Þriðjudagur 31.07.2012 - 20:17 - 4 ummæli

Vaxtabótaklúður ríkisstjórnarinnar

Breytingar á vaxtabótakerfinu sem ríkisstjórnin stóð fyrir árið 2010 eru klúður. Þær koma þeim sem verst standa afar illa og munu væntanlega ríða einhverjum að fullu. Þó ber að hrósa fjármálaráðherra og skattstjóra fyrir eðlilega túlkun á lögunum þar sem ráðherrann og skattstjóri teygja sig í túlkun eins og unnt er innan ramma klúðurslaganna skuldendum húsnæðislána í hag.

Íbúðalánasjóðir fær hins vegar falleinkunn.  Forsvarsmenn sjóðsins túlka lögin skuldendum í óhag.  Sérkennileg afstaða og ekki sjóðnum fjárhagslega til framdráttar til lengri tíma litið.

Það var afar vanhugsað hjá ríkisstjórninni að breyta lögum um vaxtabætur á þann hátt sem gert var.  Hún hugsaði málið ekki alla leið. Ríkisstjórnin taldi ekki rétt að þeir sem ekki hefðu greitt af lánum sínum og þar af leiðandi ekki greitt vexti fengju vaxtabætur. Við fyrstu sýn virðist það eðlilegt.  Og það var ástæða til að breyta fyrirkomulaginu. En ekki með því að svipta fólk í greiðsluvanda dýrmætum vaxtabótum.

Vandinn sem ríkissjóður stóð frammi fyrir var að vaxtabæturnar fóru ekki endilega í að greiða vanskil húsnæðislána – þar með talin vaxtagjöld. Ástæðan var einföld. Fyrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafði skapað vandamálið með því að afnema það snjalla fyrirkomulag sem áður hafði gilt þegar vaxtabætur runnu ekki beint til skuldenda gegnum skattkerfið, heldur var skuldajafnað beint á ógreiddar, gjaldfallnar afborganir húsnæðislána.

Með því fyrirkomulagi var klárt að vaxtabæturnar gegndu því hlutverki sem þeim er ætlað að létta landlæga, óhóflega vaxtabyrði af húsnæðislánum. Með því fyrirkomulagi var tryggt að staða skuldenda húsnæðislána batnaði og möguleikar þeirra á að koma slíkum lánum í skil jukust verulega. Og með því lækkuðu vanskil við Íbúðalánasjóð.

Í stað þess að svifta þá sem eiga í erfiðleikum með að standa í skilum með húsnæðislánum þessum mikilvæga stuðningi sem vaxtabætur eru þá var einfaldari og réttlátari leið að endurvekja fyrra fyrirkomulag skuldajöfnunar – þó með þeim breytingum að skuldajöfnun rynni ekki einungis til Íbúðalánasjóðs heldur hlutfallslega jafnt til þeirra lánastofnanna sem veitt höfðu skilgreind húsnæðislán sem sköpuðu vaxtabótagrunn – óháð veðröð.

En þótt þessar breytingar ríkisstjórnarinnar á vaxtabótakerfinu hafi verið klúður þá verður að halda því til haga að ríkisstjórnin gerði mjög jákvæða og mikilvæga hluti með sérstökum vaxtabótum sem væntanlega hafa bjargað mörgum.  Einnig er sú fyrirætlan að endurskipuleggja húsnæðisbótakerfið og taka upp eina tegund húsnæðisbóta til fyrirmyndar og mikilla bóta.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Elfur Logadóttir

    Hallur, ertu viss um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi breytt hlutum þannig að vaxtabæturnar runnu ekki lengur til skuldajafnaðar húsnæðislána?

    Ég fékk frystingu á mínum ÍLS lánum 2003 eða 4 og gilti sú frysting í nokkur ár. Allan tímann fékk ég vaxtabæturnar greiddar út í minn vasa.

  • Hallur Magnússon

    Já Elfur. Það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem breyttu þessu.

    Þú gerðir samning um frystingu láns sem fólst í því að sá hluti höfuðstóls og vextir sem greiða hefði átt á frystingartímabilinu var gerður upp um hver áramót með því að leggjast við höfuðstól sem hækkun. Með því leit ÍLS og skattstjóri svo á að uppgjör vegna ársins hafi verið gert.

    Þess vegna fékkst þú vaxtabæturnar í eigin vasa – enda mikilvægt fyrir þig að nýta þær til að greiða niður aðrar skuldbindinga þínar sem ollu væntanlega greiðsluerfiðleikum þínum. Það var – og er – trikkið við frystingu lána sem hefur það markmið að ná tökum á fjármálum sínum.

    Þetta fyrirkomulag er fjármálaráðherra og skattstjóri nú að verja – gegn túlkun Íbúðalánasjóðs sem telur að þeir sem hafa fengið frystingu eigi ekki rétt á vaxtabótum. Undarleg afstaða.

    Hins vegar var það þannig að þeir sem EKKI höfðu gert samning um frystingu lána – en áttu ógreidda gjalddaga af lánunum – fengu vaxtabætur sem runnu til skuldajöfnunar þeirra gjalddaga sem ógreiddir voru. Þannig komust´margir í skil með húsnæðislánin sín með aðstoð vaxtabótanna 1. ágúst ár hvert.

    Þannig er það ekki lengur. Í því felst klúðrið – málið var ekki hugsað alla leið.

    Kveðja
    Þinn fyrrum yfirmaður í Íbúðalánasjóði

    Hallur M

    PS. Gengur ekki annars vel hjá þér?

  • Björn Guðmundsson

    Vextir, vaxtabætur og skuldafjötrar!

    Allt er þetta í boði FLOKKSINS og fylgihnattarins.

    Hvar í flokki ert þú?

  • Stefán Auðunn Stefánsson

    Landsbankinn, sem reyndar stundar fjárkúgun á mitt heimili vegna gengistryggðs láns, forskráði tilhæfulausar upplýsingar á skattframtal mitt sem ég gerði athugasemdir við til RSK skriflega og á framtalið. Þrátt fyrir það framkvæmir RSK útreikninga og birtir niðurstöðurnar á álagningaseðlinum með tölum bankans. Öllum ráðum er beitt af ríkisapparatinu til að beygja skuldara í svaðið. M.a. Þetta tilvik er nú innlegg í málaferli gegn Landsbankanum vegna ofangreinds lánasamnings.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur