Sigmundur Davíð rær öllum árum til að tryggja setu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn í stað þess að tryggja framgang stefnumála eigin flokks. Stefnumála sem mörg hver eru ljómandi góð eins og vel unnin áætlun í atvinnumálum sem unnin var undir stjórn Birkis Jóns Jónssonar varaformanns Framsóknarflokksins og tillögur er snúa að endurreisn heimilanna í landinu.
Sigmundur Davíð hefur nú gefið út að Framsóknarflokkurinn muni ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi nema Sjálfstæðisflokkurinn verði með í þjóðstjórn. Annars vill Sigmundur Davíð kosningar sem væntanlega munu efla Sjálfstæðisflokkinn og tryggja þeim flokki aðgang að ríkisstjórn.
Auðvitað á Sigmundur Davíð að bjóða forsvarsmönnum veikrar ríkisstjórnar upp á viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar með þátttöku Framsóknarflokksins og kanna til þrauta hvort stefnumálum Framsóknar í atvinnumálum og endurreisn heimilanna nái ekki fram að ganga í nýjum stjórnarsáttmála.
En einhverra hluta vegna vill Sigmundur Davíð ekki framgang eigin stefnu og áhrif Framsóknar í nýrri ríkisstjórn. Sigmundur Davíð vill miklu frekar tryggja framgang Sjálfstæðisflokksins.
Hvað veldur?