„Það eru þrjú embætti þar sem karlremban verður alltaf ofaná. Það er forseti Bandaríkjanna, það er byskup Íslands og það er formaður Sjálfstæðisflokksins“. Þetta heyrði ég haft eftir manni sem er með mikla reynslu og mikla innsýn í stjórnmálin.
Nú er að sjá hvort þetta er rétt hvað varðar formann Sjálstæðisflokksins.
Það er ljóst að fylgi almennra Sjálfstæðismanna og almennings í landinu er miklu meira við Hönnu Birnu en Bjarna Ben. En eins og ég hef áður bent á þá er almennur flokksmaður eitt en flokkseigendafélag annað.
Bjarni Ben veit þetta. Í viðtali við hann á dögunum kom fram að þótt Hanna Birna hafi mikinn meirihlutastuðning meðal almennra Sjálfstæðismanna þá skipti það engu máli.
Það eru nefnilega hinir íhaldssömu Landsfundarfulltrúar sem velja formanninn. Bjarni hefur verið að tala inn í þann hóp að undanförnu. Karlremburnar. Stundum þvert gegn eigin sannfæringu. Því Bjarni er flottur nútíma maður – sem veit nákvæmlega að ef eitthvað er – þá gefa konurnar körlunum ekkert eftir í stjórnmálum.
Einn helsti styrkur Hönnu Birnu er að hún hefur sýnt það í verki að hún veldur mjög erfiðu embætti og hefur allt í að geta staðið sig í stykkinu sem forsætisráðherra. Ekki hvað síst á grundvelli samvinnustjórnmála sem Hanna Birna rak ásamt Framsóknarmönnum í meirihluta borgarstjórnar og með Samfylkingunni og VG sem tóku af heilum hug þátt í þeim samvinnustjórnmálum meðan Hanna Birna var við stjórnvölinn.
Þessi eiginleiki Hönnu Birnu gerir hana að vænlegu ráðherraefni í mögulegum samsteypustjórnum framtíðarinnar. Bjarni Ben er hins vegar algerlega óskrifað blað hvað þetta varðar. Þótt allir viti að hann sé góður drengur.
Reyndar hefur Bjarni valið leið átaka á Alþingi frekar en samvinnustjórnmála. Honum er reyndar vorkun þar sem Jóhanna og Steingrímur hafa heldur ekki verið mikið fyrir samvinnustjórnmál enda stjórnmálamenn gamla tímans. Þetta eru karlrembustjórnmál þótt Jóhanna og fleiri konur hafi tekið þau upp í stað þess að leggja áherslu á samvinnustjórnmál.
Samvinnustjórnmál er leið almennings og Hönnu Birnu.
Karlrembuátakastjórnmál er leið íhaldssamra landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Bjarna Ben.
Ég óttast að karlrembustjórnmálinn verði ofan á í Sjálfstæðisflokknum eins og hinn vísi stjórnmálarýnir sem ég vísaði til í upphafi heldur fram. En ég vona að samvinnustjórnmálin verði valin.
Hallur Magnússon,
Er Hanna Birna með þig í ,,vinnu“?
Nei, en ég vann með henni. Það var afar gott. Þótt hún sé íhald. Ég féll fyrir samvinnustjórnmálunum hennar. Sem hefur verið mín lína mjög lengi. Það er betra að hafa svoleiðis formann hjá Sjöllunum. Fyrir þjóðina.
Hanna Birna fékk embættið forseti borgarstjórnar í tíð Jóns Gnarr. Samvinnustjórnmálahugsjónin entist nú ekki lengi.
Hvað breyttist hjá ,,hugsjóna“ stjórnmálakonunni Hönnu Birnu?
Má vera að Valhöll hafi þar komið að málum?
Línur eru að skýrast og mér sýnist orðið alveg ljóst af viðtölum við marga landsfundarfulltrúa að Bjarni vinni slaginn með góðum yfirburðum. Þetta verður þá í þriðja sinn sem Bjarni vinnur í kosningu um formann og þá má segja að hann hafi hlotið sína eldskýrn og sé sterkari eftir.
Ég spái þriðja framboðinu til formanns FLokksins. Hanna Birna og Bjarni hafa í bakpokanum beinagrindur fortíðar.
Eða er FLokknum kanski ekki viðbjargandi ef að þessir einstaklingar eru það eina sem hann hefur fram að færa?
Er ekki sagt að FLokkurinn telji einhver tugiþúsunda gildra meðlima? Svo er okkur sagt svona opinberlega. Kanski er þar einhver bókhaldsbrella á ferðinni að hætti FLokksins.
Þannig að þér finnst það til eftirbreytni hvernig Hanna Birna notaði veikan mann til að komast til valda í borginni eða…?
Obama er auðvitað karlrembusvín – ekki satt?
Þvílík speki!
Ekki að undra að illa sé komið fyrir þjóðinni fyrst þeir sem „hafa mikla innsýn í stjórnmálin“ bjóða upp á slíka vitleysu!
Þrátt fyrir að hún sé íhald skrifar Hallur.
En hann er íhald líka, eins og aðrir fyrrum og núverandi framsóknarmenn.
Og ég hlæ að samvinnustjórnmálum sem vilja skera niður í leikskólum til að byggja við golfvelli.
æji.. plís, þetta karlrembu tal er svo hallærislegt að orð fá því ekki lýst.
Þær hafa nú ekki beint verið að þvælast hver um aðra þvera, formenn Framsóknarflokksins í kvenkyni gegnum áratugina?
@joi.
Nei. Valgerður eini formaður xB hingað til 🙂 En hvað kemur það þessu við?