Króatar eru afar stoltir og þjóðernissinnaðir. Króatar náðu langþráðu fullveldi sínu fyrir örfáum árum eftir blóðug átök við nágrannaþjóð sína eftir að hafa verið hluti ríkjasambands lungann úr 20. öldinni. Króatar eru því afar meðvitaðir um fullveldi sitt.
Það kom því ekki á óvart að í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Króata að Evrópusambandinu væri mest áberandi umræða um óhjákvæmilegt afsal ákveðins hluta fullveldis Króatu kysu þeir að ganga í Evrópusambandið. Þessi umræða var hörð og fæstum þeirra sem gengu að kjörborðinu til að kjósa um aðildarsamning Króatíu og Evrópusambandsins duldist að um ákveðið framsal fullveldis yrði að ræða.
Ólíkt Íslandi sem framseldi hluta fullveldis síns með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma þá höfðu Króatar ekki framselt neitt af fullveldi sínu. Á meðan innganga Íslands í Evrópusambandið mun skila Íslendingum til baka hluta þess fullveldis sem þeir töpuðu við inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið þá mun innganga Króata í Evrópusambandið skerða fullveldi Króata að hluta.
Hinir stoltu og þjóðernissinnuðu Króatar ákváðu samt að greiða atkvæði með inngöngu Króata í Evrópusambandið. Þrátt fyrir að Evrópusambandið sé að ganga í gegnum erfiðustu efnahagsþrengingar sem það hefur staðið frammi fyrir til þessa. Vilji þjóðarinnar er afar skýr þar sem rúmlega 2/3 hluti kjósenda kaus inngöngu.
Á næstunni munu Króatar hafa miklu meiri áhrif á marga mikilvæga þætti er snúa að Íslandi og íslensku regluverki en Íslendingar sjálfir. Króatar munu vera þátttakendur í ákvörðunum í Evrópusambandinu sem Íslendingar hafa ekkert um að segja en verða að láta yfir sig ganga vegna þess valdaframsals sem þátttaka Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu felur í sér.
Líklega var það þetta sem 2/3 króatískra kjósenda sáu. Þeir voru reiðubúnir að afsala sér hluta fullveldis Króatíu til að tryggja raunveruleg áhrif Króata á nánasta umhverfi sitt – Evrópu – í stað þess að sitja áhrifalausir hjá. Þeir mátu fullveldi sínu betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess.
Fullveldisskertir Íslendingar ættu að velta þessu vali Króata vel fyrir sér.