Fimmtudagur 03.11.2011 - 17:15 - 1 ummæli

Hanna amma – Im memoriam

Sigríður Jóhanna Andrésdóttir 15.12.1923 – 26.10.2011

Það var æðislegt að fá að gista hjá afa Bóbó og Hönnu ömmu á Austurgötu 40 í Hafnarfirði. Reyndar algert ævintýri!  Langafi Sigurjón og langamma Rannveig í jarðhæðinni í fyrstu minningum – og síðan bara langamma Rannveig eftir að langafi dó 1969. Langamma löngu síðar.

 Hrjúfi en elskulegi afi Bóbó á efri hæðinni – og í kjallaranum innanum öll verkfærin, grásleppunetin og allt það forvitnilega sem þar var að finna. Og hlýja brosmilda Hanna amma sem alltaf sá það broslega og skemmtilega í tilverunni.

Amma Hanna sem að kvöldinu leiddi litla drenginn hennar Hrefnu hans Bóbó sem var að gista hjá afa og ömmu í Hafnarfirði að spennandi bókahillunni.  Á mildilegan hátt hjálpaði Hanna amma  stráknum að velja góða bók til að taka með í rúmið eftir skemmtilegt kvöld – þar sem kúrt var á gamla þurrkloftinu fyrir framan sjónvarpið – með fulla sælgætisskálina fyrir framan okkur.

Sælgætisskálin tóm. Strákurinn alsæll og ánægður. Afi Bóbó stundum á vakt í hliðinu hjá Ísal. En Hanna amma með afastrákinn hans Bóbó að skoða allar spennandi bækurnar. Með mildum róm og kímni talað með virðingu um hverja bók fyrir sig. Stundum lesið ljóð. Enda alin upp í bókabúð á Sigló.  Þar sem afi Bóbó sigldi inn með síldina, fann Hönnu ömmu og tók hana með sér til Hafnarfjarðar. Rómantískt upphaf í huga lítils drengs sem fær að gista hjá afa og ömmu á Austurgötunni.

Núna hefur Hanna amma yfirgefið þennan heim. Farin að gantast við afa Bóbó á Austurgötu 40 hinum megin við móðuna miklu. Eða kannske á Jófríðarstaðarveginum þar sem þau bjuggu fyrri hluta búskapartíðar sinnar – fyrir mitt minni.

Sé fyrir mér kímnina í augunum hennar Hönnu ömmu og hlýtt brosið. Sé hvernig hrjúfi afi Bóbó bráðnar allur og ljómar eins og sólin yfir því að fá Hönnu sína aftur, rauðbirkinn, rauðhærður og ótrúlega myndarlegur.

 Ég er svo ríkur að hafa átt afa Bóbó og Hönnu ömmu sem var að yfirgefa þennan heim!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur