Þriðjudagur 29.3.2011 - 19:28 - 55 ummæli

Timburmenn í partívímu Bezta og grúbbíanna

Töffararnir í Bezta og grúbbíurnar í Samfó eru nú í alvarlegum timburmönnunum eftir töffarapartíið sitt í Orkuveitu Reykjavíkur í haust – partíi sem lætur flottustu partí Alfreð Þorsteinssonar matreidd frá fyrirmyndar vinnuaðstöðueldhúsi OR með risarækjur í aðalrétt líta út eins og móttöku í súpueldhúsi Samhjálpar.

Í partíiinu þar sem töffararnir og grúbbíurnar þurftu að sína pöpulnum mátt sinn og meginn – þá ráku Beztu og Samfó fólkið sem hélt um raunverulegt fjöregg Orkuveitu Reykjavíkur – samböndin við lánadrottnana sem höfðu gefið vilyrði um endurfjármögnun. 

 Já, í vímukasti, sigurvímukasti þurftu töffararnir og grúbbíurnar að vera töff – og sýnast gera eitthvað. Reka fólk.

Nema hvað þau ráku rangt fólk. Reykvíkingar súpa seyðið af því í dag og um næstu framtíð.

Í vímubullinu létu töffararnir og grúbbíurnar ofan í kaupið heimskuleg orð falla – og gleymdu því að orðum fylgir ábyrgð.  Þótt þú sért í vímu. Sigurvímu. 

Gorgeirinn og töffarayfirlýsingarnar kláruðu það litla sem eftir var af trausti lánadrottna OR – traust sem fauk út í veður og vind í sigurvímupartíiinu þegar gamla liðinu var hent út – af því bara.

Það sorglega er að það var ekki bara töffarapartíið sem stútaði Orkuveitunni. Gömlu frænkur grúbbíanna – þessar Samfó og vinkonur þeirra í VG sem sitja í ríkisstjórninni – gerðu sitt til þess að koma í veg fyrir að fjárfestingarverkefni Orkuveitunnar gefa ekki þann arð sem þarf til að standa undir sér. 

Þær þurftu að sinna sínum áhangendum með því að setja virkjanastopp og beita öllum ráðum til þess að ekki væru unnt að klára arðbær fjárfestingaverkefni OR til atvinnuuppbyggingar.

Nú sitja töffararnir, grúbbíurnar í borgarstjórn og gömlu tönturnar í eymd og volæði – og Reykvíkingar og þjóðinn verður að greiða reikninginn af barnum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.3.2011 - 22:55 - 4 ummæli

EVA 11.04.11

Stofnfundur Evrópuvettvangsins – EVA – verður haldinn 11. apríl næstkomandi. Þetta var ákveðið á fundi undirbúningshóps sem jafnframt gekk frá endanlegri tillögu að stofnsamþykkt og  tillögu að verkefnaáætlun á fundi sínum í kvöld.

Í  tillögum að stofnskrá og lögum Evrópusamtakanna er gert ráð fyrir að á aðalfundi verði kosið Evrópuráð skipað 21 einstaklingi. Evrópuráð skiptir með sér verkum og ber ábyrgð á starfi Evrópuvettvangsins milli aðalfunda.

Evrópuráð velur sér oddvita, málsvara, skrifara og féhirði.

Hlutverk oddvita er að kalla til funda Evrópuráðs og stýra þeim, málsvara að vera í fyrirsvari fyrir Evrópuvettvanginn út á við, skrifara að færa fundargerð til bókar og halda félagaskrá og féhirði að sýsla með fé samtakanna.

Þeir sem áhuga hafa á að sitja í 21 manna Evrópuráði EVA sem sér um stjórn Evrópuvettvangsins geta tilkynnt framboð sitt í netfangið hallur@spesia.is .

Gert er ráð fyrir að listi með nöfnum þeirra sem vilja taka þátt í starfi Evrópuráðsins liggi fyrir í upphafi stofnfundar.

Tillag að stofnskrá og lögum Evrópuvettvangsins

Tillaga að verkefnaáætlun Evrópuvettvangsins

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.3.2011 - 11:16 - 5 ummæli

Jákvæð hlið DV

Þótt einn af grunnþáttum ritstjórnarstefnu DV sé  illfýsi  eins og ég benti á í pistli mínum „Illfýsi í garð Arnars og Bjarka“  þá á blaðið oft til brilljant góða og heiðarlega rannsóknarblaðamennsku. Því ber að hrósa.

DV reynir að velta steinum og draga fram mikilvæg málefni sem aðrir fjölmiðlar veigra sér að fjalla um. Það er mikilvægt fyrir þjóðfélagsumræðuna.

En stundum dregur blaðið reyndar úr gildi góðrar rannsóknarblaðamennsku með því að falla í illfýsipyttinn í framsetningu slíkra frétta.  Þetta þarf DV að laga.

Því DV hefur alla burði til þess að vera heiðarlegur, gagnrýninn fjölmiðill sem mark er á takandi og gegna þannig mikilvægu aðhaldshlutverki í samfélaginu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.3.2011 - 12:21 - 4 ummæli

Landbúnaðarstofnun í Skagafjörð

Íslendingar þurfa að breyta stjórnsýslu landbúnaðarins óháð því hvort Ísland gengur í Evrópusambandið eða ekki. Ríkisendurskoðun hefur enn og aftur úrskurðað að núverandi fyrirkomulag gengur ekki. Því vil ég enn og aftur ítreka þá skoðun mína að opinberri landbúnaðarstofnun verði komið á fót og henni fundinn staður í Skagafirði.

Bændasamtökin geta þá einbeitt sér að framgangi íslensks landbúnaðar. Þess er þörf í aðildarviðræðum að Evrópusambandinu – og áfram þegar þeim er lokið – hvort sem þjóðin ákveður að ganga í Evrópusambandið eða ekki.

Ríkisendurskoðun segir eftirfarandi í skýrslu sinni:

„Alþingi og stjórnvöld hafa falið Bændasamtökum Íslands, sem eru hagsmunasamtök bænda, framkvæmd margvíslegra stjórnsýsluverkefna á sviði landbúnaðarmála og eftirlit með henni. Meðal annars taka samtökin ákvarðanir um opinberar greiðslur til bænda, annast útreikning þeirra og afgreiðslu. Einnig sinna samtökin ráðgjöf við stjórnvöld og fulltrúar þeirra sitja í nefndum sem taka ákvarðanir um landbúnaðarmál. Þá annast samtökin áætlana- og hagskýrslugerð um landbúnað…“ 

„Hingað til hefur ráðuneytið nýtt gögn og þekkingu um landbúnað sem Bændasamtökin búa yfir. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf ráðuneytið að tryggja að það hafi ávallt greiðan aðgang að upplýsingum um landbúnaðarmál, t.d. með því að stofnun á þess vegum afli og vinni úr slíkum upplýsingum. Þá telur Ríkisendurskoðun óæskilegt að samtökunum sé falið að gera hagskýrslur um landbúnað enda verði óhlutdrægni slíkra skýrslna að vera hafin yfir vafa…“

Núverandi fyrirkomulag gengur semsagt ekki. Það er engin ástæða til þess að halda þessari stjórnsýslu á malbikinu í Reykjavík – þá bera að flytja hana út á land – og þar er Skagafjörður rétti staðurinn.

Skagfirðingar hafa reynslu í rekstri opinberra stofnanna.  Stór hluti starfsemi Íbúðalánasjóðs fer fram á Sauðárkróki og gengið afar vel.  Þá er Byggðastofnun á Sauðárkróki – en ástæða slæmrar stöðu hennar er ekki staðsetningin – heldur efnahagslegt umhverfi.

Þá er mikil þekking og reynsla samanakomin í Landbúnaðarháskólanum á Hólum.

Ég treysti því að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra styðji þessa tillögu mína.

Fleiri pistlar um málið:

Landbúnaðarstofnun á Sauðárkrók

„ESB“ stofnun í Skagafjörðin

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.3.2011 - 10:22 - 22 ummæli

Illfýsi DV í garð Arnars og Bjarka

Einn af grunnþáttum blaðamennsku á DV er illfýsi. Illfýsin birtist nánast í hverju blaði þar sem yfirleitt er að finna frétt þar sem ætlað er að vekja hneykslan hvort sem grundvöllur er til þess eða ekki.

Aðferðafræðin er oft að birta hálfsannleik til að skapa andrúmsloft tortryggni og reynt að stilla upp stöðu þar sem lesandi dragi sjálfur – oft á tíðum rangar ályktanir á grunni hneykslunar. Ekki endilega vegna þess hvað DV segir beint – heldur frekar þess sem DV gefur í skyn en segir ekki.

Blaðamenn DV eru nokkuð lagnir við þessa blaðamennsku illfýsinnar.

Ágætt dæmi um blaðamennsku illfýsinnar á DV er umfjöllun þeirra um mikilvægt framtak tvíburanna Arnars og Bjarka Gunnlaugssona sem nú eru að leggja tugi milljóna af eigin fé í byggingu leiguíbúða á Þórshöfn – en á Þórshöfn ríkir sár húsnæðisekla.

DV leggur frétt sína upp á þann hátt að lesandi dragi þá ályktun að Langanesbyggð – sem er sveitarfélagið á Þórshöfn og nágrenni – sé á óeðlilegan hátt að færa þeim bræðrum 100 milljónir á 10 árum í vasann. DV segir það ekki beint – en fyrirsögn DV er: „Langanesbyggð tryggir Arnari og Bjarka 100 milljónir“.  Undirfyrirsögnin er: „Leiguverð talsvert hærra en í Reykjavík“.

Undirfyrirsögnin er reyndar röng – eins og fram kemur í fréttinni þar sem segir: “ Leiguverð á hvern fermetra í Reykjavík er á bilinu 1.200 til 2.100 krónur, samkvæmt leiguverðkönnun Neytendasamtakanna.“   Eða með öðrum orðum – leiguverðið er 300 krónum hærra en lægsta leiguverð fyrir gamla hjalla í Reykjavík en 600 krónum lægra en hæsta verð fyrir nýbyggð hús á góðum stað í Reykjavík.  Skólabókadæmi um illfýsi DV í umfjöllun sinni.

Snúum okkur aftur að staðhæfingunni: „Langanesbyggð tryggir Arnari og Bjarka 100 milljónir“.  Það fyrsta sem lesandandum dettur í hug að þeir bræður séu að hagnast um 100 milljónir viðskiptum við Langanesbyggð.  Sem er fjarri lagi. Sveitarfélagið tryggir leigufélagið þeirra bræðra einungis 10 milljónir á ári til að standa undir afborgunum af lánum og öðrum rekstrarkostnaði vegna nýrra leiguíbúða.

Staðan á Þórshöfn er sú að það vantar sárlega leiguhúsnæði. Skortur á húsnæði stendur gróskumiklu byggðalagi þar sem næga vinnu er að fá fyrir þrifum. Sveitarfélagið getur við núverandi ástand ekki útvegað til dæmis nýjum kennurum húsnæði. Því þarf að byggja nýtt.  Það er nefnilega ekki hægt að flytja blokk frá Reyðarfirði á Þórshöfn. Né fleyta menn auðu húsnæði á Raufarhöfn með ströndinni inn á Þórshöfn.

Sveitarfélagið verður því annað hvort að byggja húsnæði sjálft og binda þannig tugi milljóna úr sveitarsjóði auk þess að standa undir rekstri leiguíbúða og afborgunum af lánum eða skapa aðstæður fyrir aðra aðilja að byggja leiguhúsnæði á staðnum.

Sveitarfélagið ákvað að spara fjármagn með því að binda ekki tugmilljónir króna í leiguhúsnæði heldur tryggja leigufélagi eðlilegan rekstrargrundvöll næstu 10 árin með því að ábyrgjast eðlilegar leigugreiðslur fyrir það tímabil.

Ástæðan er ekki góðmennska í garð Arnars og Bjarka. Ástæðan er sú að leigufélag þeirra sem leggur í upphafi og bindur eigið fé fyrir að lágmarki  20% framkvæmdakostnaðar – líklega um 30 milljónir í eigin fé –  verður að sína Íbúðalánasjóði fram á tryggan rekstrargrundvöll leiguíbúðanna til framtíðar svo sjóðurinn veiti þeim leiguíbúðalán fyrir 80% framkvæmdakostnaðar – eins og lög gera ráð fyrir.

Íbúðalánasjóður lánar hreinlega ekki til Þórshafnar nema að rekstragrundvöllur sé tryggður.

Sveitarstjórnin átti því engan annan úrkosta – ef hún vildi á annað borð að byggðar yrðu leiguíbúðir á Þórshöfn – en að tryggja eðlilegar leigugreiðsur til að standa undir afborgunum af lánum Íbúðalánasjóðs, fasteignagjöldum, tryggingum og öðrum rekstrarkostnaði.

Þá skipti engu máli hvort um væri að ræða leigufélag Arnars og Bjarka, sveitarfélagsins sjálfs – sem hefði kallað á að minnsta kosti 30 milljón króna fjárbindingu Langanesbyggðar auk rekstrarkostnaðar – eða annarra leigufélaga.

Þessar staðreyndir skipta illfúsa blaðamenn DV engu máli. Í stað þess sem rétt væri – að hrósa Arnari og Bjarka fyrir að leggja 30 milljónir af eigin fé til að draga úr sárum skorti á íbúðarhúsnæði á Þórshöfn – þá velur DV gamalkunna leið illfýsi og gerir þetta jákvæða framtak í þágu íbúa Þórshafnar að sukki og svínaríi í huga lesenda sinna.

DV svertir því markvisst æru heiðarlegra bræðra í heiðarlegum viðskiptum í von um það selji nokkur eintök af DV í viðbót. Það er sukk og svínarí.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.3.2011 - 18:45 - 3 ummæli

Lífeyrisiðgjald Jóhönnu Sig?

Það styttist í að Jóhanna Sigurðadóttir forsætisráðherra setjist í helgan stein og fer að njóta lífeyrisréttinda sem nema á annað hundrað milljóna króna.

Jóhanna Sigurðardóttir vildi að engir hjá hinu opinbera fengju hærri laun en hún. En gerði hún ráð fyrir að stjórnendur ríkisfyrirtækja hefðu sambærileg eftirlaunaréttindi og hún?

Og fyrst ég er farinn að tala um lífeyrisréttindi Jóhönnu Sigurðardóttur.

Getur einhver sagt mér hvað hún greiðir mikið í lífeyrissjóð af launum sínum sem forsætisráðherra?

Svar óskast.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.3.2011 - 21:43 - 10 ummæli

Jóhanna fórnarlamb aðstæðna

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er fórnarlamb aðstæðna. Ég er þess fullviss að hún taldi sig vera að gera rétt og að það hafi verið afar fjarri huga hennar að hún væri að brjóta jafnréttislög með því að ráða karlmann í stöðu skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. En Jóhanna er fórnarlamb aðstæðna sem hún sjálf skapaði.

Ég finn til með Jóhönnu. Hún er að falla af stalli – og mun mögulega þurfa fortíðar sinnar vegna – að hætta sem forsætisráðherra vegna þess að hún taldi í góðri trú að hún væri að gera rétt – þegar hún var að brjóta jafnréttislög.

Eftirfarandi setning Jóhönnu í bréfi til Samfylkingarfólks kemur klárlega frá hjartanu og er hrein og sönn:

„Á dauða mínum átti ég von frekar en því að einhverjir kæmust að þeirri niðurstöðu að ég hefði brotið jafnréttislög. Fátt hefur enda staðið mér nær í pólitísku starfi mínu en baráttan fyrir jafnrétti kynjanna og í nafni þeirrar baráttu ekki síst tók ég að mér það verkefni að verða formaður Samfylkingarinnar og fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Íslands. Með nýjum úrskurði kærunefndar jafnréttismála stend ég hinsvegar í þessum sporum og veit varla hvaðan á mig stendur veðrið…“

Það breytir því ekki að hún – óafvitandi og aldrei þessu vant í trausti til annarra  – braut jafnréttislög. En það var klárlega ekki ásetningur.

Ég er þess fullviss að Jóhanna hefði helst viljað ráða hæfa samflokkssystur sína í embættið – en að hún hafi metið það þannig að það væri faglega rangt að ganga gegn tillögu ráðgjafans sem lagði til að karlinn yrði ráðinn – og að það hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir hana pólitískt. Það pólitíska mat á þeim tíma var rétt.

En þrátt fyrir að ekki sé um að ræða ásetningsbrot – þá er um brot að ræða.

Þess vegna held ég að Jóhanna Sigurðardóttir muni segja af sér. Ég sé ekki eftir henni sem forsætisráðherra. Hún hefur gert  margt ágætt – en hins vegar að mínu viti tekið allt of margar rangar ákvarðanir á örlagatímum. Tími merks stjórnmálamanns er liðinn  – en mér þykir miður að þetta mál skuli fella hana.

Þetta sannar hins vegar að pólitík er sjaldnast sanngjörn.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.3.2011 - 13:12 - 11 ummæli

Friðurinn úti í Framsókn?

Ef marka má þrálátan orðróm um að Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hyggist bjóða sig fram gegn Birki Jóni Jónssyni varaformanni flokksins og oddvita Framsóknar í Norðausturkjördæmi þá er sá  vopnaði friður sem ríkt hefur innan Framsókn að líkindum úti.

Birkir Jón hefur lagt sig fram um að styðja við bak Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins og oft á tíðum gefið eftir í ýmsum málum til að halda friðinn og tryggja samhenta forystu.  Birkir Jón hefur því ekki látið finna fyrir sér í krafti stöðu sinnar sem varaformaður Framsóknarflokksins ólíkt til dæmis Gunnari Braga Sveinssyni formanns þingflokks Framsóknar.

Gunnar Bragi hefur verið óhræddur að taka slagi innan flokks og þess vegna gengið þvert á stefnu flokksins og skapað þannig ólgu meðal þess hluta flokksmanna sem ekki er sammála áherslum hans.

Nú virðist sem þessi samvinnustefna Birkis Jóns sé að koma í bakið á honum – ef það er rétt að Vigdís sé að undirbúa framboð til varaformanns. Vigdís og stuðningsmenn hennar virðast líta á samvinnustefnu Birkis Jóns sem veikleikamerki – en horfa fram hjá styrkleika Birkis Jóns sem hefur valið að leggja áherslu á samheldni í flokknum.

Birkir Jón er hins vegar sýnd veiði en ekki gefin. Ef Vigdís ætlar virkilega að hjóla í varaformanninn – þá gæti hún verið að vekja siglfirskt ljón sem mun heldur betur láta finna fyrir sér. Hinn dagfarsprúði Birkir Jón er nefnilega ekkert lamb að leika sér við þegar hann er í baráttuham. Þar getur jafnvel hin vígfúsa Vigdís bliknað í samanburði.

Ég mæli með því að Vigdís raski ekki ró ljónsins – og leggi áherslu á samheldni núverandi flokksforystu.

Hugsanlega er þessi orðrómur ekki á rökum reistur. Þá er eins gott að Vigdís leiðrétt orðróminn strax.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.3.2011 - 12:34 - 4 ummæli

Lögbrjótur ræðst að ríkissaksóknara!

“Lögbrjótur sem gegnir háttsettri opinberri stöðu hefur ráðist að ríkissaksóknara Íslands að sögn ríkissaksóknara. Lögbrjóturinn sem er kona og einn hæstlaunaðasti embættismaður íslenska ríkisins situr sem fastast.”

Þannig gæti frétt um Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra hljómað. Fréttin yrði rétt og ekki hægt að véfengja hana  – en gæfi kannske ekki alveg rétta mynd af stöðu mála.

Við erum hins vegar sífellt að lesa fréttaflutning af þessu taki.

En skoðum aðeins af hverju ofangreind frétt stenst fullkomlega og engin séns fyrir forsætisráðherrann að rengja hana.

Fyrst um lögbrjótinn með tilvitnun í úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli sem höfðað var gegn forsætisráðherra:

Forsætisráðuneytið auglýsti í mars 2010 laust embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í ráðuneytinu. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum með því að skipa karl í embættið en hún taldi sig vera hæfari eða jafn hæfa þeim karli sem skipaður var. Þá taldi kærandi að einkunnagjöf vegna hæfnisþátta væri röng og ófullnægjandi. Forsætisráðuneytið taldi hins vegar að karlinn hefði verið hæfasti umsækjandinn um embætti skrifstofustjóra, meðal annars á grundvelli hæfnismats, þekkingar og reynslu. Kærunefnd jafnréttismála taldi að forsætisráðuneytið hefði ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar því að gengið var framhjá kæranda við skipun í embætti skrifstofustjóra. Taldist því ráðuneytið hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í ráðuneytinu.

Þá árásin – en á vef  ríkissaksóknara segir:

„Forsætisráðherra tilkynnti engu að síður í sjónvarpi 10. júní 2009 að mér bæri að víkja alfarið úr starfi. Þennan dag var ég staddur erlendis á fundi ríkissaksóknara Norðurlandanna sem fylgdust agndofa með aðförunum. Ég tel að árás á ríkissaksóknara og embætti hans með þessum hætti hafi verið bæði óviðeigandi og tilefnislaus,“

Undir þetta ritar ríkissaksóknari Valtýr Sigurðsson.

Ergo. Samkvæmt þessu er Jóhanna lögbrjótur og ríkissaksóknari segir að hún hafi ráðist að sér.

Ég reyndar býst við að Jóhanna sé á öðru máli.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.3.2011 - 10:16 - Rita ummæli

Tími til kominn

Það var Tími til kominn að endurvekja Tímann, Nú er vefritið Tíminn.is kominn í loftið og lofar góðu.  Sérstök áhersla á breiða umfjöllun sem nær til landsins alls er sérstaða Tímans fram yfir aðra miðla. Vonandi ná Tímamenn að halda dampi með þá landsbyggðaráherslu – en hætt er við að keppinautarnir fylgi á einhver hátt í kjölfarið.

Þá verð ég einnig að hrósa Illuga Jökulssyni fyrir Tímans rás – á Eyjunni. Þar er sýnir Illugi sínar bestu hliðar – sem er að koma skemmtilegum fróðleik úr fortíðinn á framfæri við almenning.

Illugi byrjaði reyndar með titilinn Tíminn – heiti sem er í eigu Framsóknarflokksins – en neyddist til að breyta því í Tímans rás.   Margir undruðust hörku Framsóknarflokksins í því nafnamáli – en núna sjá menn hvers vegna.  Undirbúningur Tímans hafði staðið um nokkurt skeið – og skítt að heitið fari í loftið nokkrum dögum áður en Tíminn.is var settur af stað.

Sem gamall blaðamaður af Tímanum – þá líður mér vel með alla þessa Tíma í kring um mig – þótt ég hefði viljað sjá vefritið og endurvakinn Tíma fyrr.

Enda bauðst ég til þess í byrjun árs 2008 að leigja Tímanafnið af Framsóknarflokknum, gefa út mánaðarblað með heitinu Tíminn og setja á fót vefsíðu sem bæri heitið Tíminn.is. Það var ekki áhugi á því þá – en nú er Tíminn.is kominn í loftið – þótt ég komið ekki nálægt því verkefni.

Ekki í fyrsta sinn í Framsóknarflokknum að aðrir fylgja eftir mínum hugmyndum og tillögum með góðum árangri.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur