Miðvikudagur 16.11.2011 - 11:42 - 19 ummæli

Sterkri OR rústað á 2 árum!

Þótt það hafi verið óþarfa fitulag á Orkuveitu Reykjavíkur í tíð Alfreðs Þorsteinssonar fyrrum formanns stjórnar OR þá er ljóst að staða fyrirtækisins var afar sterk þegar hann skilar af sér stjórnartaumunum vorið 2006.  

Þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við sem borgarstjóri sumarið 2008 með samstarfi við Óskar Bergsson og Framsóknarmenn þá var staða Orkuveitunnar orðin erfið. Enda var það eitt fyrsta verk Hönnu Birnu og Óskars að taka frá  milljarða í varasjóð til að takast á við vanda Orkuveitunnar. Það er þessi varasjóður sem hefur bjargað Orkuveitunni.

Svört skýrsla um rekstur Orkuveitunnar sýnir að frá því Alfreð skilaði af sér vorið 2006 og þar flokksbróðir hans Guðlaugur Sverrisson tók við stjórnartaumunum síðla sumarið 2008 höfðu forsvarsmenn og stjórnendur Orkuveitunnar skuldsett Orkuveituna upp úr öllu valdi með fjárfestingum sem mögulega þarf að afskrifa að miklu leiti. 

Björgunarstarf Orkuveitunnar hófst haustið 2008 þegar nýr meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tók við. Fyrsta skrefið var sú ákvörðun Hönnu Birnu og Óskars að setja milljarða til hliðar í varasjóð vegna Orkuveitunnar. Guðlaugur Sverrisson og félagar hófu vinnu við endurskipulagningu á fjármálum Orkuveitunnar í samráði við erlenda skuldunauta. Nýr meirihluti tók við þeirri vinnu – og gerði nokkur mistök í upphafi – en virðast hafa klárað fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins.

Orkuveitunni virðist vera bjargað. Þökk sé milljarða varasjóði sem Hanna Birna og Óskar Bergs stóðu fyrir að setja á fót og þeirri vinnu sem farið hefur fram á undanförnum misserum.

En stóra spurningin er. Hvernig í ósköpunum var unnt að setja öfluga Orkuveitu Reykjavíkur ársins 2006 nánast í þrot á tveimur árum?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Jú, það þurfti aðeins að hleypa Sjálfstæðismönnum að borðinu – og þá fór allt í rúst í kjölfarið.

    Gulli, styrkþegi auðmanna nr. 1, leiddi hrunadansinn þann.

  • Hallur Magnússon

    Svo því sé haldið til haga þá voru pólitískir lykilmenn þessi tvö afdrifaríku ár þar til Hanna Birna og Óskar tóku við og tóku til hliðar milljarða varasjóð – og Guðlaugur Sverrisson hóf björgunarstörf sem stjórnarformaður OR:

    Júní 2006- júní 2007

    Borgarstjóri: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
    Stjórnarformaður OR: Guðlaugur Þór Þórðarson
    Varaformaður: Björn Ingi Hrafnsson

    Júní 2007- október 2007

    Borgarstjóri: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
    Stjórnarformaður OR: Haukur Leósson
    Varaformaður: Björn Ingi Hrafnsson

    Október 2007- janúar 2008

    Borgarstjóri: Dagur B. Eggertsson
    Stjórnarformaður OR: Bryndís Hlöðversdóttir
    Varaformaður: Jón Sigurðsson

    Janúar 2008 – ágúst 2008

    Borgarstjóri: Ólafur Friðrik Magnússon
    Stjórnarformaður OR: Kjartan Magnússon
    Varaformaður: Ásta Þorleifsdóttir

  • Kristján G. Kristjánsson

    Gaman (eða ekki) hvað þið Kjartan Magnússon hafið gagnstæða sýn á þetta mál.
    Hvorum ætti maður nú að trúa?

    Ahhh… jamm, ég þarf hvorugum að trúa. Gott.

  • Grétar Thor Ólafsson

    Það er gaman núna hjá fyrrum R-lista fólki. R-listinn var með forystu í OR í nokkur ár og skuldsetti OR í ERLENDRI MYNT! Sem tvöfaldaðist í krónum talið við hrunið! Og tekjur að miklu leiti í krónum!

    Gagnrýni þessarar „kolsvörtu“ skýrslu snýr aðallega að áhættumati í samningum Sjalla hafi verið mjög ábótavant og forsendum og arðsemismati þeirra samninga sem þau gerðu ásamt tryggingum og ábyrgðum. Hvergi er minnst á, í fréttum, hvaða upphæðir eru þar á ferð.

    Við vitum þó að langflest verkefni sem voru kostnaðarliðir hjá OR í tíð Sjalla voru hafin sem skuldbindingar í tíð R-listans. Meir að segja síðustu verkefni, orkusala vegna álversins í Helguvík. Allt hafið í tíð Alfreðs Þorsteinssonar, þó það afsaki ekki andvaraleysi Sjalla meirihlutans í að loka samningum.

    Hvað með Línu.net? Byggingu höfuðstöðvanna?

    R-listinn, Framsókn, Samfylking og VG fær í þessari skýrslu hvítþvott sem þau eiga alls ekki skilið. Þau eiga jafnmikla sök, ef ekki meiri, og Sjallameirihlutinn, á að kafkeyra OR.

    Magnað hvað söguminni manna er akkúrat ekkert! Við getum tekið svona sögunálgun á ríkissjóð eftir fimm ár og bölvað Steingrími J. fyrir að skuldsetja ríkissjóð upp í rjáfur árin 2009-2013. Gefið út „kolsvarta skýrslu“ og svoleiðis. Gáfulegt, ekki satt?

    Það er þó rauð lína í öllum umfjöllunum um fjármál OR síðustu árin: Stjórnmálamenn á að henda út úr stjórn og stjórnun OR med det same! Strax!
    Eins og staðan er í dag er Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir enn í stjórn fyrirtækisins. Lærdómurinn greinilega ekki að skila sér! Og þegar Besti vildi setja faglega stjórnarmenn (og gerði það) mótmælti Sóley því. Já, lærdómurinn alls ekki að skila sér.

  • Það er ótrúlegt hvað Sjálfstæðismenn nenna að tuða út af Línu.net. Ljósleiðarakerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið er líklega besta langtímafjárfesting sem OR hefur lagt í síðustu 30 árin.

    Alfreð var samt á kafi í ruglinu og flestar framkvæmdir og uppkaup OR skrýtnar. Ég sé nú lítin mun á stjórnmálamönnunum þegar kemur að því að meta arðsemiskröfur á virkjanaframkvæmdir. Það er ekki mjög spennandi hlutskipti fyrir Íslendinga að þurfa að niðurgreiða orku fyrir erlend stórfyrirtæki eins og Alcoa eins og við erum að gera með Kárahnjúka.

    Það er allt í lagi að skuldsetja OR í erlendri mynt. Það á bara að hafa gjaldskrána tengda við erlenda mynt líka. Til langs tíma er það ódýrasta lausnin.

    Besta lausnin væri að koma þessu landi í Evrópusambandið og einkavæða svo auðlindirnar, eða rukka fyrir nýtingarétt ef sósíalistarnir þola ekki að selja þær algjörlega.

    Þá væru ekki byggð orkuver sem skattborgara þurfa að greiða með eða ábyrgjast skuldir út af.

  • Sævar Helgason

    Er eða var Björn Ingi Hrafnsson ekki tengdur Framsókn ? Var það ekki hann ásamt Guðlaugi Þór frá Sjálfstæðisflokki sem leiddu Orkuveitumálin á þeim tíma sem gerðir voru samningar sem kostað hafa OR a.m.k 30 milljarða í töpuðu fé ?
    Hver kom risaskrifstofuhúsi OR á koppinn,? Hú sem er nú á söliskrá sem mikill ómagi á OR .Var það ekki Don Alfredó ? Þessi tveir flokkar D+B saman hafa því miður reynst okkur skaðræði… Sagan segir það

  • Jónas Bjarnason

    Hallur. Ég ritaði nokkrar greinar um OR og hvers vegna hún fór á hliðina. Þú getur séð það í mínum færslum á Eyjunni. Greinar mínar vöktu ekki mikla athygli þá.

  • Það er dálítið undarlegt að segja að 1 milljarðs varasjóður í tíð Hönnu Birnu hafi bjargað hlutunum þegar þegar hún á sama tíma lét fyrirtækið greiða eigendum 800 milljónir í arð til að sleppa við skattahækkanir á kosningaári.
    Ég sé ekki betur en að Hanna Birna hafi skilað sökkvandi skipi án þess að minnast á það einu orði í kosningabaráttunni. Við skulum leyfa núverandi meirihluta að eiga meginhlutann af þessum heiðri ef tekst að bjarga OR.

  • Valur Bjarnason

    Skuldir OR tífölduðust í stjórnartíð sjálfstæðis- og framsóknarflokks, bara svo það sé á hreinu.

  • Grétar Thor Ólafsson

    Það er magnað hvað fólk er að tengja Hönnu Birnu við OR. Hún var í mesta lagi VARAstjórnarmaður í OR, og það þá í eitt ár max. 2007 minnir mig.

    Hanna Birna var borgarstjóri Reykjavíkur, ekki forstjóri eða stjórnarformaður OR.

    Og Valur, skuldir ríkissjóð hafa margfaldast um marga tugi í stjórnartíð Steingríms J. Sigfússonar, bara svo það sé á hreinu. En af hverju ætli það sé? Syndir fyrri valdhafa, ekki satt? Sama á við í þessu máli.

  • Þvílík Framsóknar-sjálfsblekking. Staða Orkuveitunnar var aðeins sterk í upphafi þegar skuldlausar veiturnar voru sameinaðar 1999-2000. Enginn ber meiri ábyrð á „gjaldþrotinu“ en Alfreð Þorsteinsson og forstjórinn hans. Þegar Alfreð yfirgaf fyrirtækið var búið að veðsetja raunverulegar eignir upp í rjáfur með erlendum lánum. Skipulega var utanaðkomandi aðilum, sem stjórnarformaðurinn hafði velþóknun á, hyglað og ausið út eignum fyrirtækisins í vonlausar fjárfestingar og vanhugsaða ráðgjgjöf. Orkuveitan var rænd innan frá. Eignirnar má sjá að hluta í stórhýsum ráðgjafafyrirtækja. Það sem ekki glataðist með meðvituðum og skipulegum hætti glataðist með vanhæfni æðstu stjórnenda þmt stjórnarformanninum Alfreð. Vilhjálmur Vilhjálmsson á vissulega sína sök á þessu enda var hann hin hliðin á sama peningnum. Hæfustu starfsmönnum fyrirtækisins var vandlega haldið frá efsta lagi hierarkíisins.

  • Eyjólfur

    Herregud…

  • Það verður að skipta þessu hrunapakki út öllu. Fá annað fólk í brunna.

    Sama hvert lítið er þá er spillingin grasserandi.

    Bryrja á að banna Sjalla og Frammarflokkanna strax. Þeir eru rót alls.

  • Eggert Herbertsson

    Hallur minn, trúir þú sjálfur því sem þú skrifar? Það hefur ALDREI verið tekið til í OR fyrr en nú, ALDREI. Óskar, Hanna Birna og Guðlaugur Sverrisson, sögðu við fólk að ekki væri þörf á að hækka gjaldkrár, né hagræða í rekstri, staða OR væri það traust. Þetta endurtók þetta ágæta fólk fyrir síðustu kosningar. Þetta var náttúrulega bull.

    Það að taka fjármagn í varasjóð leysir enga vanda. Enda eru ábyrgðir borgarinnar á fjármálum OR algjörar hvort eð er.

    Ég tel að Guðlaugur Sverrisson og sá meirihluti sem skilaði af sér fyrir síðustu kosningar hafi vísvitandi breytt yfir ljóta stöðu OR fyrir kosningar og ALLIR SEM VILDU gátu séð.

  • Leifur A. Benediktsson

    Eftir lestur þessa pistils og upprifjun á ruglinu í OR,þá er ég ennþá vissari í minni sök á hversu skaðlegur 4FLokkurinn er og var þessari þjóð.

    4FLokkinn verður að útskúfa úr íslenskri pólitík fyrir fullt og fast. Spillingarþefinn af fulltrúum þessa viðbjóðs leggur um allt þjóðfélagið.

    Ég er stoltur af því að hafa lagt mitt af mörkum til þess að koma Besta til valda í Reykjavík.

    Hártoganir hér að ofan um misvitra fábjána sem komu OR nánast á hausinn,er birtingarmynd umræðuhefðar 4FLokksbjánanna sem tröllríður bloggheimum Íslands.

    Sameinumst um að koma þessum úrbrædda 4FLokki á ruslahauga sögunnar.

    Saga OR, Hrunsins og aðdraganda þess er skólabókardæmi um vanhæfni og spillingu fulltrúa gamla Íslands.

  • Leifur. Hvað fáum við í staðinn? Besti flokkurinn er ekkert betri og fyrirgreiðslupólitík er rekin þar sem aldrei fyrr. Fjórflokkurinn er og mun halda velli, en með nýju fólki má bæta hann og þróa.

  • „óþarfa fitulag“ undir stjórn Don alfredos er nú kannski eitthvert „understatement“ er það ekki? Náunginn er einn frægasti spillingarpésinn í íslenskri pólitík. Ein frægasta sena íslenskra stjórnmála frá þessum tíma er þegar Björn Ingi grét á Öxlina á mentornum Alfreð Þorsteinssyni.

    Þeir sem stjórna OR núna hafa ekkert gert nema selja eigur fyrirtækisins og hækkað orkureikninga til almennings. Hvað ætlar OR að gera ef það verður hlýtt í vetur? Hækka enn meira? Það var nú frægt þegar Alfreð hækkaði eitt sumarið verðskrána vegna einhvers hæðarhryggs suður í höfum. Snilli rekstrarmanna OR í dag er nákvæmlega engin, þó bæði RUV og aðrir miðlar tali eins og einhverjir hókus pókus menn séu þarna á ferðinni.

  • Hermann Ólafsson

    Þessi samantekt þín sýnir svart á hvítu að þessi tveggja ára rugl tími (2006-2008) var valdatími sjálfstæðis- og framsóknarmanna (að undanskildum fjórum mánuðum Dags og félaga)

    En þessi söguskýring þín með Hönnu Birnu og Óskars eftir á er náttúrulega í skársta falli lélegur brandari og með miklum ólíkindum. Hvað kemur þér eiginlega til að þurfa að fegra þátt þeirra í þessu ferli?

    Hanna Birna, sem vísaði því út í hafsauga fyrir síðustu kosningar að OR ætti í nokkrum teljandi vandræðum!! Afgreiddu gagnrýnisraddir akkurat á sama hátt og sjálfstæðismenn gerðu við þá sem vöruðu við hruni fyrir hrun. Síðan kom strax í ljós eftir kosningar að varla var til fyrir launum! Á þessum tíma var líka engu hagrætt, engu skuldbreytt, ekkert selt. Hvað ertu eiginlega að tala um?

  • Allt R-listanum og Alfreð að kenna FLOKKURINN tók við slæmu búi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur