Mánudagur 31.12.2012 - 12:42 - 1 ummæli

Tryggir Samfó Bjarta framtíð?

Ég geti ekki annað séð en að Samfylkingarfélag Reykjavíkur og flokkseigendafélag Samfylkingarinnar sé að tryggja Bjarta framtíð!

Ekki með öflugri Samfylkingu. Þvert á móti …

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.12.2012 - 15:32 - 1 ummæli

Bjartur pólitískur hugsuður

Einn af öflugri pólitísku hugsuðum Íslands er nú loksins kominn í framboð í alvöru sæti á lista. Borinn og barnfæddur á Skagaströnd, menntaður á Bifröst, starfandi í Borgarnesi um skeið, tómstundabóndi í Straumfirði á Mýrum með tengdafjölskyldu sinni. Eðlilega tekur slíkur maður sæti á lista í kjördæminu þar sem ræturnar liggja og hjartað slær.

G. Valdimar Valdemarsson. GVald. Vinur minn og pólitískur samherji undanfarin 20 ár skipar 2. sætið á lista Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi. Ég segi pólitískur samherji þótt ég hafi líklega ekki deilt meira við nokkurn mann um pólitík en hann. En þær umræður hafa að minnst kosti grófpússað mína eigin pólitísku sýn.

2. sætið á lista Bjartrar framtíðar gæti skilað GVald á þing ef uppbótarþingsæti Bjartrar framtíðar lendir þar. Það yrði gott fyrir Alþingi og þjóðina.

Ég sagði og stend við það. Einn af öflugri pólitísku hugsuðum Íslands er nú loksins kominn í framboð í alvöru sæti á lista fyrir Alþingiskosningar. Það vantar sárlega pólitíska hugsuði á Alþingi. Pólitíska hugsuði með misjafna sýn á samfélagið. En vandamálið er að flestir flokkarnir tefla ekki fram slíku fólki. Þeir tefla frekar fram hagsmunagæsluliði. Það hefur verið vandamálið.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.12.2012 - 09:09 - 3 ummæli

9% raunvextir Jóhönnu!

 Eru menn búnir að gleyma að raunvextir húsnæðislána í húsbréfakerfi Jóhönnu Sigurðardóttur voru allt að 9%!  Já, 9%vextir UMFRAM VERÐBÓLGU!!!  Algengasta vaxtastig í húsbréfakerfinu var á milli 6% og 7% raunvextir UMFRAM VERÐBÓLGU!

Ef hugmyndir Gylfa  Arnbjörnssonar forseta ASÍ og fulltrúa hans á Alþingi – Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur – ganga eftir mun raunvaxtastig á íbúðalánum Íbúðalánasjóðs hækka verulega.  Það er óumflýjanlegt. 

Skötuhjúin átta sig greinilega ekki á því að danska húsbréfakerfið byggir á því að hver húsbréfaflokkur er gríðarstór og danska krónan er tengd evru.  Íslensku húsbréfaflokkarnir voru allt of litlir og íslenski gjaldmiðillinn ónýtur.

Upptaka „danska kerfisins“ á Íslandi mun hafa þær afleiðingar að raunvextir húsnæðislána munu óumflýjanlega hækka verulega! 

Menn benda nú á lága óverðtryggða vexti íslenska bankakerfisins.  Menn gleyma því að núverandi vaxtastig byggir á ófjármögnuðum, niðurgreiddum lánum bankakerfisins.  Nákvæmlega eins og var þegar bankakerfið setti íslenskt efnahagslíf á hausinn með ófjármögnuðum, óheftum, niðurgreiffum og ólöglegum fasteignalánum haustið 2004.

Núverandi vaxtastig bankanna á óverðtryggðum lánum mun hækka verulega á næstu misserum. Nema bankarnir ætli að fara á hausinn – aftur.

Hafa menn ekkert lært?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.12.2012 - 07:53 - 12 ummæli

Bjargar ESB Bretlandi?

Það er kaldhæðnislegt að Evrópusambandið kynni að bjarga Bretlandi frá því að klofna í frumeindir sínar. Skotar sem hafa fengið sífellt meiri stjórn á eigin málum – ekki síst vegna stefnu Evrópusambandsins um sjálfstjórn þjóða innan sambandsins – kynnu að falla út úr Evrópusambandinu ef þeir samþykkja sjálfstætt Skotland í þjóðaratkvæðagreiðslu og segja sig úr lögum við Bretland.

Skotar yrðu þá ekki einungis utan ESB og þyrftu að sækja um aðilda að nýju – heldur myndu þeir falla utan evrusamstarfsins – en aðild að evrunni og ESB er í raun forsenda þess að það borgi sig fyrir Skota að vera sjálfstætt ríki og skilja Englendinga, Walesverja og Norður-Íra eftir með breska pundið.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.12.2012 - 07:36 - Rita ummæli

xB vantar HA lögfræðing!

Fjölbreytni skiptir miklu máli þegar stillt er upp sigurstranglegum framboðslistum fyrir Alþingiskosningar. Framsóknarflokkurinn í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur greinilega áttað sig á þessu. Flokksmenn hafa raðað fjölbreyttum tegundum af lögfræðingum í efstu sæti framboðslistans.

Efst trónir lögspekingurinn Vigdís Hauksdóttir lögfræðingur frá Háskólanum á Bifröst.  Í öðru sæti er Karl Garðarson sem er að ljúka lögfræðinámi frá Háskólanum í Reykjavík.  Í þriðja sæti er Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir lögfræðingur frá Háskóla Íslands.

Til að fullkomna fjölbreytnina vantar einungis lögfræðing frá Háskólanum á Akureyri í 4. sætið!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.12.2012 - 16:40 - 10 ummæli

Dýr mistök Velferðar-Gutta

Alvarleg mistök Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra þegar  hækkaði laun forstjóra Landspítalans um mánaðarlaun hjúkrunarfræðings eru nú að koma í hausinn á honum og heilbrigðiskerfinu.  Aðgerðarleysi velferðarráðherrans sem hefur ekkert gert til að knýja á um að gengið verði frá stofnanasamningum við hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum bætir ekki úr skák!

Nú hafa tugir hjúkrunarfræðinga sagt upp starfi sínu á Landspítalanum.  Ástæðan er óánægja með launakjör sín – eðlilega – og að ekki sé búið að ganga frá stofnanasamning við þá.  Þessar uppsagnir eru bein afleiðing mistaka Gutta.

Þessi staða eru alvarleg tíðindi fyrir Samfylkinguna – en fram til þessa hefur Samfylkingin átt mikið fylgi meðal heilbrigðisstarfsfólks. Sá stuðningur kann að minnka verulega. Þökk sé mistökum Gutta.

… sem reyndar er synd því Guðbjartur Hannesson er einn af betri þingmönnum Samfylkingarinnar!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.11.2012 - 14:30 - 3 ummæli

Sáttarleið í íbúðalánum var greið

Umræðan um verðtryggð íbúðalán og flækjan við að endurreikna hin ólögmætu gjaldeyrislán er enn áberandi nú 4 árum eftir hrunið. Þeir sem tóku verðtryggð íbúðalán í íslenskum krónum finna sig svikna meðan margir þeir sem tóku gjaldeyrislán virðast frá sjónarhóli hinna verðtryggðu hafa verið skornir úr snörunni sem þeir sjálfir hanga nú í. Þá bíður hluti þeirra sem tóku gjaldeyrislán í bankakerfinu eftir því að mál þeirra klárist. Mál þeirra ennþá að velkjast í kerfinu.

Þessi staða er óþolandi.

Það sem verra er.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefði getað leyst málin á farsælan hátt á vordögum ársins 2009 ef hún hefði borið gæfu til þess að fara eftir tillögu Gísla Tryggvasonar talsmanns neytenda um að sátt yrði náð um niðurfærslu íbúðalána gegnum gerðardóm. Jóhanna gerði ekkert í málinu.

Þetta rifjaðist upp  fyrir mér þegar ég var að vafra um ágæta vefsíðu Talsmanns neytenda og um Leiðakerfi neytenda – www.neytandinn.is – sem Gísli Tryggvason hafði forgöngu með að koma á fót til að auðvelda fólki í neytendamálum.

Um tillöguna má lesa hér á vef Talsmanns neytenda en tillagan hljóðaði svo:

„Lagt er til að Alþingi setji nú þegar lög sem kveði á um að allir samningar um lán til neytenda sem veitt höfðu verið fyrir 7. október 2008 – hvort sem er í íslenskum krónum eða erlendri mynt, einni eða fleiri (myntkörfu) – gegn veði í íbúðarhúsnæði, sem íslensk lög gilda um, verði teknir eignarnámi ef kröfuréttindin eru ekki þegar í eigu ríkisins. Um bætur fyrir eignarnámið fari eftir lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms með síðari breytingum eftir því sem við á. Þrátt fyrir 13. og 14. gr. þeirra laga skulu umráð krafna þó flytjast þegar yfir til ríkisins án tryggingar. Þrátt fyrir 14. gr. laganna skal heimilt að kveða upp úrskurð um að eignarnámsbætur skuli greiddar á lengri tíma í stað staðgreiðslu, svo sem með hliðrun eða breytingu á afborgunum, vöxtum eða öðrum skilmálum sem haldist að öðru leyti.

Þá er lagt til að allar íbúðarveðskuldir neytenda sem stofnað hefur verið til fyrir 7. október 2008 verði færðar niður eftir mælikvarða eða mælikvörðum sem lögbundinn, sérstakur gerðardómur geri tillögu um til Alþingis sem taki ákvörðun um niðurstöðu og fjármögnun með lögum í kjölfarið. Hæstiréttur skal skipa alls fimm fulltrúa í gerðardóminn.

Tveir fulltrúar í gerðardóminum skulu vera fulltrúar skuldara – tilnefndir sameiginlega af eftirfarandi samtökum neytenda:

a) Neytendasamtökunum (þar sem eru um 13.000 félagsmenn), b) Hagsmunasamtökum heimilanna (þar sem hátt í 1.400 eiga aðild) og c) Húseigendafélaginu (með um 7.500 félaga). Tveir fulltrúar í gerðardóminum skulu vera fulltrúar kröfuhafa – tilnefndir sameiginlega af eftirfarandi aðilum: a) Landssamtökum lífeyrissjóða, b) félagsmálaráðherra vegna Íbúðarlánasjóðs og c) fulltrúum erlendra kröfuhafa þeirra fjármálafyrirtækja sem lögum nr. 125/2008 hefur verið beitt á.

Lagt er til að Hæstiréttur Íslands skipi formann gerðardómsins án tilnefningar svo og eftir atvikum aðra fulltrúa ef tilnefningaraðilar koma sér ekki saman um tilnefningu eða sinna ekki boðum um tilnefningu innan tilsetts frests. Formaður gerðardómsins skal vera löglærður.

Þingmál gerðardómsins skal vera íslenska.

Lagt er til að í lögunum verði sú skylda lögð fyrir gerðardóminn að leggja fyrir 15. júní 2009 heildstæða tillögu fyrir Alþingi í lagaformi um hvaða íbúðarveðlán neytenda skuli færð niður, hve mikið og hvernig, þ.e. eftir hvaða mælikvarða eða mælikvörðum, sem mega vera mismunandi eftir málefnalegum sjónarmiðum. Lagt er til að tekið verði fram í lögunum að niðurfærsla samkvæmt mati gerðardómsins verði ekki skattskyld.

Sjónarmiðin sem lagt er til að gerðardómurinn skuli leggja til grundvallar eru:

  • Tegund íbúðarveðlána.
  • Tímasetning lántöku og atvik sem síðar komu til.

Þá er lagt til að gerðardóminum verði í lögum heimilað að líta til annarra almennra og hlutlægra sjónarmiða af sviði neytendamarkaðsréttar, svo sem

  • stöðu aðila,
  • skilmála og forms samnings og eftir atvikum
  • veðhlutfalls.

Við mat gerðardóms á því að hvaða marki skuli víkja verð- og gengistryggingarþætti íbúðarveðlánasamninga til hliðar skal einkum horft á opinberar áætlanir um verðbólguþróun og til verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands annars vegar og hins vegar til spár hlutaðeiganda lánveitanda um þróun hlutaðeigandi gjaldmiðla en ella – hafi lánveitandi ekki birt slíkar spár – á aðrar spár sem birtar voru opinberlega. Einnig verði heimilt að líta til sambærilegra forsendna aðila kjarasamninga við endurnýjun kjarasamninga. Þá verði gerðardómi heimilt að líta til væntanlegs framtíðargengis íslensku krónunnar gagnvart evru komi til ákvörðunar um aðildarviðræður við ESB á þeim tíma sem gerðardómurinn starfar.

Lagt er til að öllum almannasamtökum, hagsmunasamtökum, embættum og stofnunum, sem sýna fram á lögvarða hagsmuni sína, skjólstæðinga sinna eða aðila að samtökunum, geta flutt mál sitt fyrir gerðadóminum Að öðru leyti gildi um málsmeðferð hjá hinum lögbundna gerðardómi lög nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma með síðari breytingum. Í ljósi þessa þykir fært að leggja til að niðurstaða gerðardómsins sé bindandi fyrir alla aðila, bæði neytendur, kröfuhafa og aðra sem kunna að eiga lögvarða hagsmuni, fallist Alþingi á niðurstöðu gerðardómsins.

Lagt er til að gerðardóminum verði jafnframt heimilt að gera tillögu um fjármögnun og greiðslutíma vegna þeirra tillagna sem hann skal leggja fram samkvæmt framangreindu og skal slík tillaga þá lögð fyrir Alþingi og kynnt matsnefnd eignarnámsbóta.“

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.11.2012 - 08:00 - 13 ummæli

Sannleikurinn um 90% lán ÍLS!

Enn einu sinni eru komnar á kreik rangfærslur um 90% lán Íbúðalánasjóðs. Það er dálítið sérstakt að tiltölulega virtir hagfræðingar leyfa sér að fara rangt með tímasetningar og láta jafnvel eins og 90% lán hafi verið fundin upp eftir árið 2000.  Því er ekki úr vegi að birta töflu sem sýnir hlutfall 90% lána Húsnæðisstofnar og Íbúðalánasjóðs frá árinu 1986 – 2004.

 

 

Það eru áratugir síðan 90% lán voru innleidd. Þau nánast hurfu á höfuðborgarssvæðinu árið 2004 og árin eftir það. Andstætt því sem haldið hefur verið fram.
Smellið á myndina til að sjá hana betur.

 

Þeir sem vilja fræðast um það hvernig ferill 90% lána raunverulega var geta skoðað staðreyndir málsins í þessari skýrslu – en hingað til hefur ekki eitt atriði í skýrslunni verið hrakið:   Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004, greinargerð vegna Rannsóknarskýrslu Alþingis 

Auðvitað er ýmislegt sem mögulega hefði betur mátt fara í stjórnun Íbúðalánasjóðs á þessum árum. En það er með ólíkindum að horfa upp á menn éta gagnrýnilaust upp staðreyndavillur hver eftir öðrum.  Það voru ekki 90% lán Íbúðalánasjóðs sem eru orsök vanda sjóðsins í dag.

Orsökin er fyrst og fremst efnahagshrunið sem varð í kjölfar meðal annars gegndarlausum óheftum fasteignatryggðum lánum bankakerfisins haustið 2004 og langt fram á ár 2005. Útlán Íbúðalánasjóðs skiptu nánast engu máli í því samhengi – og aldeilis ekki þau 40 raunverulegu 90% lán sem sjóðurinn lánaði til fjölskyldna á höfuðborgarsvæðinu 2005.

… greiðsluerfiðleika fjölskyldnanna í landinu eru ekki hóflegum lánum ÍLS að kenna!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.11.2012 - 11:45 - 7 ummæli

Óþörf útlánakrísa ÍLS

Íbúðalánasjóður býr nú við heimatilbúna útlánakrísu sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjóðinn.  Ástæða útlánakrísunnar er allt of lág hámarkslán sjóðsins. Hámarkslánið hrekkur skammt til kaupa á hóflegu húsnæði.

Ríkisstjórnin og Velferðarráðherra bera ábyrgð á þessari útlánakrísu. Tregi til að hækka hámarkslán hefur ekki einungis þvingað almenning til þess að taka bankalán vegna íbúðakaupa heldur hefur sá tregi komið í veg fyrir aukna atvinnu í steindauðum byggingariðnaði með tilheyrandi verðmætasköpun.

Steininn tekur úr þegar formaður Velferðarnefndar Alþingis sem á vera hagfræðimenntuð og þekkja lögmál fjármálamarkaðarins blaðrar eins og hver önnur kjaftakerling um málefni Íbúðalánasjóð á alþjóðavettvangi og gerir stöðu sjóðsins ennþá erfiðari!   Enda þurfti að loka á viðskipti með íbúðabréf í kjölfar illa ígrundaðs blaðurs verðandi 1. þingmanns Samfylkingarinnar í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.11.2012 - 17:09 - 5 ummæli

Frestunarárátta Framsóknar

Forysta Framsóknar í Reykjavík virðist haldin frestunaráráttu. Þegar stillt var upp lista fyrir síðustu Alþingiskosningar náðist ekki strax meirihluti í uppstillinganefnd til að stilla upp Vigdísi Hauksdóttur upp í 1. sæti. Því var kjördæmisþingi sem hafði það hlutverk að staðfesta framboðslista frestað um viku. Á þeirri viku náðist meirihluti fyrir uppstillingu Vigdísar í uppstillingarnefnd – 3 gegn 2.  Tillaga uppstillingarnefndar var síkðan staðfest með 1 atkvæðis mun á kjördæmisþinginu og hin dugmikla baráttukona komst á þing þar sem hún hefur mikið látið til sín taka.

Nú hefur forysta Framsóknar í Reykjavík aftur frestað kjördæmisþingi um viku þar sem ekki hefur náðst meirihluti í uppstillinganefnd fyrir uppstillingu.

Það verður spennandi að sjá niðurstöðuna …

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur