Einn af grunnþáttum blaðamennsku á DV er illfýsi. Illfýsin birtist nánast í hverju blaði þar sem yfirleitt er að finna frétt þar sem ætlað er að vekja hneykslan hvort sem grundvöllur er til þess eða ekki.
Aðferðafræðin er oft að birta hálfsannleik til að skapa andrúmsloft tortryggni og reynt að stilla upp stöðu þar sem lesandi dragi sjálfur – oft á tíðum rangar ályktanir á grunni hneykslunar. Ekki endilega vegna þess hvað DV segir beint – heldur frekar þess sem DV gefur í skyn en segir ekki.
Blaðamenn DV eru nokkuð lagnir við þessa blaðamennsku illfýsinnar.
Ágætt dæmi um blaðamennsku illfýsinnar á DV er umfjöllun þeirra um mikilvægt framtak tvíburanna Arnars og Bjarka Gunnlaugssona sem nú eru að leggja tugi milljóna af eigin fé í byggingu leiguíbúða á Þórshöfn – en á Þórshöfn ríkir sár húsnæðisekla.
DV leggur frétt sína upp á þann hátt að lesandi dragi þá ályktun að Langanesbyggð – sem er sveitarfélagið á Þórshöfn og nágrenni – sé á óeðlilegan hátt að færa þeim bræðrum 100 milljónir á 10 árum í vasann. DV segir það ekki beint – en fyrirsögn DV er: „Langanesbyggð tryggir Arnari og Bjarka 100 milljónir“. Undirfyrirsögnin er: „Leiguverð talsvert hærra en í Reykjavík“.
Undirfyrirsögnin er reyndar röng – eins og fram kemur í fréttinni þar sem segir: “ Leiguverð á hvern fermetra í Reykjavík er á bilinu 1.200 til 2.100 krónur, samkvæmt leiguverðkönnun Neytendasamtakanna.“ Eða með öðrum orðum – leiguverðið er 300 krónum hærra en lægsta leiguverð fyrir gamla hjalla í Reykjavík en 600 krónum lægra en hæsta verð fyrir nýbyggð hús á góðum stað í Reykjavík. Skólabókadæmi um illfýsi DV í umfjöllun sinni.
Snúum okkur aftur að staðhæfingunni: „Langanesbyggð tryggir Arnari og Bjarka 100 milljónir“. Það fyrsta sem lesandandum dettur í hug að þeir bræður séu að hagnast um 100 milljónir viðskiptum við Langanesbyggð. Sem er fjarri lagi. Sveitarfélagið tryggir leigufélagið þeirra bræðra einungis 10 milljónir á ári til að standa undir afborgunum af lánum og öðrum rekstrarkostnaði vegna nýrra leiguíbúða.
Staðan á Þórshöfn er sú að það vantar sárlega leiguhúsnæði. Skortur á húsnæði stendur gróskumiklu byggðalagi þar sem næga vinnu er að fá fyrir þrifum. Sveitarfélagið getur við núverandi ástand ekki útvegað til dæmis nýjum kennurum húsnæði. Því þarf að byggja nýtt. Það er nefnilega ekki hægt að flytja blokk frá Reyðarfirði á Þórshöfn. Né fleyta menn auðu húsnæði á Raufarhöfn með ströndinni inn á Þórshöfn.
Sveitarfélagið verður því annað hvort að byggja húsnæði sjálft og binda þannig tugi milljóna úr sveitarsjóði auk þess að standa undir rekstri leiguíbúða og afborgunum af lánum eða skapa aðstæður fyrir aðra aðilja að byggja leiguhúsnæði á staðnum.
Sveitarfélagið ákvað að spara fjármagn með því að binda ekki tugmilljónir króna í leiguhúsnæði heldur tryggja leigufélagi eðlilegan rekstrargrundvöll næstu 10 árin með því að ábyrgjast eðlilegar leigugreiðslur fyrir það tímabil.
Ástæðan er ekki góðmennska í garð Arnars og Bjarka. Ástæðan er sú að leigufélag þeirra sem leggur í upphafi og bindur eigið fé fyrir að lágmarki 20% framkvæmdakostnaðar – líklega um 30 milljónir í eigin fé – verður að sína Íbúðalánasjóði fram á tryggan rekstrargrundvöll leiguíbúðanna til framtíðar svo sjóðurinn veiti þeim leiguíbúðalán fyrir 80% framkvæmdakostnaðar – eins og lög gera ráð fyrir.
Íbúðalánasjóður lánar hreinlega ekki til Þórshafnar nema að rekstragrundvöllur sé tryggður.
Sveitarstjórnin átti því engan annan úrkosta – ef hún vildi á annað borð að byggðar yrðu leiguíbúðir á Þórshöfn – en að tryggja eðlilegar leigugreiðsur til að standa undir afborgunum af lánum Íbúðalánasjóðs, fasteignagjöldum, tryggingum og öðrum rekstrarkostnaði.
Þá skipti engu máli hvort um væri að ræða leigufélag Arnars og Bjarka, sveitarfélagsins sjálfs – sem hefði kallað á að minnsta kosti 30 milljón króna fjárbindingu Langanesbyggðar auk rekstrarkostnaðar – eða annarra leigufélaga.
Þessar staðreyndir skipta illfúsa blaðamenn DV engu máli. Í stað þess sem rétt væri – að hrósa Arnari og Bjarka fyrir að leggja 30 milljónir af eigin fé til að draga úr sárum skorti á íbúðarhúsnæði á Þórshöfn – þá velur DV gamalkunna leið illfýsi og gerir þetta jákvæða framtak í þágu íbúa Þórshafnar að sukki og svínaríi í huga lesenda sinna.
DV svertir því markvisst æru heiðarlegra bræðra í heiðarlegum viðskiptum í von um það selji nokkur eintök af DV í viðbót. Það er sukk og svínarí.