Fimmtudagur 17.11.2011 - 21:42 - 6 ummæli

Smá Denni í Hönnu Birnu!

Það er smá Denni í Hönnu Birnu. Þess vegna er betra að Hanna Birna verði næsta forsætisráðherraefni Sjálfstæðisflokksins en hinn annars ágæti drengur Bjarni Ben. Svona fyrir þjóðina. Því fylgi fjórflokksins + fimmta framboðsins hverju sinni gerir það að verkum að það verða alltaf samsteypustjórnir á Íslandi. 

Þess vegna þarf góða leiðtoga til að leiða og samhæfa ríkisstjórnir næstu ára.  Fólk með eiginleika Steingríms Hermannssonar sem ber höfuð og herðar yfir alla forsætisráðherra samsteypustjórna á Íslandi fram til þessa þegar litið er til samvinnustjórnmála, vinnslu sameiginlegs skilnings innan ríkisstjórnar, sáttavinnu og breiðrar samstöðu um sameiginlegrar niðurstöðu ólíkra flokka og stjórnmálaviðhorfa í samsteypustjórn mismunandi viðhorfa.

Með fullri virðingu fyrir vini mínum Davíð Odssyni sem var bara allt öðruvísi forsætisráðherra.

Hanna Birna sýndi það sem borgarstjóri að hún hefur í sér þessa hæfileika Steingríms Hermannssonar þótt hún komist ekki í skóna hans Denna – allavega ekki ennnþá. Hanna Birna sem í upphafi keyrði að mínu mati dálítið harkalega pólitík „a la Davíð“ lagði þá pólitíska framtíð sína að veði með því að taka höndum saman með Óskari Bergssyni og framsóknarfólki að gerbreyta vinnubrögðum í borgarstjórn og leggja áherslu á samvinnustjórnmál!

Það tókst og það tókst vegna þess að VG og Samfó – sem eiga mikinn heiður skilið – veðjuðu á að Hanna Birna meinti það sem hún sagði. Að hún vildi alvöru samvinnustjórnmál þar sem alltaf yrði fyrst reynt að ná sameiginlegri niðurstöðu meirihluta og minnihluta í lykilmálum. Það gerði hún í samstarfi við minnihlutan í borgarstjórn. Hún hefur þegar sýnt að hún er með forsætisráðherrahæfileika „a la Denni“!

Það getur vel verið að Bjarni Ben hafi einnig þá forsætisráðherrahæfileika þótt framganga þess ágæta drengs hafi ekki sýnt það á Alþingi. Við vitum það ekki. En við vitum að Hanna Birna er með það sem þarf til að leiða farsæla samsteypustjórn sem vill vinna með stjórnarandstöðunni eins og kostur er. Með þjóðarhag að leiðarljósi.

Þess vegna eiga landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að kjósa Hönnu Birnu sem formann Sjálfstæðisflokksins. Þjóðarinnar vegna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Jón Sig.

    Þetta er nú meira smjaðrið fyrir Sjálfstæðisflokknum hjá þér Hallur.

    Þið Framsóknarmenn hafið ekkert lært og eruð greinilega tilbúnir í framhald spillingarsukksins með Sjálfstæðisflokknum, sem setti þjóðina á hausinn.

    Er ekki nóg komið?

  • Leifur A. Benediktsson

    Eini munurinn á BB og HBK í hugum flestra,er sá að Bjarni hefur á samviskunni Vafningsfléttuna frægu. Og þá staðreynd að BB er krónprins Engeyjarættarinnar.

    Peningaleg völd Engeyinga í FLokknum gætu einnig reynst happadrjúg í komandi ,,kosningaslag“ BB og HBK.

    Flestum finnst HBK ágætur kostur í stólinn góða og myndarleg kona er hún. Einn ljóður er þó á þessari ágætu konu,en það er hversu henni er tamt að vera á yfirsnúningi í viðtölum.

    Það væri verðugt verkefni fyrir PR teymi hennar að koma fyrir útsláttarrofa í málbeini hennar. Með því gæti hún komið nokkuð vel fyrir í viðtölum og yrði kanski skiljanlegri.

    Burt séð frá því hversu ,,góðir“ þessir kostir eru fyrir FLokkinn til framtíðar,þá er ég að vona að óvænt framboð komi fram á þessari halelújasamkomu FLokksins.

    Og hver veit nema að ,,píslavotturinn“ eigi eftir að valda upplausn enn og aftur í ræðustólnum. Margir eru að bíða eftir þessu mómenti.

  • Jóhannes

    Þessir afburða stjórnlistarhæfileikar Denna dugðu til að kalla yfir þjóðina hverja efnahagskollsteypuna á eftir annarri.

  • Held að Bjarni verði áfram. Möguleikar Sjálfstæðismanna verða þá aðeins að mynda stjórn með últra hægri flokknum Framsókn ef þessir flokkar ná meirihluta eftir næstu kosningar. Það setur hins vegar hroll að manni ef þessir tveir verðbréfadrengir eiga að stjórna landinu. Hins vegar held ég að hinn eini sanni Denni eða baby-Denni eigi eftir að setja strik í reikninginn

  • Það verður enginn leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í raun nema stinga Davíð í bakið og koma honum frá áhrifum innan flokksins. Þangað til verða menn í vasa þess ágæta manns. Þó Davíð sé ekki lengur formaður er hann óumdeildur leiðtogi flokksins ennþá.

  • „… fylgi fjórflokksins + fimmta framboðsins hverju sinni gerir það að verkum að það verða alltaf samsteypustjórnir á Íslandi.

    Þess vegna þarf góða leiðtoga til að leiða og samhæfa ríkisstjórnir næstu ára.“

    Rökvilla þarna í gangi. Það er búið að berja einhverri mýtu inn í hausinn á fólki um að það „verði“ að vera sterkur leiðtogi. Það er ekkert annað en rugl lýðræði og snúningur til konugsdæmis/einræðis.

    Vinsamlega athugið að lýðræði er sérstaklega hannað til þess að það sé ekki þörf fyrir „sterka“ leiðtoga.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur