Mánudagur 4.3.2013 - 16:34 - Rita ummæli

Björt framtíð skákar Framsókn!

Björt framtíð hefur skákað Framsókn í samstarfi Evrópupsamtaka frjálslyndra flokka!  Framsókn hefur um áratuga skeið og allt fram á það síðasta verið í nánu samstarfi við frjálslynda flokka á heimsvísu gegnum Liberal International. Þar hefur samstarf við frjálslynda flokka í Evrópu lengst af verið mikið.

Núverandi forysta Framsóknarflokksins vildi þó ekki taka upp formlegt samstarf við ALDE – Alliance of Liberals and Democrats for Europe – þegar það stóð til boða fyrir fáeinum misserum.

Nú hefur Betri framtíð greinilega tekið fyrrum stöðu Framsóknarflokksins meðal frjálslyndra flokka í Evrópu!  Það sést best á því að Diana Wallis fyrrum varaformaður Evrópuþingsins og einn af fyrrum leiðtogum ALDE hefur nú tekið sér stöðu með Bjartri framtíð og leikur lykilhlutverk í málstofu Bjartar framtíðar – „Málstofa um frjálslyndi: Mannréttindi og umhverfisvernd í frjálslyndum flokkum í Evrópu (Seminar on liberalism: How liberal partys in Europe deal with human rights and environmetal issues)“.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.3.2013 - 08:43 - 6 ummæli

Er Framsókn „Venstre“?

Langtímamarkmið Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og nánustu samstarfsmanna hans í Framsóknarflokknum er að ganga upp. Sigmundur Davíð hefur frá upphafi stjórnmálaferils síns litið til systurflokks Framsóknarflokksins í Danmörku – „Venstre“. En staða „Venstre“ hefur verið afar sterk allt frá miklum kosningasigri flokksins árið 2001 þegar „Venstre“ tók við af  „De Konservative“ – systurflokki Sjálfstæðisflokksins – sem leiðandi afl meðal borgarflokkanna dönsku.

„Venstre“ leiddi ríkisstjórnir borgaraflokkanna frá árinu 2001 fram til ársins 2011 þegar borgaraflokkarnir misstu meirihluta sinn þrátt fyrir að „Venstre“ yki við sig fylgi.  Systurflokkur Sjálfstæðisflokksins „De Konservative“ galt hins vegar afhroð í kosningunum 2011 á svipaðan hátt og fylgi flokksins hrundi í kosningunum 2001 þegar flokkurinn missti áratuga forystuhlutverk sitt meðal dönsku borgaraflokkanna til „Venstre“.

Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs er nú í stórsókn ef marka má skoðanakannanir að undanförnu þar sem flokkurinn hefur þrefaldað skoðanakannanafylgi sitt frá því sem flokkurinn mældist lægstur á kjörtímabilinu og mælist nú með um 10% meira fylgi en Framsókn fékk í varnarsigri sínum í síðustu Alþingiskosningum.

Á sama tíma er Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar í frjálsu falli líkt og „De Konservative“ upplifðu árið 2001 þegar þeir misstu leiðandi hlutverk sitt yfir til „Venstre“.

Þessi staða er ekki bara tilviljun. Sigmundur Davíð og samstarfsmenn hans hafa nefnilega alla tíð litið til árangurs og stefnumála „Venstre“ í sinni pólitík þótt aðeins hafi á stundum vantað upp á frjálslyndið sem er einn þáttur í stefnu „Venstre“ þótt aðrir þættir í pólitíkur „Venstre“ stangist stundum á við frjálslyndið. Líkt og hjá Framsókn.

„Venstre“ hefur lagt áherslu á harða innflytjendastefnu og á stundum nánast daðrað við þjóðernishyggju. Hörð innflytjendastefna var einn lykilþátturinn í kosningasigri flokksins árið 2001. Önnur vinsæl stefnumál voru loforð um að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu, nútímavæðing stjórnkerfisins, aukið valfrelsi einstaklinga og lækkun skatta á almenning.

Það er kaldhæðnislegt að þrátt fyrir að hafa horft til „Venstre“ sem skilgreinir sig sem frjálslyndan miðjuflokk, þá hefur stefna Sigmundar Davíðs og þess hóps sem stendur að baki Vigdísi Hauksdóttur, Gunnars Braga Sveinssonar og fleiri orðið til þess að margir úr frjálslynda armi Framsóknarflokksins yfirgáfu flokkinn. Þeir töldu skorta á frjálslyndið.

Hluti þeirra tók þátt í stofnun Bjartrar framtíðar sem stefnir einnig í kosningasigur þótt aðeins hafi dregið úr fylgi BF í síðustu skoðanakönnunum.  Björt framtíð virðist ætla að ná 8 – 12 % fylgi og tryggja sér þannig stöðu á Alþingi sem nýtt stjórnmálafl.

Það má reyndar sjá ýmis líkindi með Bjartri framtíð og hinum hefðbundna systurflokki Framsóknar – „Radikale venstre“. „Radikale venstre“ er frjálslyndur miðjuflokkur sem lengi hefur talið sig til borgaraflokkana en sneri við blaðinu í síðustu kosningum og ákvað að vinna með vinstri flokkununum.

„Radikale venstre“ vann góðan kosningasigur með sína félagslegu frjálslyndisstefnu sem varð til þess að ríkisstjórn „Venstre“ og borgaraflokkanna féll og við tók núverandi ríkisstjórn „Radikale venstre“, „Socialdemokratiet“ systurflokki Samfylkingarinnar og „Socialistisk Folkepartiet“ systurflokki VG.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.2.2013 - 06:48 - 8 ummæli

Sjálfstæðisflokkurinn er patt!

Sjálfstæðisflokkurinn er patt í íslenskri pólitík eftir landsfund sinn um helgina.  Samningsstaða flokksins gagnvart eina mögulega samstarfsaðila sínum – Framsóknarflokknum – er afar veik. Hörð andstaða landsfundarins gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu gerir það að verkum að samstarf við Bjarta framtíð og Samfylkingu er varla inn í myndinni. Hvað þá samstarf við VG sem vil klára aðildarviðræður á næsta ári.

Eftir stendur Framsóknarflokkurinn einn og sér. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar val. Því þótt flokksþing hans hafi ályktað að hag Íslands sé betur borgið utan ESB og að það beri að leggja það í dóm þjóðarinnar hvort halda skuli aðildarviðræðum áfram, þá hefur Sigmundur Davíð tjáð sig á þann hátt í fjölmiðlum að hann getur eftir kosningar sagt sem svo:

„Auðvitað átti að kjósa um það samhliða Alþingiskosningum hvort Ísland skuli halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. En það var illu heilli ekki gert. Því er ekkert annað að gera en að gefa aðildarviðræðunum 1 ár til viðbótar og leggja stöðu málsins þá fyrir þjóðina. Við megum ekki láta endurreisn íslenskra heimila bíða“.

Með því er Sigmundur Davíð búinn að galopna nýja möguleika á stjórnarmyndun og gæti þess vegna farið í ríkisstjórn með VG og Bjartri framtíð. Eða VG og Samfylkingu. Eða Samfylkingu og Bjartri framtíð.  Hann getur það vegna þess að VG og Samfylking  eru komin með nýja frjálslynda leiðtoga í stað hinna gömlu sem Sigmundur hefði tæpast geta starfað með.

Björt framtíð er nýtt afl sem ekki er erfitt að réttlæta fyrir Framsókn að vinna með – þegar Sigmundur Davíð hefur leyst ESB hnútinn.

… og svo getur Framsókn farið í ríkisstjórn með einangruðum Sjálfstæðisflokks hvers formaður verður að komast í ríkisstjórn til að lifa af í pólítík.

Þannig að Framsókn er mð mörg tromp á hendi meðan Sjálfstæðisflokkurinn heldur hundunum eftir að hafa kastað frá sér þeim fáu trompum sem hann hafði!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.2.2013 - 17:32 - Rita ummæli

Ruglið í rannsóknarnefnd Alþingis

Þær ætla að verða langlífar rangfærslurnar hjá rannsóknarnefnd Alþingis varðandi áhrifa breytinga sem gerðar voru á Íbúðalánasjóði árið 2004 og tilkomu svokallaðra 90% almennra lána sem var kosningamál Framsóknarflokksins. Reyndar urðu 90% almenn íbúðalán Íbúðalánasjóðs aldrei að veruleika á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem sjóðurinn hætti að lána 90% lán um mitt ár 2004.

Nú er það hin knái Eyjapeyji Elliði Vignisson sem fellur í þann pytt að kynna sér ekki málin áður en hann rýkur fram á ritvöllinn með skondna og skemmtilega grein um Framsóknarflokkinn. Vandamálið er að Elliði er að vísa til ummæla í skýrslu sem fyrir löngu hefur verið hrakin með staðreyndum.

Því vandamálið við þennan hluta skýrslu rannsóknarnefndari Alþingis er sú að nefndin rannsakaði ekki málið og byggði niðurstöðu sína ekki á staðreyndum heldur tilfinningalegum vitnisburðu starfsmanns Seðlabankans og pólitískum ummælum formanns Sjálfstæðisflokksins sem var í nauðvörn á eigin Landsfundi vegna ásaka um að ótímabærar skattalækkanir sem hann stóð fyrir hefðu haft neikvæð áhrif á efnahagslífið.

Niðurlag skýrslu sem unnin var til að leiðrétta augljósar rangfærslur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er eftirfarandi:

„Það er niðurstaða þessarar skýrslu að rannsóknarnefnd Alþingis hafi ekki kannað nægilega undirbúning og skipulag ákvarðana um breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs sem áttu að taka gildi á árunum 2004 til 2007.

Allur undirbúningur ákvörðunartöku vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á opinbera húsnæðislánakerfinu miðuðu markvisst að því að valda eins litlum efnahagslegum áhrifum og nokkur kostur var og allt kapp var lagt á að vanda undirbúning og feril þessara breytinga.

Skýrslan sýnir að það voru róttækar breytingar á útlánareglum viðskiptabankanna sem settu þessar fyrirætlanir í uppnám og voru meginorsök víðtækrar hækkunar fasteignaverðs og þenslu efnahagslífsins sem stjórnvöld höfðu engin tök á að bregðast við.

Þær breytingar sem stjórnvöld gerðu á opinbera húsnæðiskerfinu í kjölfar þessa höfðu hverfandi áhrif á þróun efnahagsmála.

Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis um að þær breytingar sem gerðar voru á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 hafi verið með stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda að falli bankanna stenst því ekki gaumgæfilega skoðun.“

Skýrsluna sjálfa má finna hér fyrir þá sem vilja leita sannleikans: http://ils.is/library/Skyrslur-og-samningar/Skyrslur/Aðdragandi%20innleiðing%20og%20áhrif%20breytinga%20-.pdf

Og inngangur skýrslunnar er eftirfarandi:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna efnahagshrunsins segir í yfirlitskafla:

„Þær breytingar sem gerðar voru á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 voru einnig þensluhvetjandi. Breytingarnar á útlánareglunum voru með stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda falls bankanna. Þau mistök voru gerð með fullri vitund um líklegar afleiðingar aðgerðanna. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Áhrif þeirra urðu enn meiri í alþjóðlegu lágvaxtaumhverfi þess tíma. Þessar hagstjórnarákvarðanir og aðrar sem nefndar eru í skýrslunni ýktu ójafnvægið í hagkerfinu. Þær áttu þátt í að knýja fram aðlögun með afar harðri lendingu.

                                                                                                                                               Rannsóknarskýrsla Alþingis. 2010. 1.bindi s. 34-35″

Þessar ásakanir á stjórnvöld hljóta að skoðast sem mjög alvarlegar og gera verður ráð fyrir að þær séu settar fram að vel athuguðu máli eftir gaumgæfilega skoðun nefndarinnar.

Við skoðun á skýrslunni kemur í ljós að nánar er fjallað um húsnæðislánamarkaðinn í kafla 4.4.5 en þrátt fyrir að þessi umfjöllun sé á köflum vönduð er þar engu að síður að finna staðreyndavillur og misskilning sem leiðir til rangra ályktana.

Ekki er að sjá að rannsóknarnefndin hafi leitað sér upplýsinga um fyrirætlanir stjórnvalda hjá þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd breytinga á opinbera íbúðalánakerfinu eða hjá stjórnendum Íbúðalánasjóðs. Þetta er umhugsunarvert í ljósi þess hve nefndin lítur þessar breytingar alvarlegum augum.

Í skýrslu nefndarinnar er fjallað innkomu bankakerfisins á húsnæðislánamarkaðinn og helstu staðreyndir reifaðar, en lítið gert úr þeim miklu áhrifum sem hún hafði á fasteignaverð, skuldsetningu heimila og þá þenslu sem varð í efnahagslífinu.

Þess í stað er sú ályktun dregin að Íbúðalánasjóður og breytingar á umhverfi sjóðsins hafi verið meginástæða þeirrar miklu hækkunar fasteignaverðs og þenslu sem því fylgdi, en ekki útlán bankakerfisins.

Í Rannsóknarskýrslunni er atburðarrás sem varð á árinu 2004 stillt upp í tímaröð, en sundurliðuð og nákvæm greining á henni hefði undirstrikað áhrif aðgerða og innkomu bankanna og varpað ljósi á það af hverju stjórnvöld hættu við að innleiða hækkun hámarksláns og lánshlutfall Íbúðalánasjóðs í 90 % í áföngum fram til vors 2007 svo sem áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Slík áfangainnleiðing hafði enga þýðingu eftir innkomu bankanna með þeim hætti sem raun varð á, hún hefði aðeins leitt til þess að Íbúðalánasjóður hefði ekki verið lengur á þessum markaði, trúlega misst hlutverk sitt og tilgang og þar með hefði megin markmiði bankanna með þessari innkomu verið náð.

Skýrslu þessari sem hér er birt er ætlað að draga fram gleggri mynd af þeirri atburðarrás sem varð á sviði húsnæðislána á árunum 2003 – 2008 og einnig að koma á framfæri leiðréttingum og mikilvægum upplýsingum sem hefðu vafalítið haft áhrif á heildarniðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis um húsnæðislánamarkaðinn ef eftir þeim hefði verið leitað.

Þá er í skýrslu þessari dregin skýrar fram en áður hefur verið gert sterk tengsl íbúðalána bankanna og þeirrar þróunar sem varð á húsnæðislánamarkaði og efnahagslífinu með innkomu þeirra á þennan markað á árinu 2004.“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.2.2013 - 19:08 - 7 ummæli

Saari styrkir stjórnarflokkana

Þór Saari virðist ekki með langt pólitískt nef. Vantrauststillaga á ríkisstjórnina í dag er vanhugsuð vitleysa. Verði vantraust samþykkt mun það styrkja núverandi stjórnarflokka verulega fyrir komandi kosningar.

Almenningur veit að það er ekkert nema fíflagangur að hrekja ríkisstjórnina frá rétt fyrir boðaðar kosningar. Ríkisstjórnin getur hvort eð er ekki gert mikið meira af sér á þessum stutta tíma fram að kosningum. En upplausnin sem verður fram að kosningum ef núverandi ríkisstjórn er hrakin frá völdum getur hins vegar orðið dýrkeypt.

Verði vantraust samþykkt á ríkisstjórnina er það himnasending fyrir nýja formenn Samfylkingarinnar og VG. Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir Thoroddsen eru hálf vængbrotin í kosningabaráttunni meðan hálfdauð ríkisstjórn flokka þeirra leidd af nú aflóga stjórnmálamönnum fortíðar lafir. Ríkisstjórn sem í ofanálag er afar óvinsæl.

En ef ríkisstjórnin hefur verið hrakin frá völdum þá munu nýju formennirnir hafa sviðsljósið fyrir sig einir og sér.  Óbundnir af daglegum gjörðum vanmáttugrar ríkisstjórnar. Þeir munu fá gullið tækifæri til að láta ljós sitt skína meðan hjákátleg vinnustjórn situr í stjórnarráðinu og geta rekið öfluga kosningabaráttu þar sem undirstrikuð er sú breyting sem verður á vinnulagi og pólitískri nálgun í Samfylkingu og VG með nýrri ferskri forystu nýrra tíma.

„Gömlu“ flokksformennirnir þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben munu hins vegar eiga erfiðara með að ná vopnum sínum.

… og Dögun Hreyfingarinnar mun verða að kvöldi komin.

Já, Þór Saari er með frekar stutt pólitískt nef!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.2.2013 - 13:15 - 6 ummæli

Duld um gluggaskraut

Myndlíking Morgunblaðsins yfir Katrínu  Thoroddsen Jakobsdóttur verðandi formanns VG er skiljanleg . Katrín er einstaklega falleg, klár og sjarmerandi kona. Kona sem eldri karlmenn vildu gjarnan hafa hjá sér sem gluggaskraut enda eru þeir af kynslóð sem vandist því að hafa konuna bak við eldavélina. Myndlíkingin er því greinilega duld útbrunnins karlmanns sem saknar þess tíma þegar hann var spikk og span – og konur fylgihlutir í pólitík.

Sjarmatröllið Katrín hefur greinilega tryllt leiðarahöfund Moggans með útgeislun sinni og fegurð því  hann sér ekki sólina fyrir henni.  Því er ekki unnt að ætlast þess að blindaður og steinrunninn leiðarahöfundur hafi rænu á að sjá stjórnmálamanninn Katrínu.  Enda skilur hann ekki kröfu nútímans um stjórnmál sem byggja á hófsemd og virðingu. Leiðarahöfundurinn skilur einungis niðurrífandi stjórnmál kalda stríðsins enda væntanlega alinn upp á hugmyndafræði þess.

En stjórnmálamaðurinn Katrín Thoroddsen Jakobsdóttir er mikill og farsæll stjórnmálamaður. Reyndar líklega eina von VG.  Ekki af því að hún gæti verið gæðagluggaskraut. Heldur vegna þess að hún hefur tiltrú almennings sem heilsteyptur og góður stjórnmálamaður. Þótt gáfurnar, sjarminn og fegurðin spilli ekki fyrir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.2.2013 - 16:50 - 1 ummæli

Hott hott allir mínir hestar!

Íslenskir hrossabændur eiga nú frábært tækifæri til að grysja  íslenska hrossastofninn eins og mikil þörf er á. Það er allt of mikið af bykkjum nagandi dýrmæta beitarhaga. Það hefur aldrei verið betra tækifæri til að markaðssetja íslenskt hrossakjöt í Evrópu en nú.

Það er nefnilega svo einkennilegt að „hrossakjötsskandallinn“ í Findus frosnu lasagnja hefur opnað augu hundruð þúsunda Evrópubúa fyrir því að hrossakjöt er meinhollt – og gott – svo fremi sem það sé ekki yfirfullt af lyfjum.  Vandamálið er bara að tryggja fólki hreint og gott hrossakjöt!

Íslenskar bykkjur sem ganga frjálsar um haga eru eins og íslenska lambið. Nánast villibráð.

Nú er því tækifæri að fara í netta markaðssetningu á lyfjalausu, bráðhollu villihestakjöti frá Íslandi!

Hott hott allir mínir hestar!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.2.2013 - 23:35 - 5 ummæli

Innri launamunur hjúkrunarfræðinga

Það er einfalt að „ljúga“ með meðaltölum. Á dögunum birtust tölur frá ríkinu um meðaldagvinnulaun hjúkrunarfræðinga. Tölurnar sýndu miklu mun hærri dagvinnulaun en flestir hjúkrunarfræðingar þekkja.

Ástæðan er líklega einföld. Deildarstjórar og stjórnendur enn ofar í valdapýramídanum eru með miklu hærri daglaun en almennur hjúkrunarfræðingur. Þegar ríkið gefur út tölur um meðaldagvinnulaun hjúkrunarfræðinga þá eru að sjálfsögðu allir hjúkrunarfræðingar inn í því meðaltali.  Líka þessir stjórnendur sem hafa há laun. Þeir hífa verulega upp meðaltalið.

Almennir hjúkrunarfræðingar eru áfram með skítalaun.

En ríkið hefur náð fram markmiði sínu. Að telja almenningi trú um að almennir hjúkrunarfræðingar séu með þokkaleg laun og reyna því að draga úr samúð almennings með réttmætum launakröfum almennra hjúkrunarfræðinga.

Verst að lélegir fjölmiðlar birta tölur ríkisins gagnrýnilaust.

Hvernig hefði verið að fjölmiðlar hefðu reynt að rýna í tölurnar og draga fram þess einföldu staðreynd í stað þess að bakka upp ríkisvaldið í þessu áróðursbragði!

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.2.2013 - 21:29 - 15 ummæli

Glapræði ASÍ húsbréfa

Það er glapræði að taka „danska“ húsbréfakerfið upp á Íslandi meðan við búum við gjaldeyrishöft, ónýtan gjaldmiðil og nánast gjaldþrota, yfirveðsett heimili. Því það er nánast öruggt að innleiðing „danska“ húsnæðiskerfisins mun leiða af sér háa raunvexti á húsnæðislánum líkt og tíðkuðust í íslenska húsbréfakerfinu þar sem vextir voru yfirleitt um og yfir 6% og allt upp í 9% umfram veðbólgu.

Hins vegar er danska kerfið brilljant fjármögnunarkerfi ef Íslendingar taka upp evru og ljóst að raunvextir fasteignalána munu þá lækka verulega.

Það er sárgrætilegt að horfa á hjarðhugsun ASÍ forystunnar sem viljandi lítur algerlega framhjá stórum göllum kerfisins í íslensku efnahagsumhverfi en góna dáleiddir á kosti danska kerfisins eins og það virkar í dönsku efnahagsumhverfi.

Staðreyndin er nefnilega sú að forsenda fyrir virkni danska kerfisins er sú að kerfið byggir á að skuldabréfaflokkarnir séu afar stórir og með veði í hóflega skuldsettu húsnæði stórs hluta Dana.  Danir eru jú allmiklu fleiri en Íslendingar.

Þessir stóru skuldabréfaflokkar tryggja kaupendum dönsku húsbréfana öryggi og að þeir geti selt og keypt bréfin á virkum og djúpum markaði. Þeir muni ekki sitja uppi með húsbréfin ef þeir þurfa að losa fé og þau eru örugg vegna þess hve veðandlag þeirra er öflugt og dreift. Það skilar sér í lægri ávöxtunarkröfu en ella.

Á Íslandi aftur á móti verða skuldabréfaflokkarnir alltaf allt of litlir til að vera almennilega viðskiptahæfir auk þess sem húsnæði landsmanna er að stórum hluta yfirveðsett. Við erum jú ekki nema 300 þúsund sálir. Þetta var einmitt veikleiki íslenska húsbréfakerfisins gamla sem var byggt upp með danska kerfið sem fyrirmynd. Skuldabréfaflokkarnir voru allt of litlir og illa viðskiptahæfir sem skilaði sér í 6% – 9% vöxtum umfram verðbólgu.

Kostur gamla íslenska húsbréfakerfisins var samt sá fyrir fjárfesta að þau voru verðtryggð. Verðbólguáhættan var ekki til staðar. Ef marka má forseta ASÍ gerir hann ráð fyrir að „danska“ kerfið á Íslandi verði óverðtryggt.  Það verður til þess að ofaná okurvexti vegna þess hver skuldabréfaflokkarnir verða grunnir þá bætist verðbólguáhættuálag ofan á ávöxtunarkröfuna. Sem þýðir þá enn hærri vexti en í gamla húsbréfakerfinu!

Þá virðist ASÍ forystan algerlega horfa fram hjá því að danska krónan er beintengd evru. Það þýðir að hin góðu dönsku húsbréf eru ekki einungis gjaldgeng á dönskum skuldabréfamarkaði heldur á öllum fjármálamarkaði evrunnar. Enda eru það ekki síst Þjóðverjar og aðrir vel stæðir Evrópubúar sem fjárfesta áhyggjulaust í hinum dönsku húsbréfum.  Sem þýðir enn lægri ávöxtunarkröfu og lægri vexti en ef bréfin væru einungis á dönskum fjármálamarkaði.

Þessu er ekki að heilsa á Íslandi. Við erum með ónýta krónu sem engum óbrjáluðum fjárfesti dytti í hug að fjárfesta í. Reyndar ekki heldur íslenskum fjárfestum ef þeir væru ekki neyddir til þess vegna gjaldeyrishaftanna. Dönsk/íslensku ASÍ húsbréfin yrðu í vistaböndum á  íslenskum örmarkaði þar sem þau gengju  – kanske – kaupum og sölu. En þá á okurvöxtum ef við miðum við vexti dönsku húsbréfanna á evrópskum fjármálamarkaði.

Dönsku ASÍ húsbréfin eru því ekki sú töfralausn sem hagfræðingurinn í forsetastól þessa annars ágætu verkalýðssamtaka vill telja okkur í trú um. Því miður.

… nema við tökum upp evru!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.2.2013 - 15:08 - 1 ummæli

Lihkku beivviin!

Lihkku beivviin! Það er þjóðhátíðardagur Sama í dag. Samar halda uppá 6. febrúar í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi. Þeir minnast 6.febrúar 1917 þegar Samar frá öllum þessum löndum söfnuðust til Þrándheims til að halda fyrsta landsþing sitt. Landsþing þar sem þeir skilgreindu sig sem eina þjóð þvert á landamæri.

Við Íslendingar gleymum stundum þessar Norðurlandaþjóð. Það eigum við ekki að gera. Þvert á móti. Tilvist og merkileg menning Sama á að minna okkur á að fjölmenningarsamfélag er engin nýlunda á Norðurlöndum. Það hefur alltaf verið til staðar.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur