Fimmtudagur 23.6.2011 - 19:40 - 17 ummæli

Á að banna hrossakjötsát?

Íslenski hesturinn og það sem honum fylgir er afar mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. Íslenski hesturinn dregur til Ísland þúsundir erlendra ferðamanna sem skilja eftir ómetanlegar gjaldeyristekjur auk þess sem úrflutningur á íslenska hestinum er drjúg tekjulind ekki síst fyrir landsbyggðina.

Landsmót hestamanna í Skagafirði í næstu viku er talið gefa Skagfirðingum og öðrum Íslendingum milljarðatekjur. Ekki síst af erlendu hestaáhugafólki.

En á að banna hrossakjötsát á Íslandi vegna þess að hestamennska og sýning á íslenska hestinum dregur að sér ferðamenn og skapar miklar gjaldeyristekjur?

Efast um að hörðustu hestamönnum dytti í hug að halda fram slíkri vitleysu.

En sambærilegri vitleysu er haldið fram af öfgafullum hvalverndunarsinnum.

Andstæðingar hvalveiða berjast nú fyrir því að ferðamenn éti ekki ljúffengt hrefnukjöt – og að Íslendingar éti ekki súrt hvalrengi – og halda fram að hvalveiðar og hvalkjötsát geti ekki farið saman við hvalaskoðun. Hjákátleg ungmenni í hvalabúningum dreifa bæklingum gegn hvalkjötsáti. Þeirra val og réttur – enda tjáningarfrelsi grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi.

En pakksaddir túristar sem yfirgefa Sægreifan og fleiri veitingastaði eftir að hafa innbyrt ljúffenga hvalasteik og halda niðrá höfn í hvalaskoðun eru ekki sammála stækum hvalveiðiandstæðingum í skrípabúningum – ekki frekar en hestamenn eru á móti hrossakjötsáti.

Höldum áfram hóflegum hvalveiðum. Höldum áfram að éta hvalkjöt og súrt rengi. Höldum áfram að byggja upp hvalaskoðun. Höldum áfram að gefa túristum hvalkjöt og sýna þeim svamlandi hvali á Faxaflóa og Skjálfanda. Þetta getur farið saman eins og hrossakjötsát og hestamennska.

… en menn verða þá að vanda sig.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.6.2011 - 00:49 - 4 ummæli

EVA spræk við sólstöður

Það er við hæfi við sumarsólstöður að undirbúa mikilvægt starf Evrópuvettvangsins EVA sem hyggst taka virkan þátt í umræðunni um aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu sem nú eru formlega að hefjast.

Í kjölfar vel heppnaðs stofnfundar Evrópuvettvangsins þar sem skipað var 27 manna Evrópuráð sem ber ábyrgð á starfi samtakanna milli aðalfunda hefur Evrópuráðið verið að skipuleggja sig í takt við samþykktir sínar og valið sér oddvita, talsmann, féhirði og skrifara.

Þessi hópur hefur í kyrrþey verið að undirbúa áframhaldandi starf Evrópuvettvangsins og mun í kjölfar fundar Evrópuráðs EVA í næstu viku kynna þeim á annað hundrað stofnfélögum EVA starfsáætlun næstu vikna og mánaða.

Það er afar mikilvægt að samhliða formlegum aðildarviðræðum að ESB sé í gangi frjór og gagnrýninn vettvangur almennings sem tryggi að sem felst sjónarmið og áherslur Íslendinga rati inn í aðildarviðræðurna  með það að markmiðið að Ísland nái sem allra hagstæðustum aðildarsamningi við Evrópusambandið – aðildarsamningi sem verði síðan borinn undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eins og kunnugt er þá er Evrópuvettvangurinn þverpólitískur samstarfsvettvangur áhugafólks sem vill opna og lýðræðislega umræðu í tengslum við aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu.  Samtökin taka ekki fyrirfram afstöðu með eða á móti aðild að Evrópusambandinu en leggja áherslu á vandaða málsmeðferð og að Ísland nái sem hagstæðustum aðildarsamningi sem þjóðin taki afstöðu til í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Já, oddviti, talsmaður, skrifari og féhirðir!

Evrópuráð valdi eftirfarandi aðilja til að sinna þessum störfum:

  • Oddviti – Gestur Guðjónsson
  • Talsmaður – Kolfinna Baldvinsdóttir
  • Skrifari – Helgi Bogason
  • Féhirðir – Guðmundur Gylfi Guðmundsson

Áhugasamir geta gengið í samtökin með því að skrá sig hér

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.6.2011 - 00:08 - 14 ummæli

Grín Gnarrs nær nýjum hæðum!

„Meirihlutinn í borgarstjórn leitar nú leiða til að skilja á milli stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og eigenda hennar, en í framtíðinni sjá menn fyrir sér að til stjórnarsetu veljist þeir sem hæfastir eru í stað pólitískt kjörinna fulltrúa eins og hingað til hefur tíðkast.“

Þetta las ég á Eyjunni í gær.

Þótti þetta spennandi hugmynd og pældi í því hvaða fagmann – en ekki pólitíkus – Gnarr og Dagur myndu setja í stjórn Orkuveitunnar.

Væri ég lúsugur þá hefðu allar lýs dottið dauðar af höfði mínu þegar „fagmaðurinn“ en ekki „pólitíkusinn“ kom í ljós:

„Gylfi Magnússon, fyrrverandi ráðherra, var í dag kosinn í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur“.

 Grín Gnarrs nær nýjum hæðum með þessari skipan! 

Ekki pólitíkus?  

Grín Gnarrsins er algjört – nema Gnarrinn hafi í alvöru EKKERT fylgst með pólitík í ráðherratíð Gylfa Magnússonar.

Þá er aðalgrínisti Reykjavíkur ekki Jón Gnarr – heldur Dagur B.!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.6.2011 - 22:41 - 1 ummæli

Ísland bregst í flóttamannahjálp

Þótt við Íslendingar höfum gengið í gegnum efnhagslega áföll þá erum við samt með betur stæðum samfélögum í heiminum. Við getum enn gert skyldu okkar. 

Því skil ég ekki af hverju ríkisstjórnin hélt ekki áfram því frábæra starfi í skipulagðri móttöku flóttamanna í samvinnu við Flóttamannahjálp SÞ og Rauðakrossinn sem Páll á Höllustöðum lagði grunn að í ráðherratíð sinni sem félagsmálaráðherra og lagði metnað sinn í að yrði til fyrirmyndar.

Það tókst Páli það vel að til fyrirmyndar var talið á alþjóðavettvangi. Það tókst Páli það vel að eftirmenn hans í embætti héldu starfi hans áfram og tóku nær árlega á móti flóttamannahópum á skipulegan hátt.

Þar til nú!

Væntanlega hefur ágætum velferðarráðherra ekki verið bent á þessa vel heppnuðu hefð frá tíð Páls á Höllustöðum. Vænti þess að velferðarráðherrann tryggi flóttamannamóttöku á næsta ári.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.6.2011 - 10:31 - 6 ummæli

Burt með sveitarstjórnir!

Stjórnlagaráð ræðir nú stöðu íslenskra sveitarstjórna.  Stjórnlagaráð gengur allt of stutt á því sviði. Því það þarf að setja á fót nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Það þarf að draga úr vægi ríkisvaldsins í Reykjavík og færa valdið nær fólkinu. Ríkisvaldið á einungis að sinna því sem nauðsynlega þarf að vinna miðlægt. Önnur verkefni á að vinna heima í héraði þar sem íbúarnir geta á lýðræðislegan hátt haft beinni og virkari áhrif á framvinduna. Helst tekið virkan þátt í þróun og uppbyggingu sameiginlegra verkefna.

Það þarf að tryggja að stærra hlutfall skattteknanna verði eftir í héruðunum en renni ekki meira og minna til ríkisvaldsins í Reykjavík þar sem misvitrir embættismenn, ríkisstjórn og Alþingi deila einungis hluta þess til baka til samfélagslegra verkefna fólksins í landinu.

Það er eðlilegt að nýjar stjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sjái um stærsta hluta skattheimtunnar, ráðstafi henni til verkefna heima fyrir, en greiði eins konar útsvar til ríkisins til reksturs þess. Fólkið og héruðin eiga að sníða ríkisvaldinu stakk með fjárframlögum, en ríkið ekki fólkinu og héruðunum.

Það þarf því að leggja niður núverandi sveitarstjórnir og setja þess í stað á fót 6 til 8 hérðsþing og héraðsstjórnir sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Stjórnlagaþing á að ræða þessa leið af fullri alvöru. Núverandi hugmyndir stórnlagaþingsmanna ganga allt of stutt.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.6.2011 - 09:24 - 4 ummæli

Tvíburaborgir á suðvesturhornið

Kópavogur vill verða borg eins og Reykjavík. Það er sjálfsagt. Við eigum að koma á fót tvíburaborgum á suðvesturhornið.

Annars vegar borg sem samanstendur af núverandi Seltjarnarnesi, Reykjavík, Mosfellsbæ, Hvalfjarðarsveit og Akranesi.

Hins vegar borg sem samanstendur af núverandi Kópavogi, Garðabæ, Álftanesi, Hafnarfirði og Vogunum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.6.2011 - 10:37 - 7 ummæli

Ísland og Vínland hið góða

Viljum við frekar sameinast Vínlandi hinu góða en ganga í Evrópusambandið?

Nánar um Vínland!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.6.2011 - 17:18 - 11 ummæli

„Sjálfstæð“ íslensk króna klikkun!

„Þau ríki sem reyni hins vegar að halda í sjálfstæða peningastefnu með því að halda úti fljótandi gjaldmiðli, eins og til dæmis Ísland, virðist ekkert græða á því. Þau glími við meiri óstöðugleika í gengi gjaldmiðilsins, án þess að uppskera minni óstöðugleika í öðrum hagstærðum. Flotgengið orsaki þannig fjölda vandamála við hagstjórn, án þess að leysa nein.“

Þetta er niðurstaða  rannsóknarritgerðar sem Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, vann í samstarfi við þá Francis Breedon og Andrew Rose. Í ritgerðinni rannsaka þeir skipan peningamála í litlum ríkum hagkerfum.

Enn ein staðfesting á ónýtri íslenskri krónu.

Mæli enn einu sinni með að við tökum upp færeyska krónu í stað þeirrar íslensku.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.6.2011 - 11:53 - 5 ummæli

KR úr fallhættu?

Var að líta á stigatöfluna í efstu deild íslenska fótboltans. Sá að KR er nánast úr fallhættu – með 17 stig!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.6.2011 - 18:54 - 26 ummæli

Guðni á móti ESB vegna misskilnings?

Guðni Ágústsson er á móti aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið vegna misskilnings.  Það kom skýrt fram í viðtali við hann á Útvarpi Sögu.

Rök Guðna gegn aðildarviðræðum voru eitthvað á þá leið að „…við Íslendingar viljum ekki innflutning á lifandi búfénaði og hráu kjöti til Íslands. Við Íslendingar viljum ekki að Íslendingar beri vopn og gegni herskyldu fyrir Evrópusambandið. Íslendingar vilja ekki að landhelgin okkar fyllist ef erlendum togurum sem veiða fiskistofnana okkar“.

Það er alveg rétt að við „…við Íslendingar viljum ekki innflutning á lifandi búfénaði og hráu kjöti til Íslands. Við Íslendingar viljum ekki að Íslendingar beri vopn og gegni herskyldu fyrir Evrópusambandið. Íslendingar vilja ekki að landhelgin okkar fyllist ef erlendum togurum sem veiða fiskistofnana okkar“.

Það hefur bara ekkert með aðildarviðræður og mögulega inngöngu að Evrópusambandinu að gera.

Þvert á móti.

Því  aðildarviðræðurnar ganga meðal annars út á að við mögulega inngöngu verði tryggt að slík innganga þýði EKKI innflutning á lifandi búfénaði og hráu kjöti til Íslands. Að Íslendingar beri EKKI vopn og gegni EKKI herskyldu fyrir Evrópusambandið.  Einnig að landhelgin okkar fyllist EKKI af erlendum togurum sem veiða fiskistofnana okkar.

Ef slíkt verður ekki tryggt í aðildarsamningi mun íslenska þjóðin fella hann í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Reyndar er alveg ljóst að mýtan um herskyldu sem ungir bændur undir leiðsögn trúbróður Guðna – Ásmundar Einars Daðasonar – reyndu að ljúga inn á þjóðina stenst ekki. Evrópusambandið getur einfaldlega ekki skikkað einstök ríki innan sambandsins til herskyldu.

Reyndar eru allar líkur á því að Evrópusambandið muni telja það fullkomlega eðlilegt í ljósi sérstöðu og aldalangrar einangrunar íslenskra búfjárstofna að í bindandi aðildarsamningi verði tryggt að ekki verði flutt inn lifandi fé gegn vilja Íslendinga. Ekki frekar en nú.

Reyndar eru allar líkur á því að ef Íslendingar kjósa svo þá verði íslenska landhelgin lokuð erlendum togurum . Enda gera núverandi reglur Evrópusambandsins EKKI ráð fyrir að landhelgin opnist fyrir erlendum togurum þótt Ísland gangi inn!

En Guðni vill bara ekki láta á þetta reyna. Hann óttast að staðhæfingar hans standist ekki og þá er svo erfitt að standa frammi fyrir þjóðinni og segjast vera á móti aðild að ESB. Því Guðni er á móti aðild að ESB – hvað sem er í boði. Ég virði skoðun Guðna að vera á móti inngöngu í Evrópusambandið. Hann hefir rétt til þess og þarf ekki að færa rök fyrir þeirri skoðun sinni.  Og alls ekki með hjákátlegum tröllasögur hans sem hann vill ekki láta reyna á hvort séu réttar eða ekki í aðildarviðræðum.

Ef tröllasögur Guðna reynast réttar þá mun þjóðin fella aðildarsamning við Evrópusambandið. Því ætti Guðni ekki að óttast aðildarviðræður. En hann óttast þær samt. Af hverju ætli það sé?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur