Mánudagur 02.01.2012 - 17:41 - 2 ummæli

Rugl í Ríkiskaupum

Það virðist ruglið eitt í gangi hjá Ríkiskaupum ef marka má frétt Pressunnar af sérkennilegri ráðningu nýs forstjóra Ríkiskaupa. Þeir sem til þekktu sáu að eitthvað sérkennilegt var í uppsiglingu strax í upphafi ráðningarferilsins og greinilegt að fjármálaráðherra væri búinn að ákveða hver ætti að fá starfið.

Auglýsing um starfið var nánast falin í atvinnuauglýsingum og fór hún framhjá mörgum. Þó sóttu 17 manns um starfið. Við vitum ekki hverjir þar sem fjármálaráðuneytið neitaði að gefa fjölmiðlum upplýsingar um umsækjendur þrátt fyrir lagaskyldu þar um.

Sá sem var ráðinn er klárlega ekki Framsóknarmaður því enginn nema Pressan hefur sagt frá ráðningunni og það er ekki allt logandi í netheimum þótt ýmislegt sérkennilegt sé við ráðninguna.

Held það sé best að láta frétt Pressunar segja það sem segja þarf:

„Nýráðinn ríkisforstjóri á yfir höfði sér kæru: Útboð á hans vegum ítrekað kærð – 12 mál töpuðust

Ráðnings Halldórs Ó. Sigurðssonar í forstjórastól Ríkiskaupa hefur valdið titringi meðal birgja á markaði. Að minnsta kosti einn aðili hyggst leggja fram kæru gegn Halldóri vegna starfa hans fyrir Landspítalann sem hefur á síðustu árum tapað 12 málum hjá kærunefnd útboðsmála.

Fjármálaráðuneytið greindi frá ráðningunni í gærmorgun. Alls sóttu 17 einstaklingar um starfið, en þrátt fyrir beiðni Pressunnar hefur ráðuneytið ekki fengist til að gefa upp nöfn umsækjanda, líkt og því ber að gera samkvæmt lögum.

Halldór starfaði lengst af hjá Osta- og smjörsölunni, en frá árinu 2009 var hann deildarstjóri innkaupadeildar hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi. Tók hann við starfinu af Valgerði Bjarnadóttur, alþingismanni. Sem slíkur hafði hann yfirumsjón með öllum vörukaupum spítalans, þar með talið útboðum á vegum spítalans sem boðin voru út á grundvelli laga um opinber innkaup í gegnum Ríkiskaup.

Frá árinu 2008 hafa fjölmörg erindi borist kærunefnd útboðsmála, þar sem útboð á vegum Landspítala eru kærð.  Oftar en ekki hefur kærunefndin komist að þeirri nðurstöðu að verulegir annmarkar hafi verið á framkvæmd útboðanna.  Þannig hefur spítalinn á tímabilinu tapað í heild sinni 12 málum vegna útboða þar sem úrskurðað var að ákvarðarnir spítalans feli í sér brot á lögum um opinber innkaup. Þess ber þó einnig að geta að í all nokkur skipti hefur kærum á hendur Landspítalanum verið vísað frá af útboðsnefndinni.

Pressan hefur rætt við aðila sem fullyrðir að Landspítalinn, undir stjórn Halldórs, hafi gert markvissa tilraun til að bola fyrirtækinu úr áralöngum viðskiptum við Landspítalann, þar sem Halldór sat fundi með erlendum birgjum og hvatti þá til að slíta viðskiptasambandi sínu við innlenda birgja.

Eina augljósa skýringin, að sögn viðmælandans, virðist vera sú að þessi aðili hefur margoft kært útboð spítalans en kærur eru einu stjórnsýslulegu úrræði þeirra sem telja á sér brotið.  Segir viðmælandinn að  Halldór hafi í störfum sínum gert allt sem í valdi hans stóð til að koma í veg fyrir eðlilega úrlausn deilumála og beitt til þess afar óhefðbundnum aðferðum í því skyni.

Þá hyggst að minnsta kosti einn aðili leggja fram kærur vegna vinnubragða Landspítala þar sem Halldór var í fyrirsvari.  Segir hann Halldór hafa reynt að hafa af sér stóran erlendan birgja og koma honum að hjá samkeppnisaðila. Það mál hefur, samkvæmt heimildum Pressunnar, ratað inn á borð forstjóra LSH, Björns Zöega, án þess að brugðist hafi verið við. „

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Friðrik Tryggvason

    Það er gaman að sjá þig kvarta vegna pólitískra ráðninga. Þetta var allt öðruvísi á þínu ferli, sérstaklega þetta tímabil.

    2004
    Íbúðalánasjóður
    Sviðsstjóri Þróunar- og almannatengslasviðs
    2003
    Félagsmálaráðuneytið
    Verkefnisstjóri vegna undirbúnings hækkunar lánshlutfalls og undirbúningur breytinga á skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs
    1999
    Íbúðalánasjóður
    Yfirmaður gæða- og markaðsmála

  • Hallur Magnússon

    @Friðrik Tryggvason

    Þú sérð þetta sem sagt sem pólitíska ráðningu? Hélt það væri frekar vinavæðing en pólitík.

    En yfir dylgjur þínar í minn garð.

    Mögulega er unnt að skilgreina það að ég hafi verið lánaður til Félagsmálaráðuneytisins 2003 til undirbúnings hækkunar lánshlutfalls og undirbúnings breytinga á skuldabréfaútgáfu ÍLS – enda var það pólitískur ráðherra sem óskaði eftir starfskröftum mínum á grundvelli þeirrar þekkingar og reynslu sem ég hafði af húsnæðislánamálum eftir 4 ára starf sem yfirmaður í Íbúðalánasjóði..

    En upphafleg ráðning mín til Íbúðalánasjóðs þegar ég kom úr meistaranámi frá Danmörku árið 1999 hafði ekkert með pólitík að gera.

    Það vildi einfaldlega svo til að ráðningarstofan mat mig hæfastan í starfið bæða á grundvelli menntunnar og reynslu.

    Reyndar var reynt að koma í veg fyrir ráðningu mína til Íbúðalánasjóðs með vísan til þess að ég hafði verið virkur í stjórnmálum á tímabili.

    Skipulagsbreytingar innan Íbúðalánasjóðs árið 2004 þar sem ég fór úr einni yfirmannsstöðu í aðra þar sem ég ma. að sinna sömu verkefnum og áður – er ekki einu sinni „ráðning“. Þannig það er enn minni pólitík í því.

    Vek athygli þína á að áður en ég fór í meistaranám í stjórnun og stefnumótun þá starfaði ég sem yfimaður í opinberri stjórnsýslu á Hornafirði í 3 ár. Þar var meirihlutinn sem réði mig samansettur af Sjálfstæðisflokki og Kríunni – en Framsóknarflokkurinn var í minnihluta. Þannig að ekki var það „pólitísk“ ráðning heldur.

    Þegar ég var ráðinn í verkefni á Ríkisspítölum þá var ráðherrann Alþýðuflokksmaður og forstjórinn ekki Framsóknarmaður. Þannig að ekki var það pólitísk ráðning.

    Þegar ég var ráðinn sem kennari á Vopnafirði þá var oddvitinn og aðstoðarskólastjórinn Allaballi – og Framsóknarflokkurinn í minnihluta sveitarstjórnar. Þannig að það var ekki pólitísk ráðning.

    Hins vegar skal ég játa að árið 1986 – þegar ég var ráðinn blaðamaður á Tímann – sem þá var pólitískt blað – þá réði pólitík nokkru enda ég þá formaður FUF í Reykjavík. Hafði reyndar byrjað blaðamennskuferill minn í lausamennsku á Mogganum og farið þangað yfir á NT – og síðan á Tímann.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur