Laugardagur 02.03.2013 - 08:43 - 6 ummæli

Er Framsókn „Venstre“?

Langtímamarkmið Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og nánustu samstarfsmanna hans í Framsóknarflokknum er að ganga upp. Sigmundur Davíð hefur frá upphafi stjórnmálaferils síns litið til systurflokks Framsóknarflokksins í Danmörku – „Venstre“. En staða „Venstre“ hefur verið afar sterk allt frá miklum kosningasigri flokksins árið 2001 þegar „Venstre“ tók við af  „De Konservative“ – systurflokki Sjálfstæðisflokksins – sem leiðandi afl meðal borgarflokkanna dönsku.

„Venstre“ leiddi ríkisstjórnir borgaraflokkanna frá árinu 2001 fram til ársins 2011 þegar borgaraflokkarnir misstu meirihluta sinn þrátt fyrir að „Venstre“ yki við sig fylgi.  Systurflokkur Sjálfstæðisflokksins „De Konservative“ galt hins vegar afhroð í kosningunum 2011 á svipaðan hátt og fylgi flokksins hrundi í kosningunum 2001 þegar flokkurinn missti áratuga forystuhlutverk sitt meðal dönsku borgaraflokkanna til „Venstre“.

Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs er nú í stórsókn ef marka má skoðanakannanir að undanförnu þar sem flokkurinn hefur þrefaldað skoðanakannanafylgi sitt frá því sem flokkurinn mældist lægstur á kjörtímabilinu og mælist nú með um 10% meira fylgi en Framsókn fékk í varnarsigri sínum í síðustu Alþingiskosningum.

Á sama tíma er Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar í frjálsu falli líkt og „De Konservative“ upplifðu árið 2001 þegar þeir misstu leiðandi hlutverk sitt yfir til „Venstre“.

Þessi staða er ekki bara tilviljun. Sigmundur Davíð og samstarfsmenn hans hafa nefnilega alla tíð litið til árangurs og stefnumála „Venstre“ í sinni pólitík þótt aðeins hafi á stundum vantað upp á frjálslyndið sem er einn þáttur í stefnu „Venstre“ þótt aðrir þættir í pólitíkur „Venstre“ stangist stundum á við frjálslyndið. Líkt og hjá Framsókn.

„Venstre“ hefur lagt áherslu á harða innflytjendastefnu og á stundum nánast daðrað við þjóðernishyggju. Hörð innflytjendastefna var einn lykilþátturinn í kosningasigri flokksins árið 2001. Önnur vinsæl stefnumál voru loforð um að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu, nútímavæðing stjórnkerfisins, aukið valfrelsi einstaklinga og lækkun skatta á almenning.

Það er kaldhæðnislegt að þrátt fyrir að hafa horft til „Venstre“ sem skilgreinir sig sem frjálslyndan miðjuflokk, þá hefur stefna Sigmundar Davíðs og þess hóps sem stendur að baki Vigdísi Hauksdóttur, Gunnars Braga Sveinssonar og fleiri orðið til þess að margir úr frjálslynda armi Framsóknarflokksins yfirgáfu flokkinn. Þeir töldu skorta á frjálslyndið.

Hluti þeirra tók þátt í stofnun Bjartrar framtíðar sem stefnir einnig í kosningasigur þótt aðeins hafi dregið úr fylgi BF í síðustu skoðanakönnunum.  Björt framtíð virðist ætla að ná 8 – 12 % fylgi og tryggja sér þannig stöðu á Alþingi sem nýtt stjórnmálafl.

Það má reyndar sjá ýmis líkindi með Bjartri framtíð og hinum hefðbundna systurflokki Framsóknar – „Radikale venstre“. „Radikale venstre“ er frjálslyndur miðjuflokkur sem lengi hefur talið sig til borgaraflokkana en sneri við blaðinu í síðustu kosningum og ákvað að vinna með vinstri flokkununum.

„Radikale venstre“ vann góðan kosningasigur með sína félagslegu frjálslyndisstefnu sem varð til þess að ríkisstjórn „Venstre“ og borgaraflokkanna féll og við tók núverandi ríkisstjórn „Radikale venstre“, „Socialdemokratiet“ systurflokki Samfylkingarinnar og „Socialistisk Folkepartiet“ systurflokki VG.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Björn Larusson

    Góð greining hjá þér af dönsku stjórnmálunum. Það er þó einn reginmunur á. Hér í Danmörku hafa yfirleitt verið við völd minnihlutastjórnir og svo er nú (með hlutleysi Einingarlistans). Fallist Einingarlistinn ekki á frumvörp stjórnarinnar leitar hún stuðnings Venstre eða íhaldsmanna. Svo var með fjárlögin að það voru íhaldsmenn sem stuttu frumvarpið í stað Einingarlistans. Þannig var það líka í síðustu stjórn. Ef Dansk Folkeparti sem stutti stjórnina en átti ekki aðild að henni brást í stuðningi sínum, var leitað til kratana.
    Þetta er óhugsandi á Íslandi.

  • Venstre er líberal flokkur, frjlaslyndur og umburðarlyndur.

    Leggur ríka áherslu á frelsi einstaklings og að stjórnvöld eigi að skipta sér sem minnst af einkalífi fólk og hvermig það kýs að haga sér.

    Vemstre er líka flokkur viðskiptafrelsis og sem minnstra hafta.

    Í stuttu mál á Framsóknarflokkurinn, flokkur miðstýringar, hafta og stöðugra afskipti af lífi fólks, nákvæmlega ekkert sameiginlegt með Venstre.

    Ég bjó í Danmörku og þekki þetta ve.

    Enginn flokkur á Íslandi líkist Venstre.

    Enda eru ‘islendingar fyrst og einangrunarsinnar oh íhaldsmenn.

  • Var það hluti af langtímahugsuninni að flýja Reykjavík?

  • Ingi Arason

    Hallur,

    Þú þarft að kynna þér betur pólitíska landafræði Danmerkur. Ég held að Uffe Elleman verði seint talinn einangrunarsinni í Evrópu.
    Hans hugsjónir myndu ekki njóta sín í Framsókn nútímans.

  • Hallur Magnússon

    Ingi.
    Þú þarft ekkert að kenna mér um pólitíska landafræði Danmerkur.

    Það var reyndar Anders Fogh Rasmussen sem leiddi sigur Venstre 2001 – en ekki Uffe. Það er lengra síðan Uffe Elleman leiddi flokkinn.

    En það er rétt hjá þér. Venstre er evrópskur, alþjóðasinnaður, frjálslyndur flokkur. Þáttakandi í ALDE – Alliance Liberals and Democrats in Europe og vinnur þétt saman með öðrum frjálslyndum flokkum í Evrópu.

    Þannig var reyndar andinn í Framsókn þar til Guðni tók við …

  • Elfa Jóns

    Hvað nákvæmlega er svona likt með Venstre og Framsókn?
    Mér er alveg fyrirmunað að sjá það. Mér hefur alltaf þótt Venstre miklu líkara Sjálfstæðisflokknum, td efnahagspólitíkin og viðskiptafrelsishugmyndir, … bara án LÍÚ-blætisins.

    Harða innnflytjendastefnan er komin frá kosningabandalagi við Dansk Folkeparti, svo það er nú ekki eiginlegt mál Venstre. „Harka“ Venstre sjálfra í innflytjendamálum felst nú meira í tilraunum til að skera niður ofvaxið bótakerfi og opinbera geirann. Það bitnar að hluta á þessum hópi.

    Hvernig getur flokkur verið bæði alþjóðasinnaður og frjálslyndur (sem Venstre er) og þjóðerninssinnaður (sem Venstre er tæplega)?

    … og hvað er alþjóðasinnað og frjálslynt við Framsókn?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur