Laugardagur 10.09.2011 - 19:35 - 5 ummæli

Farvel Framsókn

Umfjöllun um vandaða og góða stefnumótunarvinnu innan Framsóknarflokksins hér á árum áður hefur verið áberandi í pistlum mínum að undanfarið.  Ástæðan er einföld.  Ég hef verið að fara yfir minnisblöð og vinnugögn frá því ég var starfandi í Framsóknarflokknum – en ég sagði mig úr flokknum 1. desember 2010.  Fannst ástæða til að koma nokkrum málefnum fortíðarinnar á framfæri nú.

Ég er stoltur yfir þeirri viðamiklu málefnavinnu sem ég tók þátt í þann aldarfjórðung sem ég var flokksbundinn í Framsóknarflokknum. Ég er stoltur yfir þeirri frjálslyndu hugmyndafræði sem ég stóð að þennan tíma og ég er stoltur af fjölmörgum málum og hugmyndum sem ég vann að með Framsóknarflokknum,.

Ég er sérstaklega stoltur yfir þeirri glæsilegu málefnavinnu sem unnin var í aðdraganda flokksþings Framsóknarflokksins árið 2009 og þeirri góðu, frjálslyndu og umburðarlyndu stefnuskrá sem lagt var l0kahönd á og samþykkt á rúmlega 900 manna flokksþingi í janúar 2009.

Nú hefur sú góða stefnuskrá verið lögð til hliðar að mestu og þess í stað teknar upp áherslur sem ég er ekki sáttur við. Enda sagði ég mig úr Framsóknarflokknum þegar ég sá hvert stefndi.

En þótt ég hafi beint sjónum að því mikla og góða málefnastarfi sem fram fór innan Framsóknarflokksins þegar ég var það innanbúðar – þá má ekki taka orð mín þannig að vandað málefnastarf fari ekki lengur fram innan flokksins. Það má finna dæmi þess að slíkt starf fari fram á svipuðum umburðarlyndum og vönduðum nótum og áður – þótt óbilgirni hafi um of einkennt starfið sumstaðar annars staðar innan flokksins.

Besta dæmi er afar vönduð vinna að tillögugerð í atvinnumálum sem Birkir Jón Jónsson varaformaður Framsóknarflokksins leiddi í aðdraganda flokksþings í vor. Það var stór og breiður hópur sem tók þátt í málefnastarfinu á opinn og lýðræðislegan hátt í anda aðferðarfræðinnar sem beitt var í aðdraganda flokksþings 2009. 

Enda var niðurstaða vinnunnar afar merkar tillögur í atvinnumálum sem Framsóknarflokkurinn hefði fram að færa inn í nýja ríkisstjórn ef sú staða kæmi upp. Og að sjálfsögðu ætti núverandi ríkisstjórn að sækja í þá smiðju.

Góð greining á ástandinu og gagnmerkar tillögur í atvinnumálum má finna í Skýrslu atvinnumálanefndar Framsóknarflokksins sem ég hvet ríkisstjórnina og áhugafólk um atvinnumál að lesa.

Ég læt nú staðar numið í umfjöllun um mikið og vandað málefnastarf Framsóknarflokksins á árum áður sem mér fannst ástæða til þess að benda á – ekki hvað síst núverandi flokksmönnum – og óska því fjölmarga ágæta fólki innan Framsóknarflokksins sem ég starfaði með hér áður allra heilla í framtíðinni.

… en að lokum læt ég fylgja frjálslyndar og vandaðar ályktanir flokksþings Framsóknarflokksins sem haldið var í janúar 2009 – ályktanir sem flokkurinn hefði betur unnið eftir – en voru meira og minna settar til hliðar á flokksþingi Framsóknar síðastliðið vor.  En þessar ályktanir virðast ekki lengur að finna á vef Framsóknar frekar en margar góðar skýrslur fyrri ára.

Ályktanir 30. flokksþings Framsóknarflokkinn 16.-18.janúar 2009

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Magnus Jonsson

    Var minna foringjaræði þegar að Halldór Ásgríms hélt í taumna ??

  • Hallur Magnússon

    Foringjaræðið var töluvert – en það var samt mikið og gott málefnastarf innan flokksins.

    Foringjaræðið var líka öðruvísi en í dag.

    Þrátt fyrir allt þá lagði Halldór áherslu á að sætta ólík sjónarmið – og þrátt fyrir allt var markmiðið að halda flokknum saman – en línan ekki sú að hrekja fólk sem ekki var á sama máli og Halldór – út úr flokknum með öllum tiltækum ráðum.

  • Hallur Magnússon

    … og til að það sé á hreinu – þá var fjarri að ég væri í náðinni hjá flokksforystunni og Halldóri – enda alltaf sagt það sem mér finnst – hvort sem það hefur komið mér vel eða ekki.

    Halldór tók okkur félagana Óskar Bergsson og G Vald á teppið einu sinni – kom sínum skoðunum á framfæri við okkur – en gerði ekkert til að koma í veg fyrir málefnastarf okkar innan flokksins.

  • Hvað fannst thér um 20% afskriftaleiðina hans Sigmundar, raunhæf? P.s. ertu að skrifa pistil með heitinu heitinu ‘Farvel Framsókn’ af thví að thað eru svo margir sem halda að thú sért enn í flokknum?

  • Hallur Magnússon

    20% tillögur Sigmundar voru ekki unnar innan Framsóknarflokksins. Þegar þær voru kynntar vissi varaformaður flokksins ekkert um þær – né aðrir í þingflokki Framsóknar. Ekki formaður málefnanefndar Framsóknarflokksins. Ekki málefnanefndin.

    Þannig að þær tillögur voru EKKI unnar á hefðbundinn hátt málefnastarfs innan Framsóknar.

    Ástæða „Farvel Framsókn“ er bara að þetta er lokapistillinn í nokkrum þar sem ég fór yfir málefnastarf fyrri tíma – og dró fram í sviðsljósið merkilega stefnumótun sem Framsókn hefur nú horfið frá.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur