Þriðjudagur 29.11.2011 - 07:48 - 27 ummæli

Sigmundur vill íhald í stjórn!

Sigmundur Davíð rær öllum árum til að tryggja setu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn í stað þess að tryggja framgang stefnumála eigin flokks. Stefnumála sem mörg hver eru ljómandi góð eins og vel unnin áætlun í atvinnumálum sem unnin var undir stjórn Birkis Jóns Jónssonar varaformanns Framsóknarflokksins og tillögur er snúa að endurreisn heimilanna í landinu.

Sigmundur Davíð hefur nú gefið út að Framsóknarflokkurinn muni ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi nema Sjálfstæðisflokkurinn verði með í þjóðstjórn. Annars vill Sigmundur Davíð kosningar sem væntanlega munu efla Sjálfstæðisflokkinn og tryggja þeim flokki aðgang að ríkisstjórn.

Auðvitað á Sigmundur Davíð að bjóða forsvarsmönnum veikrar ríkisstjórnar upp á viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar með þátttöku Framsóknarflokksins og kanna til þrauta hvort stefnumálum Framsóknar í atvinnumálum og endurreisn heimilanna nái ekki fram að ganga í nýjum stjórnarsáttmála.

En einhverra hluta vegna vill Sigmundur Davíð ekki framgang eigin stefnu og áhrif Framsóknar í nýrri ríkisstjórn. Sigmundur Davíð vill miklu frekar tryggja framgang Sjálfstæðisflokksins.

Hvað veldur?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.11.2011 - 10:01 - 13 ummæli

VG eitrar Ísland

VG eitrar Ísland. Með dyggum stuðningi LÍÚ og BÍ. Ef marka má stjórnarformann Matís.

Það er líklega rangt hjá mér að segja að VG eitri Ísland með stuðningi LÍÚ og BÍ. Það rétta er að VG, LÍÚ og BÍ virðast vera nokk sama þótt eftirlit Matís með eiturefnum verði ekki bætt og nái ekki ákvæðum EES samningsins bara vegna þess að fjármögnun á auknu eftirliti Matís átti að koma frá Evrópusambandinu.

Ef marka má stjórnarformann Matís í viðtali hans við RÚV:

„Matís hefur hætt við að sækja um þrjú hundruð milljóna króna styrk sem ríki sem eru í aðildarviðræðum við Evrópusambandið eiga rétt á. Andvirði styrksins átti að nota til að taka upp mælingar á eiturefnum í matvælum.

Um áramót rennur úr gildi undanþága sem Ísland hefur frá EES-reglum um mælingar á um þrjú hundruð eiturefnum.

Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís, segir að ákveðið hafi verið á föstudaginn að draga umsóknina til baka sé fjárstuðningurinn mikið álitamál. Í hópi umbjóðenda og viðskiptavina Matís, í sjávarútvegi og landbúnaði, sé stuðningurinn við aðildina að Evrópusambandinu einna minnstur. Því hafi stjórnin þurft að horfa á hugsanlegar afleiðingar þess, hvaða áhrif umsókn um fjárstyrk hefði, einkum samskiptin við viðskiptavini og eiganda til lengdar litið.“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.11.2011 - 20:37 - 19 ummæli

Flysjast utan af Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er kominn á fullt í að undirbúa næstu Alþingiskosningar. Það er gott. Honum veitir ekki af að undirbúa sig vel. Því Framsókn er þessa dagana eins og laukur sem flysjað er utan lag eftir lag þar til það kemur í ljós að enginn er lengur kjarninn.  Aðeins innsta valdalag.

Það flysjast endalaust utan af Framsókn. Formaður Sambands ungra Framsóknarmanna sagði af sér fyrir nokkrum mánuðum vegna óánægju með vinnubrögð þingflokks og breytingar á stefnu flokksins. Með honum nánast öll stjórn SUF.

Nú hefur formaður Landssambands Framsóknarkvenna sagt af sér af svipuðum ástæðum. Forysta þingflokksins búin að hrekja burt forystu beggja sérsambandanna – samtök ungra og kvenna! 

Þá þarf ekki að ræða brotthvarf fjölmargra úr frjálslynda armi Framsóknarflokksins auk þess sem afar stór hópur áður áberandi fólks í Framsóknarflokknum hefur algerlega hætt að starfa með flokknum þótt fólk hafi ekki sagt sig úr honum vegna tryggðar við „gamla góða“ Framsóknarflokkinn. Þar er um að ræða þónokkra fyrrverandi alþingismenn og jafnvel ráðherra.

Þeir sem staðið hafa fyrir vafasömum áherslubreytingum á áður rótgróinni og frjálslyndri stefnu Framsóknarflokksins telja eflaust að það sé betra að losna við þá sem ekki eru þeim sammála og treysta því að það sé einhver innsti kjarni Framsóknar. Stór hluti þessara aðilja eru rétt nýstignir inn í flokkinn og skynja ekki eðli hans. Þeir leituðu valda en ekki þess að koma hugsjónum umburðarlyndis og samvinnu á framfæri.

Það mun væntanlega koma þeim á óvart að Framsókn var fjöldahreyfing um ákveðna pólitíska sýn. Án „innsta kjarna“ sem þessir nýbúar í Framsókn héldu að þeir hefðu náð tökum á.

Því Framsókn var eins og laukurinn. Mörg lög fólks sem nú eru að flysjast í burtu.

Eftir sitja nýbúarnir og sérhagsmunaverjendurnir með tárin í augunum. Því það tekur á tárakirtlana að flysja lauk.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.11.2011 - 18:07 - 10 ummæli

Reynir Trausta oft drullusokkur

Reynir Traustason ritstjóri DV er stundum drullusokkur og óheiðarlegur blaðamaður. Veit að þessi fullyrðing kemur í kjölfar pistilsins „Vandaðar ritdeildur gulli betri“. En framkoma hans í leiðara DV er þannig að ég ákvað að fara niður á hans plan.

Ég geri ekki athugasemdir við umfjöllun hans um fjórflokkinn og hvernig flokkarnir hafa makað krókinn.  En eftirfarandi setningu í leiðaranum er ekki unnt að meta öðruvísi en óheiðarlega:

„Orkuveitan afhendir Finni og félögum 200 milljónir króna á ári fyrir umsýsluna. Menn geta síðan velt fyrir sér ástæðum þess að Finnur á svona góða innkomu hjá Orkuveitunni sem um árabil var stýrt af spillingarforkólfum Framsóknarflokksins“.

Reynir Traustason veit að mælar Orkuveitunnar voru boðnir út árið 2001 þegar þurfti að endurnýja þá. Lægsta tilboð í mælana var frá Frumherja sem sá síðan um umsýsluna í samræmi við útboðsgögn. Umsýsla mælanna var aftur boðin út 2006 eða 2007.  Frumherji var aftur með lægsta tilboðið.

FINNUR INGÓLFSSON KEYPTI HLUT Í FRUMHERJA EFTIR SÍÐARA ÚTBOÐIÐ!

ÞAÐ VEIT REYNIR TRAUSTASON FULLKOMLEGA!!!!!

En í þessum makalausa leiðara gefur Reynir Traustason í skyn að Frumherji hafi í tíð Finns Ingólfssonar fengið óeðlilega fyrirgreiðslu frá Orkuveitunni.

Þegar hann veit betur.

Reynir Traustason minnist ekkert á það að það er stofnkostnaður og rekstrarkostnaður á móti þeirri greiðslu sem OR greiðir Í SAMRÆMI VIÐ ÚTBOÐSSKILMÁLA!

En Reyni er sama. Því Reynir er stundum drullusokkur og óheiðarlegur blaðamaður.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.11.2011 - 08:03 - 4 ummæli

Vandaðar ritdeilur gulli betri

Vandaðar ritdeilur geta verið afar hressandi og upplýsandi enda einn hornsteinn málfrelsis og lýðræðis. Hér í eina tíð voru ritdeilur list.  Vandaðar greinar birtust í blöðum og jafnvel tímaritum. Þær þurfti að hugsa og vanda.

Í dag eru vandaðar ritdeilur undantekning. Haldbær röksemdafærsla sjaldgæf en fúkyrðaflaumur algengari. Enda fara ritdeilur nú yfirleitt fram á netinu og í athugasemdum bloggkerfa.  Kannske er það vegna þess hve fljótt er unnt að birta grein á bloggi og enn styttra að henda inn athugasemd.  Kannske er það bara breyting á viðhorfi og afleiðing aukinnar hörku í samfélaginu.

… eða  kanske er þetta bara óraunhæf nostalgía í miðaldra karlamanni!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.11.2011 - 08:26 - 12 ummæli

Ógnar hreint vatn hreinu vatni?

Hreinu vatni sem breytt er í hreinan snjó með snjóframleiðslu í Bláfjöllum breytist í vatn þegar snjórinn bráðnar. Á sama hátt og hefðbundinn snjór sem fellur af himnum ofan breytist í vatn. Vatnið sötrar síðan niður í jörðina. Á sama hátt og það hefur gert um milljónir ára.

Ein virtasta verkfræðistofa Íslands hefur nú eftir miklar rannsóknir staðfest þessa einföldu staðreynd.

Niðurstaðan er skýr – snjóframleiðsla í Bláfjöllum ÓGNAR EKKI vatnsbólum höfuðborgarbúa.

Þrátt fyrir þessa skýru niðurstöðu hamast andstæðingar skíðaíþróttarinnar gegn því að almenningur og íþróttafélög nýti milljarða fjárfestingar í skíðasvæðum Bláfjalla með umhverfisvænni snjóframleiðslu!

Hvað veldur?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.11.2011 - 13:02 - 2 ummæli

Samvinnurekstur um leikskóla

Samvinnurekstrarformið er í mörgum tilfellum afar hentugt og gott rekstrarform enda viðhaft víða um heim með góðum árangri. Þótt það komi líklega einhverjum á óvart þá eru samvinnufélög líklega algengust í Bandaríkjunum og öflugt rekstrarform á Bretlandseyjum og Norðurlöndunum!

Samvinnurekstrarformið hentar til dæmis vel um rekstur leikskóla enda  víða erlendis mjög algengt að samvinnufélög foreldra sjá um rekstur leikskóla. Til að mynda gekk Magnús minn í slíkan leikskóla í Noregi á sínum tíma.

Er ekki ástæða til þess að íslensk stjórnvöld taki til í lagaumhverfinu og auðveldi stofnun og rekstur samvinnufélaga?

Er ekki líka ástæða til þess að foreldrar og sveitarfélög horfi til samvinnufélagaformsins í rekstri leikskóla?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.11.2011 - 20:49 - 6 ummæli

Velkomin Katrín Thoroddsen Jakobsdóttir

Velkomin aftur til starfa Katrín Thoroddsen Jakobsdóttir. Og hafðu þökk fyrir fyrsta embættisverk þitt eftir barnsburðarleyfi – að stöðva menningarelítufasisma húsfriðunarnefndar. Það sér hver heilvita maður að Þorláksbúð er ekki óafturkræf framkvæmd. Enda sést ekki tangur né tetur af upphaflegri Þorláksbúð í Skálholti!

Því var gönuhlaup húsfriðunarnefndar algerlega óþarft og hreinlega skaðlegt á þessum tímapunkti.

Þú sýndir meðalhóf í stjórnsýslu með ákvörðun þinni. Vonandi verður það til þess að félagar þínir í ríkisstjórn taki upp meðalhófið í sinni stjórnsýslu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.11.2011 - 08:33 - 1 ummæli

Stjórnarskrárfrumvarpið fullskýrt?

Gísli Tryggvason er að ljúka mikilvægu verkefni en hann hefur undanfarna 112 daga ritað daglega skýringar við eina grein stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs sem hann sat í . Skýringarnar hafa yfirleitt verið afar skýrar og veita almenningi mikilvæga innsýn í tillögu stjórnlagaráðs að stjórnarskránni.

Gísli skýrir líka sína afstöðu til hinna ýmsu greinar frumvarpsins. Það er því gott að vera saman skýringar Gísla og þær skýringar sem fylgja frumvarpi stjórnlagaráðs.

Það verður spennandi að sjá hvernig Alþingi mun klára umfjöllun sína um fyrirliggjandi frumvap stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. En eins og fram hefur komið er þar að finna gæslumenn sérhagsmuna sem berjast gegn því að þjóðin fái að greiða atkvæði um frumvarpið.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.11.2011 - 16:33 - 11 ummæli

Ný ríkisstjórn Samfó og Sjalla?

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafnaði með óyggjandi hætti að draga skuli umsókn að Evrópusambandinu til baka. Þessi niðurstaða verður líklega til þess að bjarga Sjálfstæðisflokknum frá klofningi. En hvað liggur að baki?

Er kannske ný ríkisstjórn Samfó og Sjalla í uppsiglingu með Bjarna Ben sem utanríkisráðherra?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur