði. ESB er ekki á bakvið tunglið, og aðlögunarsamningur Ísland mun ekki breyta því óumsemjanlega regluverki ESB sem á að aðlagast.

    Það er ekki það sem Alþingi samþykkti né í samræmi við lygaáróðurinn um að kíkja í pakkann og sjá hvað sé í boði.

    Í ljósi þessara lyga um aðlögunarferlið, í ljósi allra breytinganna sem eiga sér stað í ESB (samþjöppun valds í Brussel og þróun í ríkjabandalags), í ljósi skoðanakannana sem sýna að stór meirihluti þjóðarinnar vill ekki í ESB né í þetta aðlögunarferli, þá á auðvitað þjóðin að ráða þessu.

    Hræsnin kemst síðan í annað veldi hjá ESB-sinnum að æpa um lýðræði við að sjá þennan aðlögunarsamning og halda áfram þessu aðlögunarferli. Þeir geta ekki einu sinni viðurkennt ferlið, þeir komast ekki út úr lygavef sínum, jafnvel þótt þeirra orð séu í hrópandi ósamræmi við það sem sjálft ESB segir.

    Sem og að þetta er algjör eyðsla á orku og tíma. Þjóðin á aldrei eftir að samþykkja aðild. ESB-sinnar halda virkilega að þeir geti þjösnað þessu í gegn með frekju og lygum.

    Þannig að það er allt í lagi fyrir þér að umsókn sé komið í gegn með lygum og frekju. Ef þú ert sammála tilganginum þá skítt með meðalið?

  • Sæll aftur og takk fyrir svarið. Það er þá ekki fyrsta og örugglega ekki í síðasta skiptið sem stjórnmálamenn ljúga að okkur. Því vil ég fá að leggja sjálfur mat á það sem okkur er boðið. Eins og ég hef áður sagt hér: stjórnmálamenn hafa lofað öllu fögru í gegnum tíðina sem síðan stenst ekki. Nægir bara að nefna sjávarútvegsmálin.

    Hafðu þökk fyrir.

  • Sammála með stjórnmálamenn. Trúi ekki einu orði sem kemur frá þeim.

    Gott að leggja sjálfur mat á allt sjálfur.

    Pointið er að þú þarft ekki aðlögun eða aðlögunarsamning til að átti þig á því að hverju á að aðlagast. ESB regluverkið er ekki á bakvið tunglið.

    (Fyrir utan að við vitum ekkert hvernig þetta á eftir að þróast. sífellt samþjappaðra vald í Brussel og þróun í ríkjabandalag, eða Bandaríki Evrópu.)

  • Góður Palli, þú ert búinn að standa þig vel. !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur