Mánudagur 30.5.2011 - 09:09 - 15 ummæli

Mikilvægur misskilningur Jóhönnu!

Frjálslynt fólk í Samfylkingu, Framsókn og Sjálfstæðisflokki eiga oft á tíðum miklu meira sameiginlegt með hvort öðru en með öðrum hópum innan sömu flokka.  Þetta hefur Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar áttað sig á og biðlar nú til Evrópusinnaðs fólks í Framsókn og Sjálfstæðisflokki um að stofna nýjan flokk með Samfylkingunni.

Þetta er pólitískt mjög merkileg yfirlýsing hjá Jóhönnu!

Vandamálið hjá Jóhönnu er hins vegar að málið snýst um frjálslyndið en ekki Evrópusambandið. Það er nefnilega ákveðinn hópur í Samfylkingunni sem er ekkert sérstaklega frjálslyndur. Eins og til dæmis Jóhanna sjálf. Á sama hátt og innan Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru hópar sem eru allt annað en frjálslyndir.

Uppstokkun flokkakerfisins er því ekki spurning um að frjálslyndir hópar innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gangi í Samfylkinguna.

Vissulega er fylgi við aðildarviðræður að Evrópusambandinu langtum mun meira hjá frjálslyndu fólki í Framsókn og Sjálfstæðisflokki en öðrum hópum innan þeirra flokka. En það er ekki algilt samansem merki milli þessa. Ekki frekar en að það sé samasem merki milli Evrópusinnaðs fólk innan Samfylkingarinnar og frjálslyndis. Innan Framsóknarflokksins er til dæmis hópur frjálslynds fólks sem er efins um aðild að ESB á þessari stundu.

Þegar og ef íslenska flokkakerfið stokkast upp – þá mun það ekki gerast vegna Evrópumála sérstaklega – þótt átök stækra andstæðinga Evrópusambandsins og frjálslynds fólks sem vill klára aðildarviðræður að Evrópusambandinu hafi vissulega losað um flokkstengsl. Það mun stokkast upp á grundvelli hugmyndafræði og lífsskoðana óháð aðildarviðræðum að Evrópusambandinu – sem væntanlega verða að baki fyrir næstu Alþingiskosningar.

Í slíkri uppstokkun mun Samfylkingin klofna eins og aðrir flokkar – og flokkakerfið leggja sig upp á nýtt.  Það er jákvætt. Líka fyrir fólkið í Samfylkingunni.

En þrátt fyrri þetta þá er yfirlýsing Jóhönnu Sigurðardóttur stórmerkileg – og gæti mögulega komið af stað ferli sem endi í allt öðru flokkamynstri en það úrelta flokkakerfi sem við sjáum í dag.

Sjá einnig fyrri pistil minn „Hrun 100 ára flokkakerfis“ .

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.5.2011 - 23:05 - 84 ummæli

Aðför Jóns Gnarr að barnafjölskyldum!

Jón Gnarr borgarstjóri er æðsti embættismaður Reykjavíkurborgar. Hann ber því ábyrgðina á smánarlegri aðför stöðumælavarða borgarinnar á varnarlausar barnafjölskyldur sem neyddust til að leggja á óhefðbundna staði í Laugardalnum vegna bílastæðaskorts vegna mikillar aðsóknar á fjölmennt knattspyrnumót Þróttar annars vegar og afmælishátíð Stöðvar 2 í Fjölskyldugarðinum.

5000 aukaskattur á þegar skattpíndar barnafjölskyldur. Það er engin leið að réttlæta þessa fáránlegu aðför – sem því miður er ekkert einsdæmi við íþróttasvæði borgarinnar þar sem er mikill bílastæðaskortur. Annað dæmi er Víkin þar sem Reykjavíkurborg hefur trassað að tryggja eðlilegan fjölda bílastæða – og lögreglunni reglulega sigað á saklaust barnafólk sem fylgist með börnum sínum á kappleikjum og neyðist til að leggja á grasflötum vegna bílastæðaskorts.

Jón Gnarr á að sjá sóma sinn í því að barnafjölskyldurnar í Laugardalnum verði ekki rukkaða fyrir sektarmiðunum sem þær fengu. Ef hann beitir sér ekki fyrir því að hætta við innheimtu sektanna – þá er hann að taka þátt í svíðingslegri aðför að barnafjölskyldum.

Birti frétt Morgunblaðsins um þessa svíðingslegu aðför lögreglu og starfsmannaborgarinnar:

„Fjöldi ökumanna kom að sektarmiðum á rúðum bíla sinna eftir heimsókn á fjölskylduhátíðir í Laugardalnum í dag. Lögreglan var búinn að sekta tugi ökumanna þegar stöðuverðir borgarinnar tóku við.

Margir lögðu leið sína í Laugardalinn í dag. Þar voru tvær fjölskylduhátíðir, önnur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og hin á íþróttasvæðinu, og fleira um að vera.

Fyrir helgina benti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gestum Laugardalsins á að nýta þau fjölmörgu bílastæði sem eru á svæðinu og beindi þeim tilmælum til ökumanna að leggja ekki ólöglega, hvorki á grassvæðum né annars staðar. Þeir sem það gerðu gætu átt von á sektum.

Við eftirlit lögreglunnar í dag kom í ljós að bílum var lagt á grassvæði og gangstéttar. Ástandið var slæmt á Engjavegi og við Reykjaveg. Lögreglumenn voru búnir að skrifa tugi sektarmiða þegar starfsmenn borgarinnar, svokallaðir stöðuverðir, komu á staðinn og tóku við. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hversu margir voru sektaðir í heildina.

Gestur á fjölskylduhátíð Stöðvar 2 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum lýsti óánægju með að þegar hann kom með börnin í bílinn, eftir velheppnaða hátíð, hafi verið 5000 króna sektarmiði á bílrúðunni. Honum þótti óþarfi af borginni að kalla út stöðuverði á laugardegi, einmitt þegar vitað væri að von væri á fjölda fólks og ekki við því að búast að næg stæði væru fyrir alla.

Lögreglan segir aftur á móti að fólk geti ekki vísað til neyðarréttar þegar merkt bílastæði á svæðinu séu ekki nýtt að fullu, eins og raunin hafi verið í Laugardalnum í dag.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.5.2011 - 09:04 - 6 ummæli

Gerum 17. júní að alþjóðlegum frídegi!

Það á að gera 17. júní að alþjóðlegum frídegi!  Öðruvísi get ég ekki skilið fyrrum formann Framsóknarflokksins Guðna Ágústsson sem skrifar grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni „Hvers vegna niðurlægir ríkisstjórnin 17. júní?“.  Tilefnið er sú tilviljun að árlega ríkjaráðstefna Evrópusambandsins að vori lendir á 17. júní.

Á ríkjaráðstefnunni mun Evrópusambandið meðal annars væntanlega samþykkja að hefja formlegar aðildarviðræður við Ísland um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Sú ákvörðun verður tekin á venjulegum vinnudegi í Evrópusambandinu – vinnudegi sem er eðlilega frídagur á Íslandi – enda þjóðhátíðardagur Íslendinga.

Næsta ríkjaráðstefna Evrópusambandsríkjanna verður í í október. Átti Evrópusambandið að fresta formlegri ákvörðun um að hefja aðildarviðræður við Ísland fram í október vegna þess að reglubundin ríkjaráðstefna lenti á vinnudeginum 17. júní þetta árið?

Málflutningur Guðna er náttúrlega barnalegur. Ég verð að minna Guðna á að allt frá árinum 1944 hafa íslenskri embættismenn erlendis tekið þátt í alþjóðastarfi á 17. júní á sama hátt og alla aðra daga.´Það hefur hingað til ekki verið talin niðurlæging við 17. júní.  Það hefur heldur ekki þýtt að Íslendingar sem eru í vinnunni 17. júní beri ekki virðingu fyrir þjóðhátíðardegi Íslendinga.

Á sama hátt er alveg ljóst að ríkisstjórn Íslands ber mikla virðingu fyrir þjóðhátíðardegi Íslendinga enda mun hún væntanlega taka virkan þátt í hátíðarhöldum Íslendinga á þjóðhátíðardaginn þótt fulltrúar Evrópuþjóða séu í vinnunni sinni á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins á virkum vinnudegi í Evrópu þann 17. júní.

Það að Guðni Ágústsson sem tók við formannsembættinu í Framsóknarflokknum af Halldóri Ásgrímssyni sem varaformaður og gegndi því þar til hann sagði af sér vegna andstreymis á miðstjórnarfundi skuli saka ríkisstjórn Íslands um að niðurlægja þjóðhátíðardag Íslands er ekki  Guðna sæmandi. Hvorki sem farsæls stjórnmálamanns um langa hríð, ekki sem persónu og alls ekki sem fyrrum formanns Framsóknarflokksins.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.5.2011 - 13:10 - 2 ummæli

Þjóðhyggja eða þjóðernisrembingur?

Þjóðhyggja samvinnu og umburðarlyndis eða þjóðernisrembingur og kynþáttatortryggni?

Það virðast vera að koma upp áður óþekktar átakalínur milli þessara áherslna í íslenskri stjórnmálaumræðu.

Hvort viljum við?

Reyndar var að koma út athyglisverð bók sem snertir þessar spurningar.  „Sjálfstæð þjóð“ Eiríks Bergmanns. Skyldulesning hvert sem sjónarmið lesandans er – og hvaða afstöðu menn hafa til hins umdeilda Eiríks Bergmanns.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.5.2011 - 14:04 - 22 ummæli

Aðstoðarmannakróníka

Hvað eiga þeir Björn Ingi Hrafnsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Benedikt Sigurðsson og Jóhannes Þór Skúlason sameiginlegt?

  • Þeir hafa allir verið aðstoðarmenn formanns Framsóknarflokksins
  • Enginn þeirra var skráður í Framsóknarflokkinn þegar þeir voru ráðnir til flokksins
  • Enginn þeirra hafði starfað í Framsóknarflokknum áður en þeir voru ráðnir til flokksins
  • Enginn þeirra þekkti til innviða Framsóknarflokksins þegar þeir voru ráðnir til flokksins

Björn Ingi var blaðamaður og  þingfréttaritari á Morgunblaðinu þegar hann var ráðinn framkvæmdastjóri þingflokks Framsóknarmanna þar sem hann síðar hraktist yfir að vera aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar í stað hins gegnheila Framsóknarmanns og fyrrum framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins Egils Heiðars Gíslasonar.

Margir Framsóknarmenn telja að farsælum ráðherraferli Halldórs Ásgrímssonar hafi tekið að hraka eftir að Björn Ingi tók við sem aðstoðarmaður og að tengsl Halldórs við almenna flokksmenn hafi þá rofnað.

Sigmundur Davíð hafði vakið athygli fyrir nýja sýn á skipulagsmál miðborgar Reykjavíkur og fyrir að halda áhugaverðan fyrirlestur um Keynisma og efnahagsmál á fundi Fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjavík þegar Guðni Ágústsson bauð honum að gerast aðstoðarmaður sinn í stað SUFarans og Evrópusinnans Agnars Braga Bragasonar.

Sigmundur Davíð var ekki enn genginn í flokkinn þótt hann hefði tekið sæti Framsóknarflokksins í skipulagsráði Reykjavíkur sem sérfræðingur að beiðni Óskars Bergssonar borgarfulltrúa þegar Guðni leitaði til hans.

Reyndar var ferill Sigmundar Davíðs sem aðstoðarmaður Guðna Ágústsonar ekki nema nokkrir dagar því Guðni sagði af sér snögglega í kjölfar átakafundar í miðstjórn Framsóknarflokksins skömmu eftir að Sigmundur þekktist boðið. Sigmundur Davíð náði hins vegar að sitja einn fund norður í landi með Guðna áður en kom að hinum örlagaríka miðstjórnarfundi.

Valgerður Sverrisdóttir tók við af Guðna þar sem hún gegndi stöðu varaformanns.  Hún átti stuttan en farsælan feril sem formaður. Aðstoðarmaður hennar var góður og gegn Framsóknarmaður til margra ára.

Sigmundur Davíð kom aftur fram á sjónarsviðið með stæl þegar hann tók við af Valgerði sem formaður Framsóknarflokksins á glæsilegu flokksþingi Framsóknar.

Benedikt Sigurðsson hafði verið fréttamaður á RÚV og síðan starfsmaður Kaupþings þegar hinn nýi formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð fékk hann til liðs við sig sem aðstoðarmann. Ég veit ekki til að Benedikt hafi skráð sig í Framsóknarflokkinn yfir höfuð en það kann þó að vera.

Þegar Benedikt Sigurðsson lét af störfum sem aðstoðarmaður formanns Framsóknarflokksins síðastliðið haust réð Sigmundur Davíð sér aðstoðarmann sem heitir Jóhannes Þór Skúlason. Jóhannes Þór var liðsmaður InDefence hópsins og ekki skráður í Framsókn þegar formaður flokksins leitaði til hans vegna starfs aðstoðarmanns.

Jóhannes Þór þurfti hins vegar tíma til að losa sig úr kennslu áður en hann tæki við starfi aðstoðarmanns formanns Framsóknarflokksins og gekk í flokkinn áður en tilkynnt var um ráðningu hans opinberlega. Þá höfðu flokksmenn vitað að von væri á nýjum aðstoðarmanni en enginn annar en framkvæmdastjóri flokksins vissi hver hann var fyrr en Sigmundur Davíð tilkynnti ráðningi hans nánast þegar hann hóf störf.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.5.2011 - 09:37 - 11 ummæli

Kata og Svandís taki við VG

Formannsslagur milli Katrínar Jakobsdóttur Thoroddsen og Svandísar Svavarsdóttur er hafinn ef marka má draugasögu í Mogganum í dag.  Það dregur úr trúverðugleika fréttarinnar að það er Agnes Bragadóttir sem skrifar hana – en oftar en ekki byggja stjórnmálaskýringar hennar á óskhyggju frekar en staðreyndum – en stundum er hún með puttan á púlsinum.

En auðvitað eiga þær Katrín og Svandís að taka við VG. Auðvitað á Steingrímur að hætta. Kata gæti tekið við formennskunni að loknu fæðingarorlofi um áramót – og Svandís við varaformennskunni.

En það er ekki bara Steingrímur sem þarf að hætta. Hitt steinrunna stjórnmálatröllið – Jóhanna Sigurðardóttir þarf líka að hætta. Vandamálið hjá henni er að það virðist enginn geta tekið við á þeim bænum …

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.5.2011 - 15:12 - 2 ummæli

Evra sló í gegn!

Gimbrin Evra frá Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal sló í gegn í fimmtugsafmæli vinar míns G Valdimars Valdemarssonar í gærkvöld.  Við Gestur Guðjónsson og Gísli Tryggvason gáfum G Vald þessa efnilegu kynbótagimur í fimmtugsafmælisgjöf ásamt eyrnamarkinu Stýft, fjöður aftan hægra – Hangfjöður framan vinstra – sem er gamalt Straumfjarðarmark – en G Valdimar er einmitt að hefja sauðfjárbúskap með tengdafólki sínu í Straumfirði.

Evra frá Hallkelsstaðahlíð

Gimbrin Evra mun mun verða í góðum félagsskap Heimssýnar sem er kynbótagimbur af fjárstofni Sindra Sigurgeirssonar formanns Landssambands sauðfjárbænda – en Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Landssambands sauðfjárbænda og Einar Gunnar Einarsson starfsmaður Framsóknarflokksins gáfu G Vald þá gimbur í fimmtugsafmælisgjöf.

 Fyrstu lömbin sem munu rekja ættir sínar bæði til Evru og Heimssýnar munu líklega líta dagsins ljós um það leiti sem við greiðum atkvæði um aðild að Evrópusambandinu.

Með Evru fylgdi eftirfarandi orðsending frá Sigrúnu Ólafsdóttur bónda í Hallkelsstaðahlíð til G Vald:

„Sæll vertu.

Ættartalan er góð.  Hreinræktaðar eðal Hlíðarkindur með sögum við hvern ættlið, lífrænt í meiralagi með náttúrulegu  fjallajurtabragði sem að smakkast ekki næstu 12 árin.

 Hefur ekki komið nálægt endurheimtu votlendi eða fundið stóriðjubragð. Þekkir ,,refi,, af eigin raun bæði loðna og ESB refi…óttast báða jafn mikið.

 Nákvæm ættartala afhendist að loknum leitum sem að sjálfögðu fylgja með sem kvöð en mun að þeim loknum verða hið mesta happ.“

Það er reyndar ekki einungis sauðafjárrækt að Hallkelsstaðahlíð – þar er tamningamiðstöð og góð hrossarækt sem lesa má um á vefsíðunni www.hallkelsstadahlid.is

Þar segir Sigrún Ólfasdóttir bóndi að Hallkelsstaðahlíð þannig frá sauðfjárræktinni sem Evra er afurð af – en Sigrún tók við búinu af föðurbræðrum mínum og móðurbræðrum hennar fyrir allnokkrum árum síðan:

Stofninn frá miðri síðustu öld.

Sauðfjárræktin í Hallkelsstaðahlíð á sér langa sögu, en sá stofn sem nú er ræktað útaf á ættir sínar að rekja í Vestur- Barðastrandasýslu. Árið 1950 í kjölfar niðurskuðrar vegna mæðuveiki var sóttur nýr stofn m a frá bæjunum Vesturbotni, Hvestu og Fífustöðum í Barðastrandasýslu.

Þennan stofn hafa svo bræðurnir Einar, Ragnar og Sveinbjörn Hallssynir ræktað með góðri aðstoð áhugasamra ættingja þar til að við tókum við. Stofninn sem við fengum var góður svo það er eins gott að njóta leiðsagnar þeirra bræðra áfram.
Vetrarfóðrað fé er um 700.

Okkar markmið í sauðfjárræktinni er að rækta afurðarmiklar og frjósamar ær. Ekki er verra að viðhalda litum og sérstökum afbrigðum þó ekki á kostnað afurða. Til gamans má geta þess að rúmlega 30% fjárstofnsins er mislitur. Flestir grunnlitir sem þekkjast í íslenska fjárstofninum finnast í hópnum. Markmiðið er að hafa 2-3 forustuær og annað eins af ferhyrndum ám. Á hverju ári nýtum við okkur þjónustu hrútastöðvarinnar og sæðum nokkra tugi áa til að bæta stofninn.

Til gamans má geta þess að við notum mismunandi mörk eftir því af hvaða kyni (ætt) kindin er. Þannig eru í notkun nokkur mörk sem hafa verið um margara áratuga skeið í fjölskyldunni. Öll mörkin sem notuð hafa verið um langt skeið eiga það sameiginlegt að hafa alltaf markið tvístíft aftan hægra. Á vinstra eyra eru svo mismunandi mörk.
Á árum áður þegar brennimörk á horn voru notuð hér í Hlíðinni var það bæjarnúmerið sem ennþá er í fullu gildi 19SH1 sem smellt var á annað hornið og síðan HL’IÐ á hitt.

Ekki hefur verið brennimerkt hér síðan í kringum 1970 en þá man ég eftir þessum viðburði sem var í huga smá stelpuskottu mjög spennandi. Þess vegna hefur því skotið uppí hugann öðru hverju hvort við ættum ekki að endurvekja þennan sið og prófa að brennimerkja. En það hverfur mjög fljótt úr huganum aftur þegar ég rifja upp hvað kókósbollur voru góðar í minningunni alveg þangað til ég smakkaði þær aftur.
Einar heitinn móðurbróðir minn var mikill áhugamaður um mörk og markaskrár.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.5.2011 - 19:27 - 1 ummæli

Blakari í fótbolta?

Er vandamálið kannske að blakari er að reyna að leika sóknarleik í fótbolta:

„Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, sagði við upphaf flokksráðsfundar VG, að Ísland væri á leið upp úr kreppunni eftir langan og erfiðan fyrri hálfleik í vörn.“

Úr frétt mbl.is.

Má ég þá frekar biðja um badmintonstelpuna!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.5.2011 - 09:00 - 13 ummæli

Rísandi Framsóknarstjarna

Það er rísandi Framsóknarstjarna í íslenskri pólitík. Þingmaður sem hefur þroskast verulega sem stjórnmálamaður á undanförnum mánuðum og vex með hverju verkefni sem hann fæst við.  Þingmaður sem átti það til á fyrstu vikunum að falla í gryfju æsingastjórnmála í ræðustól Alþingis en hefur þróast yfir í staðfastan, málefnalegan og lausnarmiðaðan þingmann sem byggir á rótgróinni frjálslyndri félagshyggju sem var áberandi í Framsóknarflokkum gegnum tíðina.

Þessi þingmaður er Eygló Harðardóttir.

Eygló sýndi það í vinnu sinni sem formaður nefnar sem fjallaði um íslensku verðtrygginguna og skilaði afar athyglisverðri skýrslu á dögunum að þar er á ferðinni stjórnandi sem getur leitt fjölbreyttan hóp fólks með mismundandi áherslur og skoðanir – og náð niðurstöðu þar sem sjónarmið allra fá að njóta sín.

Eygló hefur í umræðunni um sjávarútvegsmál undanfarna daga sýnt að hún er málefnaleg, sanngjörn og reynir að opna dyr sátta í stað þess að herða á hnútum í ágreiningsatriðum. Svona sáttaleið eins og hefur gegnum tíðina verið aðalsmerki Framsóknarflokksins og Framsóknarmanna.

Eygló hefur sýnt það í góðum, málefnalegum og rökföstum pistlum sínum á Eyjunni að þar fer frjálslynd, hófsöm félagshyggjukona sem er trú þeim gömlu góðu einkunarorðum Framsóknarflokksins „Manngildi ofar auðgildi“

Að lokum.

Já, ég er dálítið upptekinn af Framsóknarflokknum mínum gamla flokk. Enda þykir mér vænt um hann eftir 25 ára starf í honum. Það er athyglisvert að fylgjast með honum svona utanfrá eins og ég hef hingað til fylgst með öðrum flokkum. Ég er ekki sáttur við margt – enda væri ég þá væntanlega ennþá flokksbundinn.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.5.2011 - 15:56 - 7 ummæli

Finnlandsspuni Evrópuvaktarinnar

Ég hef borið mikla virðingu fyrir Birni Bjarnasyni og Styrmi Gunnarssyni gegnum tíðina. Þeir félagar hafa yfir mikilli blaðamannareynslu sem þeir beita nú á vef Evrópuvaktarinanr. En eitthvað er þeim félögum farið förlast heimildaöflunin og fréttamennskan.

Á vef Evrópuvaktarinnar er frétt um „Sanna Finna“ – þjóðernissinnaflokk sem lengi hefur verið við lýði í Finnlandi – en ekki átt miklu fylgi að fagna fyrr en nýlega vegna andófs gegn efnahagsaðstoð Evrópusambandsins við Portúgali og fleiri.

Í frétt Evrópuvaktarinnar segir:  

„Eftir að Sannir Finnar ákváðu að taka ekki þátt í myndun nýrrar ríkisstjórnar í Finnlandi vegna andstöðu við ábyrgð á lánum til Portúgala,hefur fylgi flokksins vaxið enn samkvæmt könnunum. Ný skoðanakönnun sýnir að Sannir Finnar njóta nú stuðnings 22,4% kjósenda. Er flokkurinn þar með í fyrsta hinn stærsti í landinu að sögn finnska sjónvarpsins, Yle.  Sjónvarpið segir að ný ríkisstjórn Finnlands verði kynnt miðvikudaginn 18. maí. Fulltrúar Vinstra bandalagsins, fimmta stærsta flokknum, taka þátt í myndun stjórnarinnar með Samstöðuflokknum (mið-hægri) og jafnaðarmönnum.“

Mér þótti það frétt að tilkynna ætti nýja ríkisstjórn í dag – eins og Evrópuvaktinn hafði eftir YLE. Fór því á vef YLE – finnska ríkissjónvarpsins og fann frétt sem hófst svona:

„National Coalition Party Chair and Prime Minister designate, Jyrki Katainen is to ask the Social Democrats, the Swedish Peoples’ Party, the Christian Democrats, the Green League and the Left Alliance to join in official talks on the formation of a new government. Talks between the parties involved will start on Friday.“

Evrópuvaktin er semsagt búin að mynda ríkisstjórn í Finnlandi áður en stjórnarmyndunarviðræður hefjast.

Athyglisvert!  En í takt við sumar aðrar fullyrðingar Evrópuvaktarinnar.

Reyndar fann ég hvergi frétt á YLE um þessa nýju skoðanakönnun  – en það er annað mál.

En yfir til Finnlands. Ef þessar stjórnarmyndunarviðræður takast, þá mun þjóðernisflokkurinn „Sannir Finnar“ og Finnski Framsóknarflokkurinn „Kesusta“ sitja í stjórnarandstöðu.  Þess ber að geta að Finnski Framsóknarflokkurinn er Evrópusinnaður eins og hluti íslenska Framsóknarflokksins – en þjóðernisflokkurinn „Sannir Finnar“ harður gegn Evrópusambandinu – eins og annar hluti Framsóknarflokksins íslenska.

Það verðir athyglisvert að sjá þróun mála í finnskum stjórnmálum. Spái því að Keskutan – finnski Framsóknarflokkurinn eigi eftir að ná aftur stöðu sinni sem sterkasti flokkur Finnlands – en þjóðernissinnaflokkurinn „Sannir Finnar“ nálgist hámarksfylgi sitt.

En tíminn leiðir þetta í ljós.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur