Laugardagur 28.1.2012 - 11:12 - 5 ummæli

Klofin Samfylking

Það hefur lengi verið klofningur í Samfylkingunni þótt sá klofningur sé fyrst að komast upp á hið opinbera yfirborð þessar vikurnar. Það er því hlálegt þegar Jóhanna Sigurðardóttir segir í ræðu yfir klofinni flokkstjórn:  „Látum ekki íhaldið reka fleyg í okkar raðir.“! 

Það þarf ekki íhaldið til. Samfylkingin klofnaði hjálparlaust. Eins og allir aðrir stjórnmálaflokkar. Líka íhaldið.

Þetta er einungis hluti af fjörbrotum 100 ára flokkakerfis á Íslandi.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.1.2012 - 23:27 - 9 ummæli

Króatía og fullveldisskert Ísland

Króatar eru afar stoltir og þjóðernissinnaðir. Króatar náðu langþráðu fullveldi sínu fyrir örfáum árum eftir blóðug átök við nágrannaþjóð sína eftir að hafa verið hluti ríkjasambands lungann úr 20. öldinni. Króatar eru því afar meðvitaðir um fullveldi sitt.

Það kom því ekki á óvart að í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Króata að Evrópusambandinu væri mest áberandi umræða um óhjákvæmilegt afsal ákveðins hluta fullveldis Króatu kysu þeir að ganga í Evrópusambandið. Þessi umræða var hörð og fæstum þeirra sem gengu að kjörborðinu til að kjósa um aðildarsamning Króatíu og Evrópusambandsins duldist að um ákveðið framsal fullveldis yrði að ræða. 

Ólíkt Íslandi sem framseldi hluta fullveldis síns með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma þá höfðu Króatar ekki framselt neitt af fullveldi sínu.  Á meðan innganga Íslands í Evrópusambandið mun skila Íslendingum til baka hluta þess fullveldis sem þeir töpuðu við inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið þá mun innganga Króata í Evrópusambandið skerða fullveldi Króata að hluta.

Hinir stoltu og þjóðernissinnuðu Króatar ákváðu samt að greiða atkvæði með inngöngu Króata í Evrópusambandið. Þrátt fyrir að Evrópusambandið sé að ganga í gegnum erfiðustu efnahagsþrengingar sem það hefur staðið frammi fyrir til þessa.  Vilji þjóðarinnar er afar skýr þar sem rúmlega 2/3 hluti kjósenda kaus inngöngu.

Á næstunni munu Króatar hafa miklu meiri áhrif á marga mikilvæga þætti er snúa að Íslandi og íslensku regluverki en Íslendingar sjálfir. Króatar munu vera þátttakendur í ákvörðunum í Evrópusambandinu sem Íslendingar hafa ekkert um að segja en verða að láta yfir sig ganga vegna þess valdaframsals sem þátttaka Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu felur í sér. 

Líklega var það þetta sem 2/3 króatískra kjósenda sáu. Þeir voru reiðubúnir að afsala sér hluta fullveldis Króatíu til að tryggja raunveruleg áhrif Króata á nánasta umhverfi sitt – Evrópu – í stað þess að sitja áhrifalausir hjá.  Þeir mátu fullveldi sínu betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess.

Fullveldisskertir Íslendingar ættu að velta þessu vali Króata vel fyrir sér.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.1.2012 - 09:47 - 10 ummæli

Ástu Ragnheiði burt

Þjóðin þarf Ástu Ragnheiði forseta Alþingis burt. Með allt sitt lið. Hina 62 alþingismennina. Það er fullreynt að þetta lið ræður ekki við verkefnið. Við þurfum nýtt Alþingi. Kosið persónukosningu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.1.2012 - 10:30 - 10 ummæli

Geirsmálið ekki málið

Sú upplausn og tilfinningahiti sem birtist meðal Alþingismanna og ýmissa flokksfélaga kring um Geirsmálið hefur ekki nema að  litlu leiti eitthvað að gera með tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins um að draga skuli ákæru á hendur Geir Haarde fyrir Landsdómi til baka.  Upplausnin og tilfinningahitinn ristir miklu dýpra og er birtingarform þess hruns sem óhjákvæmileg bíður hefðbundins flokkakerfis.

Það var snjallt hjá Bjarna Benediktssyni að leggja fram tillögu um að draga til baka ákæru á Geir Haarde. Sjálfstæðisflokkurinn er að hrynja eins og aðrir flokkar. En með þessari tillögu nær Bjarni að þétta raðirnar tímabundið – því ekkert er eins gott til að halda hóp saman en átök við sameiginlegan óvin. Ekki er það verra ef slík átök ná að sundra andstæðingnum. Sem hefur tekist.

Það var jafn heimskulegt hjá fulltrúum ýmissa flokksbrota á miðjunni og á vinstri væng stjórnmálanna að leggja fram frávísunartillögu í stað þess að leyfa tillögu Bjarna að fá þinglega meðferð. Með frávísunartillögunni skerptu fulltrúar þessara flokksbrota ágreining sinn við önnur flokksbrot að óþörfu. Það hefði verið heppilegra fyrir flokksbrotin að klára tillögu Bjarna Ben með því að fella hana eftir þinglega meðferð.

Aftur að upplausninni og tilfinningahitanum.  Hann er afleiðing spennu sem safnast hefur upp á undanförnum mánuðum og misserum í lítt duldum átökum flokksbrota innan ríkisstjórnarinnar. Það var ekki spurning hvort heldur hvenær upp úr syði. Það þurfti bara „gott“ mál til að losa spennuna með tilheyrandi „jarðskjálfta“.

Geirsmálið var þannig mál.

Það sem eftir stendur er flokkakerfi í rúst – því þótt Bjarni Ben hafi náð að þétta Sjálfstæðisflokkinn með snjallri skyndisókn gegn vinstri vængnum – þá eru innviðir Sjálfstæðisflokksins orðnir það fúnir að þeir munu bresta að lokum.

Upplausn 100 ára flokkakerfis er óumflýjanleg.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.1.2012 - 20:05 - 1 ummæli

DNB, SEB og íslenska bankakerfið!

Norski bankinn minn DNB vill kaupa Íslandsbanka ef marka  má fréttir. Norðmenn hafa reyndar afar góða reynslu af forvera Íslandsbanka – Glitni – en í panik dauðans var Norðmönnum gefinn Glitnir í Noregi á 10% – 15%  af raunvirði bankans strax eftir hrun. Eitt af mörgum afglöpum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í hrunstjórninni.

Það er gott ef DNB kaupir Íslandsbanka. Slær vonandi á spillinguna sem grassera í flóknu samspili banka og slitastjórna þessa mánuðina. Spillingu í skjóli ríkisstjórnarinnar sem slær út aðdraganda hrunsins.

En möguleg jákvæð innkoma DNB á íslenskan bankamarkað minnir á mögulega innkomu sænska bankans SEB – Skandinaviska Enskilda Banken – sem vildi á sínum tíma árið 1998 kaupa Búnaðarbankann og þáverandi viðskiptaráðherra vildi selja. Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra kom í veg fyrir þau viðskipti. Viðskipti sem hefðu væntanlega komið í veg fyrir hrunið.

Vonandi mun núverandi ríkisstjórn ekki gera sömu mistök og Davíð á sínum tíma og koma í veg fyrir að DNB eignist Íslandsbanka. En ég geri reyndar ráð fyrir að það verði gert – því spillingin sem veður uppi þessa mánuðina í skjóli núverandi ríkisstjórnar – hún mun eiga erfiðara uppdráttar ef DNB eignast Íslandsbanka …

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.1.2012 - 21:36 - 8 ummæli

Hræsnarinn ASÍ Gylfi!

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ er hræsnari. Gylfi Arnbjörnsson gerir gróflega upp á milli fólks á grundvelli pólitíkur.  Ójafnaðarmennska Gylfa Arnbjörnssonar gerir hann óhæfan sem einn helsta leiðtoga alþýðu landsins.

Vigdís Hauksdóttir starfaði sem lögfræðingur hjá ASÍ. Áður en Vigdís ákvað að gefa kost á sér í 1.sæti framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík suður fyrir síðustu Alþingiskosningar hringdi hún í Gylfa og skýrði honum frá stöðunni. Gylfi setti henni afarkosti. Ef hún gæfi kost á sér þá yrði hún að hætta hjá ASÍ. Það var afar skýrt af hálfu Gylfa. Ég veit það því ég hlustaði á samtal Vigdísar við Gylfa.

Gylfi Arngrímsson gerði hins vegar engar athugasemd við það að Magnús M. Norðdahl starfsmaður ASÍ tæki sæti á lista Samfylkingarinnar.  Nú hefur Magnús tekið sæti á Alþingi. Án þess að hafa þurft að hætta hjá ASÍ.

Gylfi hræsnari segir að málin séu ekki sambærileg. Af því Magnús hafi beðið um launalaust frí. En Vigdís ekki. Ég get vottað það sem vitni að samtali Vigdísar og Gylfa að Vígdís fékk aldrei tækifæri til þess að óska eftir launalausu fríi. Afarkostir sem Gylfi setti henni voru annað hvort að taka ekki sæti á lista Framsóknar eða missa starf sitt ella.

Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með opinberum samskiptum mínum og Vigdísar Hauksdóttur þá skal það undirstrikað að ég er fjarri því að vera stuðningsmaður Vigdísar. Þvert á móti gagnrýndi ég  hana harkalega fyrir það sem mér hefur þótt svik við stefnuskrá Framsóknarflokksins sem samþykkt var á flokksþingi í janúar 2009 auk þess sem ég gekk úr Framsóknarflokknum 1.desemer 2010 meðal annars vegna þess að ég var ekki sáttur við pólitík og framkomu Vigdísar á Alþingi.

En það breytir því ekki að rétt skal vera rétt – og valdníðsla Gylfa gagnvart Vigdísi var og er röng. Og ennþá verri þegar Gylfi mismunar gróflega fólki eftir því í hvaða stjórnmálaflokki það er. Gylfi á að víkja sem forseti ASÍ – því þar verður að vera tiltölulega vammlaus forysta.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.1.2012 - 10:40 - 3 ummæli

Sannleiksnefnd er svarið

Sannleiksnefnd um hrunið og aðdraganda þess er það sem við Íslendingar þurfum. Sannleiksnefnd sem starfar fyrir opnum tjöldum. Sannleiksnefnd þar sem markmiðið er að draga fram þau mistök sem við gerðum fyrir hrun, í hruninu og í kjölfar hrunsins. Það er eina leiðin til þess að við getum lært af því.

Það á ekki að elta menn fram í rauðan dauðann. Slíkur eltingaleikur kallar einungis á enn aukna sundrungu og eykur átök.  Slíkur eltingaleikur minnkar möguleikann á heilbrigðum samvinnustjórnmálum og framförum – en eykur óbilgirni og meirihlutaræði. Við horfum einmitt upp á slíkt í dag.

Það hefur verið sýnt fram á að samvinnustjórnmál geta gengið.  Vandamálið er að það var ekki vilji til þess að feta slíka leið – einmitt þegar mest þörfin var á slíkum stjórnmálum. Harkan og hrokinn hefur einungis aukist. Hvar sem menn standa í flokki.

Það var því kærkomin tilbreyting að lesa viðtal við  Árna Pál Árnason í Fréttablaðinu í morgun. Það viðtal er að finna hér. 

Árni Páll hefur þroskast og þróast vel sem stjórnmálamaður. Hann virðist nú vera kominn á það stig að vera raunhæft leiðtogaefni í stjórnmálum.

Árni Páll sýndi leiðtogahæfileika þegar hann hjó á hnútinn á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar þegar valdaklíka í Samfylkingunni sem lagði allt í sölurnar til að losna við Árna Pál úr ríkisstjórn átti í hættu að tapa atkvæðagreiðslunni um tillögu að breytingu á ríkisstjórn.  Hann sýnir pólitískan þroska í viðtali sínu við Fréttablaðið og gefur réttan tón – tón sem stjórnmálamenn ættu að tileinka sér.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.1.2012 - 19:57 - 13 ummæli

„Málefnalegur“ Dalabóndi :)

Það kætti mig verulega þegar Dalabóndinn  Ásmundur Daði hvatt til „málefnalegrar umræðu“ um skýrslu norsku ríkisstjórnarinnar sem staðfestir það sem lengi hefur verið ljóst – að  EES samningurinn hafði í för með sér fullveldisframsal og lýðræðishalla sem einungis er unnt að leiðrétta með inngöngu í ESB eða úrsögn úr EES.

Ég man yfir höfuð ekki eftir því að Ásmundur Daði – sem laug því að íselnsku þjóðinni að innganga í ESB þýddi innleiðingu herskyldu á Íslandi – hafi nokkru sinni staðið fyrir „málefnalegri umræðu“ um Evrópumál.

En batnandi manni er best að lifa …

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.1.2012 - 00:03 - 7 ummæli

Sjálfstætt Skotland með evru

Það skyldi þó ekki enda með því að við sjáum sjálfstætt Skotland sem taki upp evru í kjölfar aðskilnaðar frá Englandi og þétta samvinnu Íslendinga og Skota innan Evrópusambandsins?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.1.2012 - 11:17 - 1 ummæli

Velgir vaxtalækkun ÍLS markaðinn?

Lækkun vaxta Íbúðalánasjóðs ætti að velgja loppinn fasteignamarkað svo fremi sem Íbúðalánasjóður veiti eðlilega lánafyrirgreiðslu. Sem starfsmenn sjóðsins eru ekki alltaf reiðubúnir að gera varðandi lán til leiguíbúða.

Reyndar er of  lágt hámarkslán almennra íbúðalána sjóðsins vandamál. Hámarkið þarf að hækka. Staða efnahagsmála er þannig að slík hækkun er til bóta frekar en hitt.

Annað vandamál á markaðnum er yfirveðsetning fasteigna. Svokölluð 110% leið – sem er alls endin 110% nema í undantekningartilfellum – gerir það að verkum að eignir seljast ekki beinni sölu. Þeir sem hafa fegið 100% „leiðréttingu“ hafa ekki 10% í eigið fé til að greiða niður lánið svo nýr eigandi geti yfirtekið það.

Eina leiðin er að minnka við sig í makaskiptum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur