Íslenski hesturinn og það sem honum fylgir er afar mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. Íslenski hesturinn dregur til Ísland þúsundir erlendra ferðamanna sem skilja eftir ómetanlegar gjaldeyristekjur auk þess sem úrflutningur á íslenska hestinum er drjúg tekjulind ekki síst fyrir landsbyggðina.
Landsmót hestamanna í Skagafirði í næstu viku er talið gefa Skagfirðingum og öðrum Íslendingum milljarðatekjur. Ekki síst af erlendu hestaáhugafólki.
En á að banna hrossakjötsát á Íslandi vegna þess að hestamennska og sýning á íslenska hestinum dregur að sér ferðamenn og skapar miklar gjaldeyristekjur?
Efast um að hörðustu hestamönnum dytti í hug að halda fram slíkri vitleysu.
En sambærilegri vitleysu er haldið fram af öfgafullum hvalverndunarsinnum.
Andstæðingar hvalveiða berjast nú fyrir því að ferðamenn éti ekki ljúffengt hrefnukjöt – og að Íslendingar éti ekki súrt hvalrengi – og halda fram að hvalveiðar og hvalkjötsát geti ekki farið saman við hvalaskoðun. Hjákátleg ungmenni í hvalabúningum dreifa bæklingum gegn hvalkjötsáti. Þeirra val og réttur – enda tjáningarfrelsi grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi.
En pakksaddir túristar sem yfirgefa Sægreifan og fleiri veitingastaði eftir að hafa innbyrt ljúffenga hvalasteik og halda niðrá höfn í hvalaskoðun eru ekki sammála stækum hvalveiðiandstæðingum í skrípabúningum – ekki frekar en hestamenn eru á móti hrossakjötsáti.
Höldum áfram hóflegum hvalveiðum. Höldum áfram að éta hvalkjöt og súrt rengi. Höldum áfram að byggja upp hvalaskoðun. Höldum áfram að gefa túristum hvalkjöt og sýna þeim svamlandi hvali á Faxaflóa og Skjálfanda. Þetta getur farið saman eins og hrossakjötsát og hestamennska.
… en menn verða þá að vanda sig.