Sunnudagur 16.10.2011 - 13:45 - 44 ummæli

Pólitískar hreinsanir framtíðin?

Alþingismenn Samfylkingar og Vinstri grænna eru komnir út á hála braut ef hádegisfréttir RÚV eru réttar. Þar kemur fram að þingmenn þessara flokka séu að beita sér fyrir því að afturkalla fullkomlega lögmæta ráðningu Páls Magnússonar í starf forstjóra Bankasýslu ríkisins. Ástæðan virðist sú að þingmennirnir geti ekki sætt sig við að Framsóknarmaður hafi verið ráðinn í starfið.

Ætla þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna virkilega að standa fyrir pólitískum hreinsunum?

Það er eitt að hafa þá skoðun að ákveðinn einstaklingur sé ekki rétti maðurinn í tiltekið starf. Það er eðlilegt og menn geta tjáð þá skoðun sína málefnalega. En að beita sér fyrir því af pólitískum ástæðum að menn sem uppfylla hæfnisskilyrði sem sett eru og eru metnir hæfastir af þar til bærri stjórn séu strax „reknir“ og starfið auglýst upp á nýtt – það er galið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (44)

  • Leifur A. Benediktsson

    Þessi ráðning var frá degi eitt galin. Galin segi ég vegna þess Hallur, að hún var einfaldlega gegn heilbrigðri skynsemi. Páll er eflaust hinn ágætasti kerfiskall sem slíkur. En stóra málið er að hann kom að stærstu mistökum sem íslenskir stjórnmálamenn fyrr og síðar gerðu.

    Almenningur sem borgar þessu liði laun og eftirlaun,hefur fengið sig fullsaddan af ,,plotti“ sérhagsmunapólitíkusa hverskonar. Páll fyllir þann hóp klárlega,hann er betur geymdur inn á skriftstofu sinni í Kópavogi. Þar er hann á friðarstóli.

    Hann væri maður af meiri ef hann einfaldlega afþakkaði starfið. Allt annað væri ,,galið“.

  • Að vera galinn er að æpa um pólitískar hreinsanir þegar ráðning aðila, sem var í innsta hring einkavinavæðingar bankana, í forstjórastöðu allra banka í ríkiseigu (sem áætlað er að selja síðar meir til einkaaðila), er gagnrýnd og ætlast til endurskoðunar.

    Já og þú varst í Framsókn. Tilviljun?

    Ég held að maður þurfi að vera galinn til að skrifa svona blogg eins og þú, en það er gott að vita hvar þú stendur.

  • Það hafa velflestir lýst yfir hneykslun á þessari ráðningu enda verið að ráða vanhæfasta manninn, óhæfasta manninn og ótraustvekjand mann.

    Og það kom fram í fréttum það er ekki síst það sem hefur áhrif er að menn eru á því að ráðning hans stórskaði trúverðugleika Bankasýslu Ríkisins og störf hennar, sérstaklega í ljósi þess að hann var aðstoðarmaður Finns Ingólfssonar og Valgerðar Sverris sem eru ekkert annað en pólitísk störf talin til tekna sem sérþekking, nokkuð sem Umboðsmaður Alþingis hefur sagt að geti ekki skilað slíkri þekkingu.

    Auk þess er bróðir hans háttsettur yfirmaður hjá Íslandsbanka svo að hann er orðinn vanhæfur til að koma nálægt Íslandsbanka og öllu því sem S-hópsmenn koma nálægt í viðskiptum.

    Ef Páll hefði manndóm í sér sem hann virðist ekki hafa, þá væri hann búinn að afþakka starfið og víkja eins og Runólfur Ágústsson um árið sem hafði minna á samviskunni heldur en að hafa verið aðstoðamaður tveggja ráðherra sem komu mjög náið að einkavinavæðingu bankanna.

  • Friðrik S

    Þetta er bara einn stór misskilningur hjá þér Hallur, það hefur ekkert með það að gera að maðurinn sé framsóknarmaður heldur sú staðreynd að maðurinn stóð í eldlínunni sem aðstoðarmaður ráðherra þegar ruglið stóð sem hæst. Ég hef ekki áhuga á því að slíkur maður komi nærri næstu sölu á bönkum takk fyrir.
    Maðurinn á náttúrulega að segja sig frá þessu starfi án tafar ef hann hefur snefil af skilningi á því hvers vegna stór hluti þjóðarinnar vill ekki sjá hann þarna.

  • Einar Sveinbjörnsson

    Afar umhugsunarvert Hallur.

    Alþingi kvartar mjög undan því að framkvæmdavaldið valti yfir það á skítugum skónum og oft með réttu. Samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins eru það hins vegar hrein og klár verkefni framkvæmdavaldsins að ráða í störf embættismanna. Ef Alþingi ætlar að fara að beita pólitík í hvert skipti sem ráðning forstöðumanna stofnana eða ráðuneytisstjóra huggnast því ekki, er fyrst fokið í flest skjól.

    En vissuleg getur Alþingi í þessu tilviki samþykkt vantraust á ráðherra vegna stjórnarathafna hans. Og ef allir þingmenn meirihlutans standa að vantrausti á Steingrím J vegna ráðningar í forstöðumanns bankasýslunnar (nema kannski Steingrímur sjálfur), mun Jóhanna þurfa að leita að nýjum fjármálaráðherra. Það mundi vitanlega ekki gerast, því áður en að því kæmi félli stjórnin og sennilega formaður Vg í leiðinni.

    Það skyldi þó ekki verða að ríkisstjórnin væri í þann mund að hrökklast frá á þessu litla máli ? Meirihlutar úti um landið hafa svo sem fallið út af ráðningum húsvarðar í skóla eða forstöðumanna í áhaldahúsi.

    Hver segir að ríkisstjórnir geti ekki líka fallið út af álíka, ef liðsmenn hennar eru nógu staðfastir í því að gera algjör aukaatriði að risavöxnum ágreiningi ??

    Einar Sv.

  • Jón Einarsson

    Sæll Hallur,
    Ég veit ekki hvor brautin er hálli, að láta ráðninguna standa eða afturkalla hana. Hinsvegar er ljóst hvor leiðin skapar frið um Bankasýsluna til framtíðar.
    Hvað snertir hæfi Páls, þá er mér það alveg hulið og hef ekki séð neinn rökstuðning sem ég get fallist á í því sambandi og það er það sem veldur mér, Teiti Atlasyni o.fl. áhyggjum. Páll hefur enga menntun á því sviði sem hann á að sýsla og bera ábyrgð á. Mér er hreint sama þó hann væri með doktorspóf í kynjafræði til viðbótar, menntunarstig hans skiptir engu máli nema það innihaldi á einhverju stigi eitthverja þá sérmenntun sem máli skiptir. Reynslan sem á að brúa þennan mentunarskort er pólitísk. Þótt Páll sé eflaust mætur maður, þá finnst mér að gera eigi þá kröfu til tiltekinna starfa að menn hafi ekki unnið pólítisk störf. Þá á ég ekki við að menn þurfi að vera skoðanalausir á stjórnmálum.

  • Hvernig væri hljóðið í VG og Samfylkingu ef þetta væri Davíð Oddson og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins að gera það sama?

    Hræsni einhver?

  • Þorsteinn Egilson

    Þetta snýst kannski ekki bara um Pál, eða hvað? -Í hvaða sporum var t.d. stjórnarformaður bankasýslunnar fyrir hrun og á meðan Páll aðstoðaði við framkvæmd einkavæðingarinnar? -Æ sér gjöf til gjalda segir einhversstaðar, á það við hér.
    Auðvitað er það ömurlegt ef ráðherrar þurfa að skipta sér af ráðningu í ekki merkilegra starf en kannski er það enn ömurlegra ef ráðningin stendur ógagnrýnd. Framsóknarmaður eða ekki -kemur málinu ekkert við, í sjálfu sér.
    Aðstoðarmaður Finns og Valgerðar forstjóri Bankasýslu ríkisins árið 2011 ! -Algerlega galið

  • Haukur Kristinsson

    Ekki veit ég hvað Hallur Magnússon er gamall, þó sýnist mér hann vera á besta aldri, hefur allaveganna “boyish look”. Samt virðist hann vera hreinræktað afkvæmi hins gamla rotna valdkerfis 4-flokksins, þar sem samtryggingin og klíkan er allsráðandi, en lítið pláss fyrir “meritocracy”.
    Þrjú ár eru nú liðinn frá Hruninu, en fátt bendir til þess að hér verði betra samfélag.

  • Ómar Harðarson

    Það getur verið að PM sé hinn mætasti maður, góður viðkynnis og mörgum hæfileikum búinn. Ég þekki hann hins vegar ekki neitt.

    Það er hins vegar erfitt að kyngja því að sá er aðstoðaði Valgerði Sverrisdóttur við að selja ríkisbankana til óhæfra aðila á sínum tíma, þ.m.t. Framsóknarmanna, sem ætluðu sér aldrei að eiga banka heldur bara græða á því að kaupa á gjafvirði en selja á markaðsvirði, skuli vera settur yfir næstu bankasölu.

    PM má vera hæfur í mörg störf, en varla þetta. Auðvitað á hann að sjá það sjálfur.

    En meðal annarra orða, Hallur, hvað segir þjóðin?

  • Hallur Magnússon

    Alveg er það merkilegur andskoti hvernig fólk getur horft fram hjá kjarna málsins.

    Maður hefur verið ráðinn á lögmætan hátt af þar til bærri stjórn.

    Menn geta haft hvaða skoðun á því hvort það hafi verið rétt að ráða manninn í starfið. En maðurinn uppfyllti skilyrðin og ráðningin er lögmæt.

    Það er ekki stjórnmálamannanna í þingflokki VG og Samfylkingarinnar að hafa áhrif á þá ráðningu eftir á.

    Það er nefnilega rétt sem Einar Sveinsbjörnsson segir:

    „Alþingi kvartar mjög undan því að framkvæmdavaldið valti yfir það á skítugum skónum og oft með réttu. Samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins eru það hins vegar hrein og klár verkefni framkvæmdavaldsins að ráða í störf embættismanna. Ef Alþingi ætlar að fara að beita pólitík í hvert skipti sem ráðning forstöðumanna stofnana eða ráðuneytisstjóra huggnast því ekki, er fyrst fokið í flest skjól.“

    Um það fjallar þessi pistill minn – en það virðast fáir fatta það.

  • Ríkisstjórnin handvaldi mannskapinn í stjórn Bankasýslunnar og að sjálfsögðu fólk sem var þeim að skapi. Þessi réttlitaða stjórn valdi besta manninn að þeirra mati í forstjórastarfið og færði sannfærandi og sterk rök fyrir ráðningunni.
    Í taugaáfalli vilja ríkisstjórnarflokkarnir nú rifta þeim gjörningi og auglýsa starfið aftur. Það geta þeir auðvitað gert en aðeins að því undangengnu að setja af núverandi stjórn Bankasýslunnar og handvelja nýjan mannskap í staðinn.
    Og þar fyrir utan getur engin stjórn með einhvern snefil af sjálfsvirðingu sætt sig við inngrip af þessu tagi. Það væri því vænlegast og í ætt við gagnsæið sem ríkisstjórnin státar af að hún stigi skrefið til fulls og sjái einfaldlega sjálf um ráðningu opinberra starfsmanna. Kostirnir eru augljósir. Stjórnir verða með öllu óþarfar og það sparar peninga og síðan það sem er mest um vert að pólitískar ráðningar verða hér eftir fyrir opnum tjöldum og taldar sjálfsagðar og er það fyllilega í samræmi við þá siðbót sem ríkisstjórnin hefur boðað og raunar fylgt eftir svikalaust.

  • Leifur A. Benediktsson

    Hallur Magnússon,

    Vinsamleg ábending frá skattborgara og fórnarlambi geggjaðra óstjórnar sl. áratugi hér á landi:

    Hættu þessu bulli,farðu að opna FLokksaugun þin og viðurkenndu að þetta er tapað mál. Face it!

  • Valur Bjarnason

    Alveg er það merkilegur andskoti hvernig Hallur Magnússon getur horft fram hjá kjarna málsins, sér hann ekki að þetta er pólitísk klíkuráðning, sér hann ekki að fingraför framsóknarflokksins eru þarna allt í kring, er hann haldinn þeirri meinloku að þetta snúist ekki um pólitíska ráðningu heldur um lögmæti? Sér Hallur ekki mun á þessu tvennu? Skiptir siðferði engu máli í huga Halls ef það er bara löglega staðið að málum? Skiptir engu máli hversu ógeðfellt þetta er og rotið?

  • Jón Jón Jónsson

    Maður neyðist bara til að kalla æðri máttarvöld til hjálpar.

    Í guðanna bænum, getiði ekki opnað augu Halls Magnússonar, því hann er nú algjörri blindu sleginn?

    En þar fyrir utan, hvaða hagsmuni ertu eiginlega að verja Hallur?

  • Þessi ráðning á manni sem bæði uppfyllir ekki hæfnisskilyrðin til að gegna starfi og er þar að auki vanhæfur í flestum málum sem undir hann mun falla er svo arfavitlaus að hún ber vitni um að þeir sem að henni stóðu séu ekki að valda starfi sínu, annað hvort sökum vanhæfis eða færniskorts. Hvorttveggja er svo alvarlegt fyrir trúverðugleika stofnunarinnar að það verður að grípa til aðgerða.

    Steingrímur ber ábyrgð á framkvæmdum stjórnar banksýslunnar og það er hann sem verður að víkja henni frá og skipa nýja ef hann ber ekki lengur traust til þess að þau valdi starfi sínu.

    Steingrímur situr svo á ábyrgð VG og það fellur á flokkinn að víkja honum frá ef hann veldur ekki þeirri ábyrgð. Það er landsfundur eftir tvær vikur svo það er tímafresturinn sem Steingrímur hefur til að taka á málinu.

  • Jón Jón Jónsson

    Hvernig gengur hjá ykkur í FjörFLokki Guðmundar Steingrímssonar, að móta stefnuskrána Hallur?
    Á hún að vera í anda 4-FLokksins fyrir hrun?

  • Leifur og Valur, hvernig væri nú að þið kæmuð með rök fyrir þessum upphrópunum ykkar! Það er ekki annað að sjá en að Hallur hafi talsvert til síns máls og hann setur mál sitt fram af yfirvegun annað en þið tveir. Sem dæmi þá er ekki hægt að skilja ykkur öðruvísi en svo en að Valgerður hafi stýrt einkavæðingu bankanna ein og óstudd á meðan staðreyndin er sú að einkavæðingarnefnd var á forræði forsætisráðuneytisins, en vissulega er viðskiptaráðherra alls ekki stikkfrí þrátt fyrir það. Og sú hugmynd að Alþingi fari að skipta sér af hlutum sem þessum er náttúrulega í besta falli galin. Ef ekki mátti ráða menn sem komið hafa nálægt bankastarfsemi eða pólitík fyrir hrun þá hefði verið rétt að setja það sem skilyrði þegar starfið var auglýst. Það hefði reyndar stangast á við stjórnsýslulög. Svo bendið þið á álit umboðsmanns vegna ráðningar Þorsteins Davíðssonar, það álit útilokar alls ekki að starf aðstoðarmanns ráðherra geti talist mönnum til tekna í starf, það gat hins vegar ekki talist til reynslu sem hefði átt að koma dómaraefni til góða. Eins og ég sagði i upphafi, ræðum málið með rökum en hendum ekki fram órökstuddum sleggjudómum.

  • Jón Einarsson

    Það má vel vera að ráðningin hafi verið lögmæt vegna þess að það er hlutverk stjórnar Bankasýslunnar að meta hvort viðkomandi hafi tiltekið hæfi eða ekki. Það er þó hverjum manni ljóst nema þessari sýrðu stjórn að svo er ekki.
    Greiðum Páli bætur, breytum lögum um tilskipanir í stjórn BS og forstjóra BS þannig að um þær gildi það sama og um stjórnarsetu i fjármálafyrirtækjum. Þ.e. að raktar verði úr viðkomandi garnirnar hjá FME þar sem þekking þeirra er staðfest. Það eru margir sem hafa háskólapróf á sviði viðskipta/hagfræði/lögfræði sem hafa ekki komist í gegnum þá vottun. Óhæfur maður á erfitt með að komast í gegnum það nálarauga og þá getur enginn deilt um hæfið.

  • Páll hafði minnsta menntunina sem nýtist í starfi, hann hafði minni stjórnunarreynslu en a.m.k. tveir aðrir umsækjendur, hann hafði minnstu reynsluna (ef einhverja) af bankamálum og þar með var hann alls ekki hæfasti umsækjandinn.

    Alveg burtséð frá aðkomu hans að einkavæðingu bankanna var hann ekki hæfastur samkvæmt þeim mælikvörðum sem notaðir eru og viðurkenndir til að meta hæfi, þ.e. menntun og reynsla.

    Allt annað er aukaatriði.

  • Hrekkjalómur

    Athyglisverður pistill Hallur. Og gersamlega út í hött. Í fyrra, um svipað leyti, var Runólfur Ágústsson ráðinn umboðsmaður skuldara. Skv. mati þeirra sem réðu hann var hann hæfasti umsækjandinn. Þar fór fram svipað mat og nú á Páli. Runólfur sagði hins vegar af sér því ráðningin var gagnrýnd fyrir tvennt. Annars vegar hafði Runólfur tekið þátt í vafasömum fjárfestingum og þótti því ekki heppilegur í starfið. Hins vegar var hann Samfylkingarmaður og, að sögn, náinn samstarfsaðili Árna Páls ráðherra.

    Runólfur hafði vit á að taka starfið ekki og sagði af sér eftir nokkra daga í starfi. Voru þetta pólitískar hreinsanir vegna tengsla við Framsókn? Sýnist ekki.

    Páll Magnússon var ráðinn eftir mat sem virðist sambærilegt því sem Runólfur fór í gegn um. Saga Páls er hins vegar slík að það verður engin sátt við hann í þessu starfi. Hann getur því bara gert eitt í stöðunni. Það er að segja af sér og sýna samskonar manndóm og Runólfur.

    Hrekkjalómur

  • Hallur Magnússon

    Merkilegt hvað sumir geta blandað Framsóknarflokknum í allt milli himins og jarðar og virðast telja sig geta gert það án nokkurrar röksemdarfærslu.

    Þessi pistill minn hefur ekkert með Framsóknarflokkinn að gera. Hann fjallar um hættuna af því ef pólitískir alþingismenn fara að skipta sér af hlutum sem ekki er á þeirra könnu.

    Viljum við að pólitískir Alþingismenn fari að véla um hluti í bankaráðum viðskiptabankana sem dæmi?

  • Leifur A. Benediktsson

    Arnar,

    Heilbrigð skynsemi er allt sem þarf án FLokksgleraugna. Hér eru engar upphrópanir Arnar,einungis staðreyndir. Við eigum að læra af mistökum,mistökin í einkavinavæðingu bankakerfisins hefur greinlega farið framhjá þér.

    Enginn lifandi maður getur talið mér trú um annað en að mikið fjármagn hafi runnið í FLokkssjóðina góðu eftir afhendingu góssins í hendur forhertra glæpamanna. Og afleiðingar þessa gjörnings erum við að glíma við enn þann daginn í dag.

    Hrunið svokallaða hófst með einkavinavæðingu bankanna.
    Páll Magnússon er einfaldlega rangur maður á röngum tíma og á röngum stað sem forstjóri Bankasýslunnar árið 2011.

    Þetta er álit ca. 90% þjóðarinnar.

    Hefur Þjóðin rangt fyrir sér?

  • S. Guðmunds

    Þetta eru ekkert annað en pólitísk heinsun og moldviðri sem nokkrir vinstinsinnar hafa þyrlað upp í heilagri vandlætingu sinni á því að maðurinn tengist Framsóknarflokknum.

    Hver er glæpur Páls og hver getur verið dómari í þessu meinta glapamáli?

    Stjórnarþingmenn munu gerast sekir um alvarlegan siðferðisbrest ef þeir ætla að taka fram fyrir hendurnar á framkvæmdavaldinu með þessum hætti.

    En hvað um það, verði Páll að víkja vegna pólitísks þrýstings, mun þetta mál ekkert verða gleymt heldur geymt.

    Skuggi þessa máls mun fylgja núverandi stjórnarþingmönnum langt inn í framtíðina og verða þeim fjötur um fót og þeim til ævarandi vansa.

    Sannaði til. Það kemur nýr stjórnameirhluti eftir þennan meirihluta, þó svo að stjórnarliðar láti eins og það muni aldrei eiga sér stað.

  • Sennilega eru alþingismenn að láta þetta mál til sín taka af því þeim finnst þeir fá óviðunandi viðbrögð frá ráðherra, – sem er ekki gott mál. Mín afstaða snýst ekki um það hvort heldur eigi að ráða viskiptafræðing eða guðfræðing. Hún snýst um það að við þurfum að breyta alvarlega um kúrs varðandi uppbyggingu bankanna og þeirra fyrirtækja sem komin eru í þeirra eigu. Til þess verks treysti ég alls ekki handlangara spilltrar einkavinavæðingar. Páll Magnússon hefur ekki gefið mér neitt tilefni til að treysta honum til þessa starfs. Það er stórpólitísk staða að veita forstöðu Bankasýslu ríkisins og til þess verks á ekki að velja mann með pólitíska fortíð þeirra sem settu fjármálakerfi landsins á hausinn. Mér finnst hreinlega eðlilegt að velja pólitískt í þessa stöðu, því pólitísk afstaða þess sem þar ræður skiptir máli.

  • Hrekkjalómur

    Hallur,
    Málið snýst um það að við viljum ekki mann sem á sínum tíma tók þátt í einkavæðingu bankanna og fékk á sig aur þess vegna. Hvort það er verðskuldað eða ekki skiptir ekki nokkru máli. Málið er að maðurinn hefur ekki TRúVERÐUGLEIKA til að gegna þessu starfi. Einfalt. Það sama hefði gilt ef maðurinn væri Sjálfstæðismaður sem hefði staðið í því sama.

    Framsóknarmennskan er aukaatriði í þessu máli. Trúverðugleikinn aðalatriði.

    Hrekkjalómur

  • Eiríkur Rögnvaldsson

    Mér sýnist þú vera kominn í talsverða mótsögn við sjálfan þig Hallur. Hér á undan segir þú:

    „Merkilegt hvað sumir geta blandað Framsóknarflokknum í allt milli himins og jarðar og virðast telja sig geta gert það án nokkurrar röksemdarfærslu.

    Þessi pistill minn hefur ekkert með Framsóknarflokkinn að gera.“

    En varst það ekki einmitt þú sem blandaðir Framsóknarflokknum í málið strax í upphafi með því að segja:

    „Ástæðan virðist sú að þingmennirnir geti ekki sætt sig við að Framsóknarmaður hafi verið ráðinn í starfið.“

    Eða hvað?

  • Í eigandastefnu ríkisins, sem stjórn Bankasýslan á að fara eftir, segir m.a. þetta:

    „Ríkið þarf að vera trúverðugur eigandi fjármálafyrirtækja og hlutverk þess hafið yfir vafa um pólitísk afskipti af daglegum ákvörðunum fyrirtækjanna.“

    Hvernig í ósköpunum er hægt að halda fram að ráðning Páls Magnússonar brjóti ekki gegn þessu?

    Það má vel vera að stjórnarmenn Bankasýslunnar séu ólæsir, eða a.m.k. ólæsir á þann veruleika sem þeir lifa í. Hvernig sem því er háttað á að vera búið að reka stjórnina fyrir að hafa þverbrotið þær reglur sem hún á að fylgja. Það er hins vegar ekki nóg, því þetta er bara eitt ĺitið dæmi um þá spillingu sem gegnsýrir allt valda- og fjármálakerfið á Íslandi.

  • Leifur,
    Hrun bankanna og eftirstöðvar hafa svo sannarlega ekki farið fram hjá mér. Ég hef þurft að glíma við verðtryggingarbrjálæðið eins og aðrir. Það sem ég er fyrst og fremst að benda á að við þurfum að takast á við afleiðingarnar af yfirvegun og skynsemi, óháð pólitískum skoðunum.
    Það hvort þjóðin hefur rangt fyrir sér tel ég að verði bara að koma í ljós og ætla ekki að halda neinu fram um það á þessari stundu.

    Soffía #25,
    það er beinlínis ólöglegt að ráða í þessa stöðu á pólitískum forsendum sbr. stjórnsýslulög sem gilda um þessa ráðningu og flestar aðrar í stjórnsýslunni. Reyndar mega pólitískar skoðanir hvorki vera mönnum til framdráttar eða hnjóðs þega ráðið er í opinbert starf, en það er allt önnur ella.

  • Leifur Björnsson

    Minni á Hallur að átrúnaðargoð þín Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir ásamt Bræðrunum Árna og Páli Magnússyni tóku á sínum tíma þátt í aðför að Birni Friðfinnssyni ráðuneytisstjóra og hikuðu ekki við að svíkja undirritaða samninga til að koma honum úr embætti.
    Það mál endaði með dómsátt fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í Desember 2006 þannig að Björn sem þá var 66 ára gamall fékk full laun ráðuneytisstjóra til 70 ára aldurs ,2 milljónir í miskabætur og allan málskostnað greiddan.
    Dýr var valdníðsla Framsóknar þá.
    Jakob Möller lögfræðingur Björns reyndi að semja um málið við Pál Magnússon sem bauð aðeins laun í eitt ár og sýndi þannig þrátt fyrir að honum væri sýndur samningur undirritaður af fjórum ráðherrum af sér dómgreindarleysi ,hroka og vanhæfni í mannlegum samskiptum.
    Það skal tekið fram að Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Geir Haarde forsætisráðherra undirrituðu dómsáttina um leið og þeir höfðu séð samninginn og Jón Sigurðsson eftirmaður Valgerðar með semingi nokkrum dögum seinna

  • Leifur A. Benediktsson

    Leifur Björnsson,

    Framsóknarforarvilpan er alltumlikjandi stjórnarsetu með FLokknum. Hún náði hæstu hæðum með FLokksformannssetu kvótagreifans af Hornarfirði.

    Hafðu þakkir fyrir nafni, fyrir að rifja upp þennan ósóma Hækjunnar gömlu.

  • Hallur Magnússon

    Það er eins og helmingur þeirra sem hafa sett fra athugasemdir hafi ekki lesið pistilinn minn.

    Í sjálfu sér skiptir engu máli hvort Páll er Framsóknarmaður eða ekki.

    Það sem er alvarlegt er að pólitískir alþingismenn haf fetað inn á þá braut að hafa bein afskipti af lögmætri stjórn framkvæmdavaldsins af pólitískum ástæðum. Það er ekki þeirra.

    Ætla þeir næst að hafa bein afskipti af bankaráðum þeirra banka sem Bankasýslan fer með hlut ríkisins í – á pólitískum forsendum?

    Eða lögreglunni – á pólitískum foresendum?

    Hvar endum við þá?

  • Leifur A. Benediktsson

    Hallur Magnússon,

    Það sem þú ekki skilur, eða neitar að skilja,hverning sem á því stendur,er að hér varð siðferðislegt og efnahagslegt Hrun.

    Krafa okkar sem stóðu vaktina í Búsáhaldabyltingunni og í október Byltingunni 2010 var alveg skýr. Hér verður ekki byggt upp á nýtt með því gamla. Það deginum ljósara í mínum huga og velflestra sem hér hafa skrifað, að þessi ráðning Páls Magnússonar til Bankasýslunnar er gjörsamlega galin í ljósi sögunnar.

    Þú getur reynt að endurskrifa hana milljón sinnum og notað hvaða haldreipi sem er til að verja hana.

    Þessi ráðning er tilræði við heilbrigða skynsemi þjóðarinnar,sem sér í gegnum ,,flétttuna“.

    Páll er ekki fórnarlamb,heldur holdgervingur þess sem við fyrirlítum í pólitískum ,,fléttum“.

  • Æ vá Hallur. Á ráðningin að standa því hún var lögleg?

    Var einkavinavæðingin ekki líka lögleg?

    Ef Páll hefði ekki verið í þeirri stöðu sem hann var í, í einkavinavæðingunni (sama hvaða flokki hann var í), þá væri fólk, þ.m.t. alþingisfólk, ekki að mótmæla þessu.

    Ótrúlegt hvað þú virðist vera blindur.

  • Hallur Magnússon

    @Leifur.

    Þú vilt semsagt að pólitískir alþingismenn hafi á pólitískum grunni bein afskipti af stjórnun framkvæmdavaldsins?

    Það er ekki eðlismunur heldur stigsmunur á því að þingmenn í valdi þingsetu sinnar hafi bein afskipti af stjórn lögreglunnar og það að hafa bein afskipti af ráðningu bankasýslunnar.

    Um það snýst þessi pistill minn.

    … og í örugglega amk. 30 skipti – ég hef ekki og geri ekki athugasemd við það viðhorf að það hafi ekki verið rétt að ráða Pál vegna þess að hann var aðstoðarmaður bankámálaráðherra í 7 ár. Það er fullkomlega valdi viðhorf – þótt ég sé ekki sammála því.

    En að það geri það allt í lagi að pólitískir alþingismenn hafi bein afskipti af löglega kjörinn stjórn framkvæmdavaldsins – það er ekki í lagi.

  • Hrekkjalómur

    En hver á þá að grípa inn í þegar stjórn viðkomandi stofnunar er stödd úti í móa og tekur rangar ákvarðanir? Þegar stjórn stofnunarinnar er svo einangruð og siðblind að hún skilur ekki hvað má gera með svona batterí?

    Hrekkjalómur

  • Valur Bjarnason

    Ástæðan fyrir því að ég tengi þetta framsóknarflokknum og klíkuskap.

    Bendi jafnframt á að um þessi tengsl hefur verið skrifað á Smugunni.

    Þorsteinn Þorsteinsson sem réði Pál var árið 2000 ráðinn af Valgerði Sverrisdóttur til að fara fyrir nefnd um þá ætlaða sameiningu Búnaðarbankans og Landsbankans. Á sama tíma var Páll aðstoðarmaður Valgerðar.

  • Leifur A. Benediktsson

    Hallur Magnússon,

    Þetta er alveg ágætt að sinni. Við erum ekki sammála með þessa ráðningu Páls. So be it.

    Ef það þarf að taka pólitíska ákvörðun í málinu, þá verður svo að vera. Betra er seint en mjög seint.

    Kv.

  • Ef það þarf hreingerningu til að losna við hrun draslið þá hreinsum við.
    Ég er ekki hlinnt pólítískum hreinsunum en en hér á landi er það að verða nauðsinlegt.

  • Hallur ég var búinn að segja þér að það er ekki til neins fyrir vitiborið fólk að reyna að rökræða við fólk sem lifir í sálarkreppu eins of flest komment um ráðningu Páls Magnússonar eru vitni um.
    Það sem þetta ergilega og vonsvikna fólk er í raun að mæla með er að á Íslandi taki stjórnmálamenn upp bandarísku leiðina og að ÖLLUM helstu embættismönnum sé skipt út þegar nýir flokar taka við stjórnartaumunum. Ekki mæli ég með þeirri aðferð við skipun í störf í stjórnsýslunni en það er það sem ergilega fólkið er að byðja um. Sem sagt bara ráða komma og krata núna en reka þá svo alla eftir næstu kosningar. Ekki geðfelld hugsun hjá þessu liði.

  • Hallur heldur því á lofti að ráðningin hafi verið lögleg. Það eru einmitt skiptar skoðanir á því hvort ráðningin uppfylli kröfur stjórnsýslulaga. Mér þætti gott að fá úr því skorið. Hvað sem því líður, þá er stjórn bankasýslunnar þannig saman sett að ég myndi ekki treysta henni með víxil fyrir horn. Teitur Atlason rekur þessi mál býsna vel í sínum pistlum. Ég ráðlegg fólki að lesa þá. Þar er margt fréttnæmt:
    http://www.dv.is/frettir/2011/10/24/situr-i-stjorn-bankasyslunnar-og-stofnar-banka/

  • Þórlaug Ágústsdóttir

    Hallur, ég trúi ekki að þú sért enn að reyna að bjóða okkur upp á þetta kjaftæði.
    Ráðning Páls er nýtur EKKI lögmætis þó þú sért að reyna að segja okkur að hún sé lögleg. Lögmætt og löglegt er ekki það sama og þegar 90% landsmanna tortryggja ráðninguna þá nýtur hún alls ekki lögmætis. Ennfremur hafa komið fram mjög góð rök um það að ráðningin sé alls ekki lögleg þar sem ráðningarferlið hafi hvorki verið gegnsætt, né uppfylli Páll nauðsynleg fagleg ráðningarskilyrði. Það hvort Páll hafi verið hæfastur umsækjenda gerir ráðninguna því hvorki lögmæta né löglega eins og þú virðist halda.

    Fyrir utan að uppfylla ekki ráðningarskilyrði er Páll BEINLÍNIS VANHÆFUR vegna pólitískra tengsla við einkavæðingarferlið og vafasama framsóknarkaraktera.

    Pólitískar hreinsanir eru ákkúrat það sem verið er að fara fram á þ.e. að pólitískt skipuð stjórn Bankasýslunnar hreinsi Bankasýsluna sjálfa af framsóknarklamedíunni.
    Við krefjumst þess að Bankasýslan sé hreinsuð af pólitískri spillingu.

  • Ráðningin var ekki lögleg. Það er heila málið.

    Að halda því fram er annað hvort heimska, vanþekking, eða einbeittur brotavilji.

  • Ómar Örn Ómarsson

    Útúrsnúningur hjá þér Hallur! Þetta tengist því að Páll Magnússon sé Framsóknarmaður bara nákvæmlega ekki neitt. Ég hélt bara í alvörunni að það væri réttmæt krafa að gefa ekki sama liðinu sem leiddi þetta land nánast gjaldþrot tækifæri á að gera það aftur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur