Föstudagur 2.9.2011 - 22:30 - 9 ummæli

Raðmorðatilraun á landsbyggðinni?

Erum við að horfa upp á „raðmorðatilraun“ á landsbyggðinni í boði stjórnvalda? Það mætti halda það. Ég játa að ég er að ganga yfir strikið til að beina athygli að grafalvarlegu máli – en tilgangurinn helgar meðalið. Því það er verið að hætta mannslífum á landsbyggðinni!

Það mætti ætla að ríkisstjórn Íslands telji að mannslífin á landsbyggðinni séu minna virði en mannslífin á höfuðborgarsvæðinu. Það sama var uppi á teningnum hjá síðustu ríkisstjórn – og reyndar hjá þeirri þarsíðustu líka undir það síðasta.

Ég veit þetta eru alvarlegar ásakanir. En því miður réttar.

Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni hefur verið skorin niður ár eftir ár eftir ár.  Í nafni „hagræðingar“. Ok. Látum það vera.

Það er sagt „ódýrara“ að sinna sjúku og slösuðu landsbyggðarfólki í Reykjavík en úti á landi. Ok. Látum það vera.

En – ef það á að loka allri bráðaheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni – í nafni „sparnaðar“ og „hagkvæmni“ – þá verða sjúklingar og illa slasað fólk utan af landi að komast í hagkvæmnina í Reykjavík.  Annars mun fólk deyja að óþörfu.

Er núverandi ríkisstjórn að tryggja það að sjúklingar og illa slasað fólk komist í „hagkvæmnina“ í Reykjavík?

Nei. Þvert á móti þá virðist hún vinna gegn því!

Eins og síðasta ríkisstjórn.

Og þarsíðasta!

Á sama tíma og heilbrigðisþjónusta – að ég tali ekki um bráðaþjónusta – út á landi er að deyja út – þá er verið að draga úr fjárframlögum til sjúkraflutninga bæði í lofti og á landi.  Það má líkja því við „morðtilraun“ á landsbyggðinni – því það að bjarga ekki mannslífi sem unnt er að bjarga jaðrar við morð

En björgunarþyrluflotinn er lamaður aftur og aftur. Vegna niðurskurðar.

Ríkisstjórnin getur ekki bæði skorið niður heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni og skorið niður björgunarþyrluflotan. Því eins ljótt og það hljómar – þá er nánast unnt að halda því fram að slíkt sé „raðmorðatilraun á landsbyggðinni“.

Ég veit þetta er gróf aðferð til að draga fram ástand sem hefur skapast og líkur eru á að versni – ef menn hugsa málið ekki alla leið!

Alþingi og ríkisstjórn VERÐA að skoða niðurskurð heilbrigðisþjónustu og niðurskurð til þyrlusveita Landhelgisgæslunnar í samhengi. Það er EKKI unnt að skera niður á báðum stöðum.

Þessi pistlill minn er EKKI ætlaður til þess að skaða núverandi ríkisstjórn – og ég er ekki að saka hana sérstakelga um „raðmorðatilraun á landsbyggðinni“ – enda hefur þetta verið þróun sem hófst í ríkisstjórn sem hvorugur núverandi ríkisstjórnarflokka átti þátt í.

Þessi pistill minn – eins nöturlegur og hann er – er ætlaður til þess að koma í veg fyrir að óheillaþróun undanfarinna ára og ríkisstjórna haldi áfram.

Því enginn Íslendingur vill „raðmorðatilraun á landsbyggðinni“.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.9.2011 - 13:00 - 1 ummæli

Soðin svið – samanburðarrannsókn og „þýðing“

Gerði samanburðarrannsókn á sviðum í gærkvöldi. Vopnafjarðarsviðin ERU betri en KS sviðin. Ekkert að skagfirsku sviðunum samt. Sviðasultan heppnaðist fínt – vinur minn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er velkominn að kíkja við í Rauðagerðinu og fá sér flís af sviðasultu – blandaðri sviðum frá Vopnafirði og Skagafirði! Íslenskari verður maturinn ekki!

Í enskri þýðingu Google Chrome hljómar ofangreindur texti svona:

„Made a comparative study in the fields last night. Weaponfirth units are better than the KS areas. No skagfirsku fields anyway. Banking Sultan successful fine – my friend David Sigmund Gunnlaugsson is welcome to drop by the Red making and receiving a chip from sviðasultu – mixed areas of Diversity and Skagafjörður! Isle Excel is not the food!“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 31.8.2011 - 18:18 - 3 ummæli

Hver er þessi Jón Bjarnason?

Ég þekki nú þennan „Jón Bjarnason“ ekkert. Menn tala um hann eins og hann sé eini Jóninn. Ég held að þeir séu nú allmargir til!!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.8.2011 - 11:24 - 6 ummæli

Sammála VG með auðlindirnar!

Ég er sammála flokksráði VG um að umsýsla auðlinda Íslands verði innan umhverfisráðuneytisins. Ég hef reyndar haldið því fram í líklega 15 ár að umhverfisráðuneytið eigi að fara með úthlutun afnota af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar hverju nafni sem þær nefnast.

Þá skipti ekki máli hvort um er að ræða fiskinn í sjónum, fallvötnin,  heita vatnið eða stjórnun beitar á afréttum.

Fagráðuneytin eiga að hafa það hlutverk að leggja til nýtingu á auðlindunum á grunni vísindalegra rannsókna þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. En lokaákvörðun og ábyrgð á  úhlutun afnotaréttar verði í höndum umhverfisráðuneytisins. 

Nú væri það á hendi sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið að koma með tillögu að fiskveiðikvóta og iðnaðarráðuneytið með tillögu að úthlutun nýtingarréttar af vatnfsföllum og heitu vatni til raforkuframleiðslu – en umhverfisráðuneytið taki endanlega ákvörðun og formlegri úthlutun.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.8.2011 - 12:17 - 2 ummæli

Ærandi gervifossniður stöðvaður?

Vélrænn dynur frá umferðinni á Miklubraut dró ekki úr ánægjunni á götuhátíð Rauðgerðinga sem haldin var á rólónum í Rauðagerði í gær. En dynurinn – sem reyndar var með mildasta móti þar sem umferð um Miklubraut er frekar í lágmarki á laugardagseftirmiðdögum – var þó nægur til þess að nær allir götuhátíðargestirnir skrifuðu undir áskorun til borgaryfirvalda um að setja upp fyrirhugaða hljóðmön milli Miklubrautar og Rauðagerðis.

Staðreyndin er nefnilega sú að hávaðinn frá Miklubrautinni er iðulega langt yfir viðmiðunarmörkum hjá íbúum Rauðagerðis sem búa næst Miklubrautinni. Hávaðinn er nánast ærandi á mestu umferðarálagstímum.  Þótt ég búi efst í Rauðagerðinu þá glymur umferðaniðurinn iðulega í eyrunum.

Ég hef hins vegar farið þá leið að telja mér trú um að  niðurinn sé bara sambærilegur notarlegum fossnið eða sjávaröldunið og þannig leitt hann frá mér. En það geta íbúar næst Miklubrautinni ekki gert. Hávaðinn er það mikill á álagstímum.  Enda ekki tilviljun að enginn byggir sér íbúðarhús í 50 metra fjarlægð frá stórfossum Íslands.

Ef allt hefði verið í lagi þá hefðu Rauðgerðingar ekki þurft að undirrita áskorun til borgaryfirvalda um að setja upp hljóðmön milli Miklubrautar og Rauðagerðis. Það var nefnilega búið að ákveða að slíkt yrði gert.

En ef marka má svör samgöngustjóra Reykjavíkurborgar þá hefur nýr borgarstjórnarmeirihluti engan áhuga á að draga úr umferðarnið við Rauðagerði – þótt hann sé langt ofan við eðlileg viðmiðunarmörk.

Rauðgerðingar trúa því að sú ákvörðun að slá af hljóðmönina hafi verið tekin fyrir misskilning og þrýsta nú á um að gert verði ráð fyrir byggingu hljóðmanar í fjárhagsáætlun ársins 2012 – en sú fjárhagsáætlunargerð er að hefjast.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.8.2011 - 08:47 - Rita ummæli

Besta götuhátíð Rauðagerðis

Besta götuhátíð Rauðagerðis hingað til verður haldin á leikvellinum í Rauðagerði á morgun laugardag. Götuhátíðin verður pottþétt sú besta fram að þessu þar sem hún verður sú fyrsta sem haldinn er í Rauðagerði.

Nokkrir íbúar í götunni hafa á undanförnum árum rætt um að halda slíka götuhátíð en ekki orðið af því frekar en nú.

Þetta verður engin 2007 götuhátíð heldur látlaus hátíð a la 2011.  Krakkarnir fá að leika sér í „heimasmíðuðum“ leiktækjum frá ÍTR sáluga. Fullorðnir spjalla um landsins gagn og nauðsynjar – og allir sporðrenna grilluðum pylsum – en 140 pylsur bíða þess að komast á grillið!

Það er ýmislegt að ræða á götuhátíðinni – enda miklu skemmtilegra að ræða brýn málefni íbúða götunnar á götuhátíð en á leiðinlegum hefðundnum innifundum.

Og málefnin eru nokkur:

  • Það þarf að þrýsta á borgina að setja upp hljóðmön við Miklubrautina neðan Rauðagerðis eins og samþykkt hefur verið af borginni að gera
  • Það þarf að taka á hraðakstri í Rauðagerðinu þar sem fjöldi barna býr og leikur sér.
  • Það þarf að finna farsæla lausn á bílastæðavanda og slysahættu sem skapast þegar viðburðir eru í Tónlistaskólanum sem staðsettur er við þessa miklu íbúagötu.
  • Það þarf að taka afstöðu til nágrannavörslu.
  • Það þarf að ákveða hvort Rauðgerðingar vilji taka rólóinn í Rauðagerðinu í fóstur.

Það gerist nefnilega ekkert af sjálfu sér. Því þurfa Rauðgerðingar að taka saman höndum og vinna að framgangi götunnar.

Það er hægt – eins og sannaðist þegar slysagildru við Miklubraut við enda nágrannagötunnar Tunguvegar var loks lokað eftir hvassa umfjöllun í pistli á netinu – eins og sjá má hér: „Slysagildru lokað“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.8.2011 - 12:44 - 6 ummæli

Mér þykir vænt um Framsókn

Þótt ég hafi sagt mig úr Framsóknarflokknum á fullveldisdaginn 1. desember 2010 eftir rúmlega aldarfjóðrungs starf þá þykir mér vænt um gamla flokkinn minn. Þótt Framsókn hafi yfirgefið stefnu frjálslyndis, umburðarlyndis og uppbyggjandi umræðu sem ekki hvað síst einkenndi tímabil Eysteins Jónssonar og Steingríms Hermannssonar  – þá er í flokknum fjöldi frábærs fólks sem ég starfaði með og tók með því þátt í lýðræðislegri umræðu þar sem borin var virðing fyrir misjöfnum áherslum og skoðunum.

Því miður hefur hluti núverandi forystu og lítill hópur nýliða í flokknum náð saman við harða hagsmunaðilja og tekið meðvitaða ákvörðun um að hverfa frá gamla umburðarlyndinu, keyrt á óbilgitni og það sem verra er farið að gæla við stæka þjóðernishyggju.  Slíkt getur aldrei verið vænlegt til lengdar þótt þannig hegðun geti tímabundið aukið flokksfylgi.

Ég á mér þá von að almennir flokksmenn og sá hluti flokksforystunnar sem ekki er sáttur við hvert stefnir nái að taka í taumana og í það minnsta vindi ofan af þjóðernishyggjutöktunum. Ef svo verður þá get ég sagt með öllu hjarta að ég óski Framsóknarflokknum velfarnaðar.

Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að Framsóknarflokkurinn snúi aftur til frjálslyndrar stefnu og taki til dæmis þátt í samstarfi með ELDR – Samtökum frjálslyndra flokka í Evrópu – þótt forysta Framsóknarflokksins hafi á síðustu stundu í sumar ákveðið að láta ekki reka sig úr Liberal International – alþjóðlegum samtökum frjálslyndra flokka vegna skulda. En Steingrímur Hermannsson var meðal annars lengi varaformaður þeirra samtaka.

Ég er þess fullviss að það er pláss fyrir stjórnlyndan Framsóknarflokk í íslenskum stjórnmálum – þangað sem flokkurinn stefnir. Mér finnst það bara hið ágætasta mál – svo fremi sem flokkurinn missi sig ekki samtímis í stæka þjóðernishyggju.

En ég á ekki samleið með slíkum Framsóknarflokki. Þess vegna yfirgaf ég Framsókn 1.desember síðastliðinn.

Ég hafði ætlað að standa utan stjórnmálaflokka og láta stjórnmálaþátttöku mína einskorðast við pistlaskrif á Eyjunni þar sem ég héldi áfram að gera það sem ég gerði í Framsóknarflokknum í rúman áratug – segja það sem mér finnst hvort sem það kæmi mér vel eða ekki.

En ef það skapast grundvöllur fyrir nýtt frjálslynt, umburðarlynt, alþjóðasinnað stjórnmálaafl á miðju íslenskra stjórnmála – þá mun ég að líkindum taka þá í starfi þess.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.8.2011 - 20:09 - 27 ummæli

Ég styð Guðmund Steingrímsson

Ég styð Guðmund Steingrímsson alþingismann í viðleitni hans í að stofna frjálslyndan, umburðarlyndan, alþjóðlegasinnaðan miðjuflokk. Framsóknarflokkurinn er ekkert af þessu í dag. Því miður.

Hundruð Framsóknarmanna hafa átt afar erfitt undanfarna mánuði vegna þeirrar vegferðar sem hluti forystu flokksins hefur tekið og þá óbilgirni sem einkennt hefur málflutning sumra stjórnlyndra þingmanna Framsóknarflokksins.

Tugir þeirra hafa að undanförnu sagt sig úr flokknum og ég spái því að fjölmargir tugir Framsóknarmanna muni á næstunni kjósa með fótunum og yfirgefa Framsóknarflokkinn.

Enda framundan „Hrun 100 ára flokkakerfis“.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.8.2011 - 00:52 - 4 ummæli

Bezta menningarnóttin!

Þetta var Bezta minningarnóttin!

Hinn lofandi stjórnmálamaður Einar Örn lofaði litlum skemmtilegum „hátíðum“ – og stóð við það!

Takk fyrir okkur.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.8.2011 - 22:47 - 21 ummæli

Blowing up party in defence!

Framsóknarflokkurinn er að springa í loft upp. Nýliðarnir úr „Indefence“  náðu flokknum í „coup d’état“ á flokksþingi þar sem ályktað var um afgerandi stefnu í Evrópumálum sem þeir hunsuðu – með því að ná saman við harðan flokkskima sem í raun og veru urðu málefnalega undir á því sama flokksþingi.

Nýliðarnir voru úlfar í sauðsgæru – og sauðsgæran féll sumum afar vel í geð.

Leiðtoginn sem komst til valda er eins og svo margir sambærilegir leiðtogar í mannkynssögunni –  brilljant klár og reyndar afar vanmetinn stjórnmálamaður. Í því felst styrkur hans.

Leiðtoginn er með harða „juntu“ kring um sig – sem samanstendur annars vegar af nýliðum sem er harðsvírað varnarlið formannsins og styðja leiðtogan hvað sem á dynur og hins vegar hörðum gömlum flokksrefum sem alla vega tímabundið deila hagsmunum með leiðtoganum og nýliðunum.

Leiðtoginn sýnir styrk sinn eftir að hafa tryggt völd sín – með því að yfirgefa hefðbunda samvinnu og sáttapólitík innan flokksins undanfarna áratugi – og lætur sverfa til stáls svo hann og hörðustu stuðningsmenns hans geti haldið fullri stjórn á flokknum. Fyrir þá er betra að hafa lítinn flokk og öll tögl og haldir – en stóran flokk og þurfa að taka tillit til annarra.

Leiðtoginn vill sverfa til stáls við gamla óþægilega flokksmenn sem ekki eru reiðubúnir til að ganga í takt við hann, nýliðana og flokkskimann sem tryggðu honum völdin. Og gerir það að sjálfsögðu til að tryggja stöðu sína og í trausti þess að efasemdamenn hverfi á braut. Sem þeir gera.

Leiðtoginn sprengir flokkinn meðvitað í loft upp – og eftir mun standa lítill – en harðskeyttir flokkur sem ekki mun efast um leiðtogann og stefnu hans. Leiðtoginn og varnarlið hans er ekki lengur „in defence“ innan flokksins – heldur flokkurinn sjálfur – sem vonast til þess að nægilega margir fylgi honum í blindni svo völd þeirra verði tryggð til frambúðar.

… eina ógnin er sú að þeir hlutar sem sprngdir verða frá flokknum nái vopnum sínum, sameinist nýju afli og þröngva flokknum „in defence“ á ný!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur