Erum við að horfa upp á „raðmorðatilraun“ á landsbyggðinni í boði stjórnvalda? Það mætti halda það. Ég játa að ég er að ganga yfir strikið til að beina athygli að grafalvarlegu máli – en tilgangurinn helgar meðalið. Því það er verið að hætta mannslífum á landsbyggðinni!
Það mætti ætla að ríkisstjórn Íslands telji að mannslífin á landsbyggðinni séu minna virði en mannslífin á höfuðborgarsvæðinu. Það sama var uppi á teningnum hjá síðustu ríkisstjórn – og reyndar hjá þeirri þarsíðustu líka undir það síðasta.
Ég veit þetta eru alvarlegar ásakanir. En því miður réttar.
Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni hefur verið skorin niður ár eftir ár eftir ár. Í nafni „hagræðingar“. Ok. Látum það vera.
Það er sagt „ódýrara“ að sinna sjúku og slösuðu landsbyggðarfólki í Reykjavík en úti á landi. Ok. Látum það vera.
En – ef það á að loka allri bráðaheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni – í nafni „sparnaðar“ og „hagkvæmni“ – þá verða sjúklingar og illa slasað fólk utan af landi að komast í hagkvæmnina í Reykjavík. Annars mun fólk deyja að óþörfu.
Er núverandi ríkisstjórn að tryggja það að sjúklingar og illa slasað fólk komist í „hagkvæmnina“ í Reykjavík?
Nei. Þvert á móti þá virðist hún vinna gegn því!
Eins og síðasta ríkisstjórn.
Og þarsíðasta!
Á sama tíma og heilbrigðisþjónusta – að ég tali ekki um bráðaþjónusta – út á landi er að deyja út – þá er verið að draga úr fjárframlögum til sjúkraflutninga bæði í lofti og á landi. Það má líkja því við „morðtilraun“ á landsbyggðinni – því það að bjarga ekki mannslífi sem unnt er að bjarga jaðrar við morð
En björgunarþyrluflotinn er lamaður aftur og aftur. Vegna niðurskurðar.
Ríkisstjórnin getur ekki bæði skorið niður heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni og skorið niður björgunarþyrluflotan. Því eins ljótt og það hljómar – þá er nánast unnt að halda því fram að slíkt sé „raðmorðatilraun á landsbyggðinni“.
Ég veit þetta er gróf aðferð til að draga fram ástand sem hefur skapast og líkur eru á að versni – ef menn hugsa málið ekki alla leið!
Alþingi og ríkisstjórn VERÐA að skoða niðurskurð heilbrigðisþjónustu og niðurskurð til þyrlusveita Landhelgisgæslunnar í samhengi. Það er EKKI unnt að skera niður á báðum stöðum.
Þessi pistlill minn er EKKI ætlaður til þess að skaða núverandi ríkisstjórn – og ég er ekki að saka hana sérstakelga um „raðmorðatilraun á landsbyggðinni“ – enda hefur þetta verið þróun sem hófst í ríkisstjórn sem hvorugur núverandi ríkisstjórnarflokka átti þátt í.
Þessi pistill minn – eins nöturlegur og hann er – er ætlaður til þess að koma í veg fyrir að óheillaþróun undanfarinna ára og ríkisstjórna haldi áfram.
Því enginn Íslendingur vill „raðmorðatilraun á landsbyggðinni“.