Frjálslynt fólk í Samfylkingu, Framsókn og Sjálfstæðisflokki eiga oft á tíðum miklu meira sameiginlegt með hvort öðru en með öðrum hópum innan sömu flokka. Þetta hefur Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar áttað sig á og biðlar nú til Evrópusinnaðs fólks í Framsókn og Sjálfstæðisflokki um að stofna nýjan flokk með Samfylkingunni.
Þetta er pólitískt mjög merkileg yfirlýsing hjá Jóhönnu!
Vandamálið hjá Jóhönnu er hins vegar að málið snýst um frjálslyndið en ekki Evrópusambandið. Það er nefnilega ákveðinn hópur í Samfylkingunni sem er ekkert sérstaklega frjálslyndur. Eins og til dæmis Jóhanna sjálf. Á sama hátt og innan Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru hópar sem eru allt annað en frjálslyndir.
Uppstokkun flokkakerfisins er því ekki spurning um að frjálslyndir hópar innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gangi í Samfylkinguna.
Vissulega er fylgi við aðildarviðræður að Evrópusambandinu langtum mun meira hjá frjálslyndu fólki í Framsókn og Sjálfstæðisflokki en öðrum hópum innan þeirra flokka. En það er ekki algilt samansem merki milli þessa. Ekki frekar en að það sé samasem merki milli Evrópusinnaðs fólk innan Samfylkingarinnar og frjálslyndis. Innan Framsóknarflokksins er til dæmis hópur frjálslynds fólks sem er efins um aðild að ESB á þessari stundu.
Þegar og ef íslenska flokkakerfið stokkast upp – þá mun það ekki gerast vegna Evrópumála sérstaklega – þótt átök stækra andstæðinga Evrópusambandsins og frjálslynds fólks sem vill klára aðildarviðræður að Evrópusambandinu hafi vissulega losað um flokkstengsl. Það mun stokkast upp á grundvelli hugmyndafræði og lífsskoðana óháð aðildarviðræðum að Evrópusambandinu – sem væntanlega verða að baki fyrir næstu Alþingiskosningar.
Í slíkri uppstokkun mun Samfylkingin klofna eins og aðrir flokkar – og flokkakerfið leggja sig upp á nýtt. Það er jákvætt. Líka fyrir fólkið í Samfylkingunni.
En þrátt fyrri þetta þá er yfirlýsing Jóhönnu Sigurðardóttur stórmerkileg – og gæti mögulega komið af stað ferli sem endi í allt öðru flokkamynstri en það úrelta flokkakerfi sem við sjáum í dag.
Sjá einnig fyrri pistil minn „Hrun 100 ára flokkakerfis“ .